Færsluflokkur: Dægurmál

Til hamingju með daginn!

Til hamingju með daginn, góðir landsmenn!

cudEins og margir ykkar vita ekki er afmæli bílsins á Íslandi í dag, 20. júní. Þann dag árið 1904 kom fyrsti bíllinn til landsins, Cudell-bíllinn sem átti hér raunasögu í tvö sumur og heldur erfiða dvöl í iðjuleysi nokkur ár í viðbót eða þar til hann var seldur úr landi aftur árið 1908. Því miður held ég að heimsókn hans hingað til lands hafi heldur orðið fyrir að tefja fyrir bílvæðingu landsins, en ljóst er að enginn einn hlutur hefur breytt íslensku samfélagi eins mikið eins og bíllinn. Um það má hafa mörg orð en verður ekki gert hér og nú. – Ég ætla að reyna að setja hér við mynd af honum, en eins og bloggvinir mínir vita hefur mér gengið illa að stilla saman myndir og viðeigandi texta og mér sýnist að ég sé ekki einn um það.

Ford nr 1 1913En það er ekki bara koma Cudelbíllsins sem við höldum upp á í dag. Þennan sama dag, 20. júní, bara 5 árum seinna, 1913, kom fyrsti Ford-bíllinn til landsins og ég reyni að stilla hans mynd nálægt þessum texta. Það var þessi bíll sem í raun færði Íslendingum heim sanninn um að þetta tæki myndi hér til nokkurs nothæft og síðan hann kom hefur saga bílsins á Íslandi í raun ekki slitnað.

Og þrátt fyrir krepputal og hátt eldsneytisverð leyfi ég mér að endurtaka ávarpsorðin: Til hamingju með daginn, góðir landsmenn! Íslenskt samfélag væri ekki það sem það er nú ef það hefði ekki náð að tileinka sér kosti bílsins svo sem raun ber vitni.

 


Skjóttur, fláður og sláður

„Grrr... Í fréttunum í gærkvöldi á St.2 endurtóku þeir Logi og einhver annar fréttamaður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að bangsinn sem skotinn var um daginn  hefði nú verið  FLÁDUR!!  Og þeir hikstuðu ekki einu sinni á þessu. Mér datt svona í hug hvort enginn vildi taka sig til og slá þá utanundir fyrir þessa ambögu. Þá væri hægt að segja að  þeir hefðu  verið "sláðir" eins og bangsagreyið vað "fláð"."

Oft er gaman að athugasemdum sem maður fær, svo sem þessari sem ég fékk við síðustu færslu frá konu sem að vísu er bara með ippi, en ég veit gjörla hver hún er þessi og hef bara gaman af að koma athugasemd hennar betur á framfæri.

Það hefði verið við hæfi í þessari frétt -- sem ég reyndar heyrði ekki því ég er lélegur að horfa á sjónvarp og þá sér í lagi á stöð 2 -- að segja að bangsinn hefði verið „skjóttur" (af skotinn), þegar hann var sláður af áður en hann var fláður.


Málalengingar

Til athugunar: Hefði mátt sleppa orðinu „magn" í þessari klausu? Sleppa því alveg í klausunni sjálfri en stíla fyrirsögninga svona: Mikið af fíkniefnum…  ??
mbl.is Mikið magn fíkniefna í Norrænu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kústskaftsdóttir

Ekki veit ég hvernig á því stendur en þegar ég vaknaði í morgun (ég vaknaði ekki „upp" því ég er ekki uppvakningur, held ég) og nennti ekki að reisa höfuð frá kodda strax rifjaðist upp fyrir mér hvað krakkar geta verið skemmtilega rökréttir. Einhverju sinni var kona nokkur Gústafsdóttir á sama stað og eldri dóttir mín og jafnaldra hennar á sama stað -- ætli þær hafi ekki verið svona 6 ára? Nafnið Gústaf var þeim báðum framandi en þær horfðu á konuna háa og tággranna og slógu því föstu án frekari málalenginga að hún væri Kústskaftsdóttir og þar með hafði föðurnafn hennar fengið skiljanlega merkingu. Fleiri nöfnum hagræddu þær að sínum barnaskilningi þarna á þessum stað en ég hirði ekki að tilgreina þau að sinni.

Huldukona með ippi

„Á visir.is stendur í dag að Paul Newman sé kominn á banaleguna. Leggst fólk ekki banaleguna en fer ekki á hana??? Mér  þætti vænt um að fá svar frá þér kæri Sigurður. Bestu kveðjur Anna“

Þetta fann ég í athugasemd hjá mér og þó ég þekki ekki þessa Önnu (held ég, því hún er bara huldukona með ippi(=IP-tölu) gefur þetta mér tilefni til að víkja frá verkefni dagsins og blogga lítið eitt um banaleguna. Ég á eiginlega aldrei leið á vísi-punkt-is þannig að ég veit lítið um hvar þar stendur, en þykir sorglegt að heyra að Paul Newman skuli vera lagstur banaleguna -- því ég er sammála Önnu um að það sé viðeigandi orðalag þegar einhver er að berja nestið og lagstur á banabeð.

Beturvitringur sem bloggar undir nafninu ylhyra.blog.is nefnir nokkrar ambögur á bloggi sínu í gær sem mér þykir fáránlegar flestar -- þó er ég ekki alveg viss um hvað hún finnur athugavert við að vera með „farþega innanborðs“. Væri ég farþegi á skipi (sem mér er að vísu ekki mikið um gefið) vildi ég heldur vera þar innan borðs en utan.


Að láta féfletta sig án þess að drepa tittling

Að þessu sinni ætla ég að sýna ykkur dæmi um löglegt rán um hábjartan dag -- og hvernig maður lætur féfletta sig án þess að drepa tittling.

Fyrir nokkrum árum endurnýjaði ég vélorf (sem sumir kalla sláttuorf en getur einhver nefnt mér dæmi um orf sem ekki er ætlað til að slá með? Vélknúið eða ekki!) og lét þá ráða að fá mér létt orf og meðfærilegt, hafði áður átt annað þungt og frekar stirðbusalegt.

Þegar ég ætlaði að fara að nota það um daginn kom í ljós að plast-tútta á blöndungnum, sem á að vera til að ausa bensíni inn í brennsluhólfið svo apparatið fari frekar í gang, var ónýt -- rétti sig ekki þegar hún hafði verið kreist.

Ég fór náttúrlega til að ná mér í nýja túttu, í umboðið þar sem ég keypti gripinn í upphafi. Jú, hún var til -- og kostaði 1114 krónur! -- Fyrir þetta smáræði, sem rétt hylur á manni litlafingursnöglina!

Ef þetta er ekki rán er það að minnsta kosti okur! Þið sem eigið eftir að kaupa vélorf eða annað sambærilegt, hvernig væri að huga að viðhaldskostnaðinum áður en kaupin verða gerð?

Ég mun amk. hugsa mig rækilega um áður en ég kaupi nokkuð fleira hjá Þór hf. í Ármúlanum. Og ef orfskrattinn bilar aftur ætla ég að hugleiða að kaupa heldur nýtt orf heldur en láta féfletta mig svona.

Hér kemur mynd af fyrirbærinu. Orfinu með ónýtu túttuna (setúttam skv. reikningi heitir Primer takki) og nýja túttan fremst á litla fingri mínum:

reikn Thor 08Og reikningurinn með, því það er ekki von að þið trúið mér!


„Úrræðum verður ekki beitt fyrr en í lengstu lög“

Einhver sem ekki þorir að láta nafns síns getið segir í athugasemd við blogg mitt frá því á þriðjudaginn að „Verð að segja eins og er að réttritunarfasismi er ekki betri en annar fasismi" -- sem ég skil sem svo að ég hafi þar verið að setja út á einhverjar stafsetningarvillur. Annast ætla ég ekki að taka þetta til mín því ég tala yfirleitt ekki um réttritun sem slíka heldur málfarið sjálft, og vonandi er þessi huldumaður ekki svo skyni skroppinn að hann telji málfar ekki skipta máli.

Ég hnýt oft um furðulegt málfar jafnvel í útvarpi allra landsmanna, Rás 1. Ég skildi t.a.m. ekki hvað við var átt einhvern tíma snemma í vor þegar komist var svo að orði að „úrræðum verður ekki beitt fyrr en í lengstu lög". Kannski skilur einhver snillingur þetta og getur frætt mig hvað þetta þýðir. Var k kannski verið að tala um starfsreglu ríkisstjórnarinnar, sem virðist ekki vilja grípa í taumana fyrr fyrr en í fulla hnefana -- en þetta skilur kannski enginn heldur.

Í þætti á Rás 1 um einhvern blúsara nú í vikunni -- amrískan tónlistarmann sem mér fannst reyndar heldur litlaus en legg þó gjarnan eyrun við góðum tregasöng -- var haft eftir honum að hann skynjaði tónlist í öllu, þyrfti ekki annað en „teygja hendurnar upp og loka lófunum" og væri þá kominn með lag. Hvernig lokar maður lófunum? Ætli það sé sama og að kreppa hnefana?

Sami þáttagerðamaður var fyrr í vor að tala um annan kumpána af svipuðu tagi, nema hvað viðurkennt var að sá væri slakur hljóðfæraleikari. En „hann gætti sín á því að hafa ávalt góða hljóðfæraleikara með sér þegar hann kom fram" …

Gætti sín á því? Það þýðir að mínu viti að vara sig á e-u, varast það. Hér hefur útvarpsmaðurinn sennilega hugsað sér að segja „hann gætti þess að…"

-- Hefur eitthvað af þessu eitthvað með réttritun sem slíka að gera?


Femínismi með málfarsleg útbrot?

Tekið bíl í óleyfi og ekið henni um bæinn. Lögreglumenn veitti bílnum athygli þegar henni var ekið upp á kantstein.

Er þetta femínismi með málfarsleg útbrot?


mbl.is 14 ára ökumaður lenti í árekstri á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tala hefur lítið gildi nema henni sé gefið viðmið

Vissulega er þetta sorglegt. En hér vantar samanburð: Hve margir eru þetta pr. mannfjölda að meðaltali? Hve margir fórust jafnlangt tímabil á undan?

Einnig: Hve margir létust í öðru vísi slysum? Hrapi? Hestamennskuslysum? Flugslysum? Sjóslysum?

Tala ein og sér hefur lítil gildi nema henni sé gefið viðmið.


mbl.is 916 látnir í umferðinni á 40 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 306585

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband