„Úrræðum verður ekki beitt fyrr en í lengstu lög“

Einhver sem ekki þorir að láta nafns síns getið segir í athugasemd við blogg mitt frá því á þriðjudaginn að „Verð að segja eins og er að réttritunarfasismi er ekki betri en annar fasismi" -- sem ég skil sem svo að ég hafi þar verið að setja út á einhverjar stafsetningarvillur. Annast ætla ég ekki að taka þetta til mín því ég tala yfirleitt ekki um réttritun sem slíka heldur málfarið sjálft, og vonandi er þessi huldumaður ekki svo skyni skroppinn að hann telji málfar ekki skipta máli.

Ég hnýt oft um furðulegt málfar jafnvel í útvarpi allra landsmanna, Rás 1. Ég skildi t.a.m. ekki hvað við var átt einhvern tíma snemma í vor þegar komist var svo að orði að „úrræðum verður ekki beitt fyrr en í lengstu lög". Kannski skilur einhver snillingur þetta og getur frætt mig hvað þetta þýðir. Var k kannski verið að tala um starfsreglu ríkisstjórnarinnar, sem virðist ekki vilja grípa í taumana fyrr fyrr en í fulla hnefana -- en þetta skilur kannski enginn heldur.

Í þætti á Rás 1 um einhvern blúsara nú í vikunni -- amrískan tónlistarmann sem mér fannst reyndar heldur litlaus en legg þó gjarnan eyrun við góðum tregasöng -- var haft eftir honum að hann skynjaði tónlist í öllu, þyrfti ekki annað en „teygja hendurnar upp og loka lófunum" og væri þá kominn með lag. Hvernig lokar maður lófunum? Ætli það sé sama og að kreppa hnefana?

Sami þáttagerðamaður var fyrr í vor að tala um annan kumpána af svipuðu tagi, nema hvað viðurkennt var að sá væri slakur hljóðfæraleikari. En „hann gætti sín á því að hafa ávalt góða hljóðfæraleikara með sér þegar hann kom fram" …

Gætti sín á því? Það þýðir að mínu viti að vara sig á e-u, varast það. Hér hefur útvarpsmaðurinn sennilega hugsað sér að segja „hann gætti þess að…"

-- Hefur eitthvað af þessu eitthvað með réttritun sem slíka að gera?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stundum setur mann hljóðan við lestur dagblaðanna. Ekki af því að maður lesi þau alltaf upphátt, en býsna oft er málfarið í þeim alveg út í hött. Í einu blaðanna sem bárust inn á mitt heimili í morgun voru t.d. þessar klausur:

"Það var rólegt yfir Selfyssingum og Hvergerðingum í gær þótt eftirköst skjálftans hvíldu þungt á flestum"

Er hér ekki átt við "afleiðingar"?

Undir mynd af fólki er þetta blóm: ".......Fimleikakonan og þjálfarinn, en þeim skaut skelk í bringu við alvarlegt slys í byrjun mars"

Fyrirsögn: "Bústaðurinn ekki illa farinn. Fór mun betur en þau óttuðust"

Og enn ein: "Valdur að tvöföldu banaslysi"

Þessar tilvitnanir eru bara úr einu blaðanna og ég var ekki komin lengra við lesturinn en á bls. fjögur

Það er skemmtilegt að lesa hugrenningar þínar á blogginu þínu og takk tyrir það (en, æ, mér þykir þetta ekki nógu gott orð - blogg - þó að ég kunni ekki annað betra)

Kveðja í bæinn

Ruth

Ruth Fjeldsted (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 14:08

2 Smámynd: Jón Grétar Sigurjónsson

Ég er sammála þér í þessu, blaðamenn á mbl.is virðast svo vera enn verri en þeir sem skrifa á pappír, þeir hafa varla fyrir því að lesa yfir innsláttarvillur, hvað þá málfarsvillur.

Annars finnst mér villurnar sem þú nefnir í blúsþættinum anga af beinþýðingarvitleysu. Finnst frekar líklegt að þáttagerðarmaðurinn hafi lesið bók á ensku og snarað textanum (heldur of) snögglega á íslensku.  

Jón Grétar Sigurjónsson, 31.5.2008 kl. 16:56

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Góður pistill. Höldum áfram að tuða yfir málfarinu. Smá innsláttarvillur skipta engu. Eflaust verðum við kallaðir nöldrarar og jafnvel kverúlantar en það er allt í lagi. kv. hb

Haraldur Bjarnason, 31.5.2008 kl. 17:18

4 Smámynd: Þóra

Hjartanlega sammála. Fréttakona á NFS sálugu vildi "hvetja alla sem vettlingi [gátu] veifað" og í fyrirsögn í Blaðinu sáluga var þessi fyrirsögn: Bíll með yfirfarþega í útafakstri. Svo eru víst haldnir "fræðilegir panelar um hin ýmsustu málefni" í akademískum kreðsum. Sennilega hjá Lundúnarbúanum sem var "ílengdur í Berlín". Bestu kveðjur.

Þóra, 31.5.2008 kl. 17:40

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi réttritun eða stafsetningu er það að segja að Jónas frá Hriflu gaf út sem menntamálaráðherra sérstakar réttritunarreglur 1929. Þær urðu strax eins og flest sem annars þessi ágæti maður tók sér fyrir hendur ákaflega mjög umdeildar. Það sem einkum var gagnrýnt var bókstafurinn z. sem varð bitbein út alla öldina og gott ef ekki enn í hugum sumra. Þar voru innleiddar nokkuð flóknar reglur hvernig og hvenær skyldi rita z í stað s. Það varð prínsípp Morgunblaðsmanna að rita almennt ekki z eftir þetta „valdboð“ Hrifluvaldsins. Því var z gerð útlæg á ritstjórnarskirfstofum Morgunblaðsins og heilvita manni taldi það vera rétt að virða þessar z reglur enda þóttu þær óvenju flóknar.

Svo líða meira en 4 áratugir. Vorið 1974 tilkynnir Magnús Torfi Ólafsson þáverandi menntamálaráðher að ákveðið hefði verið að fella z-una úr íslenska stafrófinu. Af því að þier Morgunblaðsmenn voru á móti þessari ríkisstjórn sem var mynduð á þeim skelfilega Bastilludegi 14. júlí 1971 þá væri sjálfsagt að gera allt annað en sem tilskipun Magnúsar gekk út á. Allir voru þeirri stundu fegnastir nema ritstjórn Morgunblaðsins og nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þessi skelfilegi bókstafur væri úthýstur úr íslensku ritmáli enda þótt sjálfsagt allt í einu að taka upp tilskipun Jónasar gilda! Langar ræður til varnar z-unni voru haldnar á Alþingi Íslendinga og mun ræða sú sem Sverrir Hermannsson hélt í tómum sölum Alþingis klukkustundum saman. Þingmaður þessi átti síðar eftir að verða menntamálaráðherra, Landsbankastjóri og sitthvað fleira en náði á einstakan hátt að mata vel krókinn og koma ár sinni óvenjulega vel fyrir borð. 

Saga íslenskrar stafsetningar, eða réttritunar ef menn vilja hafa það þannig, er eins og hver annar spennandi reyfari. Hvaða bókstafur verður næst er auðvitað stóra spurningin. Kannski það verði y og síðar x-ið því hvaða sérstöku hljóð eru tengd þessum bókstöfum umfram aðra? Það er auðvitað stóra spurningin.

Var í Hitaveitugöngunni í dag, saknaði aðhitta þig ekki Sigurður. 

Bestu kveðjur

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 31.5.2008 kl. 19:11

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já Ruth, ég hef aldrei skilið orðið blogg. Þurfti að biðja um orðskýringu í upphafi. Þetta er bara eitthvað sem maður lærir. Og hefur þó þann kost að falla að öllum nauðsynlegum beygingum.

Jón Grétar: Ég er alveg sammála, þetta eru lélegar þýðingar og endurspegla slakan málsmekk.

Haraldur og Þóra: Þakka stuðninginn.

Guðjón: Það var ekki flókið að læra að setja setu þar sem hún átti að vera. En ég er almennt ekki að reka hnýflana í stafsetningar- eða sláttuvillur, finnst það í rauninni smávægilegt ef það breytir ekki meiningunni sem slíkri.

Nennti ekki í hitaveitugönguna. Hitaveitustokkurinn var hjóla- og göngubraut mín þegar ég var strákur. Sakna hans satt að segja.

Sigurður Hreiðar, 31.5.2008 kl. 20:07

7 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Mér finnst gaman að lesa þessar umræður um íslenskuna okkar, sem er auðvitað fegursta mál í heimi.  Mér gremst það líka oft ósegjanlega að lesa illa skrifaðan texta, eins og það er gaman lesa vel skrifað mál.

Samt er nú voðalega gaman að leyfa sér að "sletta" af og til, allavega ef það hæfir textanum eða karakter skrifarans á einhvern hátt. Mér finnst oft mjög gaman að lesa persónulegan stíl; að "heyra" röddina og áherslurnar um leið og maður les.  

Bestu kveðjur, og endilega haltu áfram umræðum um íslenskt mál. Það er fróðlegt og lærdómsríkt. Ég fer ennþá að mestu eftir sjónminni þegar kemur að blessuðu (gggrrr) ypsiloninu. Og ég er mjög þakklát þeim sem nenna að leiðrétta mig eða leiðbeina.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 1.6.2008 kl. 13:57

8 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

PS. -Hvort er réttara að segja "mata krókinn" eða "maka krókinn"? Ég hef heyrt hvort tveggja.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 1.6.2008 kl. 14:03

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka fyrir þetta, Helga Guðrún. -- Það er enginn hætta á að ég sé hættur að spjalla um íslenskt mál. Þó held ég mig æði mikið frá nöldri um stafsetningu, er að mestu sama um hana nema „villurnar" breyti merkingu frá því sem ætlast var til. Sjálfur er ég sérvitringur í „réttritun" og vil stafsetja sumt eftir mínu höfði. Ufsilonin hafa þá sérstöðu meðal máltákna að það skiptir máli um merkingu orðs hvort það er ritað með ufsilonu eða ekki, þar er t.a.m. merkingarmunur á nit og nyt, skíra og skýra og fleiri orðum sem ég man ekki í bili.

P.S. Ég held að í raun sé „jafn rétt" (ef eitthvað er það) að maka krókinn og mata hann. Einna helst spurning um beitu, hvort þarf að smyrja henni á öngulinn eða hvort hún er þrædd upp á hann. En þetta veit Skagfirðingur örugglega betur en Mosfellingur sem á ekki einu sinni land að sjó!

Sigurður Hreiðar, 1.6.2008 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 305951

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband