Færsluflokkur: Dægurmál
1.7.2008 | 14:56
Enn um hraðafasismann
Í gær skrifaði ég stuttan pistil um hraðafasisma aðallega og þá staðhæfingu að hraðinn dræpi. Með henni er átt við ökuhraða án skilgreininga um hvað sé hraðakstur, en gefið í skyn að það sé allt yfir lögleyfðum hraða - sem í sjálfu sér er tala gripin úr lausu lofti, þó hún eigi viðmið í reglum annarra þjóða þar sem umferðin er lengstum mun þéttari en hér. Stundum gæti maður haldið að lögleyfður hraði hér á landi væri fundinn með því að mæla á hvaða hraða almenn umferð er þar sem hún hefur skilyrði til að vera rennsli í sjálfu sér, síðan dregin ákveðin prósenta frá því og útkoman verður hæsti lögleyfði hraði.
Eins og við var að búast urðu viðbrögðin með ýmsum hætti. Einn gestur minn tönglaðist á því að það væri samt alltaf hraðinn sem dræpi. Engu máli virðist skipta hvernig til hans er stofnað, en það var inntak pistils míns að við ættum að leggja alla áherslu á ábyrgan akstur, akstur með fyrirhyggju. Hætta að staglast alltaf á ökuhraðanum sem slíkum en beina þunganum að ábyrgð og fyrirhyggju. Ef það er gert eru góðar líkur á slys verði ekki.
Nú er sýnd í þaula á sjónvapsstöðvunum sambland af teiknaðri mynd og kvikmynd af angurgapa sem kemur á fáránlegum hraða að gatnamótum, endar með að velta yfir þau og stíga út úr beygluðu braki með blæðandi haus. Látið er að því liggja að afdrif hans séu hraðanum að kenna, þegar þau eru því að kenna að piltungurinn hefur ekki vit fyrir sér. Piltungar af þessu tagi hafa ekkert frekar vit fyrir sér þó hámarkshraði sé tilgreindur - þeir láta það bara sem vind um eyru þjóta.
Það út af fyrir sig að aka á hæsta lögleyfðum hraða getur verið óforsvaranlegur fíflaskapur. Alveg eins og það getur verið fyllilega ábyrgur akstur að aka 10-25% fram úr lögleyfðum hámarkshraða ef það er gert af ábyrgð og fyrirhyggju, kringumstæður metnar af skynsemi og rökrænu mati. Lagasetningar og sektunarvald getur aldrei komið í staðinn fyrir ábyrgðarkennd og fyrirhyggju.
Það er alltaf stutt í öfgarnar. Í árdaga bílsins voru þau lög sett í Bretlandi að fyrir hverri sjálfrennireið skyldi fara maður með rautt flagg. Að breyttu breytanda erum við sumpart enn við þetta heygarðshorn. Við einangrum einn þátt umferðar, hraðann, og setjum allt annað í afgangsstærð.
Pistillinn í gær var í framhaldi af þeirri frétt að hraðakstur hefði verið meginorsök þeirra 15 banaslysa sem urðu í umferðinni árið 2007. En svo kemur í ljós þegar rýnt er í fréttina að í 6 slysanna voru ölvun, þreyta og lasleiki undirliggjandi rætur og sjálfsvíg í því sjöunda. Spurningin er því hvað olli hraðakstrinum" - ef hraðakstur er skilgreindur sem allt yfir lögleyfðum hámarkshraða hverju sinni. Að mínu viti skiptir það meira máli heldur en nákvæmlega hver hraðinn var. Í 5 tilvikum af þessum 15 voru bílbelti heldur ekki notuð - og hvers lags ráðslag er það eiginlega? Og var það hraðanum að kenna?
Ég ætla að enda þetta í dag á sömu orðum og í gær:
Við erum of lengi búin að stunda hraðafasisma sem slíkan og látið undir höfuð leggjast að prédika ábyrgan akstur með fyrirhyggju. Að kenna fólki að lesa í umferðina og umhverfi sitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.6.2008 | 15:07
Hraðafasismi og bókstafstrú
Hraðinn sem slíkur drepur ekki. Það er þegar hraði fer saman við aðgæsluleysi og heimsku sem hann verður hættulegur. Við lestur fréttarinnar sem þetta blogg vísar til kemur enda í ljós að í 5 af þessum 15 banaslysum voru bílbelti ekki notuð. Hafði það e-ð að segja með það að slysið varð banaslys? Þrjú slysanna má rekja til ölvunar og þrjú í viðbót til svefns og þreytu. Þá er talan komin í 11. Eitt er talið örugglega sjálfsvíg og nú eru eftir þrjú slys þar sem fréttin amk. greinir ekki frá neinu umfram of mikinn hraða.
Ekki skal dregið úr mikilvægi þess að haga hraða eftir aðstæðum. En það er fásinna að láta að því liggja að hraðari akstur en heimill er samkvæmt einhverri allsherjarreglu sé banvænn í sjálfu sér eða ævinlega óábyrgur. Hann kann að vera of mikill samkvæmt bókstafnum -- en er æskilegt að vera bókstafstrúar?
Ég held að við ættum að breyta um áherslur í umferðaráróðri. Í staðinn fyrir að leggja ofuráherslu á hraðakjaftæði sem óskilgreint hugtak eða rígbundið við lögleyfðan hámarkshraða ættum við að prófa svo sem eitt ár að leggja áherslu á ábyrgan akstur, akstur með fyrirhyggju. Að ökumenn horfi fram á veginn og lesi í það sem framundan er. Hvernig vegurinn liggur og hvað er að gerast hjá öðrum vegfarendum framundan. Láti ekki það sem við komum að eftir 2-300 metra koma sér á óvart. Gott og blessað að fylgjast með bílnum sem er næstur fyrir framan okkur. En í hvaða kringumstæðum er hann að lenda? Eða þriðji bíll fyrir framan hann? Þetta eru allt hlutir sem koma okkur við.
Um þetta mætti fjalla miklu meira en mergurinn málsins er þessi: Við erum of lengi búin að stunda hraðafasisma sem slíkan en látið undir höfuð leggjast að prédika ábyrgan akstur með fyrirhyggju. Að kenna fólki að lesa í umferðina og umhverfi sitt.
![]() |
Hraðakstur algengast orsök banaslysa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2008 | 19:31
„Tilfinningalegar“ misheyrnir
Stundum hlýtur maður að kenna þroskuðum aldrinum það sem vonandi er misheyrn þegar hlýtt er á hið virðulega útvarp allra landsmanna, RÚV Rás1. Sem eins og oft endranær gekk yfir okkur núna meðan við vorum að raða í okkur kræsilegum kvöldmatnum. Fréttir - eða ótíðindi - dagsins runnu slysalítið eða jafnvel slysalaust fram hjá, síðan komu einhverjir menn sem ég nam ekki nöfnin á og hafa fengið það hlutverk að slúðra yfir landslýð milli kvöldótíðinda í útvarpi annars vegar en sjónvarpi hins vegar.
Fljótlega fundu þeir upp á að lesa úr rúmlega fertugri forystugrein úr Þjóðviljanum sáluga þar sem ríkisstjórninni var lesinn pistillinn fyrir að leyfa stórgróðafyrirtækjunum olíufélögunum miskunnarlausa hækkun á bensínverði og það rétt fyrir verslunarmannahelgina. Þetta var tilfinningaleghækkun", las annar vinurinn orðrétt upp úr Þjóðviljanum gamla, sem hlýtur að vera misheyrn mín, svo vel þekkti ég Þjóðviljamenn í den tíð að þeir hljóta að hafa sagt tilfinnanleg hækkun."
Skömmu seinna var hleypt að vini í Bandaríkjunumsem sagði okkur frá skrýtnu fólki í Ameríkusveit sem var svo heimskt ogheimaalið að sögumaðurinn sagði það einræktað". Meira hvað ég er farinn að heyra illa, hann hlýtur að hafa sagt hreinræktað". Því jafnvel í afskekktustu afdölum Ameríku hljóta menn enn að fjölga sér með gamla laginu en eru ekki farnir að klóna hver annan.
Næstur á mælendaskrá var maður sem sagði okkur frá gressilegu baðhúsi í Baden-Baden sem óumdeilanlega, sagði hann, er það fegursta í gjörvallri Evrópu ef ekki bara norðan suðurpólsins. Hann lýsti því fjálglega með angurværri röddu hvernig baðgestir eru þar reknir úr hverri spjö rog síðan í hvert baðið á fætur öðru, steypibað, þurrbað og laugar allt upp í 68°heitar (heyrðist mér endilega og veit ekki fyrir hvað ég hef getað misheyrt það og aldrei tekið annað fram en að tilgreindar gráður væru á Celcius-mæli),hvernig sem fólk fer að því að halda lífi við þvílíkan hita. Síðan væru baðgestir leiddir stimamjúkir" á eitthvert nýtt stig baðferlisins og þarna hefur hann áreiðanlega sagt limamjúkir" og það eru bara stimamjúkir baðþjónar sem leiða þetta ofsoðna baðfólk áfram í þann tortúr sem manni virtist það vera að fara í bað í Baden Baden.
Nema það sé akkúrat þesskonar sem maður þarf til aðhressa ögn upp á heyrnina.
P.S. leiðrétt nánast strax eftir birtingu. Flutningur í Word-forriti í blogg hefur tilhneigingu til að spara orðabil langtum of. Aðrar villur sem mér kann að hafa yfirsést skrifast einnegin á reikning þessa flutnings.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.6.2008 | 10:11
Hnatthlýnun? Hvar er hún?
Enn einn dýrindis morguninn með glampandi sól og ekkert nema góðveðursský þau fáu sem hafa fyrir því að þjóta um himininn. En hitinn kl. 8 ekki nema 10°. Og yfir daginn er hending ef mælirinn (í forsælu) sýnir meira en 15° þrátt fyrir alla blíðuna.
Hvernig var þetta aftur með hnatthlýnun, global warming", sem átti að vera að fara með okkur til fjandans?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2008 | 17:01
Valið milli 38 bíltegunda
Dómnefndarmenn eru 59 talsins frá 23 Evrópuþjóðum. Að hluta til eru þeir valdir eftir mikilvægi þjóðanna með tilliti til bílaframleiðslu. Þannig eiga Frakkland, Þýskaland, Stóra-Bretland, Ítalía og Spánn sína 6 fulltrúana hver þjóð í dómnefndinni en hinar 18 þjóðirrnar sem eiga fulltrúa í dómnefndinni eiga þar færri fulltrúa. Ísland hefur aldrei þótt nógu merkilegt bílaland til að eiga fulltrúa í þessari dómnefnd, hvað sem liður öllu rausi hér um Ísland sem land einkabílsins.
Í ár snýst valið um eftirtalda 38 bíla:
- Alfa Romeo MiTo
- Audi A4
- Audi Q5
- BMW X6
- BMW 7-serie
- Chevrolet HHR
- Chrysler Grand Voyager
- Citroën Berlingo / Peugeot Partner
- Citroën C5
- Dacia Sandero
- Dodge Journey
- Fiat Linea
- Ford Fiesta
- Ford Kuga
- Honda Accord
- Honda Jazz
- Hyundai H1
- Hyundai i10
- Hyundai i20
- Hyundai i55
- Jaguar XF
- Jeep Cherokee
- Lancia Delta
- Mazda 6
- Mercedes-Benz GLK
- Mitsubishi Lancer
- Opel Insignia
- Renault Kangoo
- Renault Koleos
- Renault Mégane
- Seat Ibiza
- Skoda Superb
- Subaru Forester
- Suzuki Splash/Opel Agila
- Toyota Land Cruiser 200
- Volkswagen Golf
- Volkswagen Scirocco
- Volvo XC60
Sumir þessara bíla eiga ekki fulltrúa hér á landi og örfáar aðrar gerðir sem hér eru upp taldar eru ekki líklegar til að koma hingað -- ja, kannski ekki nema ein, reyndar, þegar betur er skoðað!
26.6.2008 | 20:00
Íslenskar konur eru miklir skorungar!
Þó að orðið skörungur" sé karlkyns og orðabókin skilgreini það einkum upp á karlkynið, er þar þó einnig að finna merkinguna atkvæðamikill karl eða kona". Svo mikið er víst að ef virkilega sópaði að konum þótti við hæfi að kalla þær skörunga, jafnvel kvenskörunga ef miklar karlrembur tóku sér orðið í munn.
Nú legg ég til að ö-inu verði breytt í o og konur þar sem virkilega sópar að verði nefndar skorungar". Ég kann ekki að horfa á fótbolta en glappaðist til þess í dag að byrja að horfa á stelpurnar okkar" bursta þær grísku og skora hvert markið á fætur öðru. Ég hreinlega hætti ekki að horfa fyrr en RUV brast á með auglýsingar.
Sannfærðist um að enn sem fyrr er sópar að íslenskum konum þar sem þær gera sig gildandi. Þær eru miklir skorungar!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2008 | 11:07
Eðli verkfalla í hnotskurn
Fróðlegt væri að vita hve hátt hlutfall landsmanna hefur samúð með málstað flugumferðarstjóra í þessari kjaradeilu. Þeir stórskemma fyrir einstaklingum og atvinnugreinum með þessu ráðslagi sínu og ekki í fyrsta sinn sem þeir sýna landsmönnum fjandskap af þessu tagi.
En er þetta ekki eðli verkfalla í hnotskurn? Þau bitna mest, víðtækast og verst á þeim sem enga möguleika hafa á að bera hönd fyrir höfuð sér eða greiða úr þeim deilumálum sem þau snúast um.
![]() |
Farþegarnir borga sjálfir brúsann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2008 | 12:38
Einbýlishús með tvær aukaíbúðir er þríbýlishús
Einhverra hluta vegna skoða ég oft fasteignaauglýsingablöðin sem fylgja Mbl og Frbl, þó ég sé hvorki að hugsa um að selja húsnæði né kaupa. Sé þar oft ýmislegt skondið, eins og um árið þegar auglýst var fallega innréttuð blokkaríbúð á 8. hæð í Breiðholti með innbyggðan bílskúr. Kannski er það einmitt þessi (ómeðvitaða?) þörf til að finna eitthvað sem hægt er að reka hornin í, sem knýr mig til að fletta þessum fasteignaauglýsingablöðum.
Þau brugðust mér ekki í gær. Í Faseignaauglýsingablaði Mbl. var textaauglýsing um fasteignir á Kýpur og sagt ma. að allir tala ensku á Kýpur. -- Öllu má nú að manni ljúga, sosum. Ég staldraði við á téðri eyju fyrir tæpum áratug og mikið rétt og víst, í því þéttbýli þar sem ég hafði svefnstað komst maður jú býsna vel af með því að nota ensku, en um leið og komið var út í dreifðari byggðir dugði ekkert mælt mál nema gríska.
Fasteignaauglýsingablað Frbl. sló því upp á forsíðu að til sölu væri einbýlishús með tvær aukaíbúðir. Mér er spurn: vita fasteignasalar ekki hvað einbýli þýðir? Það þýðir ósköp einfaldlega húsnæði fyrir eina fjölskyldu, ekki fleiri. Einbýlishús er ekki lengur einbýlishús þegar búið er að innrétta í því fleiri íbúðir. Einbýlishús með þremur íbúðum er ekki lengur einbýlishús, það er orðið þríbýlishús og hananú!
23.6.2008 | 18:24
Hræðilegur minningareldsvoði
Ætli orðabók sé ekki til á mbl.is? Hvernig væri að gá hvað eldsvoði þýðir? Svona minningareldsvoði hlýtur að vera hræðilegur innri eldur -- nema þessi eilífi kyndill varð náttúrlega (ekki náttúrUlega) að eldsvoða þegar búið var að kasta meðvitundarlausum 25 ára karlmanni á hann nærri Vladimir.
P.S. ég held að orðabækur fáist líka í tölvutæku formi. Texti eins og þessi frétt ber það með sér að ritari hans er ekki víðlesinn og líklega ekki mikill bókaormur.
![]() |
Unglingspiltar dæmdir fyrir manndráp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2008 | 14:08
Einangrandi orð!
Rétt eitt dæmi um undarlega notkun á orðinu einungis, sem nú til dags virðist notað í fjölmiðlum án markvissrar merkingar. . . .stöðvaði bílinn einungis eftir að. . . -- hvað eiginlega þýðir þetta?
Að mínum málskilningi þýðir einungis eitthvað sem gerist aðeins af því að eitthverjar ákveðnar forsendur eru fyrir hendi. Lásinn opnast einungis fyrir réttum lykli. Mér finnst gúrka bara vond, en get ekki sagt að mér finnist einungis gúrka vond, því mér þykir til dæmis skata líka vond, svo dæmi sé tekið. Samkvæmt orðabókinni þýðir einungis bara, aðeins, eingöngu, ekki nema, en þar vantar dæmi um notkun og líka notkun sem ekki er möguleg. Hann var einungis 12 ára þegar hann fór að læra á fiðlu finnst mér tam. ekki geta gengið, og með því að máta aðrar hugsanlegar merkingar orðsins við þessa staðhæfingu sést að bara, aðeins, ekki nema eru einu gefnu merkingarnar sem þarna gætu átt við. Það er td. ekki hægt að segja að hann hafi eingöngu verið 12 ára, því hann hefur ábyggilega verið fleira, td. með 10 fingur og gott tóneyra.
Skortir ekki nokkuð á að fólk íhugi merkingu orðanna sem það notar? Eða einfaldlega hvort orðin eiga við eitt eintak eða fleiri = eintala eða fleirtala? Maður sér iðulega, ekki síst í auglýsingum, að eitthvað sé við Laugarveginn í Reykjavík. Heitir ekki gatan sú arna sínu nafni af því hún lá inn að Þvottalaugum -- í fleirtölu? Ég sá í morgun held ég auglýst húsnæði til leigu í Hafnafirði. Hversu margar ætli hafnirnar séu þar? -- Ég held að hún sé einungis ein -- og jafnvel í þessu samhengi færi betur að segja aðeins ein -- einungis er alveg svakalega einangrandi orð!
Ökumaður stöðvaði bílinn einungis eftir að löggan á toppnum hafði hleypt af átta skotum. Og hvað? Hefði hann kannski stöðvað næst eftir önnur átta? Hvað þýðir svona rugl?
![]() |
Ók 1 km með lögguna á toppnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 306578
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar