Færsluflokkur: Dægurmál
27.5.2008 | 15:57
Hvort dregur maður eitthvað eða einhverju?
2 tbl yfirstandandi árgangs af blaðamanninum, riti Blaðamannafélags Íslands er nýkomið út. Aðalefni er íslenskt mál í fjölmiðlum landsins, áhugaverð og þörf umræða.
E.t.v. ættu bókaforlögin líka að huga betur að sumu því sem þau senda frá sér. Ég var t.d. að fá frá Forlaginu punkti is svolátandi texta:
Harðskafi Arnaldar loksins kominn í kilju!
Lestu fyrstu kaflana á netinu í boði Forlagsins! Þú getur halað niður fyrstu köflunum hér og lesið strax í dag! Arnaldur er í toppformi í spennandi, læsilegri og vel hugsaðri glæpasögu sem er hans besta í nokkur ár...
Jamm og já. Ég vil frekar hala þá niður, þessa kafla, heldur en hala þeim. Að hala hefur að mínu viti hér sömu merkingu og að draga -- og hvort dregur maður eitthvað eða einhverju?
Ég veit ekki hvað Arnaldur segir um svona málfar, en leyfi mér að fullyrða að faðir hans og lærifaðir minn hefði lesið okkur pistilinn og hann kjarngóðan!
26.5.2008 | 20:09
Tunnan valt og úr henni allt -- eða var það eftir veltuna?
![]() |
Dottaði undir Ingólfsfjalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2008 | 19:18
2 af hverjum 3 vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni
Dægurmál | Breytt 27.5.2008 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2008 | 09:21
stóð ekki í stykkinu - og stóð sig ekki heldur!
Lélegur hundur
stóð ekki í stykkinu
og stóð sig ekki heldur!
Hvað þá að hann dygði þó að þessum tveimur orðtökum sé slengt saman!
Nú er bara að vita hvort þessi grunlausi farþegi hefur grun um hvað þetta er sem hann hefur í höndunum!
Kannski er hann bara álíka bágur og hundurinn!
![]() |
Smyglar fíkniefnum á vegum tollvarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2008 | 19:59
Happy Eurovision!
Nú heyri ég álengdar innan úr stofu nokkurn hrynjanda og geri ráð fyrir að Evróvissjón söngatriðakeppnin sé komin í fullan gang. Vissulega hef ég þann þjóðlega metnað að ég myndi fyllast monti ef Ðis-is-mæ-læf atriðið fengi nokkurt brautargengi -- ætla að fara og horfa á krakkana ef þau hafa ekki þegar flutt sitt atriði og fylgjast svo með atkvæðagreiðslunni.
Annars hef ég verið úti að slá -- komið kafgras og maí ekki á enda -- en ætla að láta þjóðarmetnaðinn sem sumir kalla þjóðrembing ráða verklokum í dag.
Happy Eurovision, Everyone! -- Já, maður kann sosum að sletta!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2008 | 20:29
European Musical Show Contest
Ég verð að segja að mér fannst íslensku krakkarnir skila sínu hlutverki vel í Evróvissjónforkeppninni áðan. Og þó ekki öfundsvert hlutverk að skila frambærilega þessari lagleysu sem við sendum nú sem oftar í þessa keppni, og erum reyndar ekki ein um, ég hef að vísu ekki lagt hlustir grannt við en ég man ekki eftir einni einustu melódíu amk. ekki í ár.
Nú er bara að bíða eftir kosningunum og sjá hvernig fer. Ef þetta er European Song Contest eigum við varla séns. Ef þetta er European Musical Show Contest eigum við góðan séns. Ég ætla að bregða mér í kvöldgöngu í góða veðrinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.5.2008 | 20:20
Eftirminnilegt fyllirí í flugi
Fyllirí Íslendinga í sólarlöndum varð að umræðuefni í athugasemd við blogg hjá mér nýlega. Sem kom mér nokkuð á óvart,því almennt séð er fyllirí Íslendinga erlendis svo ég tali nú ekki um í flugi milli landa orðið fátítt, amk. miðað við það sem áður gerðist.
Sem rifjaði þó upp fyrir mér eftirminnilegt flug til Majorka, líklega fyrir 11 árum. Fyrir einhverja tilviljun höfðum við slysast til að kaupa okkur inn í ferð sem einkum hafði víst verið auglýst fyrir eldri borgara - hóp sem við vorum þá ekki enn farin að tilheyra.
Flogið var með spænsku flugfélagi sem ég man ekki að nafngreina, en á leiðinni til Íslands hafði klósett stíflast í vélinni og við tilraunir Spánverjanna til að losa þá stíflu tafðist brottför frá Keflavíkum fjóra tíma eða svo. Öldungarnir höfðu margir hverjir verið búnir að kaupa sér eitthvað í gleri inni í fríhöfn, sem þá var enn til, og settust síðan fram í rana og hófu að kanna innihald glerjanna. Sem varð til þess að þegar loks var hleypt út í flugvél og ferðin í raun hafin voru furðu margir orðnir - ja, satt að segja, þéttingsfullir.
Upphófst nú jafnhliða því að vélin hóf sig til himins hin mesta óreiða í vélinni sem lódökkar og móeygðar spænskar flugfreyjur hugðust lækna með því að neita að ganga um beina; sá sem vildi fá eitthvað að láta ofan í sig varð að sækja það í annað hvort eldhúsið, fremst eða aftast. Sem varð til þess að gangurinn var jafnan öllum ófær og troðfullur af misfullu fólki. Fararstjóri öldunganna var landskunnur danskennari og ég hef æ síðan haft sérstakt dálæti á nafni þess manns, svo mikið sem hann lagði á sig til að hald aeinhverju skikki á liði sínu og svo laglega sem honum tókst til, þó um hann eigi við hið sama og fjölda marga aðra að enginn má við margnum.
Inn á milli má skjóta því inn að Spánverjunum hafði ekki tekist að kroppa stífluna úr klósettinum, þannig að þeir sem þurftu að bjarga sér urðu að standa í biðröð við tvö klósett aftast. Og þar hafði víst iðulega verið háð mörg tvísýn baráttan að sögn, en sem betur fer var ég nokkuð framan við miðju í farþegarýminu og hefði átt að sleppa sæmilega hvað þetta snerti.
Nema hvað:
Fyrir aftan mig sat einn þeirra sem verst var á sig kominn og þegar fór að nálgast millilendingu í Alicante, þar sem hluti farþeganna átti að verða eftir, hafði honum tekist að verða sér úti um kaffibolla, sem væntanleg hefði átt að verða honum til hagsbóta, hefði ekki svo slysalega tekist til að hann hellti úr honum ofan í klofið á sér. Og varð svo mikið um að hann meig á eftir öllu saman. Mér fannst þetta tilefni til þess að jafnvel spænskar flugfreyjur gerðu undantekningu frá þjónustubindindinu og tókst að ná augnasambandi við eina þeirra, sem blikkaði mig bara samsærislega og veifaði kókett á móti öllu handapati mínu og látæði sem ég reyndi að hafa í samræmi við tilefnið, amk. var ég var hrein tekkert að reyna að koma á stefnumóti við hana að flugferð lokinni, eins og mér sýndist hún skilja málið. Og kumpáninn fyrir aftan mig mátti bara sitja í sínu dammi flugferðina á enda.
Sem betur fer varð hann eftir í Alicante.
Allt varð léttara og rýmra fluglegginn frá Alicante yfir til Palma Majorka, og til þess að gæta allra sanngirni með tilliti til aldurs má geta þess að meðal ferðafélaganna voru tvær konur á næstbesta aldri, svona sirka milli tvítugs og þrítugs. Önnur þeirra var nú ekk ivissari um sig en svo að þegar hún ætlaði að setjast á tösku sína þar sem við biðum rútufars frá flugvellinum í Palma hitti hún ekki á töskuna heldur hlassaðist óblíðlega niður á gangstéttina við hliðina á henni.
Og vinkonan lét hana bara vera þar.
Og enn frekari sanngirni: Þetta samferðafólk áttum við eftir að sjá og hitta oft næstu vikurnar á Playa del Palma, bláedrúog hið kurteisasta. Og á heimleiðinni var bara sofið, minnir mig, og allir sjálfum sér og þjóðinni til sóma. Á aldrinum frá tvítugt og uppúr.
Bæti hér við kl. 22.16: einhvern veginn tekst mér aldrei að flytja texta beint úr Word yfir í blogg án þess að einhver slys verði, svo sem orðasamsláttur upp um allan pistil. Og skammist hann sín bara.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2008 | 14:18
Braggaminnisvarði á Stormskeri staddur
Sverrir Stormsker verður seint sakaður um Pollýönnustíl enda hefur hann löngum verið þeirrar skoðunar að til þess að ná athygli þurfi hann að strjúka sem flestum öfugt. Auk þess er hann kjaftfor vel og oft gaman að lesa það sem hann skrifar. Í laugardagsútgáfu blaðsins sem kallar sig 24 stundir, líklega af því aðstandendur þess vita ekki að 24 hours heita sólarhringur á íslensku, fer hann á sínum venjulegu fjósaskóm yfir það vonlausa verk sem Jakob stuðmann Frímann á fyrir höndum við að reisa til einhverrar virðingar þann útnára sem menn eru enn að burðast við að kalla miðborg/miðbæ Reykjavíkur.
Það hlýtur að vera öllum ljóst ef vel er að gáð að gamla kvosin upp af gömlu höfninni í Reykjavík er enginn miðbær og úrleiðis fyrir allan þorra fólks sem fer ekki ótilneyddur á þessar slóðir lengur. Hinn eiginlegi og eðlilegi miðbær höfuðborgarsvæðisins er Smáratorg/Smáralind og liggur auk þess rétt við eðlilegri umferðarlínu allt sunnan úr Keflavík í Suðurnesjabæ austur að Árborg við Ölfusá í aðra áttina en Saurbæ á Kjalarnesi í hina (þar sem farið er undir sjóinn til að komast upp á Akranes og jafnvel Borgarnes, sem í rauninni eru að verða - ef ekki orðin - hluti af höfuðborgarsvæðinu.
Satt að segja hafði ég gaman af gusuganginum á stormskerinu í þetta sinn eins og raunar oft áður. Mig langar bara að reka dálítið hornin í það sem hann kallar Óráðhúsið sem að hans dómi er einsog stórkallalegur hermannabraggi og rústar alveg heildarmynd hinnar snotru Tjarnargötu".
Mér hefur alltaf verið tamt að horfa á Ráðhúsið (sem mín vegna má kalla óráðhús, ef menn vilja) frá öðru sjónarhorni. Sem sé því, að þar reis löngu tímabær minnisvarði braggabyggðarinnar sem herir bandamanna skildu eftir á landi Reykjavíkur og nærsveita í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Ég segi minnisvarði því ef þetta húsnæði hefði ekki verið fyrir hendi hefði ekki verið möguleiki fyrir þann fjölda fólks sem á þeim tíma vildi flytja til Reykjavíkur að komast nokkurs staðar inn, en svo var tómum bröggunum á Skólavörðuholti, í Múlakampi, Laugarnesskampi og Camp Knox, svo nefndir séu þeir sem ég man helst, fyrir að þakka að Reykjavík gat á þessum tíma vaxið og dafnað svo sem þurfa þurfti til að verða raunveuleg höfuðborg landsins.
Og enginn þessara braggabyggða, kampa, var í í gamla miðbænum, þó Skólavörðuholtið heyri kannski til R 101.
Þess vegna var það vel við hæfi að þegar borginni var loks reist ráðhús væri það í braggastíl. Vitaskuld var sú innræting viðloða og virðist enn, eftir vaðli stormskersins að dæma, að braggi sé í eðli sínu ljót bygging, en sú innrætin var að ég hygg tilkomin af vanþóknum landans á hersetunni hér á sínum tíma, ekki síst þeirra sem sáu á eftir dætrum sínum eða kærustum í fangið á þeim sem braggana gistu á stríðsárunum. Og hafa ekki enn jafnað sig á.
P.S. Nú tókst mér með ráðgjöf vinkonu minnar í athugasemd að koma inn myndinni sem átti að fylgja. Takk fyrir þetta, Anna Ól. B.
Dægurmál | Breytt 20.5.2008 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.5.2008 | 13:26
Enn breikkar bilið milli bensíns og dísilolíu.
![]() |
N1 lækkar verð á eldsneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2008 | 16:00
Umbúðir og innihald
![]() |
Sólarorkubrjóstahaldari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 306587
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ekki veit ég hvort Reykvíkingar eru að vitkast eða hvort skoðanakannanir fara eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni, en nú er svo að sjá að þeir séu að vitkast hvað snertir viðhorf til þess að hafa aðstöðu fyrir flugsamgöngur innan aðgengilegrar seilingar.
Nú er svo að sjá að nærri tveir af hverjum þremur hafi séð að vitlegast er að hafa flugvöll fyrir innanlandsflug áfram í Vatnsmýrinni.
Í þessu samhengi set ég hérna inn kafla sem ég skrifaði í vikunni sem leið sem athugasemd við blogg sveitunga míns sem kallar sig Mosa:
Einhverju sinni var ég að koma með áætlunarflugi frá Akureyri, þreyttur eftir erfiðan vinnudag. Fyrir framan mig sat fjögurra manna fjölskylda. Meðan flugvélin rann ljúflega eftir Reykjavíkurflugvelli upp að skúraþyrpingunni flugstöðinni sagði fjölskyldufaðirinn við konu sína: Vildirðu eiga eftir að keyra frá Keflavík núna?
Ég held ég hafi ekki heyrt hverju hún svaraði, en ég gat með sjálfum mér svarað fyrir mig, stórt NEI! Nóg að eiga eftir að komast heim í Mosó!
Það væri fásinna að loka þeim samgöngumöguleika við landsbyggðina sem Reykjavíkurflugvöllur er. Og til hvers? Til þess að hrúga fleira fólki í þann landfræðilega útnára sem þetta svæði er á höfuðborgarsvæðinu?"
Við þetta um hinn landfræðilega útnára sem enn er burðast við að kalla Miðborg Reykjavíkur er því að bæta að frænka mín sem vinnur í fyrirtæki í útnára þessum verður að leggja bíl sínum 15 mín. gönguleið frá vinnustaðnum eða gjalda afarkosti í stöðugjöld ella. Hún hefur þá sögu að segja að þeir miðborgarar sem koma inn á vinnustað hennar séu einkum þrenns konar: nýbúar, utangarðsfólk, skrýtlingar. Í þessari röð, skilst mér.
Ég hef bent á það áður og á sjálfsagt eftir að gera oftar, að hinn rökrétti miðbær höfuðborgarsvæðisins er Smáratorg/Smáralind, og liggur þar að auki rétt við hinum eðlilega umferðarás frá Suðurnesjum um Faxaflóasvæðið og jafnvel austur að Ölfusá.
Ath: fyrirsögn breytt að morgni 27. maí eftir ábendingu um villu í fyrirsögn.