Færsluflokkur: Dægurmál
2.8.2008 | 15:29
Má vera ljótt á bakvið
Nú sætir þeim tíðindum í þessum bloggheimum að bloggið mitt er aftur komið með sitt gefna útlit og hætt að vera með hvítu letri í rauðbrúnum grunni. Myndirnar eru komnar inn aftur og ég get séð hvort einhver hefur litið inn í bloggbæinn hjá mér og kemst að því að nú er skammt þar til að 100 þúsundasti gesturinn gluggar þar inn. Það er líklega ekki mikið á þessu rúma ári sem ég hef látið ljós mitt skína á þessum vettvangi en væri þó nokkur gestnauð ef allt þetta fólk hefði bukkað mín veraldlegu hús og viljað fá kaffi eða aðrar trakteringar
Annars er ég enn með hugann að nokkru leyti við óskipulagið af Laugaveginum og hvort endilega þurfi að rífa húsið sem Vínberið er í eða helstu hús þar um kring, sem líta bara þó nokkuð þokkalega út og virðast hafa fengið nokkurt viðhald -- hafi sem sagt engir verktakar komist í þau til að láta þau drabbast niður í von um að í þeim setjist að skríll sem sé svo vinsamlegur að kveikja í þeim þannig að ekki verði rifist um hvort þau eigi að fara eða vera.
Ólafur Friðrik borgarstjóri sagði ef ég hef skilið rétt að hægt væri að ná samkomulagi um það að þessi hús fengju að standa og götumyndin óskert vera, hvort sem hún er 19. aldar eða 20. aldar. Núna er víst komin 21. öld og götumyndin eins og hún er og nýuppgötvað að einhverjum (öðrum um verktökum eða arkítektum með nýbyggingaæði) þætti hún hrútljót.
Mér dettur í hug að samkomulagið gæti verið að halda gömlu framhliðinni en setja nýtt á bakvið. Fyrir einhverjum árum var ég gestur í Glasgowborg í Skotlandi og gisti þar í hóteli rétt við
háskólahverfið eða í því sem hét þá Grosvenor Hotel og mér skilst að heiti núna Grosvenor Hilton eða Hilton Grosvenor. Þetta var afar virðulegt hús framan frá séð en gressilega ljótt á bakatil en að innan eitt flottasta hótel í búnaði og viðurgerningi sem ég hef gist. Ég var að rabba við einhvern heimamann um þetta hótel og var þá sagt að þetta væri nokkuð gamalt hús -- sögulega séð, en það hefði brunnið til kaldra kola einhvern tíma á síðari hluta aldarinnar sem leið. Þá var leyfð uppbygging á staðnum með öllum nútíma tilburðum og innréttingum að því tilskildu að framhliðin yrði á ný sem fyrr og til var á fjöldamörgum ljósmyndum og hugsanlega líka byggingateikningum frá því á dögum iðnbyltingarinnar eða hvað þetta nú var.
Ef málin í Reykjavík eru komin í þá ófæru að endilega þurfi að hafa listaháskóla í þeirri andnauð og aðkomuþrengslum sem einkenna miðjan Laugaveginn gæti þetta kannski verið sáttaleiðin og með því myndi kassasafn verðlaunatillögunnar heldur fríkka ef eitthvað er. Hafa óbreytta framhlið en allt gert upp á nýtt á bakvið -- og það má þá vera ljótt.
En megintillaga mín er sú að listaháskóla og hátæknisjúkrahúsi verið fundinn aðgengilegri staður heldur en þeim útnára sem táknaður er með tölunni 101.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2008 | 11:20
Rödd skynseminnar
Sé eftir því að hafa ekki nennt að horfa á kastljósssamtal þeirra Ólafs og Helga um daginn. Mér var nóg boðið þegar spyrillinn -- sem leyfði viðmælanda sínum sjaldnast að ljúka heilli setningu -- virtist telja það borgarmálefni hvort borgarstjóranum þættu teikningarnar af listaháskóla við Laugaveg sýna ljót hús.
Þar hefði ég í Ólafs sporum verið fljótur að svara, borgarmálefni eða ekki -- mér finnst það sem ég hef séð af þessum teikningum sýna framúrskarandi ljótt kassasafn.
Þess utan set ég stórt spurningarmerki við hvaða erindi Listaháskóli Íslands á við helstu verslunargötu borgarinnar. Þó hún sé kannski fáfarin nema á örfáum sólardögum sumarsins, og þá einkum af túristum erlendum og íslenskum, er það samt eina hlutverk hennar að vera verslunargata. Mér finnst rödd Sigmundar Davíðs eina rödd sæmilegrar skynsemi í þessu efni: gamli bærinn á að vera kofasafn handa þeim að skoða sem hafa mestan áhuga á originölum og aborginölum og reyna að gera sér í hugarlund hvernig það muni hafa verið að vera á dögum fyrir hundrað árum.
Mér finnst listaháskóli við Laugaveg samskona tímaskekkja og ranghugsun og að setja aðalsjúkrahús landsins niður í jaðri Vatnsmýrarinnar.
Hvort tveggja á að fá að standa þar sem það hefur meira frelsi og víðáttu í kringum sig í stað þess að verða enn til að stífla þegar rennslistregar umferðaræðar borgarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2008 | 11:59
Gott að hann rumskaði
Mikið var nú gott að talsmaður minn skyldi rumska og ætli að rabba við risana.
Undanfarið hef ég bloggað dálítið um þessi mál og einmitt undrast að ekki skuli haldið betur utan um þau fyrir okkar hönd, neytendanna.
Kannski talsmaður neytenda fari þess á leit við dagblöðin að þau birti daglega rammaklausu á áberandi stað um bensínverð dagsins ásamt heimsmarkaðsverði og gengi á sama tíma.
Það gæti líka hjálpað okkur að ákveða hvar við ætlum að kaupa eldsneyti þann daginn.
Í morgun var ég á rölti um bæinn minn og átti leið fram hjá öllum eldsneytissölunum þremur hér í bæ. Ég sá enga samkeppni þar í auglýstu eldsneytisverði.
![]() |
Olíufélög boðuð á fundi um verðmyndun gagnvart neytendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2008 | 18:43
Kynferði eða kynlíf
Hvenær á að hætta að rugla saman kynferði (ætt, uppruna, tegund) og kynlífi (kynmökum?
Þetta er ruglingslegt orðalag og teprulegt, álíka vitlaust og þegar sagt er að einhverjir (einkum unglingar) séu farnir að stunda kynlíf þó þeir hafi álpast til að gera do do einu sinni eða tvisvar á ævinni.
![]() |
Umræða um kynferðismál Íslendinga oft skrýtin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.7.2008 | 15:50
Upp og niður legginn
Stórum hefði mér þótt þetta meiri frétt hefði aumingja maðurinn fallið upp!
Þetta er svolítið álíka eins og þegar fólki er skipað að setjast niður. Eina leiðin til að setjast upp er ef maður er út af liggjandi.
Ég hef líka séð og heyrt talað um að fólk krjúpi niður. Ætli það sé hægt að krjúpa upp?
Í einhverju blaðanna í dag er talað um konu sem refur beit í fótlegginn á. Eða eitthvert dýr, næstum örugglega ekki hvítabjörn. Varla hefur þessi skepna verið með réttu ráði ef hún hefur reynt að glefsa í harðasta hluta fótarins, þ.e. legginn, fótinn framanverðan milli ökla og hnés þar sem á flestu fólki er sosum ekki nema skinnið á beininu. Nær hefði verið að glefsa í kálfann, en svo heitir fóturinn aftanverður á þessu sama svæði.
Eða -- getur verið að fréttin hafi verið þýdd úr ensku? Í því máli er orðið leg notað fyrir það sem við köllum bara fót.
![]() |
Féll niður þrjá metra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2008 | 12:13
Gredda olíufélaganna
Sá smáklausu djúpt inni í Mogga í morgun að eldsneytisverðið hefði lækkað um svo sem túkall einhvern tíma seint í gær. Svo seint að það var ekki komið inn á heimasíður amk. Ób og Atlantsolíu um það leyti sem ég setti inn blogg í gær um eldsneytisverð.
Nú þegar þetta er skrifað er olíutunnan í $ 124,44 skv. CNN, en samkvæmt Landsbankanum er gengið enn að síga svo við getum víst ekki vænst þess að eldsneytið lækki meira en um túkallinn í bili.
En mér finnst gredda olíufélaganna í að hækka eldsneytisverðið á augabragði eftir öllum hugsanlegum forsendum svo svívirðileg, ekki síst miðað við tregðu þeirra að lækka aftur þegar þessar hugsanlegu forsendur færast í þá átt, að
ég legg til
að dagblöðin öll hafi sérstakan daglegan ramma á útsíðu, já, forsíðu þess vegna, þar sem tilgreint er heimsmarkaðsverð á olíutunnu t.d. kl. 21 kvöldið áður, ásamt því verði sem olíufélögin tilgreina sem verð á sjálfsafgreiðslu frá dælu á sama tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.7.2008 | 21:23
Olían niður fyrir 125 dollara tunnan
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2008 | 14:04
Olíutunnan í $ 126,8 -- en ekkert lækkar hér!
Light, sweet crude oil for September delivery fell $1.57 to $126.85 a barrel in electronic trading on the New York Mercantile Exchange.
The September contract became the so-called front-month contract as the August contract, which fell $3.09 to settle at $127.95 in the previous session, expired Tuesday. Oil futures contracts typically expire with seven trading days left in the month.
Oil has tumbled nearly $21 since setting a record of $147.27 just eight trading days ago on July 11. Prices have not been this low since June 5.
Þessu hér að ofan er bísað frá CNN. Olíutunnan komið í $126.85 og hefur lækkað um 21 dollar síðan samráðslausu olíufélögin hér ruku til fyrirvaralausrar stórhækkunar í síðustu viku -- sem þau lækkuðu síðan lítillega aftur í tvo daga en hækkuðu svo á nýjan leik aftur án þess að fótur væri fyrir.
Dollarinn er búinn að vera á svipuðu róli núna í nokkra daga, svo ekki er hátt eldsneytisverð hér genginu að kenna.
Fylgist þið með bensínverðinu á netinu og gerið ykkur far um að taka eldsneyti þar sem það er ódýrast, ef þið mögulega getið komið því við. -- Það er einkum ob.is sem mér finnst ómaksins vert að fylgjast með núna þessa dagana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008 | 18:09
Ekki lækkar eldsneytið enn
Var að lesa að eldsneytisverð á heimsmarkaði hefði lækkað um fimm dollara og níu sent í dag og stendur nú í $ 125.95.
Ekki hefur eldsneyti lækkað í verði hér, samkvæmt skyndikönnun á netinu.
Neinn gefur að vísu ekki upp neitt eldsneytisverð. Manni kemur það líklega ekkert við.
Þó er gengið mjög svipað og í gær.
Fyrir fáeinum dögum sagði forsvarsmaður eins olíufélagsins að krafan" væri sú að verðbreytingar á eldsneyti erlendis kæmu tafarlaust fram hér.
Ætli það eigi bara við um verðbreytingar til hækkunar? Og ég spyr enn eins og ég gerði þá: Krafa hvers?
Eru allir orðnir dofnir fyrir þessu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.7.2008 | 15:48
Nú hlær mín (bensíndæla?)!
Nú sitja menn (ath: karlmenn og/eða kvenmenn) hjá olíufélögunum með lappirnar uppi á borðum hjá sér og hlæja svo hallirnar hristast. Þeir eru nefnilega búnir að hækka eldsneytið aftur eftir fáeina tímabundna gæludaga" fyrir helgina og hækka verðið rækilega á nýjan leik -- og enginn fjölmiðill segir ba eða bú!
Ég átti leið fram hjá Atlantsolíudælum í morgun (þið vitið, yngsta olíufélaginu og þessu sem ætlaði svo sannarlega að skjóta samráðs"-furstunum ref fyrir rass!) og sá þá að bensínlítrinn var kominn yfir 170 krónur. Hafði þá lesið í einhverju blaði fyrr um morguninn að olíufatið væri rétt rúmlega 130 dollarar en hafði verið 143 dollarar þegar verst lét í vikunni sem leið. Og gengið -- jú, það er svona í hærri kantinum í dag en samt ...
Fimmtudag og föstudag í liðinni viku hafði verið veisla í eldsneytismálum með tímabundinni tilboðslækkun meðan verið væri að berja 5-7 krónu hækkun á lítranum ofan í landsmenn. Ég náði einni fyllingu fyrir 164,10 kr. lítrann
Ég fór á netið að skoða. Sem fyrri daginn fann ég ekkert verð á heimasíðu Neins, en fyrr frýs í neðra en að þeir séu lægri en hinir. Orkan (þið vitið, aðeins ódýrari!) var með mörg verð frá 169 krónum upp í 172,10, ódýrast í Hreðavatnsskála. Shell -- ég meina Skeljungur -- sagði algengasta verðið í sjálfsafgreiðslu (sem er eins og á hinum stöðunum) 173,70, Olís sama og allt eins. Atlantsolía gefur upp 172.20 eins og ÓB nema ÓB er með 168,90 á Nýju sendibílastöðinni (hvar sem hún er), 169,10 í Borgarnesi, 170,20 í Bæjarlind og 170,60 á Akranesi.
Ég nenni ekki að elta ólar við dísilinn. Hann virðist yfirleitt vera 15-20 kr dýrari. Maður er farinn að þakka fyrir að vera bara á þokkalega sparneytnum jepplingi með bensínvél.
Einu sinni tíðkaðist máltækið nú hlær mín!" Sumir bættu þar við óprenthæfu orði. Átt var við að nú væri skrattanum skemmt.
Ætli það geti ekki á við núna?
Hvernig var með verðsamráðið forðum dag? Var það nokkuð verra en þetta metnaðarlausa samkeppnisleysi eldsneytisfélaganna -- sem birtist í tíeyringum, peningi sem ekki er lengur til í okkar lasburða(?) krónukerfi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar