Færsluflokkur: Dægurmál

Höfðingleg fjölskylduhátíð í Bifröst

Háskólinn í Bifröst bauð til fjölskylduhátíðar á föstudaginn var, 18. júlí. Tilefnið var að nú stendur yfir afmælisár í Bifröst, 90 ár liðin nú í haust síðan Samvinnuskólinn var settur í fyrsta sinn snemmvetrar 1918, en Háskólinn í Bifröst telur sig beina framlengingu af Samvinnuskólanum sem fluttur var frá Reykjavík í Bifröst árið 1955. Skólastofnun hefur þetta óslitið verið alla tíð frá 1918 og á sem slík 90 ára afmæli í ár, þó menn geti svo skemmt sér við að pexa um hvort háskóli í Grábrókarhrauni geti státað af þeim aldri.

0807180017

Víst er um það að Háskólinn í Bifröst hélt þessa fjölskylduhátíð af rausn og höfðingskap sem sómi var að. Valin dagskrá svo þétt skipuð frá kl. 11 til 16 að ógerningur var að höndla það allt, allra síst fyrir þá sem þurftu að hressa upp á gömul kynni við aðra gesti og staðinn sjálfan. Ekki veit ég um fjölda þeirra sem þarna komu við en allir voru velkomnir og látnir finna það, meira að segja álfamær á fagurbláum skautbúningi höfð til að knúsa gesti að skilnaði jafnóðum og þeir létu úr hlaði. Sem gamall heimamaður beggja megin borðsins hafði ég þá aðfinnslu helsta að ekki skyldu fleiri gamlir Bifröstungar leggja leið sína í gamla skólastaðinn sinn undir Grábrók þennan íðlfagra sólardag í júlí. Þarna var gaman að koma og ferðin þess virði.

0807180089

Gífurleg uppbygging hefur átt sér stað í Bifröst undanfarin ár og það svo að gamlir heimamenn vita ekki einu sinni hva aðalinngangurinn er lengur. En sjá má kunnuglegt sjónarhorn ef horft er neðan úr hrauni heim að gamla skólastaðnum.

0807180019

Hér í eina tíð hefði þótt sérstakur lúxus að geta farið í rútu í útivist. En núna bauð Sæmundur Bifrastarvinur upp á skutl á gömlu Ford-rútunni sinni frá 1947 út að vatni eða niður að Glanna svo menn gætu tölt til baka. -- Ég var ekki einn um að hafa gaman af að fá smátúr á rútu af þessu tagi -- þeirri einu sem eftir er sinnar gerðar, mas. með V8 bensínvélinni (sem líklega er heldur óhagkvæm nú um stundir).

0807180006

Sagt var um Sæmund að hann hefði kvenhylli nokkra og það hefur ekki elst af honum. Ef vel er gáð má sjá að hann hefur fengið stimpil upp á það á hægri kinn -- og kannski líka á þá vinstri.

0807180062

Þar sem áður var hlaðið utan við eldhúsgluggana og mjólkurbílarnir komu og fóru er núna komið Háskólatorg umlukt byggingum á alla veg svo vindar ná þar tæpast á blása. Á fjölskylduhátíðinni voru þar sölu- og sýningaborð þar sem fólk seldi handverk sitt eða þær eigur sem annars hefðu lent á Flóamarkaði eða í Kolaportinu.

0807180039

Af fjölmörgum atriðum hverju öðru betra var kannski hátindurinn þegar frumflutt var Bifrastarlag eftir Jóhann G. Jóhannsson (árg. 1965) við texta Jónasar Friðriks (árg. 1966). Lagið var flutt í núverandi aðalsal skólans sem heitir Hrifla og þótti sumum við hæfi að útsetjari lagsins og stjórnandi og undirleikari sönghópsins sem lagið flutti skyldi vera Jónas -- það er að segja Jónas Þórir. Sönghópurinn er skipaður völdum karlaröddum og heitir enda Voces Masculorum -- ætli það þýði ekki bara karlaraddir? Altént voru þetta góðar karlaraddir en viðstaddir skemmtu sér við að spá í hvort þetta væri tvöfaldur kvartett eða átta manna karlakór. Og eins og sjá má að neðan var þetta alvöru fjölskylduhátíð og börnin gleymdust ekki.

0807180033

0807180073

Þegar komið er í Bifröst er alltaf freistandi að koma niður að Glanna og jafnvel í Paradís. Á báðum stöðum hefur ferðamannaaðstaða nú verið bætt og þess má sjá stað á myndinni frá Paradís, sem verður lokaþáttur þessa pistils.

0807180083


Rósemi, ást og sátt við stað og stund

Kannski er hinn eini raunverulegi tilgangur með því að raða á sig bloggvinum sá að hafa þá ekki fleiri en svo að hægt sé að fylgjast með þeim og því sem úr andlegum penna þeirra rennur (því sem þeir pikka inn á tölvuna, sem er miklu óskáldlegra orðafar). Þetta datt mér í hug í morgun þegar ég renndi yfir línuna og sá ma. hvað bloggvinkona mín Kvaran hafði sett inn hjá sér, línur úr Svantes lykklige dag, því yndislega kvæði sem angar af rósemi, ást og sátt við stað og stund.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að einhvers staðar þar sem ég var í kór á árunum áttum við að syngja íslenska þýðingu á kvæði þessu, sem mér þótti fjarri því að ná upprunalegum anda þess. Og af því ég get yfirleitt allt sjálfur betur en aðrir settist ég við og þýddi ljóðið upp á nýtt með réttum anda, að mér fannst. Ekki fékk það samt náð fyrir augum kórstjórans sem böðlaðist áfram með bullið sem hann byrjaði með og ekki orð um það meir.

En núna í morgun, þegar Kvaran hafði litið út um gluggann hjá sér og séð að fuglarnir fljúga í flokk, finnist þeir margir nokk, sá hún ástæðu til að setja kvæði Svantes inn. Sem varð mér ástæða til að bísa því frá henni og gera það líka -- en láta fyrst fara mína eigin þýðingu þó hún sé nokkuð komin til ára sinna, eins og ég sjálfur. Og eins og á þýðingunni sést taka skáldþýðendur sér skáldaleyfi nokkurt rétt eins og skáldin sjálf, ef það gerir gæfumuninn til þess að halda réttum anda í verkinu. Og nú getið þið sjálf borið saman, gerið þið svo vel.

                     

  Svantes lykklige dag 

 í norrænni samvinnu  

Ó hvílík árdagsstund,

yl varpar sól um grund,

Nína mín brá sér í bað,

brauð smyr ég nýbakað.

Lífið er ekki sem verst yfirleitt,

innan skamms er kaffið heitt. 

Sko þennan blómaskóg,

skríður þar könguló.

Fuglarnir fljúga í flokk,

finnist þeir margir nokk.

Lífið er ekki sem verst yfirleitt,

innan skamms er kaffið heitt. 

Blágresið bylgjast hljótt,

býflugan suðar rótt,

kyrrðinni anda ég inn,

angan af blómum finn.

Lífið er ekki sem verst yfirleitt,

innan skamms er kaffið heitt. 

Konan mín kát í dag

kyrjar í baði lag.

Himininn heiður og tær,

hann var það líka í gær.

Lífið er ekki sem verst yfirleitt,

innan skamms er kaffið heitt. 

Nú kemur Nína prúð,

nakin með raka húð,

kyssir á kinn mér og fer

að klæðast og greiða sér.

Lífið er ekki sem verst yfirleitt,

og nú loks er kaffið heitt.          

"Svantes lykkelige dag" 

Se, hvilken morgenstund.
Solen er rød og rund.
Nina er gået i bad.
Og jeg spiser ostemad.
Livet er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

 

Blomsterne blomstrer op.
Der går en edderkop.
Fuglene flyver i flok
når de er mange nok.
Lykken er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

 

Græsset er grønt og vådt.
Bierne har det godt.
Lungerne fråser i luft.
Åh, hvilken snerleduft!
Glæden er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

 

Sang under brusebad.
Hun må vist være glad.
Himlen er temmelig blå.
Det kan jeg godt forstå.
Lykken er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.

Nu kommer Nina ud,
nøgen med fugtig hud,
kysser mig kærligt og går
ind for at re' sit hår.
Livet er ikke det værste man har
og om lidt er kaffen klar.
  


Krafa hvers eða hverra?

Ánægjulegt að sjá þegar orð eru skemmtilega notuð eins og í þessari fyrirsögn. Um leið og heimsmarkaðsverð hækkar er snarast til að hækka útsöluverð á bensíni hérlendis. Sama á hvaða verði það var keypt.

Niðurlag fréttarinnar er á þessa leið:

„Margir velta oft fyrir sér af hverju olíufélögin hækka um leið og heimsmarkaðsverð hækki og spyrja sig hvort olíufélögin eigi ekki til bensín á gamla verðinu. Samúel svarar þessu: Krafan er einfaldlega sú að verð hérlendis endurspegli heimsmarkaðsverðið og því hækkar það og lækkar í takt við við breytingar á heimsmarkaði.“

Hér vantar ugglaust orð inn í, af hverju olíufélögin hækka útsöluverð hérlendis um leið og heimsmarkarkaðsverð hækki en þetta skilst. Það sem ekki skilst er svarið frá Samúeli hjá Olísi um þá „einföldu kröfu“ að útsöluverð hér endurspegli breytingar á heimsmarkaði. 

Og því má spyrja: krafa hvers eða hverra?

 


mbl.is Eldsneytisverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífdísill fyrir 65 krónur lítrinn

Vonandi gengur þetta allt vel. En man nokkur eftir kjötmjölsverksmiðjunni sem reist var í Flóanum og átti ma. að nýta til fullnustu allskonar sláturúrgang sem annars var bara urðaður með tilheyrandi mengun og umhverfisspjöllum?

Hvað varð um hana?

Það eru fleiri á þeim buxunum en Líforka að framleiða eldsneyti. Ameríkani að nafni Floyd Butterfield hefur í samvinnu við landa sinn Thomas Quinn búið til maskínu á stærð við sturtuklefa sem hver og einn á að geta keypt og sett upp heima hjá sér til að framleiða etanól á bílinn. (Quinn þessi mun hafa fundið upp og þróað hreyfiskynjarana sem notaðir eru í Nintento tölvurnar og á því nokkuð undir sér.) Efnið sem maður fóðrar etanólmaskínu þeirra Quinns og Smjörakurs með til að fá eldsneytið er sykur og vatn, fyrir utan einhvers konar hvata sem þeir hafa fundið upp og búa til sjálfir og maður verður að kaupa frá þeim. En með þessu móti, og með því að nota úrgangssykur sem enginn vill éta og er sagður fást á góðu verði hjá sykurframleiðendum kvað lítrinn af etanólinu kosta um það bil 20 krónur.

Þeir hjá Líforku ættu líka að rabba við Green Fuels í Stóra-Bretlandi sem framleiðir svokallaðan Fuelpod handa almenningi til að framleiða lífdísil ma. úr notaðri steikarfeiti/mataraolíu. Sögunni fylgir að ef maður verði að kaupa úrgangsolíuna sé lítraverðið á eldsneytinu fulltilbúnu um 65 krónur, en ef maður getur sótt n óg af henni í eigin eldhús dettur þessi tala niður í um 25 krónur.

Frá þessu er sagt í netútgáfunni af auto motor och sport í dag.


mbl.is Fita endurnýtt sem eldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir bangsar hvítir og sá þriðji svartur

Saga barst af því fyrr í sumar að mann nokkurn nyrðra hefði dreymt þrjá ísbirni sem hann réði fyrir komum þriggja bangsa til landsins. Því miður kann ég ekki draum hans allan né er viss um að ég hafi nokkurn tíma heyrt hann allan og veit því ekki hvort hann fékk vísbendingu í draumnum um afdrif bangsanna.

Varla var maður þessi vaknaður af draumi sínum þegar tveir bangsar hvítir fundust á Norðurlandi og fengu vasklegar en ekki að sama skapi gestrisnar móttökur. Þrátt fyrir mikla leit og margar vitranir hefur sá þriðji ekki enn komið í ljós. . .

. . .nema að segja megi að þriðji bangsinn hafi verið svartur og fundist í Reykjavík þar sem höfð voru snör handtök með hann og hann sendur suður til Ítalíu af því hann hafði ekki frekar en þeir tveir hvítu pappíra sína í lagi. Hann var ekki skotinn á staðnum þannig séð en kannski sendur aftur þangað sem líklegt væri að fyrir honum færi sem böngsunum hinum tveimur.

Ég veit ekki um aðra en mér er þannig farið að ég vildi gjarnan að bangsinn sá hinn svarti ætti endurkomu auðið til landsins með sæmilegum (les=sæmandi) móttökum og þætti mér þá að nokkru bætt bjarnavígin nyrðra.

 


Landmótunar- hvað?

Sem nýútnefndur „háaldraður málfarspertvert“ hlýt ég að mega spyrja:
Hvað er þetta landmótunarstaðs?
Með kveðju
H.M.Sigurður
mbl.is Farið yfir skógræktarsvæði við Hafnarfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagur til lukku!

Skrýtið hvað maður getur ruglast á dögum. Allan daginn í gær fannst mér vera laugardagur. Og svo er aftur laugardagur í dag! Sosum í lagi, laugardagur er til lukku.

Verra var að ég ruglaðist á dagsetningu fyrir þjóðhátíðardar Kanada í gær (sbr. næst-stíðasta blogg mitt) og gaf Kanadamönnum þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna. Þar var ég líklega tveimur dögum of seinn. Annars sýnist mér þegar ég gúggla þetta að Kanadamönnum sé ýmist helgaður 2. júlí eða 1. júlí. Svo mér er kannski vorkunn með þetta rugl.


Hvers vegna -ferðis-?

Ég geri mér ljóst að ég flokkast með þeirri gerð bloggara sem Hildur Helga Sig. kallar „háaldraða málfarsperverta“ -- gott ef ég má ekki bara undirskrifa sem slíkur með upphafsstöfunum H.M.  En -- ég var að hlusta á hádegisfréttirnar, ma. um hákskólakennarann sem kærður er fyrir að hafa haft kynferðismök við börnin sín og vini þeirra.

Til hvers er verið að skjóta þessu „ferðis“ þarna inn. Hafði maðurinn ekki einfaldlega kynmök við blessuð börnin?

Hvernig væri að fletta því upp hvað „kynferði“ þýðir?


Að gera sér glaða nótt

4. júlí. Hlýtur að vera þjóðhátíðardagur Kanada. Einhverra hluta vegna minnist ég hans alltaf með hlýhug síðustu 41 árið. Eða frá því við Kristján heitinn Magnússon vorum að þvælast í Montreal á þessum degi árið 1967.

Við unnuð þá saman á Vikunni og fórum í erindum hennar á heimssýninguna (Expo 67) sem þetta ár var haldin í Montreal. Lærðum að bera nafn borgarinnar fram nánast eins og það er skrifað með áherslu á síðasta atkvæði en ekki sem Montríol eins og starfsmaður Pan Am á Íslandi sem seldi okkur flugfar á staðinn ásamt gistingu. Þetta með flugfarið stóðst til hálfs en gistinguna alls ekki en það kemur 4. júlí ekkert við.

Það sem kemur 4. júlí við er að við Stjáni fórum um kvöldið út að borða með starfsfólki íslensku deildarinnar á sýningunni. Tókum síðustu lest heim í gististað nema hvað á skiptistöðinni þar sem við þurftum alltaf að skipta um lest voru allir reknir út - lestarnar hættar að ganga í dag.

Gott og vel. Þá bara að taka leigubíl. Við höfðum svo sem gert það áður, í hina áttina að morgni dags þegar morgunlúr var í okkur af og til vikuna sem við vorum þar fyrir Vikuna. En þessa nótt, klukkan að ganga tvö, voru engir leigubílar sjáanlegir. Við spurðum einhverja innfædda sem flæddu um göturnar hvernig ætti að fá leigubíl og okkur var sagt að við gætum bara gleymt svoleiðis lúxus. Nú væri 4. júlí og leigubílstjórar væru að gera sér glaðan dag og nótt.

Þá voru bara postulahestarnir eftir og við rötuðum þetta sosum, bara dálítið langur gangur...

Klukkan um fjögur um nóttina vorum orðnir þyrstir en æði spölur eftir enn. Nú væri gott að geta sest og fengið sér eins og einn öllara. En allar ölgáttir voru læstar og lokaðar. Barþjónar eins og leigubílstjórar að gera sér glaða nótt. Það var líka alveg satt, á öllu þessu þrammi höfðum við ekki séð einn einasta leigara.

En Kristján var ekki bara snilldar ljósmyndari. Hann var líka tónlistamaður, píanóleikari af guðs náð. Og nú tóku píanótónar að berast okkur til eyrna. Stjáni stansaði og sperrti eyrun, nefndi tónverk sem barst okkur úr djassheimum og tók eins og ósjálfrátt stefnuna á hljóðið. Það var svo sem ekkert úr vegi fyrir okkur og nú stóðum við hjá húsinu, víst einar 40 tröppur þverbrattar ofan í kjallara og opnar dyr sem hljómarnir komu út um. Stjáni rann af stað niður tröppurnar og ég með hálfum hug á eftir honum, svona heitir víst trespassing í útlöndum.

En nú geri ég langa sögu stutta. Þarna var okkur tekið eins og við værum þeir sem beðið hafði verið eftir. Við fengum sæti og við fengum öl og kannski eitthvað fleira fljótandi og fast, ég man það ekki. Gleymt er þá gleypt er segir máltækið, og það eru komin 41 ár síðan þetta var. En allir vildur við okkur spjalla og létu sem við værum vildargestir en það er eins með það og aðrar veitingar að smáatriðin eru fyrnd, aðeins vinsamlegt heildarviðmótið lifir. En svo mikið fullyrði ég þó að Kristján galt beina okkur veittan í fríðu því hann settist við píanóið og lét tónana flæða einn eða með öðrum, við höfðu rambað á óformlegan djassklúbb og þarna átti hann marga sálufélaga.

Klukkan að ganga sjö um morguninn sá Kristján að hinn íslenski félagi hans var farinn að hengja haus og ramba út í morgunbirtuna af og til til að halda sér vakandi. Þá reis listanaðurinn upp frá píanóinu og sagði að nú væri mál að hafa heilagt, hverju ég samsinnti af alhug milli geyspanna, þó morgunsólin væri falleg í Montreal sem annars staðar. Hvar lifið þið í borginni? spurðu þarlendir og þegar þeir höfðu fengið svarið litu þeir hver á annan og sögðu en það eru einar fimm mílur þangað. Hann Nick er alltaf edrú, hann getur tekið ykkur þangað. Það voru víst afar ósannfærandi mótbárur sem þeir fengu. Svo mikið er víst að Nick var kominn með okkur í gamla Lettann sinn innan skamms og tók okkur þangað sem við gistum á vegum Air Canada sem hafði komið okkur til bjargar þar sem Pan Am skildi okkur eftir nánast í lausu lofti.

Gott var að skríða undir sængina þennan morgun, um það leyti sem við hefðum átt að vera að vakna og koma okkur til verka. En liðinn var eftirminnilegur sólarhringur sem gerir það að verkum að 4. júlí á alltaf dulítinn streng í hjarta mér og sama er að segja um minninguna um góðan dreng og vinnufélaga árum saman, Kristján Magnússon.


Hver á lofttegundakvótann?

Á dögunum var kveinað yfir því að íslensk flugfélög yrðu eins og önnur að kaupa sér kvóta fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, þó við hér norður í hafi getum ekki komist til annarra landa né frá þeim aftur öðru vísi en fljúgandi eða þá siglandi, en skipin skila víst ekki minni gróðurhúsalofttegundum en flugvélarnar.

Eitt hefur þó fari fram hjá mér í þessari umræðu. Hver á allan þennan kvóta? Hvar er hann til sölu? Hver fær endurgjaldið fyrir hann og hvað verður gert við það?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 306576

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband