Færsluflokkur: Dægurmál
19.8.2008 | 12:45
Lélegt blogg
Í gær bloggaði ég í hálfkæringi um sérlega illa skrifaða frétt af mbl.is um blessaðan barnaumingja sem hafði verið fluttur á sjúkrahús í Ísrael. Ekkert um það hvaðan það var flutt, ekki einu sinni að það hefði verið flutt til innan lands í Ísrael. Á þetta blogg fékk ég óvenju mikla lesningu og jafnvel athugasemdir með allra flestra móti. Gallinn var bara sá að þeir sem athugasemdirnar gerðu skildu engan veginn hvað ég var að fara með bloggi mínu.
Sem minnir á grundvallarregluna sem mér og skólafélögum mínum (nota ekki orðskrípið samnemendum") var kennd þegar ég var að nema próffræði forðum dag. Hún var eitthvað á þessa leið: Ef hægt er að misskilja spurninguna/verkefnið verður það gert.
Ég tók mikið mark á þessari grundvallarreglu meðan ég þurfti að semja próf -- en nú læt ég mér þetta sosum í léttu rúmi liggja. Niðurstaðan af blogginu í gær er bara enn ein staðfesting reglunnar. Það er hægt að gera svo vond próf að allir falli.
Einn athugasemdargjafinn, Árni Sigurður, lét þess raunar getið að þetta hefði verið afar lélegt blogg hjá mér. Satt að segja er ég sammála.
18.8.2008 | 18:08
Hvar?
![]() |
Fyrirburi fannst á lífi í líkhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.8.2008 | 15:10
Olían í $ 112.10
Erum við enn að borga heimsmarkaðsverð $ 147?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.8.2008 | 11:09
Yarisar innkallaðir í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi
Í ljós hefur komið að í sumum bílanna hefur safnast upp raki með tilheyrandi ryðmyndun undir gólfteppunum og það vilja ráðamenn Toyota í þessum löndum ekki una við og óska nú eftir að fá þessa bíla til skoðunar. Í þeim bílum þessara gerða sem ryð er farið að myndast verður það lagfært, jafnvel þó það kosti nýja botnplötu, segja fréttirnar frá Noregi.
Það má gott teljast ef þessi galli hefur ekki komið fram í samskonar bílum á Íslandi eða Færeyjum og Danmörku. En samtals verða það 25.739 norskir Yariseigendur sem fá bréf með boði um að koma með bíla sína til skoðunar af þessum sökum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2008 | 18:21
Undir höndum aðila
Jamm, það er bara svona. Það er týndur aðili. Eða kannski er aðilinn alls ekki týndur. En það er náttúrlega grafalvarlegt ef aðilar tilkynna sig týnda og eru svo kannski bara aðilar með allt sitt á þurru.
Nú er bara að vona að aðilinn lendi ekki undir höndum aðila.
![]() |
Leit hætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2008 | 11:47
Þarf heildstætt umhverfismat á veginn
Eins og vanalega þegar eitthvað bjátar á í umferðarmálum er fyrsta og helsta lausnin sem snillingunum dettur í hug að lækka umferðarhraðann. Raunar örlaði nú á skilningi á því hvað það hefur í för með sér í því sem samgönguráðherra sagði í sjónvarpinu í gær, að það kallaði á meira og dýrara umferðareftirlit því ökumenn láta ekki endilega segja sér að ekki megi keyra sæmilega greitt á beinum og sléttum vegi. Og með þeim gildandi vikmörkum frá tilskipuðum hámarkshraða gæti lækkun hámarkshraða á spottanum milli Hveragerðis og Selfoss skilað ágætum sektarhagnaði í gegnum eflda hraðagæslu.
Satt að segja er illskiljanlegt að taka þennan kafla ekki fyrir til tvöföldunar á undan sjálfri Hellisheiðinni, miðað við þær slysatölur sem flaggað hefur verið síðustu daga. Kannski er þess krafið að vegabætur á þessari leið fari í heildstætt umhverfismat, bæði til að auka kostnaðinn við vegagerðina og til þess að tryggja að slysin fái að vera óáreitt nokkur ár í viðbót.
Rödd skynseminnar í þessu máli kemur úr penna Framsóknarmannsins Bjarna Harðarsonar, bók- og kaffisala á Selfossi. Ég sé ekki betur en þær tillögur sem hann kemur með á bloggi sínu (bjarnihardar.blog.is) séu raunhæfar, tiltölulega ódýrar og framkvæmdir við þær m.a.s. nýst meira eða minna þegar og ef vegurinn verður einhvern tíma tvöfaldaður þarna. En það gengi náttúrlega guðlasti næst að nýta gott ef það kemur úr framsóknarkjafti svo við verðum áfram að una við hraðafasisma og/eða slys á þessum kafla.
Og þetta með hraðann: Jeppinn, sem notaður var eins og billjardkúla í slysinu í fyrradag, hefur tæplega verið á 80-90 km hraða eins og látið hefur verið liggja að, því hann var nær eða alveg kyrrstæður þegar sendibílspútan kom aftan á hann.
![]() |
Segir boltann nú hjá Vegagerðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 19:52
Að nýta sér matarholurnar
Efnaminni fjölskyldur nýta sér síður frístundakortin sem eiga að vera til að gera börnum kleift að stunda félagslegt tómstundastarf á vegum Reykjavíkurborgar, án tillits til efnahags foreldranna.
Það skyldi þó ekki vera svo að skýringin sé að einhverju leyti hin sama og skýringin á því hvers vegna amk. sumar þessara efnaminni fjölskyldna eru efnaminni?
Manni dettur í hug að þær séu ekki eins vakandi fyrir þeim útispjótum sem hægt er að hafa í lífsbaráttunni og hvernig hægt er að nýta sér matarholurnar.
Hugsanlega er það viss lífsstíll að endar nái sjaldnast saman hjá sumum, meðan aðrir gera furðulega mikið út litlu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2008 | 16:34
Laus sæti í gönguferð
Nú þegar sumri tekur að halla fer maður að skoða hvað er í boði til að lengja sumarið. Það er nokkuð síðan það hætti að tíðkast hér á bæ að fara til sólarlanda þegar sólin er heldur sig fríviljug hér á norðurslóðum og í rauninni hvergi betra að vera en hér og jafnvel helst bara heima hjá sjálfum sér, glampandi sólskin flesta daga og loftið svo tært að unun er að anda því að sér. Og hér erum við í fullu fæði og á kvöldin bíður svo gott ból með sæng til að breiða ofan á sig, ekki bara einhverja tusku eins og tíðkast í sólarlöndum.
En sem sagt, nú þegar farið er að skoða hvað er í boði kemur í ljós að það eru aðallega sæti. Meira að segja er manni boðið sæti í gönguferð einhvers staðar austur í löndum. Verst er þó þegar boðin eru laus sæti í flugferð, jafnvel svo langri að hún tekur bróðurpartinn af heilum vinnudegi eða meir. Lái mér hver sem vill, en ég vil heldur að sætið mitt sé fast þegar ég er ólaður ofan í það inni í einhverju röri sem síðan hefur sig til flugs og þeytist með mig yfir hálfan hnöttinn.
En skítt með gönguferðasætin og jafnvel lausu sætin. Hitt þykir mér verra að tilgreind verð í glæsiferðirnar séu jafnan miðuð við verð á mann í fjögurra manna fjölskyldu þar sem helmingurinn er 2-12 ára. Hversu hátt hlutfall ferðalanga, einkum á veturna meðan nefndur helmingur er meira og minna bundinn í skóla, ætli falli í þennan flokk? Meira að segja Blað allra landsmanna sem býður áskrifendum sínum kostakjör í svona ferð hangir í þessari vitleysu -- ég segi ekki beinlínis verðfölsun en satt að segja finnst mér það í rauninni næstum vera svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2008 | 12:19
Hversu bloggheimskir geta menn orðið?
Bloggvinir eru nokkuð sem ég geld varhug við. Ég vil ekki hafa þá fleiri en svo að ég nái almennilega að fylgjast með þeim og vita hvað þeir eru að fjalla um og gerði mér auk þess strax að reglu að þeir væru ekki laumupúkar og huldumenn. Þykist ekki vera þannig sjálfur og ætlast til að þeir sem ég hef regluleg samskipti við þori líka að gangast við sjálfum sér.
Þeir sem sent hafa mér bloggvinabeiðnir undanfarið -- sjálfur kann ég ekki að bera mig til við slíkt -- hafa orðið að þola höfnun af minni hálfu en ég hef líka reynt að gera þeim ljóst hvers vegna hún er, sem er fyrst og fremst að listi minn yfir slíka vini er þegar of langur.
En kveikjan að þessum pistli er sú að nú fæ ég slíka beiðni frá nafnleysingja sem auk þess kýs að fela sig bak við hundshaus. Og ekki einu sinni hægt að senda honum skýringu á höfnuninni í athugasemd, því hann gefur ekki kost á slíku. Ekki einu sinni gestabók.
Hversu bloggheimskir geta menn orðið?
7.8.2008 | 11:41
Ekki einu sinni 5-aura brandari
Olían heldur áfram að lækka, skv. heimasíðu CNN Money, og stendur í þessum skrifuðum orðum í 118,58 dollurum tunnan.
Við búum enn við eldsneytisverð síðan tunnan stóð í 147 dollurum -- að vísu með nokkrum víxlbreytingum á verði, en langt frá samsvarandi prósentulækkun og þetta heimsmarkaðsverð sýnir.
Og samkeppnin hér innanlands kemur fram í 10-20 aura verðmismun -- mynteiningu sem ekki er lengur til í íslenska krónukerfinu!
Þetta er ekki einu sinni 5-aura brandari.
Í mbl.is segir reyndar (gæti það verið komið frá einhverju olíufélaginu?) að olían hafi hækkað um dollar í morgun. CNN tekur undir það að svo hafi farið þegar markaðir opnuðust austu í Asíu fyrst í morgun, en síðan gengið til baka. Og einhverra hluta vegna kemst ég ekki inn með fréttinni til að blogga um hana út frá fyrirsögninni, og þá verður bara að hafa það.
Höldum áfram að fylgjast með eldsneytisverðinu, bæði innan lands og utan. Okkur er málið skylt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar