Færsluflokkur: Dægurmál

Hvorki út og suður né norður og niður

Fyrir 51 ári og nærri fimm mánuðum betur voru fyrstu nemendurnir brautskráðir frá Samvinnuskólanum í Bifröst. Áður hafði hann starfað 37 ár í Reykjavík. Tíðkast hefur að skilgreina árgangana frá Bifröst eftir árinu sem þeir brautskráðust; þessir fyrstu nemendur í Bifröst eru samkvæmt því árgangur 1957. Þeir minntust dvalar sinnar í Grábrókarhrauni með því að láta taka saman heimildakvikmynd um skólastarf í Bifröst frá upphafi til okkar dags; höfundur hennar er Gísli Einarsson Út og suður.

0807180019

Mynd Gísla var frumsýnd - að vísu með nokkrum tæknilegum erfiðismunum - á 50 ára afmælishátíð Hollvinasamtaka Bifrastar - áður Nemendasambands Samvinnuskólans - sem haldin var í Bifröst á laugardaginn var. Eins og önnur mannanna verk myndi mynd þessi þola nokkra endurbót en er þó markverð um margt, einkum það hve vel hún sýnir fram á að ef ekki hefði komið til breyting (þróun) skólastarfs í Bifröst hefði farið fyrir staðnum eins og fór fyrir héraðsskólum landsins, svo og kvennaskólum og húsmæðraskólum, sem lögðust af og byggingarnar sem eftir stóðu urðu víða að draugabyggð sem fúkkalyktin var í mesta lagi viðruð úr yfir sumarið til að hýsa túrista.

Ég þarf ekki lengi að rifja upp mínar eigin hugmyndir um breytingar á skólastarfi í Bifröst til að vita að ég gerði mér ekki ljóst hvernig einmitt þær gera það að verkum að ég á enn í dag erindi við skólastaðinn þar sem minn gamla námsstað og síðar vinnustað.

Þó ég hefði gert mér aðra hugmynd um það hvernig þessi minningamynd Gísla og árgangs ´57 yrði og að þar yrði að finna fleiri heimildir frá eldri tíma er ég henni feginn að því leyti að hún gefur mér nýja sýn á það hvernig og hvers vegna það var nauðsynlegt að gamli verslunar- og félagsmálaskólinn sem ég þekkti sem slíkan varð að verða að svara kalli tímans og taka breytingum eins og hann hefur til allrar guðslukku gert.

0807180090

Myndin er ekki út og suður. Því síður norður og niður. Einna helst upp og fram.

En hreint minningalega átti ég von á fleiri og skýrari skotum frá fyrstu árum skóla í Bifröst. Ég man eftir því að Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari tók þar á 16 mm kvikmyndavél nokkurn vísi að heimildamyndum um starf Samvinnuskólans í Bifröst - á þessum tíma hét þetta alltaf í Bifröst en virðist nú hafa breyst í á Bifröst - og mér finnst ég muna eftir þessum filmubút á kennarastofunni þegar ég starfaði þarna í upphafi áttunda áratugarins. En sá bútur hefur ekki fundist enn. Ef einhver veit um hann, eða aðrar kvikmyndir, merkilegar eða ómerkilegar, frá skólastarfinu í Bifröst meðan skólinn þar hét ennþá Samvinnuskóli, væri gott að fá að vita af því.

Því lengi má gott bæta.


Mishreint mjöl

Það er varla von að þessum blessuðum manni verði mikið ágengt í að leita sér hælis, ef hann þarf að sitja á annan sólarhring á berangri í því helliregni sem verður hefur á suðvesturhorni landsins síðustu sólarhringa áður en hann hefur burði til að leita sér skjóls.

Ekkert hefur komið fram um það hvað bar hann að Íslands ströndum eða undan hverju hann er að leita hælis frá Íran. Maður getur giskað á að það sé klerkaveldið. Og ég er ekkert hissa á því að hann skyldi vilja fá aurana sína aftur, en þeir munu hafa verið teknir til handargagns þegar yfirvöld landsins tóku loks á sig þá rögg að kanna mjölið í pokum hælisleitendanna, það mun hafa verið mishreint. Og mér finnst hann hefði átt að fá til baka amk. það af aurunum sem sannanlega -- eða líklega -- var sá skerfur sem „við skattgreiðendur“ höfum lagt í vasa hans dag fyrir dag þann tíma sem hann hefur setið hér ókannaður.

Svo ætti hann að gleðjast yfir því að loks væri verið að gera eitthvað í málum hans.


mbl.is Hælisleitandanum ekið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmæður og sprúttsalar

Þegar nærkonur landsins krefjast þess að staðið sé við gamalt fyrirheit um að menntun þeirra sé metin að verðleikum er það kallað krafa um hærri laun. Sem kannski er tvær hliðar á sama peningi en þó stigsmunur á: ef ég vil fá hærri laun bara af því ég er orðinn leiður á þeirri hungurlús sem ég fæ er það krafa um hærri laun, ef ég vil fá meira fyrir vinnu mína af því ég hef orðið að leggja meira á mig til að afla mér þeirra réttinda sem þarf til að stunda hana er það leiðrétting en ekki launahækkun og hann Gvendur á Eyrinni sem ekkert hefur gert til að bæta getu sína og auka færni á engan rétt á leiðréttingu út á mína menntun. 

Sem sagt: Þó yfirsetukonurnar fái menntun sína viðurkennda í launum er engin ástæða til að það sama gangi yfir allan skala. Í gömlu starfsmati stóð að starf ljósmóður og afgreiðslumanns í vínbúð væri metið að jöfnu. Nú fær engin að verða ljósmóðir, nærkona eða yfirsetukona án þess að hafa 6 ára menntun til þess að baki -- gildir hið sama um sprúttsala ríkisins?

Og enn um ljósmæður: í útvarpinu í gær 11.09.09 fór fréttamaður í heimsókn á Fæðingardeild LHS. Í inngangi fréttarinnar sagði hann að svo og svo mörg börn hefðu fæðst síðan verkfall ljósmæðra hófst kvöldið áður -- ætli þau hafi verið 12? -- og bætti svo við að þar að auki væri fimm konur í fæðingu.

Hmm? Voru konur í fæðingu? Ef fimm konur voru þá stundina að fæða voru fimm börn í fæðingu. Og þó það hefðu allt verið stúlkubörn var of mikið að segja að fimm konur væru í fæðingu. Hvítvoðungarnir eiga allnokkurn þroskaferil eftir áður en þeir geta kallast konur.

En vonandi er viðunandi samningur við ljósmæður landsins í fæðingu.


Ég mælist til

 

að hætt verði að tala um menn og konur eins og þetta séu tvær dýrategundir.

Dýrategundin heitir menn. Kvendýrið heitir kona, karldýrið heitir karl.

Ef þess arna væri almennt gætt væri strax í stað stigið gott skref fram á veg til að losna við ákveðna tegund kvenrembu sem að mínu viti er til orðin vegna þess að konum finnst þeirra vegur minni en karla í almennri umræðu. Sem út af fyrir sig er eðlilegt ef notkun orðanna er ekki rétt eða ekki nógu markviss.

Ef konu er gert ljóst í almennri umræðu að hún er maður rétt eins og karlinn hlýtur hún bara af því einu að verða sáttari við hlutskipti sitt.

Getum við ekki sæst á þetta, karlar og konur?


Að „senda skattgreiðendum reikninginn“

Eitt af því sem pirrar mig er þegar lærðir og leikir (les: fjölmiðlamenn og nöldrarar) staðhæfa að opinberir aðilar geri eitt og annað á kostnað skattgreiðenda eða „sendi skattgreiðendum reikninginn“ þegar eitthvað er gert fyrir opinbert fé.

Þetta hefur ekki síst verið uppi núna þegar ráðherrar og annað forstandslið skemmtir sér við að þeysast hnöttinn á enda (eða hálfa leiðina kringum hann) og hafa maka sína með sér. Þá er gasprað um að þeir geri þetta „á kostnað skattgreiðenda“.

Vissulega er það gert fyrir opinbert fé. En hafandi verið skattgreiðandi í skratti mörg ár og vera enn að greiða skatt af lífeyrinum mínum, sumir segja öðru sinni, er ekki laust við að þetta orðalag kverúlantanna ergi mig því ég hef aldrei fengið aukareikning þó dándimenni þjóðarinnar hafi kosið að leggja land undir fót. Þannig að ég sem skattgreiðandi borga mína skatta og ekki hót fram yfir það, þrátt fyrir dagpeninga dándiliðsins. Skatta mína hef ég borgað til samfélagsins og ekki eyrnamerkt þá til sérstakra nota í því efni, né heldur tekið fram að þá megi ekki nota til tiltekinna verkefna. Ég beygi mig undir að þeir ráðstafi fénu sem meirihluti þjóðarinnar hefur til þess kosið, iðulega í trássi við minar óskir í því efni.

Þar fyrir utan þykir mér heldur betra að þetta fólk búi ekki eins og beiningamenn þar sem það fer í nafni þjóðarinnar.


Líkar ekki svona kverkatak

Vegna endurtekinna kvartana hefur verið tekið fyrir að þú
getir bloggað um fréttir á mbl.is.

Kveðja,
blog.is
Þetta er inntakið í lokabloggi bloggvinkonu minnar Helgu Guðrúnar 
Eiríksdóttur sem kallaði sig blekpenna á blogginu. 
Það er sem sagt búið að loka á hana af því hún kom einhvers 
staðar við kaun. Vissulega er hún málhress og oft djörf í 
framsetningu máls síns, en fjandi eru sumir hörundsárir.
Ég man ekki eftir því að ég hafi fengið neinar viðvaranir þegar ég 
fór að blogga á mbl.is né hef ég fengið neina viðvörun þó ég 
hafi sett fram mál mitt skírt og skorinort, eins og Helga Guðrún.
Ætli hún hafi fengið viðvörun?
Helst vildi ég fá dæmi um það hvað ekki má, ef maður má eiga 
von á því að fyrir mann sé skrúfað fyrirvaralaust og þegar mann 
órar síst fyrir -- kannski af því einhverjum kónum úti í bæ mislíkar 
þær skoðanir sem maður setur fram, þó strengilega sé tekið fram 
með hverju bloggi ef ég man rétt að þær séu einkaskoðanir og 
Mogganum gersamlega óviðkomandi.
Ég er ekki viss um að mér líki svona kverkatak.

Æmt undan klukkinu

Helga Guðrún klukkaði mig. Hér koma viðbrögð mín við því: 

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

* Landbúnaðarstöf

* Ritstörf

* Kennsla

* Bílakstur

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

* Shning

* As good as it gets

* Zorba the Greek

* Johnny English

Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:

* Mosfellssveit

* Mosfellsbær (Reyndar sami staðurinn en skipti um nafn og er raunar ekki þekkjanlegur fyrir hinn sama.)

* Reykjavík

* Borgarfjörður

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

* Hamslausar húsmæður (Desp. housewifes) 

* Út og suður (stundum)

* Veðurfréttir (stundum)

* Top Gear

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

* Danmörk

* Þýskaland

* Grikkland

* Spánn

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

* mbl.is

* money.cnn.com

* ?

* ? 

Fernt sem ég held uppá matarkyns:

* Ofnsteikt lambalæri

* Lax úr Salad Master potti

* Glænýr þorskur með roði steiktur (soðinn?) í eggjahræru með lauk

* Flestallir sjávarréttir

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

* Jón Steingrímsson: ævisagan

* KN: Kvæði

* Guðmundur Kristinsson: Til æðri heima

* Eiríkur á Brúnum: Eiríkur á Brúnum

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

 * Helga R. Einarsdóttir

* Sæmundur Bjarnason

* Guðni Þorbjörnsson

* Baldur Kristjánsson

Hafi þeir þegar verið klukkaðir svara þeir samkvæmt því.

 


Þegar -i ríður baggamuninn

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður er ólétt. Þetta kom fram í Mogganum í gær. Til hamingju með það, Ragnheiður Elín, ég er viss um að þetta verður fallegt barn. Og það eru viss forréttindi að fá að fæðast miðaldra foreldrum. Það þekki ég af eigin reynslu.

Annars er þetta sosum ekkert merkilegt. Kona hefur fyrr orðið ólétt. Þá er hún barni aukin, eins og sagt var á penu máli hér áður fyrr. Það sem kemur mér til að blogga um þetta er orðalagið í myndatexta mogga. Þar stendur að Ragnheiður Elín gangi með barni.

Ehm -- það geri ég raunar líka þegar færi gefst. Sérstaklega núna þegar yngsta barnabarnið mitt er að taka sín fyrstu spor en hefur ekki enn fundið kjarkinn til að gera það óstudd. Og satt að segja þykir mér afskaplega gaman að hjálpa henni að kanna heiminn með þessum hætti. En ég hef ekki líffræðilega möguleika á að verða barni aukinn. Með ítrustu hótfyndi mætti segja að ég gæti orðið óléttur en mér er eindregið ráðlagt að bæta ekki við þyngdina. Það mætti líka segja að ég gæti gengið með barn, ef ég tæki það á handlegginn. En það orðalag -- rétt fallbeyging orðsins barn -- er þó viðurkennt um það ástand konu að vera barni aukin.

Merk kona skammast í bloggi sínu út í þá áráttu sumra -- kannski ekki síst mína -- að vera að fárast yfir röngum fallbeygingum. Eru þær eru stundum svo álappalega vitlausar að það er ekki hægt að halda kjafti. Eins og þetta um ólétta konu, að hún gangi með barni. Eða eins og þekktur maður hafði iðulega fyrir orðtak, að þetta og þetta riði baggamuninum.

Þarna er það einmitt þetta litla -i aftan á orðinu barn sem ríður baggamuninn.


Miðaldra kona í framboði vestra

Kona sem myndi heita Sara Pálína ef nafnið hennar væri hljóðþýtt á íslensku er nú í framboði til varaforseta í Bandaríkjunum og nokkuð heit með að hljóta þá tign. Hún er 44 ára.

Æskudýrkun Vesturlanda kallar hana unga konu. Ég tel að hún sé miðaldra.

Engu lakari fyrir það og vafalaust hinn besti kvenkostur.

Um þetta er ugglaust deilt. En að mínu viti er 35 ára gamalt fólk ekki ungt fólk lengur. Það er miðaldra.

Þegar Íslendingar verða 60 ára teljast þeir hæfir í samfélag aldraðra. Eða eldri borgara hjá þeim sem ekki vilja kannast við að vera farnir að reskjast.

Hvað erum við? Börn fram að tvítugu? Ung fram til 35 ára? Miðaldra til sextugs? Gömul (öldruð, eldri borgarar) úr því?

Þannig finnst mér þetta vera í grófum dráttum. En Sara Pálína getur engan veginn talist ung kona.


Er ekki 7. sæti bara nokkuð gott?

Er ekki 7. sæti á Ólympíuleikum bara nokkuð gott með svona kjaftás fyrir þjálfara?
Ég spyr bara af því ég hef ekki vit á þessu frekar en öðrum íþróttum. En er bara nokkuð ánægður með að Íslendingum tókst að koma í veg fyrir að Frakkar ynnu silfrið.
mbl.is Wilbek hefur fundið skýringuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband