Færsluflokkur: Dægurmál

Að fallbeygja mannsnafnið Rut

Einn af betri bloggurum landsins sendi frá sér geðillskulegan pistil -- ætli það hafi ekki verið í gær -- þar sem hann -- eða hún, af því bloggarinn er kona -- frábiður sér vangaveltur um íslenska málfræði og fallbeygingar sérstaklega, ekki síst frá afdönkuðum blaðamönnum og birtir pistil af heimasíðu BÍ sem er fullur af sláttuvillum (óvönduð vinnubrögð, satt að segja) til sannindamerkis um að blaðamönnum farist ekki að gagnrýna óvönduð vinnubrögð annarra.

Það þarf svo sem ekki lengi að lesa blöð -- eða hlusta á ljósvakamiðla -- til þess að finna mýgrút dæma um óvönduð vinnubrögð í framsetningu íslensks máls. Blaðamenn, dankaðir eða afdankaðir, eru upp til hópa þverskurður af málsamfélaginu öllu.

Ég gat ekki að mér gert að taka þennan bloggpistil til mín, því ég hafði áður skotið athugasemd að konu þessari þar sem ég vildi láta hana fallbeygja mannsnafnið Rut (jú, konur eru líka menn og bera því mannsnöfn), sem hún hafði látið óbeygt þar sem það hefði átt að vera í eignarfalli.

Ég hef fengið sendingar til Sigurðar Hreiðar sem augljóslega hefðu átt að fara til Sigurðar Hreiðars.

Nefndur bloggari má alveg búast við því að ég haldi áfram að nöldra í henni (hefði ég átt að segja bögga hana?) ef mér sýnist tilefni til. Eins og ég nöldra í öðrum af sama tilefni.

Annar bloggari geipaði um smámunasemi í íslensku máli og tileinkaði þann pistil „háöldruðum málfarspervertum“ sem ég á þeim tíma tók líka til mín og taldi mér raunar til tekna, hef gjarnan titlað mig sem slíkan síðan og þykist heldur betri fyrir bragðið.

Þessa stundina langar mig að beina þessum sérstæða „pervertisma“ að tilteknum orðasamböndum sem virðast vera að negla sig gjörfasta í íslenku máli.

1) Mannleg mistök. Spurning? Eru til mistök sem ekki eru mannleg?

2) knýr [farartækið] áfram. Spurning: Hver skollinn knýr það þá afturábak?

3) Ég vaknaði upp í rúminu mínu í morgun. Spurning: hvers vegna upp? Er ég þá ekki orðinn uppvakningur?

4) Ég tek ofan hattinn [fyrir tilteknu athæfi]. Spurning: Hvers vegna hattinn? Er ekki nóg að taka ofan?

Læt þetta duga í bili. Þess má þó geta að ég er ekkert of góður til að nota allskonar slanguryrði sem eru að laumast inn í málið. Stend mig að því að segja ókei oft og iðulega, þegar mér finnst það eiga við - og skammast mín sosum ekkert fyrir. Skil nú orðið hvað það er að „bögga“ (sjá hér að ofan) en hef enn ekki fundið út hvað það þýðir að dissa og tjilla. Læt mér það svo sem í léttu rúmi liggja af því mér hefur ekki orðið orða vant án þeirra.

Að lokum: Ég læt mér nokk í léttu rúmi liggja þó ég reki augun í það sem eru augljósar sláttuvillur.


Vængbrotið flugtak

Margir eftirminnilegir menn hafa orðið á leið minni gegnum lífið. Sumir fyrir ágæti sitt, aðrir fyrir sérkenni sín.

Í morgun rifjaðist upp fyrir mér maður sem við skulum kalla PP.

Ég var þá að vinna við fyrstu vinnuskálana í Reykjalundi, þá sem tóku við af bröggunum þar sem starfsemin hófst upphaflega. Ég veit ekki hvort PP var líka að vinna við þá eða eitthvað annað á Reykjalundi, en sennilega ætti orðið vinna að vera í gæsalöppum „“.

Hann „kom uppeftir" eins og það var kallað þá að koma frá Reykjavík til Mosfellssveitar síðdegis á mánudag eða þriðjudag, eftir því hvernig helgin hafði verið. Átti fleti í vinnumannaskála sem var um það bil þar sem efsti hluti bílastæðisins er núna og í því dvaldi hann þaðan í frá svo sem fram að hádegi á föstudag. Þá mjakaðist hann úr fletinu til að ná rútunni klukkan þrjú í bæinn aftur.

Ég sá hann aldrei vinna - né heldur taka á móti launaumslagi, svo gætt sé fyllstu sanngirni. Og hann hefði ekki komist upp með þetta háttalag hefði hann ekki átt föður á staðnum, ágætan og starfsaman iðnaðarmann sem - svo enn sé gætt fyllstu sanngirni - hafði áhyggjur og ama af háttsemi sonar síns.

Ég kynntist PP aðeins af því mér þótti gott að fleygja mér í autt fleti þarna í skálanum sem yfirleitt var þunnskipaður þegar ég var búinn að borða í hádeginu. Stundum reyndi PP að senda mig eftir einhverju handa sér að éta, en mér fannst hann bara geta borið sig eftir því sjálfur.

Einhvern tíma hafði tíkin Táta, hunda blíðust og prúðust, elt mig í vinnuna að morgni og til þess að tryggja að hún biði mín til vinnuloka skaut ég henni inn í skálann til PP og skipaði honum að gæta þess að hún færi ekki út fyrr en ég kæmi. Svo smurði ég nokkrar brauðsneiðar í hádegismatnum og færði tíkinni þegar ég fór í hádegishvíldina mína.

En viti menn, þegar ég lagði brauðmetið á gólfið handa tíkinni færðist óvænt líf í PP. Hann stökk fram úr rúminu, sem var þrekvirki þegar hann átti í hlut, hrifsaði matinn af hundinum og hafði góflað honum í sig áður en ég eða tíkin næðum að reisa rönd við. Þetta mun hafa verið á fimmtudegi og líklega hafði PP ekkert étið eftir að hann „kom uppeftir" eftir síðustu helgi.

Eitthvað iðjaði hann þarna í fleti sínu en hvað veit ég ekki nákvæmlega, nema að hann fékkst við að yrkja ljóð og þau órímuð, eins hafði farið að tíðkast þá fyrir nokkrum misserum. Ég laumaðist í ljóð PPs einhvern tíma í mánudagshádegi meðan hann var enn við helgariðju sína í Reykjavík og einhvern veginn festist eitt ljóða hans í minni mínu þennan dag og situr þar enn:

Ég reyndi að hugsa um þig/ en gat það ekki/ -- því hver sú hugsun sem hóf sig á loft/ vængbrotnaði í flugtakinu/ og nauðlenti á rúmstokknum.


Líklegur til að borga skuldir sínar

Kannski hefur hann þótt full líklegur til að geta borgað sínar skuldir ef hann fengi að hafa afnot af vélunum áfram, þó ekki væri nema út umsaminn gjaldfrest.
mbl.is Lamaður bóndi sviptur sérbúnum vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegt í höndum illmennis

Skemmtilegar athugasemdir við síðasta blogg mitt rifjuðu upp fyrir mér dálítið atvik sem nú er að vísu orðið nokkurra ára, en það sem þar gerðist ætla ég að hefði alveg eins getað gerst á því ári sem nú er sem óðast að líða. Má eiginlega segja að þarna hafi ég komist næst því að lenda í vopnaskaki við nokkurn mann.

Fyrir fáum árum fór ég í stutta utanferð við þriðja mann. Far­ang­ur var lítill: nauðsynlegustu nærplögg til skiptanna, axlataska með tveimur mynda­vélum, smá­­segul­­bandstæki og hlutum þeim tengdum, snyrtiskjóða með tannbursta, rak­vél og öðru snyrtidóti, saumadóti til að geta tyllt á sig tölu ef þyrfti, höfuð­verkja­töfl­um og ein­hverju þannig smádóti, öllu saman í lítilli handtösku svo ekki þyrfti að setja í innskráðan farangur, enda fyrirhugað framhaldsflug til Mallorka með millilendingu í Malaga eftir næturgistingu í Frankfurt.

Við hefð­bundið eftirlit í Keflavík var ég látinn kannast við tösku mína og leidd­ur að borði þar til hliðar. Nú rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði ekkert tekið til í snyrti­skjóðunni eftir síðustu utanferð þar sem skjóðan hafði verið tösku sem þá fór í innskraðan far­angur, og sennilega væri ég með í henni minnstu gerð af „Sviss army" sjálfskeiðungi sem ég hef þar yfirleitt til ýmissa þæginda, með blaði ca 4 sm löngu, litlum skærum, tannstöngli og flísatöng.

Starfsmaður vopnaeftirlitsins sagði að ég myndi vera með hníf í farangrinum. Ég leitaði í snyrtiskjóðunni, fann strax naglaþjöl úr stáli, ca 12-13 sm langa. Hana greip starfsmaðurinn og gerði upptæka. Ég leitaði meira að honum ásjáandi án frekari árang­­urs. Þá tók hann skjóðuna, lokaði henni og fór með hana aftur á færibandið til gegn­umlýsingar. Kom með hana á ný og krafðist þess nú að fá að skoða í myndavéla­töskuna, sem ég lét honum að sjálfsögðu heimilt. Hann skoðaði í hana vand­lega, gegn­um­lýsti hana aftur, kom svo með hana og sagði mér að skoðun væri lokið og mér óhætt að fara mína leið.

En ég var svo viss um að ég væri þarna einhvers staðar með minn smákuta að þegar ég hafði stund aflögu eftir komuna á hótelherbergi í Frankfurt tók ég snyrti­skjóð­una og hvolfdi öllu úr henni. Viti menn: þar var ekki aðeins einn hnífur eins og ég hef að framan lýst heldur tveir - og önnur naglaþjöl sömu gerðar og tekin hafði verið af mér í Leifsstöð.

Hefði ég munað eftir því að þessir hlutir voru í skjóðu minni hefði ég, með tilliti til þess að ég var nú aðeins með handfarangur, skilið alla varhugaverða hluti eftir heima. En mér er fremur sárt um hnífa mína og vildi auk heldur ekki standa í frekara stappi af því tagi sem orðið hafði um morguninn, svo ég setti þessi vopn öll þrjú í umslag þarna í Frankfurt og sendi sjálfum mér heim með pósti.

Í rauninni þótti mér slælegt að mér skyldi sleppt í gegn með allt þetta vopnabúr. Nema starfsmanninum hafi ekki sýnst ég líklegur til stórræðanna. Þó held ég að ég hefði ekki hugsað öllu meira um það ef ekki hefði annað komið til -- í bakaleið.

Á Frankfurtflugvelli var ekki síður ströng leit á heimleið. Meira að segja var mér gert að taka upp úr utanávasa á buxum mínum vegabréfið mitt og blaða í því til sannindamerkis um að þar væru engin eggjárn falin. Því meiri varð undrun mín þegar kona nokkur skáhallt fyrir framan mig í flugvélinni tók skömmu eftir flugtak naglaþjöl upp úr pússi sínu -- nákvæmlega samskonar þjöl úr samskonar eðalstáli sýndist mér og tekin hafði verið af mér í Leifsstöð -- og lagaði með henni neglur sínar vel snyrtar af og til alla leiðina heim. Lengi lá þjölin á borðinu fyrir framan hana og ég hugsaði að nú myndi þjónustulið vélarinnar taka þetta hættulega tæki til handargagns, en á endanum stakk konan þjölinni niður hjá sér aftur eins og ekkert hefði í skorist.

Um þetta skrifaði ég sýslumanninum í Keflavík bréf. Ekki vegna eftirsjár eftir naglaþjölinni minni, heldur vegna þess að þetta tvennt - að ég skyldi komast með alla mína skelfilegu hluti til Frankfurt, og að konan skyldi komast með sitt hroðalega vopn frá Frankfurt - vakti með mér efasemd um gagnsemi leitarinnar í hinum ýmsu flughöfnum.

Þess verður að geta að sýsli svaraði mér skriflega og kurteislega að öll þessi mál væru í endurskoðun og athugun. Síðan hef ég farið nokkrar flugferðir og ávalt gætt þess að vera ekki með vopn af nefndu tagi í handfarangri en leyft mér að vera með tannstöngla og jafnvel kúlupenna sem aldrei hafa vakið sérstaka tortryggni þó hvort tveggja gæti verið stórhættulegt í höndum illmennis. En ég það sem ég hef séð til samferðafólks og frétt af öðrum er ekki til þess fallið að vekja mér sérstakt traust á eða samúð með þessari svonefndu vopnaleit.

Tel enda að það sé lítt hryðjuverkahamlandi að láta menn rífa af sér buxnahöld sín frammi fyrir langri röð áhorfenda eða fara á sokkaleistunum í gegnum málmleitarhlið. Eða hella niður sjampóinu þeirra.


Segir lítið um landið

Slæm landkynning fyrir Ísland, segir blessuð konan sem varð fyrir því óláni að Iceland Express vildi ekki fara í loftið með bilaða flugvél fulla af fólki.

Fyrir mitt leyti er ég himinlifandi yfir því að þeir sem taka að sér að koma okkur í loftköstum milli staða, innanlands eða milli landa, skuli taka sér þann tíma sem þarf til að halda flugvélunum i flugfæru standi. Það er nefnilega svoleiðis með flugvélar, að það er ekki hægt að stöðva þær bara úti í kanti þar sem þær gefast upp á ferðalaginu.

Þar fyrir utan segir það lítið um eitt land til eða frá hvernig þeir standa sig sem fljúga með fólk til þess og frá því.


mbl.is Sólarhringsbið á Kastrup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir alla aldursflokka

Þá er bæjarhátíð Mosfellsbæjar að bresta á enn eitt árið. Eins og það er stutt síðan í fyrra. En dagskráin er vönduð að vanda og full með áhugverð atriði úti og inni og það fyrir alla aldursflokka.

Líkt og í fyrra verða nokkrar ljósmyndir mínar til sýnis í bás FaMos, félags aldraðra í Mosfellsbæ, og þar verður jafnframt verðlaunagetraun þar sem gestir eiga að þekkja nokkur myndefni úr bænum. Þetta mæltist mjög vel fyrir í fyrra og básinn okkar var vel sóttur þá, verður vonandi enn í ár.

Tek hérna forskot á sæluna með tveimur myndum sem hugsanlega verða í básnum -- ekki fullvíst samt ennþá því endanleg uppstilling verður ekki fyrr en í kvöld eða á morgun.

0805120015

0808260013

Sláttuvillur í pistlinum lagfærðar kl. 16.27


Plokkum pakkið allt saman

Heimsmarkaðsverð á olíunni heldur áfram að hækka -- er á skrifandi stund $116,27 -- svo olíufurstarnir geta setið makráðir á skrifstofun sínum og skellt saman lófunum og sungið hæ hæ gaman gaman, plokkum helvítis pakkið allt saman! Gott ef ekki gengið er líka sígandi svo þeim gengur allt í haginn. Það eru víst fellibyljirnir í Amríku sem ráða olíuverðinu og svo heyrði ég í útvarpinu í dag að það væru ekki nema sex mánuðir eftir af fellibyljatímabilinu á þessu ári -- og það eru ekki nema fjórir mánuðir eftir af almanaksárinu…

Málkunningi minn hjá Atlantsolíu hringdi í mig um daginn til að reyna að láta asnann mig skilja hvað upp sneri á (eldsneytis)krónunni. Ég skildi það helst að ástæðan til þess að Atlantsolía og Skeljungur eru núna í samkrulli er sú að þegar Atlantsolía fór af stað í öndverðu tókum við neytendur henni svo vel að birgðageymarnir reyndust of litlir, svo það varð eitthvað að gera til að þurfa ekki að setja skilti á allar dælur um að eldsneytið væri einfaldlega uppselt fram að næstu skipakomu. Hann benti líka á að Atlantsolía hefði aldrei orðið fyrst til að hækka eldsneytisverð frá dælu og ég er ekki í standi til að rengja það. Hann sagði líka að ef Atlantsolía hefði ekki verið til á þessum síðustu og verstu misserum hefði almennt eldsneytisverð frá dælu hækkað örar og meir en þó varð því þrátt fyrir allt væri AO visst aðhald fyrir hina furstana og ég er heldur ekki í standi til að rengja það. En hlakka til þegar AO er búin að koma upp nægilega stórum geymum til að vera sjálfri sér næg. Því þá verður ugglaust gaman að lifa.

Þangað til prísa ég mig sælan að vera á tiltölulega neyslugrönnum jepplingi.


Hvar er nú seifing Æsland?

Skólar eru að hefjast. Sum börn eru að hefja skólagöngu sína, önnur eru að fara í skólann aftur -- eftir sumarfrí.

Núna í vikunni datt litprentaður bæklingur úr dagblaðabunkanum sem ég hirti upp af forstofugólfinu.

Fyrirsögn hans: Back to school. Hann reyndist vera frá versluninni name.it. Hann auglýsti skólafatnað handa börnum. Íslenskum, skyldi ég halda, a.m.k. var honum dreift á Íslandi.

Inni í honum var annar minni bæklingur heftur, líka frá name.it. Aftan á honum stóð: Thank you for buying with your head and your heart.

Ég segi nú bara: Guð minn almáttugur! Er andi Megasar og Toyota farinn að smæla framan í skólaæskuna líka?

Hvar er nú Seifing Æsland?


Hagsmunatengslin bremsa

Stundum er blogg mitt tekið upp í dagblöðunum sem tíðka það að vitna í blogg. En það er aldrei gert þegar ég blogga um eldsneytisverð á Íslandi, sem ég hef þó gert með haldbærum rökum.

Ég álykta að þetta stafi af hagsmunatengslum útgefenda og olíufélaga.

Alveg eins og samtök atvinnulífsins láta aldrei í sér heyra um álagningu/verðlagningu olíufélaganna, né þá undarlegu áráttu þeirra að hækka eldsneytisverð alltaf samtímis um sömu krónutölu (munar kannski einhverjum tíeyringum, mynteiningu sem ekki er lengur til í peningakerfi okkar) og þá sjaldan verðið er lækkað að lækka það um krónu öll samtímis. Innan atvinnulífsins eru tengslin við olíufélögin og náin og/eða samið um svo góða afslætti af eldsneyti að það væri ekki ómaksins vert að styðja hinn almenna neytanda í baráttu hans fyrir betra verði.

Hver er álagning olíufélaganna í prósentum talin? -- Talsmaður Neins sagði í DV í fyrradag að það væri ekki hægt að reikna það.

Tilkostnaðurinn hefur aukist gífurlega, segja olíufélögin. Að hvaða leyti? Megum við fá tilgreind ákveðin dæmi? Stenst sá aukni kostnaður á við aukna álagningu þeirra?

Því verður sennilega aldrei svarað. Því þau kunna ekki að reikna út álagningu sína.


Olíufélögin kunna ekki að reikna út álagningu sína

Nú í sumar hef ég bloggað nokkrum sinnum um tregðu olíufélaganna til að lækka eldsneytisverð hérlendis þegar heimsmarkaðsverð lækkar, þó þau bíði varla til kvölds með hækkun þegar heimsmarkaðsverð hækkar. Ég hef líka bloggað um hve merkilega litlu munar á útsöluverði eldsneytis milli hinna mismunandi olíufélaga nú þegar maður skyldi ætla að dagar hins eiginlega olíusamráðs séu að baki.

FÍB hefur margoft bent á að olíufélögin eru drjúg að hækka álagningu á eldsneytisverði en fjölmiðlar og líklega almenningur allur hefur skipulega látið þessa ábendingu sem vind um eyru þjóta. Nú tekur Félag kúabænda í sama streng og FÍB, reiknar dæmið út fyrir sig og kemst að sömu niðurstöðu, olíufélögin maka krókinn með hærri álagningu og nota heimsmarkaðsverð og fallandi gengi sem skálkaskjól.

Þá loks tóku fjölmiðlarnir, útvarp, sjónvarp og blöð, dálítið við sér en gerðu sér að góðu og kokgleyptu þá patentskýringu olíufélaganna að fjármagnskostnaður sé svo svakalega mikill. Án þess að spyrja hver hann væri. Öll nema reyndar DV sem spyr forsvarsmenn olíufélaganna nokkuð út úr og fær að vita að FÍB og kúabændur kunni ekki að reikna og fái þar af leiðandi þá vitlausu niðurstöðu að álagning olíufélaganna hafi hækkað um 23% á síðustu 12 mánuðum. Hve mikið hefur hún þá hækkað, spyr blaðamaður DV og fær svar frá Neinum: það er ekki hægt að reikna það út.

Og stjórnarformaður Neins hefur ekki einu sinni kynnt sér tölurnar!

-- Getum við skipt við olíufélag sem getur ekki reiknað út hver álagning þess er?

Við viljum að olíufélögin segi okkur hvaða kostnaður það er sem hefur hækkað svona gífurlega og færi okkur neytendum rök fyrir því hvers vegna við eigum að borga þennan kostnað, sem þau hafa þá stofnað til fyrir okkar hönd. Og við viljum að þau segi okkur hver álagning þeirra er.

Nú tilkynnir Neinn að þeir þurfi að hækka verð á metangasi á farartæki um 4,4% af því það hafi endurbætt afgreiðslustöð sína fyrir metangas á Bíldshöfðanum. -- Eiga neytendur að borga hærra verð fyrir vöru þegar einhver seljandi lagar aðstöðu sína til að selja hana? Hmmm?

Og ég er hættur að furða mig á og ergja mig á að Atlantsolía skuli nú síðustu mánuðina spila algjörlega með „stóru strákunum" og hafa algjörlega brugðist því upprunalega ætlunarverki sínu (í orði kveðnu) að veita þeim aðhald og vera neytendum hagstæðari í verði. Ég hef nefnilega fengið upplýst að Atlantsolía kaupir ekki lengur inn sitt eldsneyti sjálft heldur kaupir allt af Skeljungi.

Hvað á ég nú til bragðs að taka, Búkolla mín?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306575

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband