Færsluflokkur: Dægurmál
19.4.2009 | 13:53
Skáld af hauðri horfið
Undarlegt hvað hlutirnir geta skekkst og brenglast í meðförum. Dæmi um það eru alþekkt í örnefnum, sbr. Kálbógrávatn í S-Þing og Grádogg í Mosfellssveit. Reyndar er Grádogg nú komin undir Reykjavík eins og mestur syðsti hluti Mosfellssveitar sem var.
En þetta er líka í söngtextum. Nýlega fékk ég í hendur tónsett ljóð Tómasar Guðmundssonar um hana Dagný, ljóð sem byrjar svona: Er sumarið kom yfir sæinn.
Tvö síðari erindi ljóðsins voru skrifuð svona -- set það með skástrikum þar sem línuskil eiga að vera, því ég kann ekki að skrifa ljóð á bloggið:
Og saman við leiddumst og sungum
með sumar í hjörtunum ungu,
- hið ljúfasta, úr lögunum mínum,
ég las það í augunum þínum.
Þótt húmi um hauður og voga,
mun himinsins stjörndýrð loga
um ást okkar, yndi og fögnuð,
þótt andvarans söngrödd sé þögnuð.
Nú bar svo við að þarna voru komin brjóst í staðinn fyrir hjörtu. Einneginn Ég sá það í augunum þínum.
Líka: Og húmi um heiðar og voga. Sennilega af því að kynslóðirnar sem nú eru miðaldra eða yngri vita ekki hvað hauður er.
Verandi maður nútímans skaut ég þessu undir dóm Gúggls frænda í Netheimum, en einnig þar var hver ambagan gjarnan látin ríða annarri. Svo nú skýt þeg málinu til bloggvina skráðra og óskráðra: Í hvaða bók Tómasar Guðmundssonar er þetta ljóð að finna? --Þá get ég kannski flett því upp og vitað hvernig Tómas heitinn vildi hafa þetta. Skáldið sjálft er því miður af hauðri horfið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2009 | 15:21
Að biðja Guð að hjálpa sér
Forlátið mér þó ég sé dálítið með böggum hildar yfir því hvað ég á að kjósa á laugardaginn. Eða hvort ég á yfirleitt að kjósa. Mér finnst í sjálfu sér meira prótest felast í því að kjósa alls ekki -- fara ekki á kjörstað -- heldur en fara á kjörstað og skila auðu. Það finnst mér í sjálfu sér vesældómur.
Ég tók því tveim höndum að fara inn á kosningakompás mbl.is og svara þar spurningum sem eiga að sýna mér hvaða framboði ég á helst samleið með. Gerði það eins og ég hafði best vit á og viti menn: Niðurstaðan var sú að ég ætti helst að kjósa framboð sem ég mun aldrei kjósa vitandi vits.
Kompás þessi er að mér skilst byggður upp eftir því sem forsvarsmenn framboðanna hafa lagt áherslu á í málflutningi sínum. Sem í flestum tilvikum er, að mér virðist, það sem þeir álíta að helst muni vænlegt til að afla framboðum þeirra fylgis. Og forlátið mér enn þó ég sé mjög beggja blands um það hvaða hugur fylgir þar máli. Því þegar allt kemur til alls er alveg sitt hvað að gaspra í stjórnarandstöðu og/eða kosningabaráttu eða haga sér með valdið og ábyrgðina í höndunum. Sjáið bara Steingrím Jóhann og kúvendingu hans gagnvart AGS. Eða hlustið á æpandi þögn Ögmundar eftir að hann komst til ábyrgðar.
Ég hef enn viku til að ná niðurstöðu í þessu efni. Á ég að segja vitrænni niðurstöðu? Mér hrýs hugur við því að fá aftur neyðarstjórnina sem ráðskast hefur hér síðustu vikurnar. Enn verra væri þó að fá aftur samkrull eins og ríkti vikurnar sem fallið átti sér stað síðast liðið haust.
Hvað er þá til ráða? Ástþór með sínum bægslagangi og offorsi? Guð forði mér. Og almennt séð: Ég held ég verði bara að treysta á þann síðastnefnda og að hann vísi mér veginn á laugardaginn kemur.
17.4.2009 | 10:25
Ætli við þurfum ekki að lækka lögleyfðan hámarkshraða
Það má mikið vera ef þessi niðurstaða verður ekki til þess að hafinn verður áróður fyrir því að lækka lögleyfðan hámarkshraða. Það hefur amk. verið helsta úrbótakrafa úr þessari átt í nokkra áratugi.
Í því sambandi ma. er athyglisvert að lesa að banaslysum fækkar ekki milli ára hjá Norðmönnum. Þar gildir lægsti lögleyfðu hámarkshraði á Norðurlöndum -- ef ekki allri Evrópu. Og því er fylgt eftir. Það er ekki ýkja langt frá Ósló svo til beint í austur að sænsku landamærunum. Í það eina skipti sem ég hef ekið þessa leið fór ég þar fjórum sinnum í gegnum hraðaeftirlit.
Skyldi geta verið að akstur með ábyrgð og aðgæslu skilaði færri slysum en það eitt að út af fyrir sig að aka svo hægt að það valdi syfju og sljóleika?
![]() |
Alvarlegum slysum fjölgar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.4.2009 | 19:43
Hvað er náttúruauðlind?
![]() |
Ekki megi selja auðlindir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2009 | 13:18
Landic poverty
![]() |
Landic Property óskar eftir greiðslustöðvun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2009 | 23:03
Hver kýs svona lið?
Hvers konar hugarfar er þetta eiginlega? Ósjálfbjarga dýri var bjargað án þess að biðja um sérstakt leyfi til þess og þess vegna skal það nú engu fyrr týna en lífinu.
Eru þau stjórnvöld sem þannig koma fram með öllum mjalla? Hver kýs eiginlega svona lið?
![]() |
Hóta að aflífa hreindýrskálf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2009 | 10:37
Er þetta rétt? Er þetta sanngjarnt?
Tvennt í þeirri efnahagsumræðu sem nú ríður yfir er þess eðlis að það vefst fyrir mér. Kannski fleira, en þetta tvennt er eftirfarandi:
1) Lánastofnun -- banki eða t.d. bílalánasjóður -- lánar tiltekna upphæð gegn veði í íbúð eða öðru verðmæti sem kaupa skal fyrir upphæðina. Sem sagt: lánastofnunin telur veðið fullnægjandi.
Greiðslufall verður og lánastofnunin gengur að veðinu, selur það (kaupir gjarnan sjálf) fyrir lægri upphæð en svarar eftirstöðvum lánsins eins og það stendur á þeim tíma. Lántakandinn er eftir sem áður krafinn um mismuninn að viðlögðu fjárnámi í öðrum eignum hans. Allar eftirstöðvar gjaldfelldar undir eins.
Ber lánastofnunin enga ábyrgð á því að það veð sem hún tekur sé það sem henni ber verði greiðslufall?
Er þetta rétt? Er þetta sanngjarnt?
2) Lánastofnun -- sbr. ofan -- lánar fé til fasteignakaupa. Upphaflega er miðað við ákveðna upphæð í íslenskum krónum en reiknað út samkvæmt gengi á tilteknum erlendum gjaldmiðli á þeim tíma sem lánið er tekið. Þetta er kallað gjaldeyrislán.
Spurning: kemur gjaldeyrir nokkuð við sögu í þessum tilvikum nema á pappírum? Fékk lántakandinn lánið í hendur í hinum erlenda gjaldeyri? Eða fékk hann það í íslenskum krónum? Eða fékk hann það alls ekki nema sem millifærslukvittun inn á reikning þess sem fasteignina seldi? Ef þetta síðasta er tilfellið, er þá hægt að segja að gjaldeyrir hafi nokkurn tíma raunverulega komið við sögu?
Hvernig sem þetta var -- var nokkurn tíma raunveruleg hreyfing á erlendum gjaldeyri í þessu sambandi?
Öll málefnaleg svör vel þegin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.4.2009 | 14:46
UMF Afturelding 100 ára í dag – til hamingju!
Áðan var ég viðstaddur dálítið skemmtilegan atburð. Kannski var hann merkur. Mér finnst það nú en það er eins með hann eins og svo margt annað að það kemur ekki í ljós fyrr en nokkuð líður frá hversu mjög merkur hann var.
Ég var viðstaddur afhjúpun minningarskjaldar um stofnun Ungmennafélagsins Aftureldingar sem á eitthundrað ára afmæli í dag. Einnar aldar afmæli. Þennan dag, 11. apríl 1909 var UMFA stofnað í Lestrarfélagssalnum að Lágafelli, eftir páskamessu séra Magnúsar Þorsteinssonar í kirkjunni á Lágafelli því fyrir hundrað árum bar 11. apríl upp á páskadag.
Minningarskjöldurinn stendur milli þess sem nú er bílastæði kirkjunnar að Lágafelli og yngsta hluta kirkjugarðsins þar. Mjög nálægt þar sem hús Lestrarfélags Lágafellssóknar stóð og varð austasti hluti gamla Lágafellsshússins. Það hús var síðar -- líklega á sjöunda áratugnum, ef ég man rétt -- flutt niður í Hlíðartúnshverfi. Það var rétt á mörkum að kumbaldi þessi þyldi þann flutning sem þó telst varla langur, og um tíma voru áhöld um hvort tjaslað yrði upp á hann eða ekki. Niðurstaðan varð þó sú að steyptur var grunnur undir húsið nyrst í því sem nú er iðnaðarhverfi á þessum slóðum, ræfillinn af því fluttur þangað og það endurbyggt þar að verulegu leyti. Ekki síst þessi hluti sem nú er nyrsti hlutinn en var austasti meðan það stóð á hlaðinu á Lágafelli, sm var gjörsamlega endurbyggður og hækkaður til jafns við aðra hluta hússins, en hafði áður verið líkt og skúrbygging við gafl þess. Um leið var húsinu skipt upp í nokkrar íbúðir sem voru fyrst leigðar út hver fyrir sig en síðar held ég að þær hafi verið seldar hver fyrir sig. Upprunalega fékk húsið stöðuleyfi til 10 ára minnir mig en það leyfi hefur síðan verið framlengt til skamms tíma hvert sinn og spurning nú hver staðarsómi er að húsinu þar sem það er og í því ásigkomulagi sem það er.
Allt um það: Meðan húsið stóð á Lágafelli, fyrir hundrað árum í dag, var UMF Afturelding stofnað í því. Og margir fundir og samkomur félagsins haldnar í því eftir sem hægt var næstu árin. Einhver skaut því að mér þarna á Lágafellshlaðinu í morgun að Afturelding væri elsta samfellt starfandi ungmennafélag landsins núna. Ég sel það hér á sama verði, þykir raunar afar trúlegt.
Hvað er ég að skipta mér af þessu? Ekki var ég á stofnfundinum þarna fyrir hundrað árum -- get þess hér af því ég var um það spurður í morgun. En þar voru sex móðursystkini mín og móðir mín gekk í það skömmu síðar. Og þau systkinin skiptust raunar á um formennsku þar allnokkur næstu árin. Sjálfur var ég aldrei verulega virkur í þessu félagi þegar ég fór að hafa aldur til, tók þó nokkurn þátt í leikstarfsemi þess sem var með nokkrum blóma á sjötta áratug síðustu aldar. Var einnig þátttakandi í nokkrum skemmtiferðum þess um landið og átti þátt í að skipuleggja fáeinar þeirra. Einu sinni mun ég hafa hlaupið 3000 metra fyrir félagið, og það á blankiskóm, en það kom bara til af því að það voru ekki aðrir tiltækir í þeirri keppni við UMF Dreng í Kjós. (Ég varð ekki síðastur!) En ég hef hvorki sparkað í bolta né fleygt bolta fyrir Aftureldingu, hef enda lítið dálæti á boltum.
Læt hér fylgja myndir af minningarskildinum sem afhjúpaður var í morgun, gjöf Mosfellsbæjar til óskabarnsins Aftureldingar á aldarafmælinu. Það var bæjarstjórinn okkar, Haraldur Sverrisson, sem afhenti gjöfina og forseti bæjarstjórnar, Karl Tómasson (langafabarn séra Magnúsar sem söng páskamessuna fyrir 100 árum) afhjúpaði stöpulinn ásamt núverandi formanni þess, Jóni Pálssyni.
Líka af Lágafellshúsinu eins og það stóð fyrir 63 árum og eins og það stendur nú í dag.
Gamla Lágafellhúsið er lengst til vinstri á gömlu myndinni. Á myndinni til hliðar sér á þakinu hvar það er ljósast þar sem það var gjörsamlega endurbyggt við flutninginn. Þá var líka bíslagið sett á það. Meðan það var á Lágafelli var aðalinngangur þar á hlið þess, en líka útidyr þar sem vinstri glugginn á neðri hæð gaflsins er nú.
Meðal annarra orð: Á einhver góða mynd af húsinu meðan það stóð enn á Lágafelli?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2009 | 18:41
Alveg meðferð á móðurmálinu
Er Mogginn að drepast úr sparnaði? Hverrar þjóðar skyldi ritari þessarar fréttar vera? Og: eru fréttir á mbl.is ekki prófarkalesnar?
Það er mjög alvegt þegar svona er flaustrað með fréttaskrifin. Það ver alveg meðferð á íslenskri tungu.
![]() |
Gengu í skrokk á 19 ára stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.4.2009 | 15:37
Athyglisvert form blaðdreifingar
Á rölti mínu hér um byggðarlagið í gær gekk ég fram á þrjú knippi af Fréttablaðinu frá 28. mars sl. þar sem engrar dreifingar á því er von. Innpakkað í plast og bundið utan um.
Ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. En í fyrsta sinn sem ég var með myndavél í vasanum og mundi eftir því.
Með svona dreifingu er vandalítið að ná háum tölum þar um til að flagga framan í hugsanlega kaupendur auglýsinga.
Til að fyrirbyggja misskilng vil ég taka fram að ég á ekkert sökótt við Fréttablaðið og fletti því oft.
Ef dreifingin hefur náð alla leið að mínum dyrum.
Þessi geymslustaður er reyndar ekki svo langt frá heimili hins eldri af tveimur ritstjórum DV -- þó ég lesi svo sem ekkert sérstakt í það.
Nema af í því hefði átt að felast ákveðin ögrun.
Ég hef aldrei fundið DV eða Moggann svona í víðavangi. Ekki í neinu upplagi, að minnsta kosti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar