Færsluflokkur: Dægurmál
6.5.2009 | 14:11
Betra að beygja sig en brotna
Vona mér forlátist þó ég lýsi þeirri skoðun minni að nokkurn veginn það vitlausasta sem nokkur skuldari getur gert sé að fara í greiðsluverkfall. Með því lokar hann í snarhasti þeim leiðum sem gætu verið honum opnar. Hún, kann að vera að einhverju blöskri að skrifa undir samning sem kveður á um síðustu greiðslu af hans hendi á 120 afmæli hans eða því sem næst. En hvað segir það um þá stofnun sem tekur undirritun á slíku plaggi gilda?
Að skrifa undir slíkt plagg hlýtur að falla undir nauðvörn. Í næstu uppsveiflu verður slík nauðvörn tekin til endurskoðunar og henni breytt. Það getur ekki verið að við höfum næstu 70-80 árin svo vitlaus stjórnvöld að þau átti sig ekki á hvílíkt ranglæti er í því fólgið af hálfu nokkurs lánveitanda að búa svo um hnútana að lán upp á 23 milljónir að höfuðstóli sé eftir örfáa mánuði komið í 50 milljónir. Án þess að lánveitandi hafi bætt nokkru við. Hann var bara svo heppinn að heimskreppan olli hér meira gengisfalli en nokkur áttaði sig á.
Getur það verið vilji ríkisins, sem nú á flesta bankana, að endurreisa þá með slíkum fantaskap?
Með því að fara í greiðsluverkfall fellir lántakandi á sig allan skuldabaggann í einu með tafarlausum og fullum þunga. Að sjálfsögðu verður gengið að veðinu og það selt fyrir slikk en hann situr eftir með mismuninn á höfuðstól lánsins eins og hann hljómar núna og því sem fékkst fyrir veðið. Gjaldfallið af fullum þunga. Því veðið, sem lánveitandi mat fullnægjandi fyrir fáeinum mánuðum er allt í einu aðeins þess virði sem hann fær fyrir það þegar hann hefur gengið að því.
Ekki bara það, heldur spillir hann líka fyrir þeim sem vilja nota sér þau úrræði sem þó hafa verið boðin og hljóta meira og minna að vera til bráðabirgða.
Ekki gera ekki neitt, er slagorð innheimtufyrirtækis. Ég sé ekki betur en það eigi aldrei við eins og núna. Og munið: Það er betra að beygja sig en brotna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 22:14
Voru gjaldeyrislánin greidd út í gjaldeyri?
Í fjármálaöngþveiti samtímans er ein spurning sem ég hef hvergi séð svarað.
Hún er um gjaldeyrislánin svokölluðu og gæti hljóðað eitthvað á þessa leið.
Voru gjaldeyrislánin greidd út í gjaldeyri? Eða var aðeins miðað við gengi þeirra gjaldmiðla sem gjaldeyrislánin hljóðuðu upp á og greidd út í íslenskum krónum?
Ef svarið er já er þá ekki í rauninni rán af hendi bankanna að halda genginu til streitu við gengishrunið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.5.2009 | 17:29
Hverjir hvetja til greiðsluverkfalls?
Mér þykir verst að Steingrímur Jóhann skuli ekki nafngreina þá ólánsmenn sem hvetja til örþrifaráða eins og greiðsluverkfalls. Mér er nefnilega ekki ljóst hverjir þeir eru. Mér heyrist og sýnist að flestir málsmetandi menn sem tjá sig um þetta, ráði fólki frá greiðsluverkfalli, enda getur það aldrei gert annað en auka á vandræðin.
Hins vegar væri gott ef nefndur Steingrímur Jóhann gæfi sér tíma NÚNA, frá ráðslagi um það hvernig hann ætlar að smeygja sér undan því kosningaloforði að fara ekki í ESB-viðræður, til þess að segja þeim sem eiga að gera skuldaskil einmitt þessa dagana nákvæmlega hvernig þeir geti farið að.
En það er ekki rétt sem þarna stendur. Stjórnvöld hafa EKKI skilning á þessum vanda fólks og þeim hryllingi sem það stendur frammi fyrir móti öllum rétti lánveitenda en öllum forsendum gjörbreyttum frá því lánið var tekið.
Því sá vandi brennur ekki persónulega á því fólki sem kalla má stjórnvöld.
![]() |
Varar við örþrifaráðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 11:08
Að draga með sér skuldahalann til útlanda
Fólk sem hyggst hætta að borga af lánum sínum og ætlar að leysa vandann með því að flytja úr landi held ég viti varla hvað það er að segja. Eg veit ekki betur en vanskil flytjist með fólki nema kannski það fari til Brasilíu eða Sómalíu eða einhverra þeirra landa annarra sem hafa ekkert laga- eða viðskiptalegt samband við Ísland.
Hitt er annað mál að sumir hafa alls engin tök á að borga af lánum sínum eins og sakir standa. Þessu fólki er fyllsta vorkunn. Ekki síst vegna þeirrar arfavitlausu reglu hérlendis að þó lánveitandi gangi að því veði sem hann sjálfur við lántöku mat fullnægjandi veð og selji svo veðið, gjarnan sjálfum sér, fyrir slikk, er lántakandi eftir sem áður ábyrgur fyrir því sem eftir stendur af láninu umfram það sem fékkst fyrir veðið. Og það er allt gjaldfallið. Núna.
Ef ég hef skilið rétt eru það einmitt þeir sem í þessum sporum standa sem eiga forgangsrétt í hjálp stjórnvalda.
Það hlýtur að vera skárra að fara þá leið en stökkva frá öllu og flytja til útlanda, með þeim kostnaði og vanköntum sem því fylgir og þeim kostnaði sem fylgir því að koma sér þar fyrir, og draga með sér íslenska skuldahalann þangað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2009 | 12:41
Foráttu róleg nótt
Afspyrnu rólegt? Einkennilega til orða tekið. Samheiti við afspyrnu sem áhersluorð er foráttu. Foráttu veður, afspyrnu veður. Er nú löggunni allri lokið, þegar hún lýsir þægilegri nótt sem foráttu rólegri!
![]() |
Afspyrnu rólegt hjá lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2009 | 11:38
Ensku spjöldin barnaskólanna
Ég er enn þeirrar skoðunar að ungum sem öldnum sé fátt hollara en að hreyfa sig. En það er engum hollt, á hvaða aldri sem er, að misbjóða líkama sínum. Það var efni og inntak pistils míns sem ég hélt öllum auðskilið.
Skil satt að segja ekkert í að enginn skuli kommentera á ensku spjöldin barnaskólanna! Er enskan kannski ekki lengur aðeins helsta tungumál háskólanna okkar? Er hún líka orðin viðurkennt tungumál í barnaskólunum?
Kannski eru skemmdaráhrif Smettu að koma þarna fram.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2009 | 18:39
Mynd af ósýnilegum Skoda
Það hefur náttúrlega ekki verið hægt að taka mynd af ósýnilega bílnum. En ég ímynda mér að hann hafi verið eitthvað líkt og bílar almennt voru hér meðan forarvegarnir voru allsráðandi.
Og þó -- hérna kemur skódinn og listamaðurinn sem plataði stöðumælaverðina. En líklega væri vandi að leggja honum nákvæmlega á sama stað aftur!
![]() |
Ósýnilegur Skodi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.4.2009 | 23:29
Skólaóhreysti
Var að horfa á skólahreysti með öðru auganu áðan. Gaman að sjá sum tilþrif þessara krakka en sumt af því sem þau eru látin gera óttast ég að eigi eftir að koma illa niður á þeim þegar þau komast upp í aldri. Finn til dæmis alveg gríðarlega til í vondu öxlinni með þessum krökkum sem eru pínd undir örmögnun í armlyftur eða hanga á slá.
Mér rann líka til rifja að sjá hve mikið af hvatningarspjöldum skólafélaganna var með áletrun á ensku. Það finnst mér gefa viðkomandi skólum vondan vitnisburð, svo ekki sé meira sagt.
Það að minnsta kosti er skólaóhreysti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2009 | 14:36
Eins málefnis örsaga
Kosningar afstaðnar og niðurstaðan ljós. Vinstri græn fagna stórkostlegum kosningasigri, bættu við sig 5 þingmönnum. Eru þó jafngamlir öldinni eða ári betur og hafa haft góðan tíma til að hasla sér völl og kynna sig, reyndar kvísl úr gamla Alþýðubandalaginu sem á ættir að rekja langt aftur í síðustu öld og allt til Moskvu á dögum Stalíns.
Mér þykir meira koma til sigurs Borgarahreyfingarinnar sem á 60 dögum eða þar um bil náði að fá þann hljómgrunn að hún náði inn fjórum þingmönnum og hérumbil 5. Þó að hún fengi ekki meiri aðgang að fjölmiðlum en brölt Ástþórs.
Nú er Borgarahreyfingin engan veginn flokkur og eins og ég skildi málflutning liðsmanna hennar var meginmarkmið hennar að stuðla að hjálpræði heimilanna og skynsamlegri skuldaleiðréttingu þeirra. En svo er að sjá sem stjórnarflokkarnir S og V einblíni á aðildarviðræður við Evrópubandalagið en hafi gleymt því að heimilin í landinu brenna enn.
Hvert verður hlutskipti þeirra ef þau eiga að bíða eftir hjálp frá Brussel?
Auk þess trúi ég engan veginn á að EU (eða ESB) sé það hjálpræði sem öllu bjargar. Ég trúði heldur ekki á segularmböndin forðum né vorrósarolíuna. Ég trúi ekki að hjálp Íslands komi að utan. Ef við verðum teymd inn í EU verðum við þar ígildi lítils sveitaþorps í miðevrópu. Keyrt yfir megnið af matvælaframleiðslu okkar hvort sem hún kemur úr hafi eða af hauðri svo dæmi sé tekið. Þá þarf allt að kaupa handan um haf sem kostar allnokkuð, hvort sem það verður borgað með krónum eða evrum. Fyrir utan hvar við verðum stödd ef skrúfast fyrir aðflutningsleiðir af einhverjum sökum.
Nei, Borgarahreyfingin er engan veginn flokkur. Samt bjálfaðist ég til að kjósa hana í þeirri von að hún yrði fyrst um sinn áfram rödd skynseminnar og myndi sem slík hljóma gagnvart valdhöfum landsins. Fjórir þingmenn eftir örstutta tilveru er mjög góður sigur. En ég sé fyrir mér að þessir fjórir einstaklingar sakni þess bráðlega ef þeir finna ekki bakland sitt og munu þá tínast inn í lið fjórflokkanna, hver eftir sínum geðþótta, enda eiga þingmenn ekki að fara eftir neinu öðru en sinni samvisku og geta valsað milli flokka án tillits til þeirra sem kusu þá í upphafi. Ef Borgarahreyfingunni er sú alvara sem mér fannst í aðdraganda kosninganna verður hún að setja sig upp sem flokk eða félag, þar sem þingmenn hennar finna sitt trausta bakland og geta sótt sér ráð og stuðning.
Annars verður hún aðeins einna kosninga og eins málefnis örsaga í íslenski pólitík.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.4.2009 | 14:54
Umdeilanlegt skemmtanagildi
![]() |
Ástþór illur út í RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Í þessu samhengi þótti mér þetta satt að segja merkileg staðhæfing, því ég hafði ekkert sagt á þá lund að hreyfingarleysi væri hollt. Aðeins að sumar þær æfingar sem þarna eru iðkaðar kynnu að koma niður á líðan barnanna þegar lengra líður á ævina.