Færsluflokkur: Dægurmál

Lögmannsstofan Forir

Ég held að það eigi við að lyfta hattbarði fyrir þeirri lögmannsstofu sem hefur djörfung til að kalla stofu sína Forir.

For -- í fleirtölu forir -- hefur ýmsar merkingar, þeirra á meðal mjög votlend engi en að sama skapi grasgefin. Verður maður ekki að ætla að Forir lögmannsstofa hafi dregið nafn sitt af því? Ennfremur ber að taka ofan fyrir þeim sem fréttina skrifar að hann skuli fallbeygja hið rammíslenska nafn stofunnar.


mbl.is Stoðir fá heimild til nauðasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabært að hressa upp á innlenda landafræði

Eiður Svanberg Guðnason heldur úti hvassri gagnrýni á vont málfar í fjölmiðlun á bloggsíðu sinni (esgesg.blog.is) og er það vel. Verst að gagnrýni af þessu tagi sjá sjaldnast þeir sem á því þyrftu að halda.

En auk málfarsgagnrýni er sennilega tímabært að hressa líka upp á innlenda landafræði fjölmiðlamanna. Skammt er að minnast er dagskrárgerðarmaður ágætur sagði að lögreglan hefði fundið kannabisverksmiðju í Kjósinni og fór þá einu sveitarfélagi of langt frá meginsvæði Reykjavíkur, því verksmiðja sú (reyndar tvær) var á Kjalarnesi sem nú er orðið norðurbærinn í Reykjavík og mundi víst enginn eftir því meðan kannabisfrétt þessi var hvað ferskust. Um svipað leyti var sagt í öðrum fjölmiðli frá því að fimm bíla árekstur hefði orðið á Esjumelum í Mosfellsbæ. Það sveitarfélag er vissulega eitt hið víðlendasta -- ef ekki víðlendast -- sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en nær ekki enn upp á Esjumela. Í enn einu tilviki var vísað á minningarsafn Halldórs Kiljans Laxness í Gljúfrasteini „skammt ofan við Mosfellsbæ“ og hefði þá skáldið sjálft vísast sagt: „Með leyfi, hvenær var Gljúfrasteinn fluttur undan Mosfellsbæ?“

Þá hnykkti mér við í gær er á einni sjónvarpsstöðinni íslensku kvaðst tíðindamaður hafa brugðið sér „austur á Hvolsvöll“ og svo kom voldug auglýsing um jörð eina í Eyjafjallahreppi sem nú er til sölu fyrir hálfan milljarð eða svo. En Hvolsvöllur kom þarna ekkert við sögu enda að baki fyrir allnokkru þegar komið er að Lambafelli.


Ekki í einberri sjálfboðavinnu

Stundum dreymir mig drauma sem ég man furðu skýrt þegar ég vakna, einna líkast því sem ég hafi verið að lesa sögu eða horfa á sjónvarpsþátt. Einn svona draum dreymdi mig síðastliðna nótt.

Hann var að því leyti veruleikafirrtur að þar var verið að falast eftir mér í starf á vegum opinberra aðila - nokkuð sem varla myndi gerast í vöku með tilliti til þess að ég er kominn yfir sjötugt. En í stuttu máli var mér boðin kennarastaða barnaskóla.

Verkefni mitt var mjög afmarkað. Ég átti að spjalla við börnin í fyrsta bekk skólans um íslenskt mál og málnotkun og örfa þau til að tjá sig og setja fram hugsanir sínar á skýrri og skipulegri íslensku. Ég átti að hafa frjálsar hendur til þess arna, eina skilyrðið var að þetta væri á mæltu máli en ekki rituðu.

Því miður var þetta ekki fullfrágengið þegar ég vaknaði því samningar þæfðust á tæknilegu atriði: Ég átti að kenna hverjum bekk tvo tíma í viku og bekkirnir voru 14. Gamlinginn ég (líka í draumnum) var ekki tilbúinn að takast á hendur svo stífa kennslu. Allra síst þar sem mér þótti skólinn heita Barnaskóli Hafnarfjarðar og vera til húsa þar í bæ og mér hraus nokkur hugur að aka svo langa leið daglega í öllum hugsanlegum vetrarveðrum og vera kominn í tæka tíð til kennslu. Ég hef alltaf verið morgunþungur og ekki skánar það með aldrinum.

Eftir því sem líður á daginn og vökutíminn lengist þykir mér þessi hugmynd betri, burtséð frá tengingu hennar við mig. Því ekki að fá fólk, komið á afa- og ömmualdur og hefur heldur gert sig bert að því að geta notað íslenskt mál skammlaust, til að örfa málþroska og íslenskuskilning skólabarna. Þá yrði kannski hægt í framtíðinni að skilja hvað ungt fólk er að tala þegar það ber svo ört á og talar svo þvoglulega og óskýrt að það gæti allteins verið að tala grænlensku, eða er með áherslurnar út úr kú eins og alltof margir sem flytja íþróttafréttir og hafa tamið sér að hafa aðaláhersluna á síðasta orði hverrar málsgreinar og bera það auk heldur fram með reiðilegum þjósti. Fyrir utan að hafa kannski rætt um knasspyddnuleik á mikudaginn eða annað álíka.

Ég skyldi með ánægju leggja mitt lóð á skálarnar í svona viðleitni. En ekki í einberri sjálfboðavinnu og ekki 28 kennslustundir á viku fyrir utan 25 km akstur á dag.


Dæmdir -- til hvers?

Um daginn bloggaði ég um laun Evu Joly sem fær góða sporslu við að veiða íslenska fjárglæframenn og fá þá dæmda í tugthús. Fannst lítill ávinnugur sýnilegur af þeirri refsigleði. Rakst svo á bloggið eask.blog.is sem var fullt af refsigleði, með fyrirsögninni Fáránleg umræða um þóknun Evu Joly. Setti við það svolátandi athugasemd:

„Hverju skilar það aftur í þjóðarbúið þó kona þessi verði til þess að einhverjir menn verði dæmdir í tugthús? Eða koma þeir betri þaðan út aftur? Hver getur orðið fjárhagslegur ávinningur okkar af starfi hennar?“

Næsti athugasemdagjafi á eftir mér sendi mér þennan pistil:

„Sigurður Hreiðar, þetta snýst ekkert um fjárhagslegan ávinning okkar. Það vita allir að hann verður lítill sem enginn. Aðalatriðið er að reyna að komast til botns í þessu öllu saman og að þeir seku verði dæmdir.“

Ég spurði á móti og spyr enn: Dæmdir -- til hvers?

Því ef þessar nornaveiðar verða okkur aðeins til kostnaðar -- hver er þá ávinningurinn? Ég meina fyrir aðra en þá sem fá vinnu við þær.

 


Sjálfgefinn rafsparnaður

Nærri má geta að nokkuð hefur munað um í rafsparnaði þegar Reykjanesbær var myrkvaður sl laugardagskvöld.

En ætli herferðin gegn kannabisrækt hafi ekki líka haft áhrif til rafsparnaðar?


mbl.is Rafmagnsnotkun datt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi botngjarðirnar halda

Út af fyrir sig gaman að verða þess áskynja hvaða viðbrögð það vekur sem maður fjallar um í svona bloggi, þó ekki komi það allt fram í athugasemdum heldur allt eins þegar maður hittir mann/menn (og minnumst þess að konur er menn) og í tölvupósti. Þannig hefur sumum hitnað í hamsi yfir bloggi mínu hér á undan og talið mig talsmann þess að óbótamenn sleppi óbarðir. Hið rétta er að ég hef ekki á móti því að þeir séu sakfelldir sem sök eiga, en stórefast um að refsingar út af fyrir sig séu mannbætandi og ekki verður tap mitt af efnahagshruninu minna þó einhverjum verði um síðir stungið í fangelsi sem vegna hrunsins.

Þá vitnaði ég ögn í gamla vísu í þessu sama bloggi og hef orðið þess var að skilningur á því er misjafn og gleymd er nú æði mörgum sagan um klyfjamerina sem lenti ofan í keldu og braust þar um svo að flutningur sá er hún bar fór á tvist og laskaðist nokkuð. Kelda þessi er þekkt enn í dag undir nafninu Biskupskelda og er á Leggjarbrjótsleið, gömlu alfaraleiðinni milli Þingvallasveitar og Hvalfjarðar. Sakleysislegur er þó kelduskrattinn á fallegum sumardegi og þarf kunnugan til að segja manni að þetta sé pytturinn sem merin lenti í.

Vísan sú arna, sögð eftir Jón Þorláksson prest á Bægisá, hefur komið í huga mér hvað eftir annað frá því að efnahagsósköpin dundu yfir. Og kannski ekki að ástæðulausu, en hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt

ofan í djúpa keldu.

Skulfu lönd og brustu bönd

en botngjarðirnar héldu.

Svo bæti ég við frá eigin brjósti: Megi botngjarðirnar halda alla tíð.


Refsivöndur réttlætisins

Í þeirri orrahríð kjaftagangs og upphrópana sem tíðkast hefur amk síðasta misserið hefur orðin „græðgisvæðing“ og „ofurlaun“ borið hátt. Svo hrundi allt svo skulfu lönd og brustu bönd og spurning hvort botngjarðirnar halda.

Allt hlýtur að vera einhverju og einhverjum um að kenna og þá ber að refsa, amk skv almannaskilningi (sem mér finnst samt að einhverju leyti bera keim af lágkúru). Innlendum refsivöndum réttlætisins er ekki treyst og valin hefur verið sú leið að ráða til þess norskan refsivönd sem er yfirlýsingaglaður um að einhvern tíma í blámóðu framtíðarinnar verði einhverjir dæmdir til refsingar fyrir hrun íslenska efnahags- og stjórnkerfisins.

Mér heyrist að hún sé ráðin til þriggja ára og eigi að fá 8000 evrur á mánuði fyrir vikið. Dýrmætur gjaldeyrir það, nærri 13 hundruð þúsund á núgengi. Um 4,8 milljónir íkr á ári og það sinnum þrír.

Hvar byrja ofurlaun?

En ósköp hlýtur okkur að líða vel árið 2012 eða 2013 þegar einhver er kominn í tugthús fyrir tilverknað þessa refsivandar réttlætisins.


Víggirt lán

Það er kannski ekki von að stjórnvöld (les: fjármálavöld) vilji horfast í augu við vandann af gífurlegum húsnæðisskuldum sem eru afleiðing af efnahagshruninu í október 2008, því þetta eru sennilega einu lánin sem eru svo víggirt af lánardrottna hálfu að þau hljóta að fást meira og minna greidd, með illu ef ekki góðu. Lán til fyrirtækja og fjárglæfra eru flest glötuð og tröllum gefin.

Lán sem venjulegt fólk tók í góðri trú til að tryggja sér þak yfir höfuðið hafa meira en tvöfaldast við efnahagshrunið. Veð sem lánveitandinn tók gild eru nú ekki látin duga nema svo sem fyrir þau fæst á dauðum og verðföllnum fasteignamarkaði. Afgangurinn situr á nöfnum þeirra sem undirrituðu lánið -- lánveitandinn er stikkfrí.

Ég veit ekki um ykkur. Mér finnst þetta svívirðilegt.

Ég hef enga samúð með bílalánum eða flatskjárlánum. Væntanlega hefur verið sett veð fyrir þeim líka, sem seljandi/lánveitandi mat fullnægjandi á þeim tíma. Hirði hann sitt veð en láti skuldara í friði að öðru leyti.

 


mbl.is Niðurfelling skulda óhagkvæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Groddaskapur og sóðaskapur

Heimurinn er fljótur að taka við sér þegar honum er misboðið með eitthvað. Nú ætla Svíar að hætta að éta góðan norskan eldisfisk af því sagt var í sjónvarpsþætti þar ytra -- og endurtekið hér heima -- að hann væri alinn á íslensku fiskimjöli sem unnið væri úr fiski sem hugsanlega gæti verið matfiskur milliliðalaust.

Svona er nú það. Við lofsyngjum lóuna sem komin er að kveða burt snjóinn og dásömum hennar dirrindí allt sumarið meðan hún er að koma upp ungunum sínum sem hún flýgur svo með austur um haf í haust til að vera skotin og étin sem lúxusmatur í Frakklandi.

En aftur að þessum sjónvarpsþætti um austfirska fiskimjölið sem eldisfiskur í Noregi er fóðraður á. Ég sá þennan þátt og þar með þátt hins jörmunrekna og nú burtrekna verksmiðjustjóra sem þar fór mikinn og gaspraði um að það yrði að drepa eitthvað til að setja á pönnuna, stóð í stafni á dýrum knerri með tveggja hlaupa frethólk og skaut í allar áttir, hirti svo skothylkin úr og fleygði þeim allt í kring um sig, í sjóinn eða á þilfarið eftir því hvar þau vildu lenda, tókst fyrir rest að skjóta auman svartfugl og lét snúa knerrinum af stefnu og eyddi glás af olíu í að sækja svartfuglshræið til að geta rifið það úr hamnum -- og fleygt hamnum í sjóinn. Já, lengi tekur sjórinn við.

Það sem eftir stóð hjá mér eftir þáttinn var þessi stóri maður með groddaskap sinn og sóðaskap. Kannski hefur hann haldið að hann væri að sýna karlmennsku.

Mér hefur lengi þótt Eskifjörður með fallegri byggðarlögum þessa lands. Hef samt aldrei staldrað þar lengi við. Vona engu að síður að þar þrífist fallegra mannlíf en þessi mynd sýndi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband