Færsluflokkur: Dægurmál
19.5.2009 | 15:30
Að ríða baggamuninn
Þessar stúlkur óðu í sjóinn segir í myndatexta á bls. 12 í Mogga í dag. Myndin nær þeim hins vegar aðeins niður undir krika og þar er engan sjó að sjá svo djúpt hafa þær þó ekki vaðið. Hafi neðri hluti ganglima þeirra verið í sjó er spurning hvort þær hafa ekki frekar vaðið í honum heldur en í hann.
Veitingamaður úti á landi tók oft til orða á fundum í sínu samfélagi og sagði iðulega um það sem honum fannst hafa ráða miklu um framvindu mála: En það sem ríður baggamuninum Hestamaður var hann að vísu blessaður, en fundargestir sáu sjaldnast ástæðu til að tengja viðkomandi mál ferðalögum á hrossum og því síður eitthvað kynferðislegt við baggamuninn.
Kunningi minn breskur sem fór að læra íslensku áttaði sig fljótt á að forsetningar og föll hafa afgerandi áhrif i íslensku máli. Hann stóð í frímínútum frammi á gangi þegar einhver kom þar askvaðandi og spurði hvort nokkur hefði séð hann Guðmund. Já, það hafði minn breski vinur og svaraði af bragði, hjálpsamur eins og ævinlega: Já, hann fór í klósettið. Og varð svo hugsi yfir þeim hlátri sem einlægt svar hans framkallaði.
Það þarf í raun ekki nema örlítið frávik frá eðlilegu, viðurkenndu og hefðbundnu máli til að ríða baggamuninn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.5.2009 | 18:29
Ofnæmi fyrir guðsorði
Mér þykir mjög fyrir því að kjörinn þingmaður í mínu kjördæmi skuli með þessum hætti ganga fram fyrir skjöldu og hundsa þúsund ára menningargrundvöll íslensku þjóðarinnar.
Því meir þykir mér fyrir þessu sem ég álpaðist til að kjósa listann sem þessi maður var í forsvari fyrir. Af því ég hafði ekki ástæðu til að ætla annað en að hann gengi með Guði. Eða að minnsta kosti hafnaði honum ekki.
Ef Þór Saari og hans nótar hafa ofnæmi fyrir guðsorði ættu þeir að halda því fyrir sig. En hafi skömm fyrir uppátækið í dag.
Með örfáum undantekningum geri ég ekki mikið með það hvaða trúarbrögð fólk velur sér svo framarlega sem það vanvirðir ekki þá trú sem þjóðin hefur í þúsund ár haft fyrir haldreipi í þessu landi.
Ég held að Þór Saari og hans nótum veiti einmitt ekki af því að blanda Guði inn í þinghaldið.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.
![]() |
Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2009 | 14:03
Ekki fyrr en eftir krossmessu
Einhvern veginn hafði mér skilist að kaþólskir klerkar ættu að losa huga sinn við lostugar hugsanir og ef þeir mega eiga konur eða iðka leiki við þær er það nýtilkomið.
En þeir hafa sumir orðið uppvísir að því að halda ráðskonur. Og hafa kannski ort og hugsað til þeirra eins og sr. Sigurður heitinn í Hindisvík sem orti til hennar Ingibjargar sinnar: Ein er mærin munablíð, mér svo kær að neðan. Henni ærið oft ég ríð, annars fær´ ´ún héðan. Þetta hlýtur að vera prenthæft, beint frá prestinum!
Annars er þetta dálítið mistækt með ráðskonurnar. Bóndi nokkur í Skorradal á næstsíðustu öld átti aldrei konu en nokkrar ráðskonur hélt hann og fóru ýmsar sögur af þeirra leikum. Ein þeirra fór eftir skamma vist og kom við hjá hreppstjóra í leiðinni og kærði bónda fyrir vanefndir. Hreppstjóri fór að inna bónda eftir þessum málum, en bóndinn var hvass við og sagði: Hvaða ósköp eru þetta í konunni! Ég var búinn að segja henni að ég færi ekki upp á hana fyrr en eftir krossmessu!
![]() |
Prestur gefur út kynlífshandbók |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2009 | 21:46
Gott hjá útlendingastofnun
Þetta þykir mér góð tíðindi. Þekki Japsí ekki hót og hef aldrei séð hana. En mér hlýnar um hjartarætur þegar ég get ímyndað mér að útlendingarstofnun taki líka eitthvert mið af persónunni sem sækir um dvöl hér, ekki bara hvaða pappíra hún hefur.
Á sama hátt hef ég takmarkaða samúð með umsækjanda sem ætlar að knýja sitt fram með þaulsetum á einhverjum tilteknum stað svo ég tali nú ekki um að hann taki tilkynnta ákvörðun um að fyrirfara sér fái hann ekki sínu framgengt.
![]() |
Indverskri konu ekki vísað úr landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2009 | 16:43
Með gullband um sig miðja
Með gullband um sig miðja
-- þar rauður loginn brann!
Nú er að koma að því að heimurinn fái að sjá ungu konuna í bláa kjólnum og heyra hana þenja raddbönd sín þar í ranni sem áður rauður loginn brann. Þetta er falleg stúlka og sómi að henni og ég vona bara að henni gangi sem allra best.
Og ef það verður verður það af hennar eigin verðleikum, því lagið sem hún á að flytja er óttaleg lagleysa, hvorki fallegt, rökrænt né grípandi.
Því miður
![]() |
Jóhanna Guðrún ekkert stressuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2009 | 11:34
Hve margir látast af „venjulegri“ flensu?
Til samanburðar vildi ég hafa í svona frétt hve margir látast á heimsvísu í hinum árlegu vor- og haustflensufaröldrum. Minnir að ég hafi lesið eða heyrt að bara hér á Íslandi látist árlega nokkrir í sambandi við þá flensufaraldra sem ganga hér jafn árvíst og lóan og krían koma og fara.
Eins og fréttir af svínaflensunni sem nú heitir Heinnneinn eru matreiddar hljómar þetta eins og enginn hafi dáið úr flensu síðan Spánska veikin gekk, vansællar minningar.
![]() |
Yfir fimmtíu látnir vegna H1N1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.5.2009 | 19:53
Dulbúið svínasaltkjöt
Hvernig líst þér á þetta? sagði konan mín og sýndi mér plastpakka með fallegum kjötbitum. Á miðanum stóð: BÓNUS BBQ GRÍSABÓGSNEIÐAR REYKTAR. Svo kom innihaldslýsing og þetta getið þið allt lesið á myndinni sem fylgir af þessum miðaskratta. -- Mér lest vel á þetta, fallegt kjöt og gæti verið kræsilegur matur, ekki síst þar sem ég var með flensu alla vikuna og er rétt að byrja að finna bragð aftur og langa til að láta eitthvað ofan í mig.
Á miðanum stendur GRILLIÐ EÐA STEIKIÐ Í UM 10 MÍNÚTUR. Krásin var drifin á Salatmasterpönnu og ákveðið að snúa fallegum svínabitunum við á miðju bilinu, eftir 5 mínútur. Þá kom í ljós að svo mikill safi hafði verið í kjötinu að það nánast flaut á pönnunni. Þessu hnausþykka soði var ausið af og það bragðað til gamans, það var satt að segja sjósalt. Jæja, ætli það sé þá ekki það sem þurfti? Kjötið síðan brúnað á hinni hliðinni í eftirstandandi 5 mínútur og svo borið á borð.
-- Það var satt að segja lán að ekki voru gestir til borðs með okkur að þessu sinni. Krásin var gjörsamlega óæt af salti. Við ræddum stuttlega hvort við ættum ekki bara að fá okkur flatböku, en innrætt nýtni og sveitamennska varð til þess að við fluttum kjötið á aðra pönnu, fylltum með vatni og suðum upp. Enn óætt af salti. Soðinu helt af og pannan aftur fyllt með nýju vatni -- og að þessu sinni var hægt að leggja sér kjötið til munns.
Var það gott? Ef þér þykir soðið svínasaltkjöt gott -- ja -- þá ætt. En steik var þetta ekki. Og satt að segja var þetta alls ekki líkt því sem okkur hjónum þótti miðinn bera með sér að það ætti að vera, og nú þegar þið sjáið miðann sjálf getið þið út frá eigin reynslu gert ykkur í hugarlund hvers konar matur þetta ætti að vera.
Læt fylgja með mynd af seinni uppsuðunni. Eftir þá afvötnun var hægt að láta þetta ofan í sig. En ekki meira.
Einskis framleiðanda er getið á miðanum. Aðeins Framleitt fyrir Bónus. Að fenginni reynslu skil ég vel að framleiðandinn veigri sér við að leggja nafn sitt við ósköpin.
Varið ykkur á svona svínasaltkjöti í dularklæðum.
8.5.2009 | 13:27
Who owns you
Fyrir 50 árum sléttum kom ég til útlanda í fyrsta sinn. Það var í einu fyrsta úrskriftarferðalagi íslenskra skólafélaga sem stefndu til frekari víðsýni. Þetta var á þeim árum sem svokölluð sex landa sýn þótti merkilegast og menningarlegast kynnisferða um heiminn.
Fyrsta viðdvöl hópsins var í Bretlandi. Í London var vitaskuld farið í kynnisför um borgina með þarlendum leiðsögumanni. Freddy hét hann, tappi sem stóð varla út úr hnefa. En borginmannlegur var hann átti öllum kostum við þennan hóp skrælingja sem hann hafði nú fengið í hendurnar en hafði ekki slíka þjóð fyrr augum litið. Æsland, sagði hann, Æsland, er það ekki ein af dönsku eyjunum? Nei, sögðum við og því miður var íslenski fararstjórinn okkar, Guðmundur Steinsson, öðrum höppum að hneppa þessa stundina og hafði trúað okkur til að fara ein með Freddy þessum. Nú, svaraði Freddy, hver á ykkur þá (who owns you?) Ví ar indípendent demókratic neisjón, sögðum við hnarreist og reyndu að teikna upp obbolítið landakort af Norðurhálfu til að kenna þessum tíkartappa með sixpensarann svolitla landafræði. Hann horfði á þessa kortagerð með svip manns sem leiðist en sagði svo, ó jes, jú ar vonn of the Feró ælands, and só jú ar ónd bæ Denmark læk æ sedd. Og honum var ekki úr að aka með það og það var alveg sama hvernig við reyndum að útskýra fyrir honum réttarstöðu og stjórnarfar upprunalands okkar og stað á landakortinu, svar hans var alltaf sama spurningin: Jess ókei, butt hú óns jú ná?
Ég sé ekki betur en sama spurningin sé enn uppi hjá þessari þjóð stuttfóta hér skammt austan við okkur í álfunni. Aldrei vissi ég eftirnafns Freddys en núna held ég að það geti varla hafa verið annað en Brown. Þvoglumælti kurfurinn með því nafni sem nú notar sér almenna fáfræði landa sinna til þess að níðast á ísslendingum hefur ekki frekar en Freddý komið því inn í sinn ferkantaða haus að Ísslendingar eigi sig sjálfir og það sé við þá að semja um málefni þeirra en ekki einhverja stofnun í Amríku.
Aldrei hefði Thatcher the Milk Snatcher farið svona að hvað þá Blair the Fair enda höfðu þau hvort um sig ofurlitla hugmynd um uppbyggingu heimsins svona almennt séð, Thatcher kom meira að segja í heimsókn hingað á dögum þorskastríðsins og þó einhverjur gárungar haldi því fram að hún hafi reiðst Jóni Hákoni vini mínum sem þá var fréttamaður á sjónvarpinu þegar hann vildi fá að vita hvort hún ætlaði að senda hingað dráttarbáta til verndar breskur togurum -- en óvart farið framburðarvilt á orðinu tugs svo Thatcher heyrðist hann segja thugs (sem þýðir dálítið annað en þó ekki meira en svo að það er bita munur en ekki fjár) þá vissi hún fullvel við hverja var að etja í þorskastríðinuog hafi hún ekki vitað það þegar hún kom í þessa heimsókn þá vissi hún það þegar hún fór.
Mér dettur í hug hvort sendiherrann hafi lagt þessa sívakandi spurningu Breta í garð Ísslendinga fyrir Össur: Yes, but who owns you now?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.5.2009 | 11:04
Peningar í Finnstaldreiistan
Auðkýfingar uppsveiflunnar tóku himinhá lán á pappírum og borgðu hver öðrum fyrir eignir og hlut í fyrirtækjum með þessum pappírum og viðlíka. Peningar sáust hvergi.
Þar með voru þessir menn auðkýfingar út á peninga sem aldrei sáust. Voru bara tölur á pappír. Líklega ekki einu sinni verðmæti tekini eða fengin frá einum eða neinum í upphafi. Var bara samkomulag um að tölur á pappír væri nóg. Persónuleg ábyrgð upp á milljarða var bara formsatriði, mismunandi þegjandi samkomulag um að eftir þeim yrði aldrei gengið.
Svo hrundi spilaborgin og allt í einu voru auðkýfingarnir orðnir öreigar þegar tölurnar á pappírnum héldu ekki lengur. (Nema þeir sem höfðu verið svo forsjálir að breyta einhverjum pappírstölum í verðmæti/peninga koma þeim fyrir í Finnstaldreiistan.)
Bankarnir hér heima lánuðu Jóni og Gunnu 20 milljónir í peningum sem á þeim tíma voru á pappírum ígildi svo og svo margra jena og/eða svissfranka. Við gengishrunið urðu þessi svo og svo mörgu jen og svissfrankar ígildi 47 milljóna.
Væri einhver að tapa einhverju þó bankarnir gengju fram fyrir skjöldu og færðu þessi lán aftur niður í 20 milljónir m.v. íslenskar krónur og strikuðu út jenin og svissfrankana sem tóku æðiskast vegna óhönduglegrar stjórnar íslenskra peningamála, ekki síst hjá nefndum bönkum?
Ég bara si svona spyr.
Svo vil ég gera þá meginkröfu að veð sem talið er nægilegt fyrir því sem peningamálastofnun lánar út á það sé látið duga fyrir láninu, hvað sem peningamálastofnunin fær út úr því að selja það. Þannig að þegar lánveitandi hefur gengið að veðinu sé lántakandi laus mála.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 17:54
Stolnar fartölvur til sölu
Óvenjuleg auglýsing í Mogga í dag, bls. 24:
Stolnar fartölvur til sölu.
Eins og nýjar. Frábært verð.
Uppl. í síma 6963938.
Ja, þabarasona.
Er verið að gera einhverjum vini grikk? Eða ætlar einhver að telja hve margir eru tilbúnir að kaupa þýfi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar