Færsluflokkur: Dægurmál

Beraðar konur

Sumar konur eru líka einfaldlega betri í fötunum. Annars hlýtur þetta að vera spurning um tækifæri. Kannski líka orðaskilning. Og útfærslu á hvernig maður á að bera sig til. En almennt séð gæti ég ábyggilega staðið mig nokkuð vel í að bera konur. Líklega væri ég hins vegar lélegur að halda á þeim til lengdar.
mbl.is Finnar bestir í að bera konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ábyrgð bankans?

„Þau sóttu um frystingu hjá bankanum eða greiðsluaðlögun en var neitað um hvorttveggja. Ellefu milljóna króna lóðalán stendur nú í fimmtán milljónum, þótt þau hafi þegar greitt af því tvær milljónir. Bankinn íhugar að taka lóðina og teikningu af húsinu uppí fyrir níu og hálfa. Þá skulda þau áfram fimm og hálfa sem bætist við lánið á íbúðinni á Baldursgötu sem er sautján milljónir.“

Eru þetta eðlilegir viðskiptahættir? Að veð sem banki tekur fullgilt fyrir tveimur árum skuli hann svo geta tekið upp í vangoldna skuld á því verði sem honum sýnist og átt samt kröfu á meira úr hendi lántekendanna?

Hver er ábyrgð bankans? Til hvers er yfirleitt að vera að krefjast veðs ef það er svo undirskrift lántakans sjálfs sem ein skiptir máli?


mbl.is Fjölskylda á hringekjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tínast burtu og týnast

Ætli það hafi alveg týnst? Ég meina -- þetta fólk sem tíndist burt?
mbl.is Hafa yfirgefið húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að endurreisa bankana á skuldaaukningu heimilanna?

Er þetta rétt hjá þessari góðu konu?

Er hún að tala um að endurreisa bankana á skuldum heimilanna, sem hafa meira en tvöfaldast að krónutölu við hrun gömlu bankanna?

Á að endurreisa bankana með því að láta heimilin endurgreiða lán upp á 20 milljónir með 50 milljónum? 

Ég veit ekki nema tími Jóhönnu sé liðinn.

 


mbl.is Niðurfelling þýðir kollsteypu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónugerfingur Jógrímu

Í bloggi mínu í gær fjallaði ég um skilningsleysi núverandi ríkisstjórnar eða skeytingarleysi um unga fasteignakaupendur sem ekki er einu sinni reynt að koma til móts við og sýna sanngirni. Þónokkrir urðu til að senda athugasemdir við þetta blogg en því miður flestir á þann hátt að það getur ekki orðið umræðunni til framdráttar og er heldur þeim sjálfum til vansa, ef nokkuð er.

Sá misskilningur virðist á ferðinni að ég hafi sérstaklega verið að veitast að Árna Páli sem einstaklingi. Það er ekki svo, heldur heldur varð hann hér persónugerfingur Jógrímu (ríkisstjórnarinnar sem nú situr) út frá uppleggi Staksteina í gær. Ég efast um að nefndur Árni Páll sé betri eða verri en summan af þeirri ríkisstjórn, sem kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að ólánum heimilanna.

Besta innleggið í athugasemdunum kom frá nafna mínum Þórðarsyni á þessa leið:

Það vill nú bara þannig til í þessu landi að ungt fólk sem hyggst stofna fjölskyldu og koma yfir sig þaki kemst ekki hjá því að taka lán.  Þeir sem voru svo óheppnir að gera það á s.l. 4 árum eiga meira en algert eignaleysi í vændum.  Þeir þurfa í kjölfar aukinnar greiðslubyrði að auka ráðstöfunartekjur sínar og það ekki lítið.  Og hvernig fara þeir að því,  jú með aukinni vinnu. Og hvar fæst hún í dag? 

Og hverjir líða svo allra mest, jú börn þessa unga fólks sem aldrei er heima vegna vinnu.

Við þetta er aðeins því að bæta að ég skil vel að þeim sem tóku 20 milljón króna lán upp í fasteign sem keypt var á 32 milljónir eftir ráðleggingu bestu manna (þess tíma) og að undangengnu greiðslumati sem viðkomandi lánastofnun tók gilt, hrjósi hugur því því að endurgreiða það lán með 50 milljónum -- þar af kannski síðustu 25 milljónunum löngu eftir að langri ævi er lokið (sbr. „greiðsluaðlögun“).

 

 


Árni Páll og félagar hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er spurt: „Eru 50 þúsund krónur smámál?

Árni Páll Árnason, nýr félags- og tryggingamálaráðherra, sýndi fram á í viðtali við helgarúgáfu Fréttablaðsins, svo ekki verður um villst, að vegalengdin á milli hans og sérstakra skjólstæðinga félags- og tryggingamálaráðuneytisins er svo mikil að sennilega verður hún bara mæld í ljósárum.

Orðrétt sagði ráðherrann þegar hann var spurður út í erfiða skuldastöðu heimilanna í landinu:

„Blessunarlega er það ekki þannig að þorri heimila geti ekki staðið í skilum þótt skuldabyrði hafi aukist. Ef þú horfir á verðtryggðu lánin, þá er næstum enginn að verða fyrir meiri hækkun afborgana en sem nemur fimmtíu þúsund krónum."

Það var og! Ráðherranum þykir það bara eitthvert smámál, að heimilin í landinu verði að greiða 50 þúsund krónum meira í afborganir af verðtryggðum lánum sínum en þau gerðu fyrir bankahrun!“

Von er að spurt sé. En:

Árni Páll og félagar hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hafa enga forsendu til að gera sér grein fyrir því að fimm þúsund krónur til eða frá gera gæfumuninn hjá mörgum fjölskyldum þessa lands, einkum þeim sem enn eru ekki orðnar miðaldra.

Árni Páll og félagar hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hafa aldrei haft svo lítið handa á milli.

Árna Páli og félögum hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms flökrar ekki við að ætla yfir 2000 fjölskyldum að borga til baka ríflega tvöfaldan höfuðstól lána sem fengin voru á forsendum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleika dagsins í dag. Ráðið liggi fyrir telur Árni Páll og félagar hans, með „greiðsluaðlögun" sem felur í sér að kannski er hægt að lifa við mánaðarlega afborgun en þeir sem það neyðast til að gera hafa þá bundið sér ævilangan klafa og meira en það.

Hvað ætla Árni Páll og félagar hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms að gera þegar þetta fólk hreinlega gefst upp undan þessari einhliða nauðung, gefst upp á að borga? Veðin sem þá verður gengið að ná aldrei þeim höfuðstól sem lánin eru nú komin í. 

Lítur það tap betur úr heldur en koma fyrirfram við móts við lántakendurna og færa höfuðstólinn niður svo sem skynsamlegt má teljast fyrir lántakanda og lánveitanda?

Líður Árna Páli og félögum hans í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms vel með að vita til þess allsleysis og erfiðleika sem þau hafa þá dæmt þetta fólk til að líða?

 


Stóll seðlabankastjórans ekki góð mubla?

Þegar sól fór að hækka á lofti á liðnum vetri voru barðar pönnur og pottar fyrir því að Davíð Oddsson skyldi rekinn úr stóli seðlabankanstjóra. Gengið var fallið niður úr öllu valdi en vextir roknir upp úr öllu valdi. Bersýnilegt að Davíð var óhæfur í þessum stól.

Þetta var gripið á lofti og pólitískir andstæðingar sem lengi höfðu æmt undan valdi Davíðs, fyrst í ríkisstjórn og svo í Seðlabankanum, fengu því framgengt að Davíð færi austur að Móeiðarhvoli að rækta tré og skrifa sögur. 

Nú skyldi land Seðlabankans rísa.

En hvað? 27. febrúar 2009 var gengi íslensku krónunnar ein á móti 143,19 evrum, á móti dönsku krónunni 19,22.

Svo var fenginn norskur seðlabankastjóri því Íslendingi var ekki treystandi til að gera neitt af viti.

Í dag, 26. febrúar 2009, stendur evran í 177,16 kr en danska krónan í 23,79.

Ég er ekki með stýrivaxtatöluna á hreinu og eitthvað lítillega hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað. En það er nánast bitamunur en ekki fjár.

Var ekki eitthvað bogið við þetta Davíðsbrölt, þegar allt kom til alls?

Er kannski stóll seðlabankastjórans ekki góð mubla?


Blóðgjafarþing þjóðarinnar

Til hvers er Alþingi? Annað nafn fyrir það er löggjafarþing. Sum lögin sem þaðan koma reynast svo ekki hugsuð í botn og þarf nokkur viðbótarlög eða lagfæringar til að koma þeim í það horf að þau standi undir hlutverki sínu. Á Alþingi að stjórna landinu að einhverju öðru leyti? Ég si svona spyr.

Gaman væri ef Alþingi sem nú situr tæki á sig rögg og stefndi að því að verðskulda heiðursnafnið Blóðgjafarþing þjóðarinnar. Blóðgjafarþing þjóðarinnar myndi efla fyrirtækin í landinu þau sem atvinnu veita og leiðrétta hag heimila sem eru skuldug um skynsemi fram af því forsendur lánanna sem þau tóku -- forsendur skapaðar af lánastofununum og ríkisvaldinu -- eru brostnar. Þau sem heimilin skipa gætu þá í einhverjum mæli aftur orðið virkir neytendur sem eru forsenda þess að fyrirtæki og framleiðsla í landinu gæti þrifist.

Mikið væri það nú ánægjulegt ef Alþingi tæki á sig rögg og hætti að tuða um kynjahlutföll og hver situr í hvaða kompu eða annað því líkt og sneri sér að því að verða alvöru Blóðgjafarþing þjóðarinnar. ESB getur beðið -- það hefur beðið annað eins!


Búið að sauma fyrir kjaftinn á þeim

Hvar eru ungliðar Samfylkingarinnar og VG? Það er búið að sauma fyrir kjaftinn á þeim. Þeir stóðu hér í vetur með potta og barefli til að ryðja brautina fyrir Jóhönnu og Steingrím að komast til valda og þegar því marki var náð var þeim sagt að halda kjafti og þau gegna því.

Eitthvað á þessa leið sagði Bubbi (þiði vitið hvaða Bubbi) niðri á Austurvelli nú fyrir stundu á of fámennum útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég hef ekki alltaf verið í klappliði Bubba en nú klappaði ég. Lætin sem efnt var til í vetur á þessum sama stað virðast ekkert hafa gert nema tefja enn rækilegar fyrir því að ranglætið sem skuldug heimili verða að búa við verði leiðrétt. Og ekkert bólar á því að ríkisstjórin -- fyrsta hreinræktaða vinstri ríkisstjórnin á Íslandi, nóta bene -- ætli að taka á því með nokkru öðru en vissum slaka á hengingarólinni, enda brennur þessi vandi ekki á þeim mannspersónum sjálfum sem þar standa fremstar í flokki og leggja línur. 

Auk Bubba (sem aðallega söng) tóku til máls Bjarki Steingrímsson varaformaður VR sem hafði sumpart týnt ræðu sinni en fann hana aftur í miðju kafi -- eða amk. einhver slagorðablöð. Guðrún Dadda Ásmundardóttir, stjórnarmaður í HsH sagði frá efnahagslegri reynslu sinni í 80 fermetra íbúð með þrjú börn og atvinnulausan mann, talaði skýrt og æsingalaust, Jóhanna og Steingrímur hefðu haft gott af að heyra til hennar.  Ólafur Garðarsson í stjórn HsH talaði um margt skynsamlega en óskynsamlega lengi. Hann skýrði vel sjónarhorn þeirra sem að ósekju standa uppi með fasteign hrapaða í verði móti lánum sem hafa rokið langt upp fyrir jafnvel það verðmæti fasteignar sem lagt var upp með þegar lánið var fengið.

Rúsínan í pylsuendanum var svikalaust Sigrún Elsa Smáradóttir. Hún er borgarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar en talaði þarna eins og hún sjálf tók fram og glöggt mátti skilja sem einstaklingur frá eigin brjósti. Hún byrjaði mjög vel og málefnalega með því að útlista hvernig stjórnarflokkarnir hafa amk. enn sem komið er hundsað samþykktir landsþinga sinna gagnvart fjárhagsvanda heimilanna og ranglætið sem felst í því að ætla skuldugum heimilum að borga lán sem hafa af ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum ástæðum margfaldast í verði þó forsendur hafi gjörbreyst frá því lánin voru veitt og tekin, forsendum sem lagðar voru upp af lánveitendum og ríkisvaldi, eins og Sigrún Elsa réttilega benti á og lagði áherslu á. Ljóst var raunar að fundargestir höfðu frá upphafi pólitíska andúð á Sigrúnu Elsu og sýndu það með púi og framíköllum og -- því miður -- varð henni það á undir lokin að stíga rækilega í kamarfötuna með lofgjörðarrollu um ESB sem var gjörsamlega út úr kú á þessum stað og þessari stund.

Fundurinn var haldinn til að leggja áherslu á kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Þær eru skýrar og ljósar:

* Að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum
* Að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð
* Afnema verðtryggingu
* Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði
* Samfélagslega ábyrgð lánveitenda

Það er ekki verið að tala um eftirgjöf eða að neinn tapi einhverju.  Aðeins sanngjarnar leiðréttingar. Eða er það eðlilegt og sanngjarnt að fjármálastofnun sem veitti 20 milljón króna lán meðan allt var í hátoppi eigi allt í einu kröfu upp á að það lán verði greitt með 47 milljónum -- fyrir utan vexti?


Æpandi þögn seljandans

Fyrr í þessum mánuði, þann 9. til að vera nákvæmur, skrifaði ég hér pistil um hrapallega mislukkaðan mat sem við hjón keyptum í Bónusi, grunlaus þó því allt leit þetta vel út.

Matur þessur var ekki merktur framleiðanda heldur aðeins sagt að hann væri framleiddur fyrir Bónus.

Mér til mikillar undrunar hafði svo að segja strax samband við mig gæðastjóri hjá þekktu matvælafyrirtæki og hafði þekkt sína vöru á mynd sem ég hafði látið fylgja. Hann baðst margfaldlega fyrirgefningar á því sem hann lýsti sem mistökum hjá fyrirtæki sínu og sendi auk þess skaðabætur til að fylgja máli sínu eftir.

Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en hann segi satt en mikið mega menn passa sig í þessum bransa til að svona mistök verði ekki.

Skaðabæturnar voru góðar, eins og reyndar má segja um þær vörur sem við hér höfum áður keypt frá þessu fyrirtæki vitandi vits, og gaman að vita til þess að framleiðandinn hefur sjálfur metnað fyrir vöru sinni, þó hún komi ekki merkt honum til neytandans.

Ef marka má æpandi þögn seljandans um þetta efni er ekki þess konar metnaði fyrir að fara þar á bæ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband