Færsluflokkur: Dægurmál
29.4.2008 | 15:03
Ódýr fjögurra daga lúxus
Ég fór á námskeið um daginn, grunnnámskeið í ákveðnu tölvuforriti. Fékk ca. 11 klukkustunda spankeyrslu samtals skipt á tvo daga + samlokur (líklega úr grænmetisbúð, gott ef ekki lífrænar) en varð að kaupa kaffið sjálfur úr sjálfsala sem þurfi vélstjórapróf á, eða sækja mér það í kalda kranann á karlaklósettinu.
Reikningur: kr. 35.900.
Hlakka til að komast á fjögurra daga lúxusnámskeið í Reykholti, sbr. blogg mitt frá 20. apríl. Með gistingu og fullum viðurgjörningi (= veislumat, ef ég þekki Fosshótel Reykholt rétt), kennt frá 9-12, tveir tímar í hvíld og svo aftur kennt í þrjá tíma. Gisting í fjórar nætur og kvöldvökur annað hvert kvöld.
Reikningur: aðeins 64.000 allur pakkinn.
Haldiði að það sé munur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2008 | 17:05
Kafli í Sturlungu hinni nýju?
Í þessari frétt er ekkert um það sagt í hvaða leik ungmennin eitthundrað voru á Miklubrautinni.
Var þetta kannski kafli í Sturlungu hinni nýju?
![]() |
Rýmingu lokið á Miklubraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2008 | 16:31
Lögreglan sem byrjaði?
Gleðilegt sumar, bloggvinir og aðrir lesendur!
Afar fróðlegt að lesa skeytasendingarnar sem urðu blogghalinn minn í gær. Mest áberandi er hve margir þeirra sem skeytin sendu virðast hafa lesið bloggið mitt eins og sagt er að skrattinn lesi Biblíuna og/eða ekki skilið það sem þeir voru að lesa.
Kannski hefur mál mitt verið svona óskírt. Ég held þó frekar að viðbrögðin hafi orðið þau sem þau urðu vegna þess að ég var ekki í þeim hallelújakór sem söng aðgerðum vörubílstjóra við Baldurshaga lof og prís og ullaði á lögguna.
Augljóst mátti þó vera að mínum dómi að ég var ekki að fordæma þann málstað sem bílstjórarnir segjast vera að berjast fyrir. Ég var að fordæma það ofbeldi sem þeir beita í aðgerðum sínum.
Forystumaður þeirra leyfir sér að segja frammi fyrir alþjóð að það hafi verið lögreglan sem byrjaði og átti við átökin þar sem trukkunum hafði verið raðað saman á Suðurlandsveg við Baldurshaga -- eða mér virtist sá vera staðurinn eftir myndum að dæma.
Lögreglan sem byrjaði? Var það hún sem safnaði trukkunum þar saman? Hver var byrjunin, ef ekki það?
Þær fréttir sem fluttar hafa verið eru ekki nógu alhliða til að geta dæmt um framgöngu lögreglunnar og fagmennsku í því efni. En sjónvarpsmyndin af ungum og heldur fríðum lögreglumanni sem gekk fram með piparúðabrúsa öskrandi gas, gas, var ekki beinlínis til að vekja aðdáun á lögreglunni sem verjendum lands og lýðs.
Á sama hátt má segja um þær myndir sem þjóðinni hafa borist af vettvangi að þær hafi ekki orðið til að vekja samúð með múgnum sem þarna safnaðist saman til æsingar. Ljóst að sumir fóru aðeins til að komast í hasar. Aðrir hafa ugglaust haldið að þeir væru að leggja góðum málstað lið.
Það sama mátti segja um margar athafnir td. í heimsstyrjöldinni síðari sem síðan hafa verið fordæmdar og heilum þjóðum lagðar til lasts.
Í athugasemd frá mér við öðru bloggi í gær sagði ég það sem ég vildi sagt hafa í þessu máli öllu: Það er eitt að hafa samúð með þeim málstað sem flutningabílstjórar -- amk. í orði kveðnu -- eru að berjast fyrir með því ofbeldi sem almennri umferð er sýnt með aðgerðum þeirra. Allt annað er hvort maður hefur samúð með aðferðum þeirra og skrifar upp á þær.
Hið þriðja kynni svo að vera hvort maður hefur skilning á því skilningsleysi sem kröfum þeirra en sýnt af hálfu þeirra manna sem boðið hafa sig fram til að þjóna þjóðinni og leysa úr vandamálum hennar og verið kosnir til.
En einnig þeim óska ég gleðilegs sumars.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.4.2008 | 11:00
Með hryðjuverkatákn á hausnum
Það er spurning hvort ekki þarf að veita þessum mönnum varanlega hvíld. Fá þeim önnur störf að vinna en ráða á bílana menn sem ekki telja hag sínum best borgið með því að skemma fyrir almenningi.
Þeir sem eru hinir raunverulegu viðsemjendur bílstjóranna í hvíldartímamálinu sitja náðugt í sínum stólum og kemur ekki hót við hvort umferð er stífluð hér eða þar, eða hvort flautað er á forseta þjóðarinnar eða hvort baráttumaður bílstjóranna vefur hryðjuverkatákni um höfuð sér. -- Það verður þó líklega seint um hann sagt að hann villi á sér heimildir
![]() |
Bílstjórar taka hvíldartíma" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2008 | 23:43
Verst að maður verður að velja eitt
Ef maður er svo heppinn að komast upp eftir árunum við sæmilega heilsu og nær því að fá það sem í þýddum frásögnum heitir eftirlaun en á íslensku eitthvað fyrir ellilífeyris- og örorkuþega (gamalt fólk og öryrkjar eru alltaf sett saman í eina kippu) stendur ekki á tilboðum af ýmsu tagi: læra útskurð og postulínsmálun eða fara í ferðalög til Færeyja eða Grænlands eða jafnvel upp í Kárahnjúka sem enn kváðu standa upp úr þó búið sé að sökkva umhverfi þeirra. Allt ugglaust góðra gjalda vert
En
Stórum áhugaverðara þykir mér námskeið sem boðað er í Reykholti í Borgarfirði dagana 19.-23. maí nk - eða réttara sagt syrpa af námskeiðum: Í samvinnu við Snorrastofu verður boðið upp á námskeið í sögu Snorra Sturlusonar. 1. Farið verður ítarlega í sögu Snorra Sturlusonar, sagt frá rannsóknum, gengið um svæðið og fleira og allt í leiðsögn færustu vísindamanna á þessu sviði. 2. Námskeið í leikrænni tjáningu þar sem byggt verður á íslenskri sagnahefð. 3. Námskeið í jóga þar sem farið verður í fræðin að baki jógaiðkun, mataræði og lífsstíl og kenndar ýmsar æfingar.
Glæsileg námskeið, finnst ykkur ekki? Verst að maður verður að velja eitt en getur ekki verið með í öllum. Ekki í sama skiptið, en ef þetta gengur vel verður sagan endurtekin.
Gist verður á Fosshótelinu í Reykholti með fullu fæði og öðru hóglífi allan tímann.
Fyrir utan þessa megindagskrá verða kvöldvökur tvö kvöldin og má af lítillæti geta þess að ég hef tekið að mér að skipuleggja og sjá um aðra kvöldvökuna. Að auki standa svo til boða öll þægindi hótelsins í Reykholti ef einhver skyldi ögn þurfa að komast í slökun eða bara góðan heitan pott inn á milli dagskrárliða (eða skrópa pínulítið...)
Um þetta allt getið þið lesið nánar á heimaslóðinni http://www.hugleidir.is/ en Hugleiðir er einmitt fyrirtækið sem býður þetta forvitnilega námskeið.
Kannski sjáumst við í Reykholti?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2008 | 17:15
Óþéttar útidyr og klósett sem frussar
Það er magnað að fá upp í hendurnar brandara úr daglega lífinu, þið vitið, svona sögur og tilsvör sem verða til eins og sjálfskapaður hlutur án þess að nokkur hafi ætlað að vera fyndinn. Hér eru tvö dæmi um tilsvör og orðaskipti við fulltrúa húsbyggjanda/verktaka/húsnæðisseljanda:
Útidyr eiga ekkert að vera vindheldar. Til þess eru innri forstofudyrnar.
--
Öll klósett frussa upp úr sér þegar sturtað er niður.
Hmm? Ég hef aldrei vitað til þess fyrr.
Já, en hefurðu nokkurn tíma áður verið með svartar flísar á klósettgólfinu?
--
Ætli þetta sé kennt í iðnskólanum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2008 | 11:26
Kvengeldingar
Enn er eins og konur telji sig aðskotahluti í mannheimum, einhvers konar kvengeldingu felast í því að gegna störfum sem málfræðilega bera karlkyns heiti. Nú ætlar bæjarstjóri austur á landi að fara að kalla sig bæjarstýru.
Verði henni að góðu. Hvað myndi hún kalla sig væri hún hjúkrunarfræðingur? Allar hjúkkur sem ég þekki ætla að trompast ef mér verður á að kalla þær hjúkrunarkonur, sem þó er málfræðilega kvenkyns starfsheiti. Hvað með sjúkraliður? Eða leikskólakennslukonur? Eða flugstýrur?
Fyrirgefið konur, en mér finnst þið gera lítið úr ykkur með þessu móti. Gangið inn í hvaða störf sem þið viljið en berið viðeigandi starfsheiti með þeirri reisn sem starfið á skilið. Þið eruð þó fjandakornið menn!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2008 | 17:31
Um bloggvini og reglustrikureglugerðir
Eins og tryggir lesendur mínur hafa kannski tekið eftir hef ég ekkert bloggað nú um skeið og get varla sagt að ég hafi litið á blogg. Alls ekki sinnt bloggvinum mínum vel. Því ráða annir af margvíslegum toga og má hver túlka svo sem honum sýnist.
Svo lítur út sem ítarlegt bloggbindindi sé vænlegt til vinsælda, því aldrei hafa jafn margir boðið mér nýja bloggvináttu á jafn skömmum tíma. Því miður verð ég að tilkynna þeim að ég hef að sinni ekki ráðrúm til að sinna þeim bloggvinum sem ég hef fyrir hvað þá nýjum, og því hafnað þessum kostaboðum.
Ekki hefur bloggið þó legið niðri af því að bloggefni hafi skort. T.a.m. aðgerðir trukkastjóra sem hafa sumir hverjir lagt sig fram um að ergja blásaklausan almenning sem ekkert ræður við eldsneytisverð né heldur reglur um hvíldartíma flutningabílstjóra. Enda hefur almenningur brugðist ókvæða við og m.a. útvarpsmaður nokkur sem fer iðulega með munnlegt blogg á RÚV rás 1 var á dögunum með heldur kuldalega umsögn um flutningabílstjóra sem krefðust þess að fá að aka hálf meðvitundarlausir af þreytu og svefnleysi um okkar örmjóu og ruggóttu þjóðvegi með 40 tonna farm + trukkinn eins lengi og þeim sýnist.
Af því gefna tilefni má nefna að vissulega eru reglur um hvíldartíma góðra gjalda verðar og vissulega verða flutningabílstjórar að skipuleggja ferðir sínar eftir bestu getu og jafnvel koma sér upp koppum sem þeir geta athafnað sig á í skjóli síns eigin bíls, eins og einhvers staðar var gerð krafa um. En mér finnst líka að hægt væri að malbika handa þeim svæði þar sem þeir geta þá lagt bílum sínum á annars staðar en úti í kanti á okkar örmjóu og ruggóttu þjóðvegum, meðan þeir fá sér hinn tilskilda blund samkvæmt reglunum frá Brussel og gera þarfir sínar í koppinn. Og að auki, eins og nú hefur verið sótt um, gera reglurnar ögn sveigjanlegri svo þeir nái því að aka 5-10 mínútur í viðbót til að ná inn á stað þar sem þeir geta stöðvað bílinn svo lengi sem krafist er, án þess að vera þar sjálfum sér og öðrum til voða.
Í þessu samhengi má benda á að í svo mörgum tilvikum sem verða hérlendis af því ökumenn sofna undir stýri eru það sjaldnast flutningabílstjórar. Svo áhættan af því að hleypa þeim inn á næsta alminlega hvíldarpláss er hverfandi miðað við ýmislegt annað, þó það stangist á við reglustriku-reglugerð austan úr Evrópu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.3.2008 | 14:29
Undir smarties handa gestum
Efsti hluti af hauskúpu, líklega konu eða barns, til sölu. Lítið notaður síðustu 30 árin eða svo, aðallega undir smarties handa gestum. Eitthvað á þessa leið var smáauglýsing í The Vivid Imagination og hið eina sem ég fann þegar ég fór að gefnu tilefni að leita mér að hausskúpu til heimilisskrauts.
Ég fann ekkert þar um í smáauglýsingum mbl.is, ekkert í ebay.com og ekki einu sinni í google. -- Allar líkur á að maður verði bara að fara á stúfana sjálfur eða láta kyrrt liggja. Í gröf sinni, vígðri eða óvígðri.
![]() |
Ekki frekari eftirmál af beinfundinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2008 | 11:56
Óraddskipt mjálm
Eitthvað er sagt vera til sem heitir almennur safnaðarsöngur í kirkjum. Þá er átt við að þeir sem slæðast í kirkju af tilviljun haldi uppi messusöngnum.
Af þessu fyrirbæri eru til skemmtilegar sögur í bókum. Sjaldnast er þetta skemmtilegt á að hlýða og þeim sem koma í kirkju á venjulegum sunnudegi til að eiga þar góða stund með guði sínum getur verið hreinasta kvöl að fá þar ekki söng annan en almennan safnaðarsöng.
Einhverra hluta vegna er almennur safnaðarsöngur mikið hugðarefni sumra kirkjunnar manna og í því skyni hefur verið lögð áhersla á að jafnvel þar sem kór er til að leiða almennan safnaðarsöng (eins og undirspil sæmilegs organista sé ekki nóg til þess) séu sálmar sungnir einraddaðir.
Gott og vel. Sum sálmalög eru vel fallin til að syngja þau einradda. Önnur verða ekki svipur hjá sjón og vekja manni ömurleikatilfinningu þannig útþynnt. Eins og gerðist núna rétt áðan í útvarpsmessu og er kveikjan að þessu bloggi. Ljóð (sálmur) Davíðs Stefánssonar við lag Guðrúnar Böðvarsdóttur, Ég kveiki á kertum mínum, á ekki að flytja opinberlega í einrödduðum söng -- nema einsöngur komi til. Óraddskiptur flutningur hóps á þessu lagi er helgispjöll -- fyrir bragðið nenni ég ekki að hlusta á hvað presturinn er að segja og hefur hann þó sjálfsagt eitthvað nýtt og fróðlegt til málanna að leggja, sem enginn hefur sagt áður síðustu 2000 árin, eða frá því Gyðingar drápu Krist eins og ótíndan Palestínumann.
Nú viðurkenni ég að ég er í kirkjukór þessa stundina og hef löngum verið. Og þegar ég fer í kirkju án þátttöku í viðkomandi kór leyfi ég mér að taka undir sönginn -- syngja almennan safnaðarsöng -- ef svo ber undir. Nema flutningur viðkomandi kórs eða sönghóps sé þvílíkt afbragð að maður vilji bara leggja við hlustir og njóta og þvílíkar stundir eru gersemar! En fyrir alla muni, almennum kirkjugesti er fyllilega heimilt að taka undir og jafnvel til þess ætlast -- til hvers haldið þið annars að sálmanúmerin séu sett upp á töflu svo maður geti flett upp textanum? Ef kórinn víkur þar frá og fer með eitthvað sem almennt er ekki boðið upp á ber manni að þegja og hlusta.
En: Sálmasöngur og jafnvel messusvör eru allt frá því að vera snotur melódía upp stórbrotin verk. Lofsöngur hvort heldur er. Drjúgur partur messunnar er þessi lofsöngur. Hann á að vera fallegur og vel fluttur, almennum kirkjugesti til ununar hvort heldur hann tekur undir eða ekki.
Til þess dugar ekki almennur safnaðarsöngur. Ekki heldur óraddskipt mjálm kórs nema þar sem það á við.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar