Færsluflokkur: Dægurmál
14.5.2008 | 20:20
Hvers vegna ekki metan á bílana?
Ég held ég hafi séð útundanmér einhvers staðar í blaði að Ríkið hefði sett sér ákveðið mark í rekstri vistvænna bíla, gott ef ekki að 10% af bílum á vegum ríkisins yrði orðið vistvænir bílar fyrir árslok 2010. Ennfremur að þetta mark myndi ekki nást.
Í sjálfu sér undrar þetta mig ekki. Það sem undrar mig er að ekki skuli vera markvissara unnið að því að gera Metan -- innlenda framleiðslu -- að fýsilegum kosti sem eldsneyti fyrir bíla.
Við erum alla daga að framleiða metan í gegnum sorpið okkar og á vegum sorphauga borgarinnar í Álfsnesi á Kjalarnesi er það markvisst gert að nýtanlegri orku. Því miður er það aðeins fáanlegt sem eldsneyti á bíla einum stað á höfuðborgarsvæðinu, hjá olíufélaginu sem hefur valið sér óskiljanlegt nafn, einn bókstaf og einn tölustaf sem hefur enga merkingu, ekki fyrir almenning að minnsta kosti, en selur metan á sölustað sínum á Ártúnsbrekkubrún.
Þangaði er því ekið í gámi ofan úr Álfsnesi og tappað beint af honum að mér skilst á bílinn. Það er aðeins þrýstingsmunur sem knýr þar gasið milli ílátanna. Þetta er seinlegra en dæla bensíni á bíl, en alveg viðunandi engu að síður.
Það sem ég ekki skil er hvers vegna er ekki hægt að flytja svona metan-sölugáma á fleiri staði, svo sem eins og Keflavík eða Selfoss og gera þar með að fýsilegri kosti að vera á bíl sem getur gengið fyrir metani.
Eina skýringin er sú að dreifingaraðilanum sé ekki akkur í því að selja þessa innlendu orku í samkeppni við þá erlendu sem er aðal markmið þess að selja.
Þarna verða yfirvöld að koma til og breyta þessu eða standa fyrir dreifingunni sjálft.
Vissulega kemur CO2 úr bruna af metani eins og bensíni, en þetta CO2 færi út í loftið hvort sem væri þannig að það er ekki aukning á mengandi útblæstri, aðeins nýting á þeirri mengun sem er til staðar hvort sem er. Og bílar sem ganga fyrir metan -- þeir sem ég hef gripið í -- eru ekki síðri akstursbílar en þeir sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu.
Eins og er er framboð á metanbílum ekki mikið, af því að framboð af metani á þá er svo takmarkað. Og framboð af metani sem eldsneyti er svo lítið sem raun ber vitni af því eftirspurnin eftir því er svo lítil.
Er til öllu pottþéttari svikamylla? Eða ætti maður að segja vítahringur?
PS: Þessari færslu var breytt kl. rúmlega 21 þegar mér var ljóst að það var sjálft íslenska ríkið sem nær ekki að standa við markmið sín í þessu efni.
Dægurmál | Breytt 15.5.2008 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 14:52
Að borga fyrir rukkunina
Fyrr í þessum mánuði var farsími (GSM) frá þessu heimili notaður lítillega í útlöndum, svokallaður Frelsissími. Síðan kemur reikningur fyrir þessa notkun upp á samtaks 527 krónur, þar af útskriftargjald kr. 250 (vsk. af því 49 kr).
Útskriftargjald? Ég sé ekki betur en það sé kostnaðurinn af því að búa til reikning og senda hann. Reyndar birtist þessi reikningur sjálfkrafa inn í einkabanka viðkomandi sem ætti að vera nægilegt fyrir flesta skuldara.
Er þetta siðlegt og löglegt, að notandi þjónustu skuli þurfa að borga sérstaklega fyrir að vera rukkaður fyrir hana?
Forlátið að mér finnst þetta dónaskapur. Ef einhver vill minna mig á að ég eigi honum skuld að gjalda finnst mér lágmark að sú áminning sé á hans eigin kostnað. Nema greiðslan hafi dregist umfram tilskilinn tíma, sem ekki var í þessu tilviki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2008 | 12:29
Leiðinda villa í brúm að baki
Fyrir menn eins og mig sem hafa sérstakan áhuga á sögu samgangna á Íslandi -- einkum samgangna á landi -- er sérstakur fengur að bók eins og Brýr að baki, sem Verkfræðingafélag Íslands gaf út árið 2006.
Þar er sagt frá sögu íslenskra brúa svo langt aftur sem sögur herma og skreytt með mörgum myndum.
Að langmestu leyti er bókin (það sem ég hef þegar lesið af henni) áhugaverð, fróðleg og læsilega skrifuð.
Eins og vænta má í svona riti og sennilega er aldrei hægt að komast hjá að inn slæðist villur sem er slæmt, því það er þar með orðið stafur á bók og vísindi sem vitnandi er í.
Því miður er leiðinda villa í myndatexta á bls. 197. Þar er minnst á Thomsensbílinn, fyrsta bíl sem kom til Íslands. Það var árið 1904 svo sem kunnugt er, en í myndatextanum staðhæft að hann hafi verið seldur úr landi ári síðar sem er rangt. Í bókinni Saga bílsins á Íslandi 1903-2004 kemur fram og vitnað í öruggar heimildir að hann var ekki seldur utan aftur fyrr en árið 1908. Hann var meira að segja notaður eitthvað hérlendis sumarið 1905 og þá var ökumaður hans Tómas Jónsson sem síðar varð kjötkaupmaður á Laugavegi 2.
Tilvist Thomsensbílsins hér fram yfir árið 1905 og lengur kemur raunar fram víðar í ritum en þeim mun hryggilegri og engu síður bagaleg þessi staðhæfing í jafn merkri bók og að því er virðist um flest vandaðri og Brúm að baki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2008 | 15:45
Undarleg fælni við að viðurkenna löngun til sólarlanda
Ferðir til sólarlanda seljast nú sem aldrei fyrr, þrátt fyrir að fjölmiðlar hamri á hallæri sem nær yfir bankana og miðin -og þá merkilegu staðreynd að sé minnst á sólarlandaferðir við hinn almenna Íslending fer hann strax í bakkgír og fer að tala um hvað það sé leiðinlegt að liggja í sólbaði.
Só vott? - svo gripið sé til nýíslensku. Er endilega samasemmerki milli þess að una sér vel í hlýju veðri og björtu og tilþess að leggjast marflatur á sólbekk og góna upp í loftið?
Frá því ég fór mína fyrstu ferð til Sólarlanda(hafði verið að vinna dálítið fyrir eina ferðaskrifstofuna og neyddist til að taka Mallorkaferð fyrir okkur hjónin og yngsta barnið upp í launin) hef ég verið yfir mig hrifinn af sólarlandaferðum en afar lítið gert af því að liggja ísólbaði - skal þó viðurkenna að ég hef lagt mig stund og stund í sand við sjó og bara unað því vel allt upp í hálftíma samfleytt.
Því í sólarlandi er hægt að gera margt fleira en að liggja á sólbekk og góna upp í loftið. Til dæmis fara í langar gönguferðir og bara njóta þess að vera léttklæddur og finna sólargeisla og dálítla golu leika um kroppinn. Og hver hefur ekki gaman af því að ganga í flæðarmálinu og fá öldurnar annað veifið allt upp að hnjám? Þess á milli tylla sér inn á góða ölkrá og fá sér bjórkrús eða kaffibolla, eftir því hvernig maður sjálfur og ferðafélaginn er stemmdur í það og það skiptið? Og horfa á mannlífið misbert allt í kringum sig.

Sofa fram eftir á morgnana og setjast svo út á svalir með morgunmatinn sinn og horfa á þá sem una sér við að liggja marflatir á sólbekk og góna upp í loftið. Bregða sér kannski í minigolf einhvern tíma dagsins og skellihlæja að sjálfum sér og hinum sem eru allt í kring jafn miklir klaufar að berja hvítu kúlurnar, eða skreppa að skoða fallegan skrúðgarð eða jafnvel dýragarð - nú eða þá fara í búð. Verst hvað allt er dýrt í sólarlandinu.5 lítra kútur af venjulegu vatni ( því það er yfirleitt ódrekkandi úr krananum á þessum stöðum) 225 kr. Mjólkurlítri 147,50.
400 gr heilhveitibrauð (ekki sérlega gott) 250kr. 6 tómatar í pakka (góðir að vísu) 125 kr. Appelsínur 125 kr. pr. kg. Rauðepli (góð) 233 kr pr. kg. Og þannig

mætti áfram telja, ég á allt bókhaldið í smáatriðum.Verðið er eins og það var á Kanarí í febrúar og miðað við evruna á 118 kr.
En til að bæta þetta upp set ég nokkrar myndir með frá sömu ferð.
Og aðeins með myndunum-- verst að textarnir lenda ekki alltaf með réttri mynd vegna kunnáttuleysis míns á því sviði, en þá ber að lesa í sömu röð og myndirnar:
Ekki þykir öllum leiðinlegt að liggja í sólbaði. Sumir sinna því verkefni eins og þeir hafi keypt sólarljós eftir fermetratali, svo og svo margar mínútur m.v. fermetra skinns

Aðrir eru ekki að vesenast í að klæða sig einhver ósköp. Hattur og bakpoki dugar alveg fyrir manninn á myndinni.
Blogghöfundur á það alveg til að halda sig á öruggum stöðum og kunnuglegum.
Á sunnudögum má gera góð kaup í notuðum bílum á markaðnum við Faro 2.
Færslu breytt svo að segja strax eftir innfærslu af því sums staðar er hafa orð slengst saman þó ég þykist hafa sett bil á milli þeirra. Og aftur nú á sunnudagsmorgni. Bið lesendur að sýna þolinmæði og lesa í málið þó forritið sé eitthvað að skemma fyrir mér.
Dægurmál | Breytt 12.5.2008 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.5.2008 | 19:07
Á hvaða hæð er jarðhæð?
Ég get ekki á mér setið að bæta hér við pistilinn frá því fyrr í dag. Ágætur vinur minn sendi mér semsé tölvubréf um málefnið og ég get ekki stillt mig um að skeyta erindi hans hér inn í hjá mér, í gæsalöppum en án þess að geta nafn hans því til þess hef ég ekki leyfi og get að auki skrifað upp á það sem hann segir hér:
Stundum óskar maður þess að hafa komið sér upp "bloggi" þegar eitthvað skrýtið rekur á fjörur og það væri við hæfi að fá útrás.
Eitt slíkt var um helgina þegar Námsgagnastofnun var að auglýsa eftir húsnæði til leigu og þar sagði í skilmálum: lagerhúsnæði á jarðhæð og skrifstofuhúsnæði á 1. hæð.
Eitthvað finnst mér þetta "útlenskt" því venjan hér á landi hélt ég vera að að jarðhæð væri 1. hæð (nema þegar menn eru að fela það að kjallari sé jarðhæð en ekki ekki kjallari) og síðan væri næsta hæð 2. hæð.
Fyndni parturinn var að mínu mati að það er Námsgagnastofnun (þeir sem eiga væntanlega að hafa vit á íslensku) sem er að auglýsa
Ég er sammála og einnig um að heggur sá er hlífa skyldi ef Námsgagnastofnun lætur svona frá sér fara.
En fleiri mega passa sig. Td. RÚV rás 1, sem að mínu viti er aðal útvarpsstöðin og hefur kannski enn ríkari málfarsskyldum að gegn en þær hinar. Nú síðast í Speglinum, fréttaskýringaþætti eftir kvöldfréttir, var talað um að standa sig í stykkinu sem er tvítekning: annað hvort stendur maður sig eða maður stendur í stykkinu. Ekki hvort tveggja. Og í gærkvöldi var í Seiði og hélogi lesin þýdd klausa úr erlendri skáldsögu um einhvern sem hljóp eins og fætur toga eitthvað út í buskann. -- Ég er þeirrar skoðunar að þarna hefðu báðar sagnirnar átt að vera í sömu tíð.
Hvað segja málfarsspekingar?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.5.2008 | 09:50
Vegir þaktir með eftirrétti
Ég ólst upp við þann málskilning að krap væri vatnsblandaður snjór en krapi væri eftirréttur búinn til úr frystum ávaxtasafa eða einhverju þvílíku -- þynnri ábætisís en rjómaís.
Nú lenda ferðalangar í kröppum dansi þegar vegirnir eru þaktir með svona eftirrétti.
Það versta er að orðabókin samþykkir þá breytingu sem orðin er á merkingu þessara orða.
Kannski verður þá gamall hundur að læra að sitja, hvort sem honum líkar betur eða verr.
Það er svo margt sem breytist í málfari sem öðru. Ekki er langt síðan ég ætlaði að ganga tiltekinn göngustíg en kom þá að skilti sem á stóð: Lokað vegna lagningu XX-brautar.
Mig rak í rogastans. Lagningu? Ekki vegna lagningar?
Hvað segja nú málvitringar? Eigum við að hafa lokað vegna lagningu vegar, eða ófært af völdum eftirréttar?
![]() |
Árekstur í krapa og snjó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2008 | 14:02
Dælulyklar hálfgert prump
Eldsneytisfélögin halda áfram að skara eld að sinni köku (úps! eldfimt orðalag!) og slá ryki (svifryki?) í augu bíleigenda, m.a. með svokölluðum dælulyklum. Þegar ég fékk fyrst dælulykil -- ætli lítrinn hafi ekki kostað um 100 krónur þá? Það er ekki svo glöggt að fylgjast með eldsneytisverðinu. En að því gefnu hefur afsláttur af skráðu verði þá verið um 2%.
Nú kostar bensínlítrinn 150 kr. og þar yfir. Þá er afslátturinn kominn niður í 1,33%. Er sem sé að verða næstum að engu, orðinn hálfgert prump. Væru eldsneytissalarnir sjálfum sér samkvæmir og ætlist til einhverra tryggða út á lyklana sína ættu þeir að binda afsláttinn við hundraðshluta verðs. Þá er það kannski einhvers virði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.5.2008 | 22:12
Ekki ögn sem ég gef…
Það eru erfiðir tímar,það er atvinnuþref,ég hef ekkert að bjóða,ekki ögn sem ég gef,nema von mína og líf mitthvort ég vaki eða sef,þetta eitt sem þú gafst mérþað er alt sem ég hef.

Þetta -- raunar öll erindin úr baráttusöngnum Maístjörnunni -- sungu nokkrir tugir leikskólabarna í Kjarna í gær svo undir tók í fellunum sjö í Mosfellsbæ. Utanbókar og stóð ekki í þeim. Ekki ögn sem ég gef nema von mína og líf mitt
Og gamlir karlar fengu kökk í hálsinn.
Konan á bókasafninu vakti máls á því við mig hvílík synd það er að virkja ekki krakkana á þeim aldri sem þau eru næmust og láta þau læra okkar dýrmætu ljóð utan að. Vekja með þeim málkennd og dálæti á ljóðum eða fallega orðuðu máli almennt. Þau eru ekki einu sinni látin læra skólaljóðin utan að.
Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Og svo getið þið skemmt ykkur við að finna afabarnið mitt í hópnum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2008 | 23:37
Kjallarar Austurríkis
Hver segir að þetta hafi verið eini kjallarinn sem Josef Fritzl hefur á samviskunni? Er ekki til í dæminu að hann hafi haft þá fleiri í takinu - hann virðist jú hafa verið fær í að innrétta hljóðeinangrað með rafstýrðum læsingum og allt þvílíkt af mikilli list. - Á hann fleiri neðanjarðarfjölskyldur sem nú eru að verða kviksetningu að bráð þegar hann kemst ekki til að færa þeim lífsbjörgina?
Þessi óhugnaður tekur flestum skáldsögum fram. Og ítarlegar lýsingarnar eiga ábyggilega eftir að gefa fleiri siðblindingjum blod på tanden með að feta í fótspor illvirkjans.
![]() |
Josef Fritzl grunaður um morð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 306587
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Að vísu var ég í útlöndum þegar umræðan var mest um einkaþotuflug forystumanna þjóðarinnar sem stjórnarandstaðan og fjöldi almennings hneykslaðist sem mest á, þar með talið flug til norður-Noregs ef ég hef skilið umræðuna rétt, sem mér skilst að hafi með einkaþotufluginu tekið eitthvað um fimm tíma, eins og hefðbundið flug suður í sæluna til Kanarí.
Ég skil bara ekki þetta snakk um einkaþotur.
Ef ég tek mér leigubíl, kannski til að þurfa ekki að sæta því að taka strætó frá A til B til þess að taka annan almenningsvagn frá B til C og vera 4 tíma á leið sem ég er aðeins eina klukkustund með leigubílnum -- er þá þessi leigubíll orðinn einkabíll minn?
Að vísu hét það forðum dag að taka prívatbíl þegar fólk tók leigubíl skemmri eða lengri leiðir. En það var líka áður en almenningur fór að eiga prívatbíla -- og í þá daga sem jafnvel venjulegt verkafólk gat leyft sér að taka leigubíl til ferða sinna. Jafnvel heilan dag í senn.
Forlátið mér, en mér finnst heimskulega ruglað saman einkaþotum og leiguþotum.
Læt ágæti verknaðarins liggja milli hluta í bili.