„Tilfinningalegar“ misheyrnir

Stundum hlýtur maður að kenna þroskuðum aldrinum það sem vonandi er misheyrn þegar hlýtt er á hið virðulega útvarp allra landsmanna, RÚV Rás1. Sem eins og oft endranær gekk yfir okkur núna meðan við vorum að raða í okkur kræsilegum kvöldmatnum. Fréttir - eða ótíðindi - dagsins runnu slysalítið eða jafnvel slysalaust fram hjá, síðan komu einhverjir menn sem ég nam ekki nöfnin á og hafa fengið það hlutverk að slúðra yfir landslýð milli kvöldótíðinda í útvarpi annars vegar en sjónvarpi hins vegar.

Fljótlega fundu þeir upp á að lesa úr rúmlega fertugri forystugrein úr Þjóðviljanum sáluga þar sem ríkisstjórninni var lesinn pistillinn fyrir að leyfa stórgróðafyrirtækjunum olíufélögunum miskunnarlausa hækkun á bensínverði og það rétt fyrir verslunarmannahelgina. Þetta var „tilfinningaleghækkun", las annar vinurinn orðrétt upp úr Þjóðviljanum gamla, sem hlýtur að vera misheyrn mín, svo vel þekkti ég Þjóðviljamenn í den tíð að þeir hljóta að hafa sagt „ tilfinnanleg hækkun."

Skömmu seinna var hleypt að vini í Bandaríkjunumsem sagði okkur frá skrýtnu fólki í Ameríkusveit sem var svo heimskt ogheimaalið að sögumaðurinn sagði það „einræktað". Meira hvað ég er farinn að heyra illa, hann hlýtur að hafa sagt „hreinræktað". Því jafnvel í afskekktustu afdölum Ameríku hljóta menn enn að fjölga sér með gamla laginu en eru ekki farnir að klóna hver annan.

Næstur á mælendaskrá var maður sem sagði okkur frá gressilegu baðhúsi í Baden-Baden sem óumdeilanlega, sagði hann, er það fegursta í gjörvallri Evrópu ef ekki bara norðan suðurpólsins. Hann lýsti því fjálglega með angurværri röddu hvernig baðgestir eru þar reknir úr hverri spjö rog síðan í hvert baðið á fætur öðru, steypibað, þurrbað og laugar allt upp í 68°heitar (heyrðist mér endilega og veit ekki fyrir hvað ég hef getað misheyrt það og aldrei tekið annað fram en að tilgreindar gráður væru á Celcius-mæli),hvernig sem fólk fer að því að halda lífi við þvílíkan hita. Síðan væru baðgestir leiddir „stimamjúkir" á eitthvert nýtt stig baðferlisins og þarna hefur hann áreiðanlega sagt „limamjúkir" og það eru bara stimamjúkir baðþjónar sem leiða þetta ofsoðna baðfólk áfram í þann tortúr sem manni virtist það vera að fara í bað í Baden Baden.

Nema það sé akkúrat þesskonar sem maður þarf til aðhressa ögn upp á heyrnina.

P.S. leiðrétt nánast strax eftir birtingu. Flutningur í Word-forriti í blogg hefur tilhneigingu til að spara orðabil langtum of. Aðrar villur sem mér kann að hafa yfirsést skrifast einnegin á reikning þessa flutnings.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég hef aldrei lært að flytja svona á milli "búsvæða". Tel það jafnvel eins gott, því ég held mér yrði þá oftar á að teygja lopann svo í óefni færi. Hefurðu hugleitt að fá ér heyrnatæki? kv.

Helga R. Einarsdóttir, 28.6.2008 kl. 19:54

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég flissaði nú bara þegar ég las að gestunum væri boðið í allt að 68 gráðu heitt bað. Allra "svölustu pottormar" þola upp í 42-3 gráður en það er reyndar orðið óbærilega heitt öllu venjulegu fólki.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 28.6.2008 kl. 20:25

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mínar misheyrnir eru flestar úr bernsku og ég man ekki betur en að við höfum einu sinni tekið saman alls konar misheyrnir og misskilning barna fyrir í gömlu, góðu Vikunni. Skemmtilegust þótt mér alltaf sagan um Jésu og lærisneiðarnar 12, sem eitthvað tengdust síðustu kvöldmáltíðinni, en það var önnur hvor Borghildardætra sem áttu heiðurinn af því máli. En mínar voru svo sem ágætar líka. Pabbi var vanur að segja: Ung var ég gefin Njáli, eins og kerlingin sagði, og hlæja mikið, en ég vissi aldrei hvaða Ungverja hann væri að tala um. Sömuleiðis fannst mér skrýtið með vitfirringana frá Austurlöndum (það hefur sennilega verið lesvilla) og svo var þessi fína setning úr útvarpsmessunum: Takið hinni kostulegu kveðju! (síðan hún varð postulleg finnst mér hún ekki nærri eins áhugaverð). Verð líklega að fletta upp í gömlum Vikum til að finna meira að þessum skemmtilegheitum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.6.2008 kl. 21:24

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Jamm Helga R, ég á heyrnartæki. Er bara sorglega latur að nota þau.

Jamm Helga Guðrún, ég þyki heldur þolinn á hita en set mörkin við ca. 40°.

Jamm Anna Ól., það er gaman að fletta upp í gömlum Vikum. Þú manst hvað Vikan var alltaf góð í gamla daga. Það er víst órjúfanlegt lögmál.

Sigurður Hreiðar, 28.6.2008 kl. 21:32

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Lesvillur eru enn til- eða voru til skamms tíma.

Ég nýt þeirra forréttinda, ásamt öðrum, að telja allar námsbækur í skólanu hvert vor, og í allmörg ár, frá því ég byrjaði þar, taldi ég alltaf bækur sem hétu "Ég grenitré" og fannst ekkert undarlegt við það. Nærri hundrað eintök árum saman minnir mig.

Fyrir nokkrum árum lenti svo einhver önnur á að telja bunkann, en ég skráði. "Ég greini tré", margtuggði hún í mig? Ég var ekki alveg sátt til að byrja með og þrætti svolítið,en gaf mig á endanum.

Helga R. Einarsdóttir, 28.6.2008 kl. 23:30

6 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Lesvillur eru enn til- eða voru til skamms tíma.

Ég nýt þeirra forréttinda, ásamt öðrum, að telja allar námsbækur í skólanu hvert vor, og í allmörg ár, frá því ég byrjaði þar, taldi ég alltaf bækur sem hétu "Ég grenitré" og fannst ekkert undarlegt við það. Nærri hundrað eintök árum saman minnir mig.

Fyrir nokkrum árum lenti svo einhver önnur á að telja bunkann,  en ég skráði. "Ég greini tré", margtuggði hún í mig? Ég var ekki alveg sátt til að byrja með  og þrætti svolítið,en gaf mig á endanum.

Helga R. Einarsdóttir, 28.6.2008 kl. 23:31

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Má ég troða mér í þetta skemmtilega "partý". Þulirnir í Ríkisútvarpinu hafa hent gaman að röngum áherslum í fréttaflutningi,t.d. ístruflanir lesnar sem ístru flanir.. kveðja.

Helga Kristjánsdóttir, 29.6.2008 kl. 02:15

8 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég fjölfaldaði mig ekki hér, það segi ég satt. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 29.6.2008 kl. 09:53

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að þessum heimsóknum öllum. Ég trúi þér alveg, Helga R., þegar þú segist ekki hafa fjölfaldað þig hér. Þetta er bara það sem tölvugúrúínn vinur minn kallar „the wonderful ways of computers". En meðal annarra orða: Hvernig fór með kvistinn sem þú klipptir af hér hjá mér í fyrra og reyndir að koma til? Varstu búin að finna honum nafn? Nú blómstrar hann hér sem aldrei fyrr og flugurnar sækja í hann eins og í fyrra. Er þetta ekki bara flugukvistur?

Og Helga Kristjánsdóttir: Þakka þér fyrir þátttökuna. Með þér í viðbót við hinar Helgurnar get ég farið að segja að bloggið mitt sé Helgureitur -- má lesast eins og hver vill! En ég hef líka oftast verið Helgum vafinn og líkar það vel. Já, við könnumst vel við ístruflanir, með áherslu á þriðja atkvæði, en frægasti mislesturinn var líklega týnda símaslæðan forðum. Var það ekki Ragnheiður Ásta? Átti að vera síamslæða.

Sigurður Hreiðar, 29.6.2008 kl. 11:18

10 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það var einmitt Ragnheiður Ásta sem las auglýsinguna: "Buxur, peysur, pylsur. Tízkuskemman".

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 29.6.2008 kl. 13:32

11 identicon

Munið þið eftir auglýsingum í útvarpinu fyrir 40 árum eða svo, þar sem auglýst var "Frá hinu opinbera?" Ég skildi bara aldrei af hverju hann Þráinn var alltaf að opinbera. Hélst manninum ekkert á kvenfólki? Það hafði verið dálítið um trúlofanir í fjölskyldunni og ég beintengdi þetta náttúrulega eins og barna er siður. Seinna vann ég á auglýsingadeild Rúv og tók við auglýsingu frá flámæltum búðareiganda á höfuðborgarsvæðinu og skráði samviskusamlega "höluxmelónur", en auglýsandinn hafði sagt "hönangs"melónur. Skemmtilegur misskilningur það.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 16:40

12 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Kvisturinn lifir, en á langt í land að verða stór og blómstra.

Hann er þó ágætlega sprækur og á eftir að gera það gott í Mýrinni. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 29.6.2008 kl. 18:04

13 Smámynd: Ingveldur Lára Þórðardóttir

Ég var langt gengin í fullvaxta þegar ég áttaði mig á því að liturinn "sollablár" væri ekki til.  Aldrei þótti mér undarlegt þó Siggi væri bæði í buxum og kjól um jólin en velti því stöðugt fyrir mér hvernig litur þetta væri, sollablár.  Vísast hér í alkunnan texta:  "Siggi var í síðum buxum, Solla bláum kjól."

Yndisleg þótti mér alltaf jarðtengingin í syni mínum þegar hann var yngri og lauk bænunum sínum á orðunum:  "Því að þitt er ríkið, náttúran og dýrðin, að eilífu.  Amen."

Ingveldur Lára Þórðardóttir, 30.6.2008 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 306018

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband