Færsluflokkur: Dægurmál
23.12.2008 | 19:50
Góðar auglýsingar og vitlausar auglýsingar
Ég veit ekki um ykkur en mér finnst gaman að horfa (og hlusta) á vel lukkaðar sjónvarpsauglýsingar og vona að mér verði ekki torveldað að njóta þeirra með einhverri vitlausri takmörkunarlöggjöf á RÚV af því keppinautar þess, sem vissu til fullnustu inn í hvaða umhverfi þeir voru að halda með sjónvarpssendingar sínar, krefjast þannig takmörkunar á eina opna sjónvarpið sem nær til landsins alls og hefur verulegt áhorf (fyrirgefið þetta voðalega orð, mig vantar annað betra).
Ekki festast allar auglýsingar í mér heldur fara inn um annað augað/eyrað og út um hitt. En um þessi jól finnst mér tvær bera af fyrir hvað þær eru skemmtilegar. Önnur er Ást við fyrstu sýn, Egils malt og appelsín. Hin er auglýsinginn frá Só on með djáknann á Myrká í aðalhlutverki. Hvorar tveggja koma mér í gott skap hverju sinni, hafi það eitthvað verið farið að daprast.
Ef til dæmis þessar dæmalaust vitlausu auglýsingar frá Vódafón hafa verið á undan, með mann sem á ekki kost á öðru en fáránlegri yfirstærð á símum (nema hann sé algjör puti) og þessutan með gjörsamlega steindauðan húmor í texta. Hin er gríðarlega vitlaus auglýsing frá Happdrætti háskólans með veslings ömmuna á nærunum. Það hefur reyndar árum saman verið sameiginlegt einkenni á öllum auglýsingum frá Happdrætti háskólans hvað þær eru vitlausar og eins og þær séu einskonar skítkast í þá sem styrka HÍ með kaupum á happdrættismiða þar. Einu sinni var það hálfviti sem fleygði sér út úr flugvél í farþegaflugi og nú er það amma með minnisskerðingu. Ég bara þori hreint ekki að kaupa miða í þessu happdrætti ef það fer svona með mann.
Þetta var nú það. Gaman væri að fá svörun frá ykkur um hvaða auglýsingar ykkur þykja fyndnar og góðar og hvaða auglýsingar fara í taugarnar á ykkur og hvers vegna.
Og ef þetta skyldi nú verða síðasta blogg mitt fyrir jól -- sem ég er ekkert endilega að lofa, því ég blogga þegar andinn innblæs en læt það vera þess í milli -- langar mig að segja eitt við ykkur öll sem álpist hingað inn og nennið að lesa þetta til enda:
ÉG ÓSKA YKKUR INNILEGA GLEÐILEGRA JÓLA!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.12.2008 | 13:45
Ég pípi á…
Húrra fyrir menntamálanefnd (ætli það sé ekki menntamálanefnd Alþingis?) að fresta afgreiðslu frumvarps um Ríkisútvarpið ohf ma um takmörkun á möguleikum þess til að afla sér tekna. Ég pípi á Samkeppniseftirlitið og Viðskiptaráð í þessu efni. Einkareknir fjölmiðlar sem nú eru að reyna að væla sér út takmarkanir á RÚV voru stofnaðir inn í umhverfi sem stofnendur þeirra máttu gera sér ljóst, en svo þegar í ljós kemur að þeir eru ekki eins öflugir og þeir gáfu sér í upphafi gera þeir sitt besta til að fá löggjafann til að draga tennurnar úr RÚV og koma því niður á sama aumingjalevel og þeir eru sjálfir.
Auglýsendur eru ekki svo vitlausir að fara með allt sitt auglýsingafé inn á miðla með takmarkaða útbreiðslu og/eða styðja beinlínis hörðustu keppinauta sína. Og við, neytendurnir, mótmælum því harðlega að vera sviptir því upplýsingagildi sem auglýsingar í og á RÚV eru okkur. Ennfremur að fjárhag RÚV verði á einn hátt og annan svo þröngur stakkur skorinn að það geti ekki fært okkur þá prýðilegu dagskrá sem við erum orðin vön. (Hér undanskil ég Rás 2 sem að mínu viti er orðin jafn leiðinleg glamurs og kjaftæðisrás og sumar samkeppnisstöðvarnar. Þær mega að mínu viti keppa sín í milli um aulafyndni og fliss.)
Gegndarlausum árásum á útvarp allra landsmanna verður að linna. Kjaftæðinu um skylduáskrift líka. Afnotagjaldið er ekki síst gjald fyrir að standa vörð um útvarps- og sjónvarpsrásir og úthluta þeim af þeirri skynsemi að ekki sé þar hver ofan í öðrum og allir beri skaða af. Ljósvakinn er ekki ótakmarkaður, þó sumir virðist halda að svo sé.
![]() |
Frestun frumvarps um RÚV misráðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2008 | 12:16
Hver kann ekki að telja?
Þegar ég paufaðist fram úr í morgun og hirti blöðin upp af mottunni í anddyrinu blasti við mér á baksíðu blaðsins sem Bónus auglýsir að hann auglýsi í (af hverju ætli hann auglýsi það, annars? Er það ekki augljóst?), í auglýsingu frá tiltekinni ferðaskrifstofu, að nú væru þrír dagar til jóla.
Hmm, hugsaði ég? Svaf ég einn og hálfan sólarhring? Er ekki sunnudagur í dag? Sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur -- þetta eru að mínu viti fjórir dagar. Og jólin hefjast ekki fyrr en komið er kvöld miðvikudags, sem sagt sá dagur liðinn.
Allt um það -- sennilega mál að leita að síðustu jólagjöfinni. Hvað gefur maður þeim sem vantar ekki neitt? Örugglega ekki gjafabréf upp á hálfan þriðja tug þúsunda. Gildi jólagjafa felst ekki í verðmæti þeirra talið í krónum -- og á þeim tímum sem við nú lifum eru dýrar jólagjafir heimska og flottræfilsháttur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2008 | 12:53
Að trúa því sem logið er
Nú nálgast óðum dagur helgaður minningu hins sæla Þorláks biskups Þórhallssonar í Skálholti sem lést 23. desember 1193. Nú síðustu árin hefur tíðkast að halda upp á dag hans með vondri lykt af vondum mat og kalla það þjóðlegan íslenskan sið að svæla í sig hálfúldinni skötu og láta sem sér þyki það gott. Eftir því sem næst verður komist er þetta næsta nýr siður (eða ósiður?) og hefur helst þekkst nokkuð aftur í árin á Vestfjörðum, þar sem menn notuðu það sem geymsluaðferð að kæsa skötu og éta hana með skræðum sem sumir kalla hamsa. Upprunalega mun þessi siður hafa verið til kominn þar af því það þótti gagnlegt að éta bragðvondan mat rétt áður en von var á veislumat, til að hafa ferskan samanburð af því hvað var vont áður en maður gerði sér gott í munni.
Síðar lögðu klókir kaupahéðnar, útrásarmenn þess tíma sem útrás var helst framin innanlands, fé og vinnu í að selja þennan sið sem þjóðlegan íslenskan og ekki hefur staðið á almúganum að kaupa þá hugmynd í bókstaflegri merkingu og trúa öllu því sem logið er þar um.
Kannski á ekki að harma þetta. Altént er það mun betra en það almenna fyllirí sem tíðkaðist á þorláksmessu hér fyrir nokkrum áratugum þegar margir drukku sér svo til óhelgis að kalla mátti gott ef þeir náðust í lóðrétta stöðu áður en heilagt varð á aðfangadag. Þá tíðkuðust líka slagsmál eftir endilöngum Laugaveginum í Reykjavík á Þorkláksmessu á vetri þeim til mismikillar skemmtunar sem voru minna fullir eða jafnvel ófullir og vildu ljúka jólainnkaupum sínum í búðum sem gjarnarn voru þá opnar til miðnættis hvernig sem viðraði.
Sjálfur lenti ég einu sinni í svona heljarfylliríi á Þorláksmessu, meðan ég var enn svo ungur að nenna að drekka brennivín að einhverju ráði. Hefði Lillý vinkona mín í Nálinni á Laugaveginum ekki verið svo yndisleg að opna mér dyr sínar eftir að þeim hafði verið formlega lokað til jóla á aðfangadag hefði enginn fengið jólagjöf frá mér það árið. Hvað ég gaf? Ætli það hafi ekki verið prjónar, heklunálar, garn og þess háttar. Ég bara man það ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.12.2008 | 11:12
Kirkjurækinn bílþjófur
Það er verst að þessir aumingjar sem eru að stela bílum geta aldrei ekið þeim þrjá metra án þess að reka þá einhvers staðar utan í, sagði bílstjóri nokkur í mín eyru þegar ég var á ungum aldri og satt að segja hefur mér fundist vera bara þó nokkuð til í því, eins og segir í einhverju ljóði.
Þeim mun ánægjulegra er að geta sagt að einn auminginn hefur getað ekið stolnum bíl alla leið neðan frá Fríkirkju upp að Hallgrímskirkju (ég sé núna að þetta er kirkjurækinn bílþjófur), samanber eftirfarandi klausu sem ég fékk og er í tengslum við síðustu bloggfærslu mína um stolinn bíl:
Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að Galloperinn minn er fundinn!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 11:24
Bílnum stolið
Nú er svo komið fátækt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að hún hefur ekki efni á að svipast um eftir þýfi, þó þjófnaður - í þessu tilviki nytjastuldur - hafi verið tilkynntur.
Í morgun fékk ég póst svohljóðandi, og vona að ég verði ekki sakaður um trúnaðarbrest þó ég birti úr honum glefsu hér:
Á meðan ég var við tónleikahald í Fríkirkjunni í Reykjavík í gær, sunnudag, milli 17 og 18, var bílnum mínum stolið. Bíllinn minn er fallegur, silfurgrár jeppi, Galloper OH 818. Eftir að ég hafði tilkynnt lögreglunni það formlega kom í ljós að ekki yrði leitað að honum, til þess væri enginn mannskapur, en ef hann yrði stöðvaður við venjubundið eftirlit myndi koma upp í tölvu lögreglunnar að hann væri eftirlýstur! Því langar mig að biðja ykkur, kæru samferðamenn, að láta vita ef þið rekist á eða sjáið bílinn minn. Ef hann er í umferðinni sker hann sig úr vegna þess að aðalljósin eru gul, einn mjög fárra bíla. Svo ef þið sjáið gul ljós í umferðinni þá athugið hvort þar sé jeppi, Galloper OH 818 og látið vita af því hjá lögreglunni í 112.Undir þetta ritar Jón Kristinn Cortes, og þar sem hann segir í gær bendi ég á að þetta var í fyrradag, pósturinn kom nefnilega krókaleið hingað til mín. Og það má einnig láta Jón Kristinn sjálfan vita, hann er væntanlega í símaskránni. Ég tel mig ekki hafa heimild til að birta símanúmer hans hér.
En úr því svona illa er komið fyrir blessaðri löggunni langar mig að mælast til að við hjálpumst öll að og gefur því gaum hvort við sjáum einhvers staðar Galloperinn hans Jóns Kristins. Hann gæti staðið ljóslaus hrímfölur og grár einhvers staðar í hliðargötu, bak við hús eða á opnu bílastæði.
Gefur þú leitað í þínu nágrenni?
Gaman væri að Galloperinn fyndist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.12.2008 | 17:34
Frumkvæði Reykvíkinga í torganöfnum
Fyrir löngu - m.a. hér á blogginu fyrir einu og hálfu ári eða þar um bil - stakk ég upp á því að hringtorgin, a.m.k. þau sem eru á Vesturlandsvegi út frá Reykjavík, fengju nöfn svo auðveldara væri að vita hvar maður væri staddur og hvað maður væri að tala um. Svona eins og örnefni voru gefin hér í eina tíð, sem voru einskonar GPS punktar síns tíma.
Eftir að ég bloggaði um þetta efni var það hent á lofti hér í sveit og komst m.a.s. svo langt fyrir einhverjum vikum að það var samþykkt hér í bæjarstjórn að beita sér fyrir samkeppni um nöfn á svona torg þar sem þau er að finna hér um slóðir.
Hvernig sem það var svo hugsað í framtíðinni. Ég hef ekki orðið var við samkeppnina enn. Lít þó annað veifið inn á mos.is.
Hins vegar uppgötvaði ég þegar ég brá mér í bæinn áðan að Reykjavíkurborg hefur gripið þessa hugmynd tveim höndum og fyrir sitt leyti hrundið henni í framkvæmd og merkt a.m.k. nokkur torg. Ég kom við í Landsbankanum í Klofningi (við hliðina á Blómavali) og hélt síðan áfram í jaðrinum á Grafarholti uns ég kom að merktu Hringtorgi Krókatorgi niður af gamla Grafarkoti. Sveigði þar til hægri og kom þá að merktu Keldnatorgi en þaðan til vinstri og kom þá á merkt Nóntorg sirka bát þar sem Gróubær var einu sinni.
Til hamingju, Reykjavík.
Héðan af verða allar nafngiftir hringtorga - sem engu að síður eru þjóðþrifamál - aðeins eftirapanir af frumkvæði Reykvíkinga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2008 | 14:09
Hve mikill er hagnaðurinn?
Nú þegar samhaldssemi og sparnaður er það sem með þarf á öllum sviðum og fjölmiðlar berjast í bökkum, m.a.s. svo að sumir þeirra knýja á um að láta breyta með lögum því umhverfi sem þeir voru stofnaðir til að standa sig í, undrast maður það rými og það fé sem ausið er í fréttaburð af íþróttum, íþróttafólki og öðru því tengdu.
Hefur farið fram alvöru könnun á því hve mikið hver fjölmiðill hagnast á þessu?
Ég er þakklátur þeim blöðum, til dæmis, sem hlaða þessu óáhugaverða efni í knappan kálf sem auðvelt er að kippa út og fleygja svo það sé ekki að þvælast fyrir manni.
Ef á að þrengja að RÚV meira en orðið er, með takmörkunum á auglýsingatímum, þætti mér ráð að selja RÚV sjálfdæmi eitthvað á þessa leið: Þó skal RÚV heimilt að lengja auglýsingatíma og fjölga auglýsingum að því marki sem útsending leiðinlegra íþróttafrétta er stytt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2008 | 15:31
Ef fjárstreymið/fjárlekinn stöðvast…
![]() |
Stöðvast bílabjarghringurinn í öldungadeildinni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2008 | 18:00
Frekar til bölvunar
Leyfi mér að mótmæla því að auglýsingaveita til mín verði takmörkuð með auglýsingabanni á RÚV. Tel reyndar líka víst að auglýsingar sem flæmdar verða frá RÚV með lagabókstaf muni ekki skila sér á aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar í þeim mæli sem óvildarmenn RÚV telja -- því hver fer að auglýsa sem neinu nemur á stöðum sem hafa ekki nema takmarkaðan notendafjölda?
Verði þetta frumvarp samþykkt verður það fremur til bölvunar en blessunar.
![]() |
Gjald vegna RÚV verður 17.900 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 306572
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar