Færsluflokkur: Dægurmál
14.3.2009 | 14:00
Ég vil sjá gráu sjatteringarna líka
Ég er með útvarpið opið núna milli klukkan 1 og tvö, á rás 1 eins og vanalega, þar er lang oftast eitthvað bitastætt. Nú stendur yfir þáttur sem gæti verið eins og keyptur til að gylla inngöngu í ESB sem allra mest og best fyrir landanum annars vegar en hins vegar ókosti þess að halda áfram með gerð álvers í Helguvík.
Ekki skil ég hvað hefur knúð -- svo ég noti sagnbeygingu þáttarstjórans sjálfs -- þáttarstjórann til að leita uppi svo eindregna stuðningsmenn hvors málstaðar fyrir sig án þess að koma nokkrum gagnrökum á framfæri. Kannski hann hugsi sér til hreyfingar með það síðar, svo ég noti aftur orðalag beint úr munni hans.
Ég veit ekki hvort ég er með eða móti ESB. En ég er á móti þeim einhliða áróðri að það sé eina haldreipið og vonin sem við eigum framundan. Fljótt á litið finnst mér að svo fámenn þjóð sem okkar yrði í snarheitum kaffærð og rödd hennar kæfð í því fljóti fólks sem við værum þá orðin hluti af. Litlu munar sagði músin og meig í sjóinn. Ég er hálfhræddur um að í hafi ESB værum við í hlutverki músarinnar.
Evran? Gjaldmiðill sem er sjálfur að láta undan gagnvart öðrum gjaldmiðlum? Er hún okkar bjarghringur í fjármálum? Ef svo er skil ég ekki hvers vegna við getum ekki alveg eins og tekið upp fastgengisstefnu og bundið krónugreyið okkar við Evru og látið hana taka samskonar breytingum gagnvart öðrum gjaldmiðlum og evran gerir nú. Þannig hefðum við þó borð fyrir báru ef allt væri að fara til fjandans með evruna til þess að endurskoða okkar mál -- ekki ef krónunni hefði verið varpað fyrir róða.
Allur þessi einhliða málflutningur finnst mér bera dálítinn keim af -- ja, hverju? Einstrengingshætti og þröngsýnni pólitík? Að minnsta kosti get ég ekki séð heiminn bara svona svarthvítan. Ég vil sjá gráu sjatteringarnar líka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2009 | 12:17
Skjól fyrir slagveðrinu
Í landi Korpúlfsstaða langleiðina upp undir Vesturlandsvegi, þar sem Reykvíkingar leigðu um árabil skika undir kartöflugarða hefur nú verið grafin út gjóta og ofan í henni reist gríðarlegt verslunarflæmi sem tekið var í notkun á upphafsdögum kreppunnar og fékk þá nafnið Korputorg sem gárungar hafa snúið út úr og kalla Krepputorg.
Öll fyrirtæki í þessu verslunarflæmi hafa aðkomudyr til austurs sem er ein allra versta veður- og úrkomuáttin á þessu svæði en húsateiknararnir hafa annað hvort ekki gætt að því eða ákveðið að lát það ekki á sig fá og í austanveðrum er varla að rafknúnar hurðir flæmisins hafi við veðrinu og allt sem næst þeim er innandyra stendur undir ágjöf og foki ef viðskiptavinir eiga þarna leið um, sem sýnist raunar vera fremur fátítt.
Þau fyrirtæki sem af bjartsýni hafa sett sig þarna niður virðast öll hafa rúmt um sig og mikið flatarmál gólfs til að falbjóða á vörur sínar. Það er kannski þess vegna sem manni sýnist að viðskiptin séu ekki mikil og ef maður álpast þarna inn er varla annan viðskiptavin að sjá.
Eins og fyrr greinir er inngangur í öll fyrirtækin móti austri og langur vegur á milli hins syðsta og hins nyrsta. Ágæt gönguleið í góðu veðri en það getur raunar brugðið til beggja vona. Það er tilgáta mín að þessi staður nái ekki vinsældum og vexti fyrr en byggt hefur verið yfir stéttina austan undir og hún gerð að yfirbyggðum gangi -- þar sem útidyr og fyrirtækjadyr standist ekki á þannig að nokkurt skjól myndist á gangveginum fyrir austan slagveðrinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2009 | 11:34
Hvenær er fólk miðaldra?
Nú sem oft endranær er lögð nokkur áhersla á að eldra fólk eigi að víkja úr ýmsum áhrifastöðum og ungt fólk að taka við. Hugmyndin er líklega sú að ung fólk sé óþreytt og sókndjarft; varla getur það státað af reynslu til jafns við þá sem hafa fleiri ár að baki.
Þetta kallar á spurningu um það hvað er ungt fólk. Hvenær hættir ungt fólk að vera ungt og verður miðaldra? Fólk verður tækt í félög aldraðra (sem sumir vilja heldur kalla eldri borgara, hvernig sem á því stendur) þegar það nær sextíu ára aldri. Sem hlýtur að þýða að 60 ára maður (munið að konur eru líka menn) er aldraður. Væntanlega var hann þá miðaldra síðustu árin fram að því. Hve mörg?
Mér finnst eðlilegt að segja: 0-12 ára barn. 13-20 ára unglingur. 20-35 ára ungur maður. 35-60 ára miðaldra. Og, samkvæmt framansögðu, 60+ aldraður.
Býður einhver betur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.3.2009 | 19:59
Hvar eru nú pottormar?
Ég var spurður á dögunum hvort ég væri hættur að blogga. Hérumbil, sýnist mér, er svarið. En málið er að ég hef verið nokkuð á flakki það sem af er ári og satt að segja stillt mig til fullnustu um að opna tölvur þar sem ég hef verið á erlendri grund. Til dæmis í febrúarmánuði meðan ég var að mestu á Stóru hundaeyju og þar var hvíldin ekki hvað mest sú að vera tölvulaus, útvarpslaus, blaðalaus og að mestu sjónvarpslaus; þó settumst við hjón að jafnaði einu sinni í viku fyrir framan sjónvarpsfréttir RÚV í verslu Harrýs hins indverska við Ítalíugötu í Enskustrandarþorpi.
Skrýtnast þótti mér þegar ég kom heim aftur eftir hátt í mánaðarhlé frá öllu þessu að allt var við sama og þegar ég fór, það var eins og við hefðum ekki misst dag úr fréttunum. Fólkið mitt heima hafði haldið blöðunum til haga handa mér að renna yfir til glöggvunar á hvað gerst hefði í landsmálunum en þau reyndust skollakornið engu bæta við frá því í endaðan janúar.
Þá þegar var komin krafan um endurnýjun í forystuliði þjóðarinnar, burt með gamla liðið sem svaf í sínum fílabeinsturnum meðan óreiðumenn þjóðarinnar sigldu skútunni hraðbyri til fjandans. Nú vekur það helst athygli mína að í þeim prófkosningum til næsta þings sem þegar eru komin úrslit úr er það einmitt þetta gamla svefnlið sem þar fær mest fylgið.
Hvað eru nú pottormar Austurvallar með bombalda sinn? Eða taka þeir ekki þátt í prófkosningum?
Dægurmál | Breytt 10.3.2009 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2009 | 13:43
Veð til tryggingar á láni er marklaust
Af tíðindum næstliðinna vikna að dæma sýnist mér að veð til að mynda fyrir fasteignaláni sé marklaust og fyrirsláttur einn. Skuldunautur getur setið eftir með verulegan hluta skuldarinnar þó að gengið hafi verið að veðinu.
Ég tek dæmi sem ég þekki en breyti aðeins tölum. Ung fjölskylda keypti nýja íbúð sumarið 2007 fyrir 34,6 milljónir og tók til þess lán upp á 20 milljónir, gjaldeyrislán að ráði bestu manna hjá einum fjórum peningastofnunum sem töldu að gengið gæti ekki fallið svo mikið að þetta væri ekki skárri kostur en verðtryggt lán í íslenskum krónum.
Á haustdögum þegar allt fór til fjandans - bankarnir fóru á hliðina, sagði þáverandi forsætisráðherra, ekki á hausinn - rauk þetta lán upp í 47 milljónir. Að vísu er þetta allt fryst eins og er en nú er skammt að bíða þíðu í þeim efnum og þá blasir þetta við:
Nýi bankinn sem yfirtók lánið frá þeim gamla sem fór á hliðina gengur eftir veðinu og tekur íbúðina upp í þegar ekki er hægt að standa í skilum. Íbúin er seld á nauðungaruppboði og bankinn kaupir hana sjálfur - mér skilst að það sé föst regla til að verja hagsmuni bankans" - á 15 milljónir. Meira fæst nú ekki fyrir hana eins og er því fasteignamarkaðurinn er dauður. Bankinn leigir íbúðina væntanlega fyrst um sinn og selur hana svo fyrir líklega 30 milljónir þegar fasteignamarkaðurinn leysist úr læðingi. Að þessum 15 millum fengnum vantar 32 millur upp á þá upphæð sem gjaldeyrislánið var komið í.
Nú skyldi maður ætla að unga fjölskyldan væri laus allra mála þegar búið er að hirða veðið sem hún setti fyrir láninu og lánardrottinninn mat þá fullnægjandi. En -- óekkí. Þegar allt kemur til alls er það fjölskyldan sjálf sem er að veði og öll hennar framtíð.
Hún skuldar enn mismuninn á því sem fékkst fyrir veðið og verðmæti gengisfallna lánsins. Sem sagt 32 milljónir. Hjá henni er gert árangurslaust fjárnám" því bíllinn sem hjónin nota til að komast í og úr vinnu og í nauðsynlegustu dagvistunarstofnanir barnanna er gamall og úr sér genginn og verðlaus og borðstofusettið sem keypt var í góða hirðinum ásamt gamla sófasettinu frá afa og ömmu slagar lítið upp í 32 milljónir. Nú má þetta óreiðufólk" ekki einu sinni hafa greiðslukort en er á listum hjá allskonar skuldainnheimtufyrirtækjum og dráttarvextir og innheimtukostnaður hlaðast upp svo það á sér ekki viðreisnar von. Hnýttur bagginn fylgir því í gröfina og ósköpin sem þessu fylgja flýta verða til að flýta för þessa fólks í gröfina hvernig sem það berst og reynir að bjarga sér.
Veðið reyndist sem sagt þessu fólki ekkert haldreipi þó að bankinn sleppi nokkuð vel frá viðskiptunum. Trúlega hefur hann heldur aldrei tekið gjaldeyrislán annars staðar frá á móti því láni sem hann veitti fjölskyldunni ungu heldur lagði það fram í íslenskum krónum á gengi viðskiptadagsins og notar sér nú gengismuninn þannig að þessar 32 milljónir sem út af standa þegar íbúðin hefur verið seld á nauðungaruppboði eru ekki raunverulegur peningur heldur tölur á pappír sem hafa í sjálfu sér litla merkingu nema fyrir kverkatakið á skuldurunum. Raunverulegt tap bankans er ekki nema 5 milljónir plús kannski verðbólgan á tímabilinu og hann ætti sjálfur að sitja uppi með það böl að hafa metið veðið rangt þegar lánið var veitt.
Eiga viðskipti af þessu tagi ekki að vera þannig að skuldari sé laus þegar gengið hefur verð að því veði sem lánardrottinninn mat fullnægjandi til að veita lánið út á? Eru þetta réttlát og siðleg vinnubrögð?
Er það réttlátt að lánardrottinn fái að kaupa hið veðsetta sjálfur fyrir smánarverð til að tryggja hagsmuni sína?
Ég vona að ég hafi misskilið þetta. Geti einhver sannfært mig um að svo sé væri ég honum þakklátur.
28.1.2009 | 10:07
Eftir síðustu kosningar - gamlar myndir
Get eiginlega ekki á mér setið, hvað sem líður hefðbundnum höfundarrétti, að setja hér tvær myndir sem ég skannaði upp í blöðunum eftir síðustu kosningar. Því miður hef ég ekki skráð hver tók myndirnar, en sá ljósmyndari á heiður skilið.
Eins og myndirnar bera með sér var Ingibjörg Sólrún enn heil heilsu þegar myndir þessar voru teknar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.1.2009 | 10:44
Þegar þögnin er best
Sagt er að stundum geti verið gott að fasta. Ég hef aldrei meinlætamaður verið og get því ekki dæmt um gildi þess í eiginlegri merkingu. En ég hef nú fastað um hríð gagnvart blogginu af því gefna tilefni að ég mátti ekki vera ábyrgðarmaður þess undir skírnarnöfnum mínum, heldur var öðru breytt í bókstaf og föðurnafninu svo bætt við.
Svo var mér af hálfu bloggvinar bent á að þetta breytti sosum engu svo ég lét slag standa, þó aldrei léti blog.mbl.is svo lítið að svara fyrirspurn minni um þetta efni.
Samt varð þetta mér tilefni til ítarlegrar bloggþagnar enda þannig tímar nú að þögn er helst við hæfi, þegar fólk veður um götur og grundir og lemur saman búsáhöldum til stuðning kröfu um að stjórnvöld landsins axli ábyrgð með því að segja af sér og hlaupast þannig undan gjörðum sínum. Skil raunar ekki hvernig það samræmist ábyrgð að hlaupast undan hálfunnu eða klúðruðu verki og skilja það eftir í reiðileysi og ætlast til að einhver annar hreinsi upp þann skít.
Og nú virðist helsta krafa hins almenna félagsmanns/stuðningsmanns heils stjórnmálaflokks vera sú að forysta flokksins svíkist undan merkjum og skilji landið eftir stjórnlaust.
Ég hyggst i rauninni halda áfram að þegja enn um hríð. Að mestu. En góð viðbrögð við harla ómerkilegu 10 orða fréttabloggi mínu í gær eða fyrradag urðu mér hvatning til að leggja fáein orð í belg núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2009 | 19:41
Ekki í Ísbjörgu
![]() |
Furðar sig á vinsældum sínum hjá hinu kyninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2008 | 12:29
Nafnið mitt er ekki lengur gilt!
Í gær fékk ég svolátandi skilaboð sem koma einnig upp þegar ég opna stjórnborð fyrir blogg mitt núna:
Birting ábyrgðarmanns
Nafnið sem þú gefur upp á blogginu þínu er ekki það sem sama og skráð er í Þjóðskrá. Í henni er skráð nafnið Sigurður H Hreiðarsson. Vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru um áramótin á blog.is getur þú því ekki bloggað um fréttir mbl.is nema að þetta nafn sé birt sem nafn ábyrgðarmanns á blogginu þínu. Auk þess birtast bloggfærslur ekki á forsíðu blog.is nema nafnið sér birt.
Yfir þessu varð ég nokkuð hugsi og endaði með að senda eftirfarandi tölvubréf til blog@mbl.is -- sem verður þó varla lesið fyrr en fólk kemur til vinnu á bak áramótum:
29.12.2008 | 14:17
Að hefna fyrir hefndina
Anginn litli, anginn minn, ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn, segir í ljóðinu Slysaskot í Palestínu sem mig minnir að sé eftir Jóhannes úr Kötlum og ort um miðja öldina sem leið. Þar lætur hann breskan dáta (ég er breti, dagsins djarfi, dáti suðrí Palestínu -- allar tilvitnanir eftir minni því ég hef ljóðið ekki við hendina á prenti) yrkja þetta harmaljóð yfir líki lítillar stúlku sem hann skaut óvart í því stríði sem hann hafði verið rekinn í þarna í Botnalöndum meðan hernaðarveldin voru að hrifsa til sín land Palestínumanna til að gefa Gyðingum sjálfum sér til friðþægingar fyrir meðferðina á þeim í og kringum heimsstyrjöldina síðari.
Og enn eru þeir að skjóta fólk í misgripum fyrir annað fólk þarna austur frá. Sjaldnast það fólk sem hugsanlega ætti það skilið. Sama hvort það eru Palestínar eða Ísraelar. Í árdaga var einhver árás -- var það ekki þegar landið var tekið af Palesínumönnum til að gefa Gyðingum? -- sem síðan var hefnt fyrir og svo var hefnt fyrir hefndina og enn í dag er verið að því. Stöku sinni hefur verið látið í veðri vaka að nú væri lag að semja um frið milli Palestínanna sem með sínum hætti eru frumbyggjar þarna og Ísraelanna sem með sögulegum tengingum krefjast þess að vera taldir ennþá meiri frumbyggjar. En í hvert sinn sem hugsanlega hefur hyllt undir frið hafa einhverjir minnihlutahópar annars aðilans komið höggi á hinn og þá er óhjákvæmilegt að hefna fyrir það og svo þarf að hefna fyrir það á móti og svo hefna fyrir þá hefnd og aftur fyrir hana, hefna, hefna, hefna, hefna -- og aldrei verður rof á.
Með leyfi að spyrja: Er einhver raunverulegur friðarvilji hjá þessu fólki, öðru hvoru eða báðum?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306571
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar