Færsluflokkur: Dægurmál

Félagaþvætti?

Stundum er talað um peningaþvætti, þegar peningar eru sendir (ekki seldir) hönd úr hendi þannig að erfitt sé eða útilokað að rekja hvaðan þeir koma upphaflega.

Mér sýnist þetta áþekkt ferli.

Er eitthvað til sem heitir félagaþvætti?

 


mbl.is Fons átti FS37 sem varð Stím
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og Guðni aftur í pólitíkina

Verð að játa að ég sperrti augu og eyru og öll helstu skilningarvit önnur í gærmorgun við þá frétt að Davíð Oddson átti að hafa tilkynnt að yrði hann flæmdur út úr Seðlabankanum (Bleðlasankanum, sagði Flosi forðum) kæmi hann rakleitt til baka í pólitíkina.

Hmmm, hugsaði ég. Heldur hann í alvöru að hann kæmist inn á einhvern lista í prófkjöri eftir það sem á undan er gengið?

Svo nefndi ég þetta við langvarandi kunningja minn sem svaraði af bragði: Þeir myndu bara stofna saman lista, hann og Guðni Ágústsson.

Jamm, það væri það. Þeir gætu þá líklega tekið Jón Baldvin með sér. En ég hef enn ekki fundið fleiri til að fylla þennan lista. Auðvitað ættu þeir heima þar líka Steingrímur Jóhann og Ögmundur, en það er víst bara óskhyggja. Valgerður? Nei, skollakornið. Hún fer í eitthvert sendiráð. Kristinn H? Árni Johnsen?

Kannski er bara best að láta Davíð og Guðna um að velja sér meðreiðarhópinn. Eftir að sjá hverjir myndu svo kjósa herlegheitin.


Tvær virkilega góðar

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem nokkurt veður er árlega gert út af. Úlfhildur Dagsdóttir sagði eitthvað á þá leið í útvarpsfréttum nú í hádeginu, að á tilnefningalistann hefðu að þessu sinni slysast tvær virkilega góðar bækur. -- Ég vona að ég rangtúlki þetta ekki orð hennar um of.

Mig hefur lengi langað að sjá á prenti hvernig bækur veljast til þessara tilnefninga. Minnir að það sé þannig að útgefendur þurfi að borga fyrir að fá bók inn á tilnefningalistann, bæði í reiðufé og með framlagi tiltekins fjölda eintaka svo valnefndarmenn geti lesið bækurnar -- sem er ekki nema sanngjarnt.

En ef þetta er rétt er ekki valið úr öllum útkomnum bókum ár hvert, aðeins þeim sem útgefendum þóknast að leggja í dóm valnefndar.

Ef það er rétt, eru þetta þá með réttu íslensku bókmenntaverðlaunin? Eru þetta þá ekki íslensku bókaútgefendaverðlaunin?


Þjóðin sýnir samstöðu

Ég er ekki hissa á þessari niðurstöðu. Þessi þáttur, Gott kvöld, er næstum því jafn leiðinlegur og þáttaröðin sem gekk í fyrravetur með lögunum fyrir Evróvisjónkeppnina.
Mál til komið að þjóðin sýni samstöðu og nenni ekki að horfa á leiðinlega þætti.
mbl.is Ört minnkandi áhorf á Gott kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingar ekki aðeins fyrir auglýsendur

Óvinir RÚV virðast eiga sér marga málsvara.
Í þessu fjasi um takmörkun á þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði virðist mér gjarnan vanta skilning á því að auglýsingar eru ekki bara fyrir auglýsendur, heldur einnig fyrir okkur sem lesum upplýsingar út úr auglýsingum.
Í samhenginu má ekki vanvirða okkur og allra síst þá landsmenn sem ná ekki öðrum auglýsingamiðlum ljósvakans en RÚV.
mbl.is Ræddu ekki um RÚV frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í ljósum (hé)logum

Látum nú vandræðagang fjármála og stjórnmála fá frí litla stund og snúum okkur að alvöru málsins -- það er að segja íslensks máls.

Á Rás 1 er þáttur sem kallaður er Seiður og hélog. Seið kannast flestir við ef ekki allir, færri kannast við hélog. Samkvæmt orðabókinni má nota þetta orð í hvorugkyni, eins og virðist gert í nafni þáttarins, eða karlkyni, en þá bætist -i við orðið og það verður hélogi.

Í hvorugkyni ætti það því að beygjast hélog hélog hélogi hélogs. Í karlkyni hélogi héloga héloga héloga.

Eða hvað?

Nú hef ég amk. tvívegis heyrt umsjónarmann afkynna þáttinn með þeim orðum að hér ljúki Seiði og hélogum.

Ég hef oft endranær heyrt ýmsar málfarslegar ambögur í þessum þætti þó ég sé ekki nógu minnugur til að hafa þær eftir hér.

Á menningarrás RÚV Rás 1, sem hefur að ég best veit málfarsráðunaut innan sinna raða.

Meðan ég man: Hélog þýðir maurildi, hrævareldur, mýrarljós, skv. áðurnefndri orðabók.

Og meðan ég man líka: Núna áðan varð umsjónarmanni tíðrætt um þýsku borgina Dressden. Ég hélt að hún héti Dres-den.

 


Þegar farið er offari

Mér að óvörum helltist yfir mig borgarafundur í sjónvarpinu á mánudagskvöldið var, þar sem um tvöþúsund skoðanasystkini höfðu safnast saman í Háskólabíói sem málsvarar þjóðarinnar gegn nokkrum ráðherrum og þingmönnum.

Vissulega ágætt framtak og þeir ráðherrar og þingmenn sem lögðu á sig að sitja þarna hátt í þrjá klukkutíma og taka móti þeim auri sem þau voru ausin eiga heiður skilið.

Fundarstjórn var röggsöm og skilvirk en flestar framsöguræður hefði mátt stytta. Ein þeirra bar þó af, að mínu viti, ræða manns sem ég kynntist í nokkra mánuði fyrir fáeinum áratugum sem Bensa á Grænavatni. Þá fór vel á með okkur og við höfðum á prjónum að hleypa af stokkunum rannsóknarverkefni sem við höfðum báðir á huga á á þeim tíma en það rann út í sandinn af því að ég, þá miðaldra maðurinn, fékk hlaupabólu til samlætis eldri börnum mínum og hana svæsna.

Nema hvað ræða Bensa á téðum borgarafundi snerist um það brennandi málefni skuldara, ekki síst íbúðakaupenda, að lán þeirra, hvort sem þau eru í íslenskum verðtryggðum krónum eða erlendum gjaldeyri (myntkörfu) sem fyrirséð er að ekki verður hægt að standa undir verði með einhverjum hætti fryst og þannig frá þeim gengið að möguleiki verði að standa undir þeim.

Annars liggur fyrir að þegar yfirstandandi skammtímafrystingu afborgana linnir getur stór hópur þessara skuldara ekki borgað -- verður gjaldþrota með öllum þeim hörmungum sem því fylgir fyrir einstaklinginn -- en á lánastofnanir falla skuldarupphæðir langt yfir því veði sem í upphafi stóð fyrir þeim og þær sitja auk þess uppi með eignir sem kannski seljast um síðir en þá aðeins fyrir broti af veðinu.

Ábendingin er til ráðamanna þjóðar og fjármálastofnana að búa þannig um hnútana að skuldarar geti haldið áfram að borga af lánum sínum og lánardrottnar geti haldið áfram að fá nokkurt innstreymi fjár í sínar hirslur.

Annars er mikill voði vís.

Benedikt Sigurðarson: Hafðu þökk fyrir skeleggan en hófsaman málflutning í þessu efni. Af því mættu margir af þér læra, líka sumir þeirra sem á nefndum borgarafundi geypuðu mikinn. Einhvern tíma var sagt að oflof yrði að lasti, en ég held að líka megi segja að þegar farið er offari í bölbænum missi þær marks.


Undirskriftasöfnun sem vit er í

Verð að viðurkenna að ég sæki ekki mótmælasamkundur. Frekar en aðrar útisamkomur. Finnst ég ekki eiga heima í þeirri múgmennsku sem mér finnst ég finna þar.

En ég get tekið þátt í undirskriftasöfnun ef mér finnst vit í henni.

Eins og þessari:

Og skora á aðra að gera það líka.

Er verið að hlunnfara okkur eina ferðina enn?

Í framhaldi af síðustu bloggfærslum mínum hef ég fengið allskonar viðbrögð og skilaboð umfram það sem lesa má þar í athugasemdum. Þetta barst mér til að mynda í tölvupósti nú áðan og mér finnst ástæða til að koma því áfram sem þar er að gerast. Fólk hefur á tilfinningunni að í „nýju" bönkunum gangi „gömlu" stjórnendurnir ljósum logum og stjórni jafnvel í gengum þá sem amk. að nafninu til hafa „tekið við" stjórn á þeim bæjum. Þess á milli standi þeir svo glottandi við tætingavélarnar og tæti niður „óþægilega“ pappíra á meðan stjórnvöld draga lappirnar með að rannsaka með raunhæfu móti hvað eiginlega fór úrskeiðis. Og snúi sér að því að hámarka hag sinna nýju hluthafa og þar með bjarga sjálfum sér.

Hér fer á eftir það sem mér barst í morgun:

„Hættan er sú að bankarnir og skilanefndir þeirra séu ekki nægjanlega fljót að átta sig á hinu nýja hlutverki sínu, sem er að hámarka hag sinna nýju hluthafa; íslenskra skattgreiðenda. Sala á eignum félaga sem eru í greiðslustöðvun til stórra hluthafa án útboðs á ekki að líðast.
»Fjárhagsleg endurskipulagning« mjög skuldsettra félaga útrásarmanna á ekki að líðast. Sala eigna án þess að tryggt sé að við skattgreiðendur fáum bestu kjörin á ekki að líðast. Ef það er ekki tryggt að hæstu tilboða sé leitað hverju sinni með opnu og gagnsæju ferli er verið að hlunnfara Íslendinga, enn eina ferðina. Það má ekki gerast."

Ég spyr: Er verið að hlunnfara okkur eina ferðina enn? Í skjóli þess að „það sé ekki tímabært" að tala um hlutina?

P.S Sá þegar ég lagðist á bakið með Moggann eftir hádegishressinguna að þetta sem mér var sent er orðrétt niðurlag greinar Hallbjörns Karlssonar á bls. 33 í Mogga í dag. Ekki verra fyrir það.

Er nú þetta betri Björg?

Oft er gaman að hlusta á Steingrím J. Sigfússon tala, en ég er farinn að hallast að því að mér þyki það ekki gaman nema fyrir málfar hans, góða og vel framborna kjarnyrta íslensku. Pólitískt séð eru mér ræður hans sjaldan til unaðar, inntakið nei nei og vil ekki, þetta má ekki, vondir menn og vondar ráðstafanir og burt með þá. Ef eitthvað hefur jákvætt og uppbyggilegt slæðst inn á milli hefur það verið svo vandlega falið að ég amk. hef ekki náð að nema það. Hvað þá að bent hafi verið á góðar leiðir til að fara þegar brotist er í fenjum landsmálanna.

Þó tekur steininn úr núna þegar hann fer að tefja ráðamenn þjóðarinnar frá brýnum störfum stundarinnar með því að leggja fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem tekur tíma frá tímabærari og vitlegri störfum löggjafarsamkomu og ríkisstjórnar. Þetta er að mínu viti andskotans firra og ef svo færi að tillagan yrði samþykkt, með þingrofi fyrir áramót og tilheyrandi kosningabaráttu og síðan kosningum þar eftir, væri fyrst fyrir alvöru aukið til stórvandræða á þá stertabendu sem fyrir er í samfélaginu.

-- Forsætisráðherra Haarde var spurður í kastljósi í gær hvort hann hefði íhugað að segja af sér sem forsætisráðherra þegar allt fór til fjandans. Já auðvitað, svaraði hann, enda hefði það verið annað hvort, en hann axlar þó sína ábyrgð og ætlar að stjórna meðan stætt er og gera sitt besta til að klóra okkur út úr vandanum. Því miður héld ég hann sæki sér of mikla ráðgjöf til þess fyrirrennara síns í starfi sem síst skyldi, en hann hefur þó manndóm til að stökkva ekki af skútunni í miðjum brimgarðinum. Og nú hefur utanríkisráðherra Gísladóttir tekið í sama streng.

Eflaust eru fleiri færir til þeirra verka en þau og þeirra lið og vel má vera að einhverjir væru ennþá færari. En þá höfum við ekki í hendi og það yrði of mikil upplausn of langan tíma ef nú ætti að fara að berjast í kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar og allt það og alsendis óvíst að betur tækist til með nýja ríkisstjórn að lokum -- eða í hvaða fen við hefðum ratað meðan þau ósköp ganga yfir.

Í þessu sambandi hefur verið að söngla í hausnum á mér gömul vísa sem ég lærði einhvern tíma og kannski vitlaust, um mann sem skildi við Björgu konu sína og tók saman við aðra sem líka hét Björg. Þá var þetta ort til hans -- og leiðrétti mig hver sem vísuna kann betur; mér finnst hún geta átt við um þær vangaveltur um stjórnarfar sem nú ganga yfir, á Austurvelli og við hann -- og víðar um land:

Þú hefur fengið Björg fyrir Björg/Björgu varstu sviftur./ En er þú þetta betri Björg/en Björg sem þú varst giftur?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband