Færsluflokkur: Dægurmál

Af viðskiptum mínum við yfirvöldin

Aðfararnótt þessa dags fyrir 46 árum vaknaði ég síðla nætur við að konan mín ýtti við mér og sagði að nú þyrfti ég að skutla henni upp á Fæðingarheimili. Kom mér svo sem ekki á óvart því ég vissi eins og hún að við því var að búast. Ég hafði lítilsháttar kynnst Huldu Jensdóttur sem þá var forstöðumaður Fæðingarheimilisins við Eiríksgötu og talfært það við hana hvort ég mætti ekki vera viðstaddur þegar að fæðingu kæmi, því ég vissi að hún var því frekar hlynnt þó ekki væri það venjan í þá daga. Hún tók því í sjálfu sér vel en sagði að það yrði að fara eftir aðstæðum, ekki væru allar ljósmæður því hlynntar og hver ein hefði úrskurðarvald fyrir sig í því efni.

Nema hvað nú settumst við hjón út í okkar Opel og brunuðum upp á Eiríksgötu. Konan hafði tekið saman í skjóðu það sem hún taldi sér nauðsynlegt að hafa með og ég hélt riddaralegur á föggum hennar á leiðinni upp í lyftunni. Ekki man ég hvort ljósan tók beint á móti okkur en þegar að henni kom, Auðbjörg held ég hún hafi heitað, tók hún skjóðuna af mér með ákveðnum handtökum og sagði fastmælt: Nú skuluð þið kveðjast!

0910110034.jpgDómi hennar var ekki haggað. Ekki man ég hvort ég sletti kossi á konu mína eða hvort mér þótti hún hafa nóg á sinni könnu þessa stundina, en fúll var ég á leiðinni aftur vestur á Hringbraut þar sem við bjuggum í örsmárri kjallaraíbúð þegar þetta var. En ég, verðandi faðirinn, var verkefnislaus og gagnslaus hvort sem var svo ég hallaði mér bara á koddann aftur.

Hrökk upp með andfælum, klukkan var tuttugu mínútur yfir níu, ég átti að vera kominn í vinnu klukkan 9! Í leppana í einum grænum og út í bíl með vatnskjaftinn, brunaði af stað.

Við Tjarnarendann renndi lögreglumaður á mótorhjóli fram úr mér og gaf mér stöðvunarmerki. Sem ég auðvitað hlýddi. Hann stöðvaði líka hjól sitt, gaf sér góðan tíma til að láta það standa örugglega. Dró af sér hanska sem mér finnst héðan frá séð að hafi náð amk. upp á olnboga og kom þeim vandlega fyrir á mótorhjólinu, rölti svo þangað sem ég beið og hafði skrúfað niður rúðuna í bílnum.

Hann bauð mér góðan dag og virti mig gaumgæfilega fyrir sér. Svo spurði hann: Ert þú orðinn of seinn í vinnuna, vinur? Ég játti því. Hvar vinnur þú? spurði hann og ég leysti úr þeirri brennandi spurningu. Hann virti mig svolítið betur fyrir sér og sagði svo: Já. Einmitt. Heyrðu, við förum helst ekki mikið yfir 30 hér. En, fylg þú mér.  Svo gekk hann að hjólinu, dró á sig hanskana og gætti vandlega að því að allir fingur hefðu farið í rétta þumla og nægilega djúpt í greipina, sparkaði svo hjólinu í gang og lagði af stað, með handhreyfingu til mín um að fylgja.

Fylg þú mér. Þessi orð hafði ég heyrt áður og jafnvel lesið í góðri bók. Þaðan vissi ég að ekki var til góðs annað en gegna kallinu svo ég elti, hlýðinn sem hundur. Ekki vissi ég hvert, hélt helst að hann ætlaði með mig á stöðina þar sem ég yrði tekinn í karphúsið.


En hann ók, löturhægt reyndar að mínum dómi, þangað sem ég hafði sagt honum að ég ynni. Þar benti hann mér að leggja bílnum, ók sjálfur hring á bílastæðinu og í bakaleiðinni bar hann hönd að húfuskyggni í kveðjuskyni og brunaði burtu.

Ég hélt inn á minn vinnustað og man ekki eftir neinum eftirmálum frekar, hvorki frá yfirmanni mínum á vinnustað né lögreglunni.Dagurinn leið hægt og það var ekki fyrr en um vinnulok klukkan fimm að ég fékk boð um að mér væri fæddur sonur á Fæðingarheimilinu og allt í stakasta lagi. Og kurteislega bent á að það væri heimsóknartími klukkan 19.30 til 20.

Ég hafði planlagt að dvelja í dag hjá þessum syni mínum, konu hans og þremur börnum þeirra, sem nú búa í öðru landi. En eins og sjá má af framansögðu fer ekki allt eins og maður sjálfur vill og ég verð að doka aðeins við með þá heimsókn, bíða eftir þeim heimsóknartíma sem mér verður til þess skammtaður af þar til bærum yfirvöldum.

En enn í dag fer ég helst ekki mikið yfir 30 á Hringbrautinni við Tjarnarendann.

Og ég er enn fúll út í ljósmóðurina.


 


Bræður munu berjast

Þarna veit ég á fæstum deili. Vekur þó athygli mína að þarna berjast bræður tveir sem ég kannast ögn við, Björn og Sigurður Hróarssynir. Myndi treysta þeim hvorum sem væri til að gagnast Þingvöllum vel ef þar til kæmi. Til þess eiga þeir kyn báðum megin frá.
mbl.is 78 sóttu um Þingvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðuð tík -- borðar meðan önnur dýr éta!

Dáist að svona dýri sem matast við borð eins og mannskepnan. Sé hana fyrir mér með hvítt um hálsinn gófla í sig fæðunni af postulínsdiski eins og fólkið í kringum hana sem borðar eins og fólk. Flestir hunda láta sér samt nægja að éta úr dalli sínum meðan tvífætlingarnir sitja til borðs.
mbl.is Tíkin Lady með níu líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei minnst á guð?

Á sínum tíma var Andrés Önd bannaður í Finnlandi.

Hvers vegna?

Vegna þess að hann gengur ekki í buxum.

Hve margir reitir eru á Scrabble-borði?

225.

Á matsölustöðum McDonalds í tilteknu landi eru bökur seldar með apríkósufyllingu en ekki kirsuberjafyllingu. Hvaða land er þetta

Nýja-Sjáland.

Hvert eftirfarandi orða eru ekki úr orðasmiðju Jónasar Hallgrímssonar: aðdráttarafl, fjaðurmagnaður,

hitabelti, ljósvaki, sjónarhorn, sjónauki, sólmyrkvi, sporbaugur, vörtubaugur.

Vörtubaugur

Hvað heitir höfuðborgin í Burkína Fasó?

Ouagadougou.

 

Í hvaða bók biblíunnar er aldrei minnst á guð?

Esterarbók.

Ofanskráður fróðleikur er allur tekinn úr einhverju sem rak á netfjörur mínar á dögunum og heitir Fánýtur fróðleikur. Mér þykir ólíklegt að nokkur hafi lagt neitt af ofanskráðu á minnið. Enda er þetta í sannleika sagt fánýtur fróðleikur.

Engu að síður gætu allar þessar spurningar verið úr spurningakistu þeirri sem rótað er upp úr fyrir gáfnaljós landsins á hverju laugardagskvöldi í vetur eins og undanfarna vetur sem hin besta skemmtun fyrir beturvitringa sem sitja í hægindum heima og horfa á sjónvarp RUV. Þáttur sá heitir Útsvar og er - satt að segja - með skemmtilegasta innlenda efni þar á bæ.


Málfar í molum 3

Hann ekur um á Porsche Carrera. Hvað hefur þetta „um á“ að gera þarna.

Grunur leikur á um að… Hvað hefur þetta „um“ að gera þarna?

Dragið djúpt inn andann, segir leikfimikonan í útvarpinu á morgnana. -- Hvert annað væri yfirleitt hægt að draga blessaðan andann?

Einhver stjórnmálamaður -- var það ráðherra?-- sagði í útvarpinu í gær að eitthvað hefði beðið hnekk. Samkvæmt Íslenskri orðabók er nefnifallið hnekkir og orðið þýðir áfall eða tjón. Beyging er ekki gefin en mér finnst hún hljóta að vera:

Hér er hnekkir / um hnekki / frá hnekki / til hnekkis.

Þannig að eitthvað hefur þá beðið hnekki -- ekki hnekk.

Og hneggi svo hver sem vill.


Marteinn á mun betra plani

Líklega er það sama og að stíga út á hálan ís að blanda sér í umræðuna um Martein greyið, þennan sem á að skemmta okkur á föstudagskvöldum. Ég hef lesið nokkur blogg þar um og öll á eina lund, að þáttur þessi sé afburða lélegur, ekki síst að hann sé stæling á amrískum hláturgusuþattum sem fyrirfram eru dæmdir einkar leiðinlegir.

Ég veit það ekki. Kannski er ég bara svona vitlaus. Sá að vísu ekki fyrsta þáttinn en var kominn í sjónvarpsstólinn aftur á föstudaginn var og viðurkenni mig sekan: Ég hló amk. þrisvar. (Man samt ekki lengur að hvaða bröndurum.) Og leiddist aldrei.

Ég hjó eftir því samt, sem einnig hefur komið fram í nokkrum bloggum, að uppsetning sviðsmyndar minnir mjög á sviðsmyndir erlendra hláturgusuþátta. Ekki bara amríska, ég minni tam. á breska þáttinn um tannlækninn og fjölskyldu hans (man ekki hvað þeir þættir heita) og etv. einhverja fleiri þó þeir detti ekki inn í kollinn á mér nú. Útidyr beint úr stofu hægra megin, sófasett fyrir miðju og stigi upp á loft þar fyrir aftan, gengið út í eldhús til vinstri. En þessi einfalda uppsetning angrar mig ekki heldur.

Satt að segja finnst mér Marteinn á mun betra plani heldur en sjónvarpsfyrirbærið sem bar nafnið Planið. Stritaðist við að sitja undir öllum fyrsta þættinum, gafst upp og fór að gera annað undir þætti nr. 2 og kom svo aftur inn í lokaþáttinn, man ekki númerið á honum. Stökk aldrei bros, hvað þá að ég hlægi upphátt. Var þó allur af vilja gerður fyrirfram.

Hamarinn fannst mér góður þó nokkrir væru lausir endar. Dreymdi mig það (ég sofna nefnilega stundum í sjónvarpsstólnum) eða var atriði í þættinum þar sem bjarg hrundi ofan á húsbíl og lagði hann í klessu? Hafi svo verið vantaði mig alltaf skýringu á því. Einnig drengnum sem dáinn fylgdi Birni Hlyni og sýndi sig skyggnum í umhverfi hans annað veifið. Tilgangur hans í verkinu fór alveg fram hjá mér. Og af hverju var hann að fylgja þessum manni?

En fyrir alla muni: Meira leikið íslenskt efni hlýtur að verða til þess að vankantarnir slípist af og aulafyndni þróist í góða fyndni og rökræna fylgni þeirra þátta sem fram eru dregnir. Og mér er slétt sama þó rammi sviðsmyndar sé sóttur í þrautreynda hláturgusuþætti erlenda.


Lukkunnar pamfílar

Sannarlega ástæða til að óska þessu fólki til hamingju með vænan vinning. Ég tók eftir því í niðurlagi fréttarinnar að þar segir að þetta komi sér vel í viðbót við ellilífeyrinn. Ef þau hafa fengið ellilífeyri -- þ.e.a.s. aumingjastyrkinn frá TR -- er margföld ástæða til að óska þeim til hamingju, því þá hafa þau verið verulega illa stödd!

En nú geta þau vonandi keypt sér skjólgóðar flíkur til vetrarins og kannski líka bland í poka. Lukkunnar pamfílar.


mbl.is Héldu að þau hefðu unnið 16.500 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðarvalið kolvitlaust

Það er sosum gott út af fyrir sig að eiga von á nýjum og hagkvæmari Landspítala. En hann verður því miður á arfavitlausum stað þar sem á að hlamma honum niður, á líkum slóðum og sá gamli við Hringbraut er og út yfir gömlu Hringbrautina.

Þessi staður er algjör útúrbora eins og þróun höfuðborgarsvæðisins hefur orðið. Landfræðileg miðja þess er núna svosem eins og í Smáranum eða jafnvel aðeins utar, á Vífilsstöðum. Að þeim slóðum liggja líka um þessar mundir sæmilega greiðar ökuleiðir og jafnvel möguleiki á að útvíkka þær að verulegu leyti, ef þörf krefur.

Allar ökuleiðir að þessum nýja Landspítala eru nú þegar umferðarlega sprungnar. Um daginn ætlaði allt af göflunum að ganga þegar samviskusamur strætóbílstjóri sem vildi leitast við að halda áætlun ók yfir gangstétt til að komast leiðar sinnar. Hvernig haldið þið að gauragangurinn verði þegar sjúkrabílarnir fara að böðlast á gangstéttunum eða jafnvel á Klambratúninu sjálfu -- sem nú heitir reyndar líklega Miklatún?


mbl.is Nýtt upphaf markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfar í molum 2.

Hér veður uppi sú rökleysa að menn geti orðið feður, eða mæður, því konur eru líka menn, svo og svo oft.

Kjaftæði.

Maður verður faðir þegar fyrsta barnið fæðist, eða móðir ef maður er kvenmaður. Situr uppi með titilinn úr því, þó börninn verði 12.

Maður getur orðið faðir áttunda barnsins. En faðir varð maður með því fyrsta og basta.


mbl.is Áttunda barnið komið í heiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dragbítarnir skapa mesta hættuna

Það er alltaf sama bókstafstrúin í hægagangaofstækinu -- að allt sé unnið með því að keyra niður ökuhraðann. Vissulega má til sanns vegar færa að minni hraði gefur minna högg ef til óhapps kemur, en alls ekki sjálfgefið að eðlilegur ökuhraði leiði til þess að höggin verði fleiri.

Athyglisverð frétt var í Desert News í Utah 25. okt. s.l. þess efnis að þegar leyfður hámarkshraði á tveimur völdum vegarköflum í suðurhluta ríkisins var hækkaður úr 75 mílum pr. klst. (121 km/klst) í 80 mílur (tæpl. 130 km/klst) lækkaði raunhraði á þessum sömu köflum (www.desertnews.com/article/705338447). Það er að segja, lægri mörk hraða yfir 75 m/klst urðu lægri, en flestir samt héldu áfram að keyra á 85 m/klst eins og verið hafði fyrir breytinguna. Og slysum hefur ekki fjölgað.

Mig minnir að svipað hafi gerst á einhverjum tilteknum vegum í Svíþjóð fyrir eitthvað um 20 árum eða svo. Gott ef ekki Frakklandi líka. En hér dettur mönnum ekkert annað í hug til útbóta en endalaus hraðafasismi, þó það hafi margsinnis sést og sannast að það er miklu fremur skynsemi og tillitssemi sem ætti að höfða til -- og er ekki síður mikilvægt á 90 km hraða eins og á 110-130.

Í nefndri grein kemur einnig fram það álit að það sé ekki hraðinn sem slíkur sem mestu máli skiptir fyrir örugga umferð, heldur að sem flestir séu á sama hraða. Sem með öðrum orðum þýðir að það eru dragbítarnir í umferðinni, þeir sem fara hægar en meirihlutanum þykir eðlilegt, sem skapa mesta hættuna.

Hvernig væri að taka myndir af þeim?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband