Færsluflokkur: Dægurmál
15.1.2010 | 19:09
Baðherbergi með engu bað. . .
Jasko, nú getur maður brugðið sér í bað meðan maður ferðast með flugvél!
Alltaf er þeim að fara fram
sérstaklega þeim sem hráþýða svona fréttir upp úr enskumælandi fréttaveitum. Og vita ekki að til eru fjöldamörg bathroom þar sem hvorki er hægt að fara í steypibað né kerlaug. Og enginn laugar sig upp úr dollunni sem þar kann að vera að finna
held ég.
![]() |
Handtekinn eftir sprengjuhótun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2010 | 10:10
Fyrsti lögreglubíll á Akureyri
Á sínum tíma leitaði ég eftir því sem ég hafði vit til eftir mynd/myndum af fyrsta lögreglubíl á Akureyri. Sá mun hafa komið þangað um miðjan fimmta áratug síðustu aldar, bíll fenginn frá Sölunefnd setuliðseigna eins og þá hét sú stofnun sem sá um að koma notuðum herbílum í hendur Íslendinga.
Gísli heitinn Ólafsson, lengi yfirlögregluþjónn á Akureyri, sagði mér að það hefði verið mikill munur að fá bílinn. Áður hafði lögreglan farið ferða sinna um staðinn gangandi eða í besta falli á reiðhjóli, sem getur verið amasamt á Akureyri, og umhendis þegar þurfti að fara með fullan mann til að láta hann sofa úr sér. Ekki mundi Gísli glöggt um þennan bíl, en aðrar heimildir hafa gefið mér hugmynd um hverrar tegundar hann hafi verið.
Enn er ég að leita. Kannski bloggið geti gefið mér einhverja vísbendingu. Ég trú ekki öðru en að þessi bíll hafi einhvers staðar álpast inn á ljósmynd. Akureyringur góður, heimabúandi eða brottfluttur, er mynd af honum til í gamla albúminu þínu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.1.2010 | 18:35
Að misbjóða bíógestum
Til þess að gera eitthvað jákvæðara en að lána útlendingum peninga sem ekki eru til með loforði um vexti sem ekki er hægt að standa við hafa sumir brugðið á það útrásarlag að gera kvikmyndir, einhverjir hugsanlega með von um Oscar (svo ljót sem sú stytta er) í bakhöndinni, aðrir setja markið á sjónvarp allra landsmanna.
Ekki hef ég nú séð þetta allt ennþá þó ég rembist nokkuð við. Sá tam. í sjónvarpinu heimildarmynd um Goðafossslysið, sem er ein fyrsta katastrófa sem ég man eftir -- þ.e.a.s. slysið -- sem var svo sárt og þungbært að 6 ára snáðinn grét yfir öllum sem þar fórust og harmleiknum í heild þó hann þekkti þar engan sjálfur né nokkuð af því þar mætti örlögum sínum. Snáðinn hafði áður óljósa hugmynd um harmleik þess er Þjóðverjar kafskutu íslensk skip á úthafinu þegar Reykjaborgin var skotin niður einhverjum árum fyrr, hafði orðið þess áskynja þó ungur væri hve góðvinur hans Guðmundur á Reykjum tók sér nærri að hafa ekki verið með um borð í þeirri ferð. Guðmundur var hinn eiginlegi skipstjóri Reykjaborgarinnar en hafði tekið sér frí frá þessum sölutúr.
Gæði heimildarmyndarinnar um Goðafoss? Þar var trúverðuglega sagt frá og sumpart dregnar fram gamlar og áhugaverðar myndir. Sums staðar er þó seilst um hurðarás til lokunnar -- Marlene Dietrich átti tam. engan þátt í slysinu þó hún glappaðist til að vera í heimsókn á Íslandi akkúrat á meðan Goðafoss lagði úr höfn héðan í hinsta sinn. Fleiri atriði hnaut ég um meðan á sýningu stóð, einkum fyrri hlutanum, sem mér fannst álíka fánýt í samhenginu þó þau séu farin að dofna í minninu.
Svo var mynd sem hét ef ég man rétt (farinn nokkuð að eldast, eins og þið sjáið hér að ofan) Guð blessi Ísland. Ég hélt í einfeldni minni að þetta ætti að vera heimildarmynd um hálfbyltinguna sem framin var hér á landi fyrir ári eða svo og fólst einkum í því að hafa hátt í miðborg Reykjavíkur og tala digurbarkalega í hljóðnema og þar sem fjölmiðla var von.
En -- var þetta í alvöru heimildarmynd? Mér fannst þetta vera einhvers konar spaugstofugjörningur og skrípilæti. Hvernig ber td. öðru vísi að skilja gjörninginn með að láta Jón Ásgeir koma að landi á einhverjum smákopp með utanborðsmótor og geta ekki einu sinni vaðið sjálfur í land, eftir að koppurinn kenndi grunns? Fleira fannst mér ámóta álappalegt þó mér gangi raunar furðu vel að gleyma þessu filmuslysi -- man þó eftir konu sem ætlaði að nota tækifærið og flytja til útlanda, sem mér fannst ekki frásagnarvert. Því skyldi hún ekki gera það ef hugur hennar stóð þangað? Mér sýndist hún ekki mikilla sæva hér á landi og datt í hug hið fornkveðna að sá sem ekki getur spjarað sig í einu landi er ekkert líklegri til að gera það annars staðar. Sama var með fyrrverandi vörubílstjóra sem ég sá ekki betur en hefði það bara nokkuð gott hérlendis en belgdi sig samt út á Keflavíkurflugvöll til að komast til Amiríku. Átti hann á vísan að róa þar? Svo var hann úr sögunni og er líklega enn.
Svo var það í bíó. Einhvern tíma í desember fór í í bíó að sjá mynd sem hét Desember. Þar stendur tvennt upp úr, veðurfarslegur drungi sem einkenndi myndina alla í gegn og ágætur leikur aðalleikarans, Tómas hygg ég hann heiti. Næst þegar kemur desember hygg ég flestir hafi gleymt Desember.
Mamma Gógó. Þar vænti ég mikils og fékk mikið. Þar er fléttað saman mögnuðum söguþráðum Mömmu Gógóar sem heilaglöpin eru að gleypa og blankheitabláþræði leikstjórans sem þó berst nokkuð á með beitingu kunningjatengsla. Hvor tveggja aðalleikaranna, Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær eiga stjörnuleik og þótt myndin sé í raun byggð upp á atriðabrotum, sketsum eins og það heitir nú, falla þau öll saman sem ein heild og grípa hvert inn í annað eins og tannhjól. Aðeins eitt skar sig nokkuð þar úr sem lítið eitt óviðeigandi: þegar leikstjórinn brestur í grát til að tjá mömmu kærleika sinn og væntumþykju gersamlega upp úr þurru. Eini tilgangurinn sem ég sá var að gefa mömmu Gógó færi á að koma inn tragikómískum brandaranum: Í hvaða leikriti erum við núna?
Mynd eins og Mamma Gógó er af þvi taginu sem ég gæti hugsað mér að sjá aftur. Og kannski í þriðja sinn.
Að lokum má ég til með að koma inn á atriði sem gerir það að verkum að ég er ekkert himinfús að fara í bíó: Áður en myndin hefst, sem maður hefur borgað sig inn á, kemur urmull af auglýsingum og glefsum úr kvikmyndum sem til stendur að sýna einhvern tíma á næstunni. En meðan á þessu stendur er hljóðið stillt svo hátt að það skefur á manni hlustirnar. Hlýtur að vera heyrnarskemmandi.
Mig langar að spyrja bíófólk: Er einhver ástæða til að misbjóða bíógestum með þessum yfirgengilega hljóðstyrk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2010 | 13:12
Til að hylja helgustu staði. . .
For release at 0900 hrs December 29, 2009: Transport Canada in conjunction with the Department of Homeland Security of the US have cleared up the recent confusion about carry on bags or not and the pat down procedures on US bound flights by waiving all prior advisories about pat downs and carry on bags and clearly stating the new policy.Effective December 29, 2009 at 0900 hrs, all passengers boarding all flights intending to land in the US must strip completely naked prior to check-in and both their carry on bags and clothes will be placed in a basket that customers can reclaim at their final designation. This procedure will result in increased security and comfort for all passengers and will result in more on time departures. As most terrorists are Muslim men and their religion forbids them from seeing naked women, it further hoped that terrorists will avoid flights abiding by the new flight safety rules. These new rules have been tested thoroughly in an open environment and most passengers seemed to both enjoy the new rules and easily conform. (photo attached for news wire use).Aeroplan also announced the creation of the additional frequent flyer club called Mile High Club where points will be awarded to both qualifying members.The Transport Canada rules make clothing optional for all airline crews except Air Canada Flight attendants where Transport Canada has mandated that Air Canada Flight Attendants must remain fully clothed to protect passengers from suffering heart attacks due to the visual shock.When the spokeswoman was asked how these new regulations will affect pro athletes, she speculated that Tiger Woods will now come out of hiding and will fly quite frequently.
![]() |
Eftirlit á flugvöllum verði hert enn frekar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2009 | 14:33
Gagnslaus leiksýning?
Síst ætla ég að lasta að flugöryggi sé tryggt sem verða má, en forlátið mér þó mér þyki þetta bera dálítinn keim af gagnslausri leiksýningu fremur en raunhæfu eftirliti. Því -- ef skoðun á handfarangri og hugsanlegum innanklæðasprengjum flugfarþega vestur um haf á að taka tvöfaldan tíma miðað við samskonar viðhöfn við þá sem ætla austur um, má þá ekki láta sér detta í hug að Ómarar og Farúkar og Abdúllar skipti með sér verkum: Ómar sem ætlar vestur um hafa fer með afar saklausan handfarangur og ekkert álímt innanlærs í gegnum erfiðu leitina en Obakar sem hefur keypt sér miða austur um haf fer með bannaða farangurinn í gegnum léttu leitina og svo hittast þeir félagar inni á náðhúsi áður en farið er um borð í vélina og Ómar fær allt ógóið til að geta sprengt sjálfan sig og samferðafólkið í tætlur einhvers staðar á leiðinni.
Því þetta ótuktarlið finnur alltaf einhverja leið til að halda sakleysingjunum í helgreipum óttans.
Eða hafa nokkurn tíma farið spurnir af því að sprengiefni, eða efni til að búa til sprengjur, hafi fundist á tilvonandi flugfarþega í vopnaleit við innskrift? Einhvers staðar í heiminum?
![]() |
Farþegar lágmarki handfarangur í flugi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2009 | 16:51
B O R I N G
Þegar ég var að alast upp tíðkaðist ekki í minni sókn að hafa aftansöng á aðfangadag. Á þeim tíma dags sinntu bændur og búalið gegningum svo hægt væri að halda jólin hátíðleg með fjölskyldunni. Jólamessan var á jóladag milli gegninga og þá mættu þangað allir í sínu fínasta pússi og nutu þess að hlusta á jólaguðspjallið og svo spjall prestsins þar að lútandi og taka þátt í að syngja Í Betlehem er barn oss fætt og Heims um ból.
Þá var ekki búið að finna upp að ekki mætti tala um guð og Jesúbarnið og að slíkt gæti verið börnum hættulegt.
Ég fór ungur að syngja með kirkjukór og þó það hafi verið með nokkrum hléum hafa hléin aldrei verið löng. Eftir að ég var hættur að ganga til gegninga og aftansöngur fór að tíðast í minni sókn og síðan miðnæturmessur á aðfangadag hef ég jafnan komist í best og mest hátíðaskap með því að taka þátt í þessum messum.
Kvöldið í gær var engin undantekning. Nema hvað þá var höggormur í þeirri paradís í seinni messunni.
Þegar prestur steig í stólinn og byrjaði að leggja út af jólaguðspjallinu settist ég á skákina hjá organistanum og virti fyrir mér prúðbúna kirkjugestina. Skáhallt fyrir neðan mig var ung kona - eða kannski bara rúmlega hálfvaxið telpubarn, brúðbúin og axlaber með skrautspöng um enni og þungt silfurarmband með skrautsteinum. Hún sat hjá föður sínum að ég held - getur varla hafa verið kærasti því aldursmunurinn leit út fyrir að vera talsverður.
Ég veit ekki af hverju ég fór að taka eftir henni. Kannski af því hún var svo ókyrr. Svo fór hún að hjúfra sig upp að pabba og reyna að hvísla einhverju að honum en hann færðist undan. Þá tók hún sig til og tók að teikna stafi með einum fingri á bekkinn fyrir framan, þar sem blasti við pabba og mér. Ég fylgdist með fingrinum og náði að lesa stafina: B O R I N G. Svo lagði hún kollinn að öxl pabba og þó ég sæi ekki framan í hana þykist ég vita að hún hafi lokað augunum, með fýlusvip.
Raunar risti hún þessar þöglu rúnir sínar nokkrum sinnum í bekkbakið. Veslingurinn. Því hún hefur gjörsamlega misskilið tilganginn með því að sækja miðnæturmessu á helgri nótt. Hún hefur haldið að þetta ætti að vera eitthvað fyndið. Hún gaf sjálfri sér ekki einu sinni séns á að vita hvað presturinn hefði að segja. Að leyfa hátíðleikanum að flæða til sín, hátíðleikanum sem aðeins fylgir jólum.
Ég færði mig til að verða ekki vitni að frekari rúnaristum stúlkunnar. En hún hafði náð að spilla fyrir mér stundinni og enn nú nær sólarhring síðar fæ ég hálfgerðan kökk í hálsinn við endurminninguna.
Í bæninni á eftir sóaði ég þó persónulegum bænatíma á þessa ungu konu og bað þess að henni bæri, þó seinna yrði, gæfa til þess að finna jólafriðinn og skynja hvað jólaguðspjallið raunverulega hefur að segja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 18:11
Skrökvað upp á kaupfélagsstjórann
Í bílablaði Moggans á föstudaginn var átti Þorsteinn Baldursson ágætlega skemmtilegan pistil um Willysjeppa (landbúnaðarjeppa, til aðgreiningar frá herjeppum) sem litli Jón í Litlabæ einhvers staðar úti á landi hafði keypt árið 1946 sér og sinni litlu Gunnu til skemmtunar, fyrir milligöngu kaupfélagsstjórans á staðnum.
Þorsteinn er fróður um bílasöguna og kann margt fyrir sér á því sviði. Þess vegna hlýtur það að vera samkvæmt þeirri meginreglu að aldrei megi góð saga gjalda sannleikans að hann skrökvar upp á vesalings kaupfélagsstjórann sem sennilega er kominn yfir móðuna miklu og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér.
Hann lætur kaupfélagsstjórann segja bóndanum að auðveldara myndi fyrir hann að kaupa Land Rover heldur en Willys. Hafi svo verið hefur kaupfélagsstjórinn í fyrsta lagi haft magnaðan sagnaranda og í öðru lagi ætlað Jóni mikla þolinmæði, því Land Rover var fyrst kynntur almenningi með blaðagrein í The Times 20. Apríl 1948 og fyrst sýndur á bílasýningunni í Amsterdam í lok apríl það ár.
Sala á þeim til almennings mun ekki hafa hafist fyrr en síðla árs 1948. Hekla hf. varð með þeim allra fyrstu utan Bretlands sem fengu umboð fyrir Land Rover og fyrsti sýningarbíllinn kom til Íslands seint í nóvember það ár. Fyrsta sölusendingin sem nefna má því nafni kom til Íslands 1951. (Heimild: Saga bílsins á Íslandi 1904-2004.)
Læt fylgja með til skemmtunar teikningu af frumgerð Land Rover sem smíðuð var (handsmíðuð og raðað saman úr einingum sem til voru annars staðar frá) árið 1947. - Þær frumgerðir sem þá voru settar saman voru síðan allar rifnar, sennilega til að lenda ekki í útistöðum við Willys Overland sem í stríðslok tryggði sér framleiðslurétt á jeppanum. Í þessum frumgerðum Land Rover voru meðal annars hlutir úr Willys.
Þessi pistill hefur líka verið sendur bílablaði Moggans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2009 | 10:15
Líka fyrir konur
Útvarpið gekk yfir okkur hér áðan og ég hlustaði með öðru eyranum. Gaman að heyra að tilkynningar fyrirtækja í gegnum útvarpið -- oft kallaðar auglýsingar -- eru orðnar nokkuð frjálslegar og stundum dálítið skemmilegar.
Dæmi: Veiðigjöf jólamannsins
Og kannski má telja í sama hópi eitthvað sem kallar sig Herralagerinn og bætir við: Líka fyrir konur. -- Einhvern veginn hefði ég haldið að herralager væri fyrst og fremst fyrir konur að velja úr
Opnum snemma, lokum seint -- svona tilkynning kemur mér í gott skap.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 10:04
Litlu munar sagði músin
Litlu munar, sagði músin þegar hún meig í sjóinn. Þannig hljómar gamalt orðtæki, líklega upprunalega þýtt úr norsku.
Mér þykir það eiga við hér. Mengun af völdum Íslands er svo lítil að hún telst ekki með borið saman við ríkin sem virkilega menga, Bandaríkin, Rússland, Indland og Kína. Jafnvel ekki miklu minni mengunarvalda eins og ríki meginlands Evrópu.
Einhvers staðar las ég í stjórnunarfræðum, meðan ég var enn að glugga í þesskonar bækur, að mestu máli skipti að setja raunhæf markmið. Annað væri stertimennska og stefndi þeim sem þau settu beint til glötunar eða í besta falli gerði þá hlægilega.
Man einhver eftir Vímuefnalausu Íslandi -- átti það ekki að vera árið 2000 og framvegis? Einhvern veginn finnst mér þetta gaspur Íslendinga á skríparáðstefnunni í Köben vera af sama toga.
![]() |
Ísland minnki losun um 30% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2009 | 12:08
Málfar í molum 4
Fullt af íslenskum dreifingaraðilum fá fría gistingu á einu flottasta resorti Marbella. Þessi ósköp fékk ég sent í morgun frá voldugum amrískum framleiðanda fæðubótarefna sem margir Íslendingar trúa á. Forlátið mér þó mig velgji við svona málleysu -- og þá á ég ekki bara við orðskrípið sem notað er á undan staðarheitinu í téðri auglýsingu.
Það er eins og sumir hugsi ekki þegar þeir tala eða skrifa. Annars staðar sá ég talað um að jólasveinar nútímans kæmu til byggða á snjósleðum. Gott og vel, komi þeir af fjöllum ofan geta þeir amk. sumpart rennt sér á snjósleðum, en af samhenginu mátti ráða að átt var við vélsleða.
Sem minnir á annað orð fyrir annan árstíma: sláttuorf -- þegar átt er við vélorf. Pabbi átti sláttuorf og ég vildi gjarnan að það væri til enn, því ég á amk. annan af tveim síðustu ljáunum hans og þó ég yrði aldrei slyngur sláttumaður né snjall að láta bíta hjá mér hef ég oft óskað þess að eiga líka orf og geta þá reynt að hjakka af þúfunum hér í kringum mig með sláttuorfi -- þó það væri ekki vélknúið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar