Færsluflokkur: Dægurmál

Málfar í molum 1.

Eiður einu sinni stéttarbróðir minn Guðnason er ánægjulega iðinn að tína upp það sem hann kallar „málfarsmola" fjölmiðla og mér finnst nánast vera málfar í molum. Og það er satt að segja alveg hræðilegt hvernig fólk, meira að segja menntað fólk, getur misþyrmt þessu blessaða máli okkar. En eins og ég held ég hafi annars staðar sagt, það er ekki samsemmerki milli þess að vera menntaður og vera lærður.

Ég var með opið útvarp í bílnum sem oftar en hugnaðist ekki sú tónlist sem var í boði á flestum stöðvum svo ég freistaðist til að stilla á stöð sem gerir mest út á talað mál, þó það hafi oft orðið mér til gremju hve þeir sem þar taka til máls eru yfirgnæfandi neikvæðir alla tíð. Það held ég heiti í þeirra hugsun að vera gagnrýnir. En þarna voru karl og kona að spjalla saman og sáu lítt til sólar að vanda stöðvarinnar en ég lét þetta malla og hlustað með öðru eyranu meðan ég taldi Toyotur í umferðinni og undraðist í 1000-asta skipti hvílíka yfirburða stöðu þessi tegund hefur öðlast í íslenskri bílaflóru. Góðir geta Toyotabílar svo sem verið, en ekki svona góðir!

Allt í einu sperrti ég eyrun. Hvað sagði konan? Jú, hún sagði eitthvað á þessa leið: „...sem þeir numu úr gildi..." Bíðið við? Hvaða fjárans sögn er það sem hefur beygingarmyndina „numu"? Ég hef ekki fundið það út enn. Og - bitti nú! Hvað sagði karlinn? Hann sagði að þetta hefði „ollið" einhverju. Hvaða fjárans sögn var þetta? Sögnið að olla? Er hún til? Ef svo, í hvaða máli? Og hjúin voru ekki af baki dottin, þau fóru að tala um „lagasetningarvaldið". Ehm. Hvað er það? Ætli það sé hið sama og lengst af hefur verið nefnt „löggjafarvaldið"?

Fyrir einhverjum dögum (vikum?) bloggaði ég um þá áráttu að bæta stafnum r inn í orð þar sem það á alls ekki við og breytir heitum. Tilefnið þá var skilti sem hefur verið sett upp hér í sveit og tilkynnir að losun á rusli sé bönnuð í Blikastaðarnesi. Bittinú! Allt fram undir þetta hafa Blikastaðir heitað svo, en ekki Blikastaður, eins og þetta skilti vill vera láta. Þetta er eins og kalla sveitarfélögin hér í nágrenninu Reykjarvík og Kóparvog.

En þetta veður nú út um allt. T.a.m. núna í vikunni í auglýsingu frá Byko þar sem auglýst eru hallarmál. Eh, ætli þetta séubyko_1.jpg mál fyrir tónlistarhöllina tilvonandi, eða Egilshöll? - Ekki er svo að sjá eftir myndinni sem fylgdi - og ég læt fylgja með hér í lokin.

Ætli maður eigi eftir að sjá eitthvað sambærilegt í auglýsingu frá Húsarsmiðjunni og blómarvali?

-- Leiðrétt kl. 18.30 vegna málfarsvillu.


Hvaða talíbanismi er þetta eiginlega?

Það er enginn tilgangur með lausu fé, segir dýralæknir fyrir vestan og vill láta drepa mjög sérstakan villifjárstofn á Vestfjörðum, landslög krefjist þess, segir hún.

Eflaust er það rétt að til sé lagabókstafur sem bannar lausagöngu sauðfjár. En hvaða talíbanismi er þetta eiginlega? Er ekki hægt að óska eftir undanþágu frá bókstafnum þegar annars vegar er dýrategund sem hefur fengið hálfa öld til að aðlaga sig strangri veðráttu á íslenskum fjöll? 

Og svo hitt: er þetta sauðfé í þeim hefðbundna skilningi að nefndur talíbanismi eigi við um það? Er þetta ekki ný tegund, sem vegna aðlögunar sinnar er komið út fyrir bókstafinn og er ekki lengur réttdræpt?

Hafa þessi dýr étið eitthvað frá öðrum svo skaði sé að? Stafar lífríki og náttúru einhver hætta af þeim?

Ég bið þeim eindregið griða -- megi þau fá að lifa og þróast á því harðsnúna landsvæði sem þau hafa h elgað sér.

Hvar eru nú náttúrverndarsamtök? Er ekki til eitthvert Amnesty National?


Jarðvegur fyrir handrukkara

Hjón sem ég þekki lánuðu af gæsku sinni dýrt smíðatól, kostaði 1,4 millur fyrir gengishrun. Lánið veittu þau með milligöngu innflutningsverslunarinnar sem seldi þeim smíðatólið og þetta átti aðeins að vera greiðasemi í skamman tíma.

Það næsta sem þau vissu var að lánþiggjandinn var búinn að selja græjuna austur á land.

Eftir nokkrar málaleitanir við lánþiggjandann og fulltrúa innflutningsverslunarinnar ætluðu þau að kæra málið til lögreglu.

Fengu þar þau svör að lögreglan hefði hvorki tíma né mannafla til að fást við svona smámál. Þau yrði að fá sér lögmann og fara í einkamál.

Og þar við situr.

Finnst einhverjum þetta eðlileg viðbrögð af hálfu lögreglunnar?

Mér er sama í þessu efni hvort það er kreppa eða ekki kreppa -- kreppa sem að verulegu leyti er upp blásin af fjölmiðlum ásamt stjórnarandstæðingum og stjórnarandstæðinga-andstæðingum. Ef við erum svo kreppt að ekki er hægt að halda uppi lögum, vernda þegnana og aðstoða þá við að ná rétti sínum erum við vesælli en jafnvel fjölmiðlar gefa okkur til kynna.

Þá er kominn jarðvegur fyrir handrukkara.


Freelotto! Hjálp! Hvað á ég að gera?

Nú glennti ég upp skjáina! Mér er tilkynnt, á íslensku og afar trúverðuglega útlítandi skjásíðu, að ég hafi unnið einhverja gommu af peningum í Freelotto!

Ég hef iðulega gegnum tíðina fengið allskonar gylliboð á ensku um að ég hafi unnið hitt og þetta og ég þurfi bara að senda bankanúmerið mitt og einhverja smáþóknum í umþóttunargjald, sosum eins og fáein hundruð dollara, til þess að heimta vinninginn minn.

Þess háttar tilkynningar hef ég jafnan sent til RLR og svo ekki vitað af þeim meir.

En nú þarf ég að klóra mér í hausnum. Ég er aðeins beðinn um heimilisfang og netfang til þess að hægt sé að hafa samband við mig og senda mér vinninginn. Og allt þetta á klára íslensku. Ég var bara að leita mér upplýsinga í gegnum Gúgul frænda á netinu þegar þetta boppaði allt í einu upp.

Og nú spyr ég: Er einhver þarna úti sem kannast við Freelotto? Varla er ég fyrsti Íslendingurinn sem fæ svona févænlega tilkynningu.

Hjálp! Hvað á ég að gera?


Í Lívæs gallabuxum á Pors í Mjúnikk

Í síðasta bloggi talaði ég obbolítið um þá tilhneygingu íslenskra -- og vísast fleiri -- að reyna að hneygja framburð erlendra orða, staðarheita og tegundaheita, að enskum framburði. Notaði sem dæmi kanaríeyjuna Tenerífe, sem heitir svo að spænskum framburði, en margir íslendingar eru að burðast við að kalla Teneríf.

Ég hef fengið nokkurt skens fyrir þetta á förnum vegi síðan en læt mér í léttu rúmi liggja. Ég held ég hafi einhvern tíma bloggað um það hvernig íslendingar sem kunna sig vilja kalla bílategundina Porsche Pors og halda að þeir séu nú aldeilis menn með mönnum, þegar þessi þýska tegund heitir auðvitað Porshé eða því sem næst, á þarlendu máli. Og gallabuxurnar sem einu sinni voru vinsælar og hétu eftir Austurríkismanninum Leví Strauss eiga auðvitað að heita Levís gallabuxur en ekki Lívæs, þó Amríkanar hafi tekið eftir honum að sauma soddan buxur. Þegar Renault kom með fjölnotabílinn Espace sem aðrir framleiðendur hafa síðan stælt sumir með góðum árangri voru Ísslendingar að burðast við að kalla hann Espeis, þó heima í Frans heiti hann Espaas. 

Fréttamenn íslenskir er amk. flestir blessunarlega hættir að kalla Munchen Mjúnikk, þó þessi eðla borg heiti kannski Mjúnikk í munni enskumælandi, eða ítalska borgin Torino Túrín, með sömu formerkjum. Þess vegna hnykkti mér dálítið við að heyra í útvarpinu í gær að forstöðumaður amenestís internasjónals talaði um Næger -- þegar ég hélt að hún ætti við Nígeríu.

En þetta er lúmskt. Ég viðurkenni það. Man enn hvað mér kólnaði milli herðablaðanna þegar ég var að yfirfara nokkuð langa þýðingu sem ég hafði gert og uppgötvaði mér til skelfingar að ég hafði alls staðar talað um amerísku ugluna þar sem í frumtextanum hafði staðið american eagle. -- En, sem betur fer, mér tókst að lauma mér úr þessari gildru áður en hún small. 


Haustdagar á Tenerífe

Nú á haustdögum þáðum við hjónin gott boð þríeinnar ferðaskrifstofu íslenskrar um sólarlottó á Tenerife. Höfðum aldrei á þá góðu Kanaríeyju komið en stundum horft til hennar frá Stóru Hundaeyju - Gran Canaria  -- og jafnvel rætt um að skreppa þangað dagsferð svo sem í boði er. En ætið fallið frá því með það í huga að skreppa þangað gagngert þegar svo bæri upp á eins og varð nú í liðnum mánuði.

0909160044.jpgÞegar maður kaupir lottó er ævinlega óvíst um vinning. Í sólarlottói er óvissan um gististaðinn og maður verður að þiggja það sem að er rétt. Hingað til hefur okkur ekki verið í kot vísað en sosum heldur ekki fengið það allra besta, nema ef það var þegar við tókum sambærilegt ferðaboð frá breskri ferðaskrifstofu til Kýpur.

Í þessu tilviki fengum við inni á Hotel Tropical Playa sem er í sjálfu sér ágætur gististaður hvað vistarverur og annað atlæti snertir, en umhverfið er afar lítið aðlaðandi. Til suðurs blasir við illa útgrafin sandgryfja - eða að þar stendur til að byggja eitthvað stórt og mikið þegar aftur blæs byrlega fyrir slíkum framkvæmdum. Þar á móti er fjölfarið hringtorg og við það hóruhús - eða hvað annað íslenskt heiti á við um 0909150036.jpgfyrirtæki sem auglýsir „erotic massage, body to body"? Að öðru leyti liggja ekki annað en bílagötur og byggingar að nærumhverfi þessa hótels.

Frá því er 10-15 mínútna gangur til fjöru. Auglýst fjarlægð í metrum er sögð 350-400 metrar en það hlýtur að vera reglustrikumæling stystu leið. Um þrjár gönguleiðir er að velja og ég þori að fullyrða að hin skemmsta - sem liggur meðfram steyptum lækjarfarvegi, þurrum er þetta var, er ekki undir 600 metrum. Þá miða ég við þekkta 400 metra leið hér í mínu nánasta heimaumhverfi. Engin þessara þriggja leiða er sérlega skemmtileg eða aðlaðandi.

0909150042.jpgGistingunni á Hotel Tropical Playa fylgdi hálft fæði, 0909100006.jpgmorgumatur og kvöldmatur. Okkur reyndist hann fjölbreyttur og prýðilegur. Hins vegar þykjumst við eiga þar einn kvöldmat inni, þó trúlega gangi illa að innheimta hann.  Lending frá Íslandi var svo seint um kvöld komudaginn suður þangað að matartími var afstaðinn. Þar sem við höfum lent í svipuðum aðstæðum á Gran Canaria hafa hótelin ævinlega látið kaldan mat, gjarnan smurt brauð og ávexti, í kæliskápinn ásamt góðri vatnsflösku en því var ekki að heilsa þarna. Kurteis kona í móttökunni benti mér á „súpermarkað" á næsta götuhorni sem opinn væri allan sólarhringinn og þannig bjargaðist þetta kvöld.

Og þarna fór vel um okkur næstu tíu dagana. Gisting okkar var kölluð stúdíóíbúð, en það er herbergi með dulitlum eldhússbekk og prýðilegu baðherbergi. Rúmið var mjög gott og svalirnar sömuleiðis, við vorum svo heppin að fá suðvestur-svalir þannig að mesta breiskjan var horfin úr sólskininu þegar það náði inn á svalirnar hjá okkur undir það að síestunni lýkur suður þar. Þrifnaðurinn var allþokkalegur, þrjá þrifnaðarkonur komu daglega og fóru eins og hvítur stormsveipur um stúdíóíbúðina, sjaldan lengur en þrjár mínútur og voru þá líka búnar að búa um rúmið. Hreint ónískar á þessi líka fínu, hvítu handklæði en diskaþurrku urðum við að kaupa úti í búð. Skorkvikindi hreint engin ef frá eru taldir örsmáir maurar sem voru sífellt eitthvað að úðra í kringum eldhússvaskinn en voru okkur svo sem ekki beint til ama, greyin, einkum af því við notuðum þessa elhúsboru svo sem ekkert.

0909170051.jpgEn af því ég lét í skína að við hefðum líka nokkra reynslu af Gran Canaria - hvor eyjan er mér nú hugleiknari eftir stutta kynningu af Tenerife? Svarið er að mér er sú fyrrnefnda afar hugfólgin og þar finnst mér ég eiga dável heima. En Tenerife er líka áhugaverð og viðmót þeirra sem við hittum þar ekki síðra en á hinni eyjunni. 10 dagar eru líka of skammur tími á nýjum stað þannig að mér þykir einboðið að þangað liggi leiðin aftur - og þá með gistingu nær ólgandi Atlanshafinu.

Og nú kem ég að aðalefninu. Er ekki sagt að rúsínan sé best geymd í pylsuendanum? - Ég hafði einhvers staðar lært að réttur framburður á nafni þessarar eyjar væri Tenerífe - lesið til fullnustu eins og íslenskt orð væri og endað á e-inu. Íslendingar margir hverjir hafa þann leiða sið að sleppa e-inu og segja bara Teneríf. Þetta heyrir maður enda líka hjá sumum, jafnvel fararstjórum, suður þar. Ég spurði innfædda hvernig ætti að bera fram þetta heiti, Tenerife, og svarið var að e-ið í enda orðs ætti að heyrast. Hitt væri bara þjónkun við þá sem helst vildu hafa allt upp á ensku.

 


Dýrt að hafa góð dekk

Ekki kæmi mér á óvart þó þarna hefði sagt til sín hve dýrt er að hafa góð dekk undir bíl. Uppflot vegna bleytu verður fyrst og fremst (eingöngu?) þegar munstur dekkjanna nær ekki að hreinsa sig af vatninu og gefur því ekkert grip. Maður hefur stundum fundið þetta á dekkjum sem þó eru enn með „löglega“ munsturdýpt. Hér má þakka guði fyrir að bíllinn lenti út af en ekki á umferð á móti.
mbl.is Þrír á slysadeild eftir bílveltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í vinstrigrænum sjó

Fréttablaðið segir í dag, og nafnkunnur stjórnmálafæðingur hnykkti á því í kvöldfréttum, að stjórnin sé svo gott sem fallin. Með úthlaupi Ögmundar og upphlaupi Guðfríðar Lilju og þeirra arms innan Vinstrigrænna sé ekki lengur nothæfur stjórnarmeirihluti fyrir hendi.

Viðbúið er að þetta sé rétt. Og þarf engum að koma á óvart sem hefur lifað við hefðbundin íslensk stjórnmál síðustu hálfa öldina og rúmlega það. Flokkurinn lengst til vinstri, hvað sem hann hefur heitað hverju sinni, hefur aldrei verið nothæfur nema í besta falli örskamma stund. Svo kemur smákóngahugsunin í ljós. Smákóngar eru ekki samstarfshæfir. Til samstarfs þarf samstarfsvilja og skilning á því að maður nær aldrei öllu fram sem maður helst vildi óska sér. Skilning á því að stundum -- kannski oftast? -- er betra að slá örlitlu af um sinn en láta ekki einn ósigur slá sig út af borðinu og missa þau tök sem maður annars getur haft til þess að þoka málum síðar meir aftur í átt til þess sem hugurinn stendur til. Nei, segir eðli smákóngsins, nú lem ég í borðið, læt á mér bera og kem fram af „heiðarleika og einlægni“, tek ekki þátt í leiknum lengur, ég er farinn heim í fýlu!

Kemur þetta einhverjum á óvart? Hvernig urðu Vinstrigrænir til? Jú, það var þegar smákóngar á vinstri vængnum gátu ekki hugsað sér að fara í samflot með öðrum vinstri mönnum þegar Samfylkingin varð til heldur þurftu að búa sér til sitt eigið smákóngaveldi. Er líklegt að eðli þeirra hafi breyst einhver ósköp á þeim skamma tíma er síðan kratar í heild og nokkrir kommar að auki urðu Samfylking?

Ég tel ekki að þetta þurfi að koma neinum á óvart. Og út af fyrir sig græt ég það fremur þurrum tárum þó þessi stjórnarnefna falli. Hins vegar finnst mér tímasetning þess heldur óhagstæð og flest annað hefðum við þurft heldur akkúrat núna heldur en stjórnarkreppu ofan á fjármálakreppu.

Kannski er það þó einmitt það sem smákóngarnir vilja helst. Þá munu þeir sjálfsagt kyrja, hver með sínu nefi -- ég efast um þeir geti sungið saman, hvað þá í kór -- „allt í vinstrigrænum sjó“.


Lausn fyrir fórnarlömb hrunsins?

Eftir væran svefn í tæpt ár rumskuðu stjórnvöld aðeins þegar staðið var frammi fyrir greiðsluverkfalli sem getur orðið óþægilegt fyrir bankana, svo ekki sé meira sagt. Þá loks greip þau írafár svo þau ruku til og hnykktu á gamalreyndri aðferð til hagsbóta fyrir heimili sem ráða ekki við svimháar afborganir af lánum, ýmist verðtryggðum upp á gamla mátann eða gjaldeyrisviðmiðuðum: Færa afborganir aftur til þess sem var fyrir gengishrunið (sem var í raun mun afdrifaríkara en bankahrunið per se, einkum ef við lítum fram hjá Ísbjörgunum) ásamt óljósi loforði um að ef eitthvað verði ógreitt af höfuðstólnum þegar lánstíma lýkur (25 ár, 40 ár, hver eða hvað sem verður þá við stjórnvölinn hér) verði það sem út af stendur afskrifað.

Takk fyrir kærlega, vinstri stjórn. En vantar ekki dálítið upp á? Ég sé ekki betur en t.a.m. það húsnæði sem stendur í veði fyrir þessum lánum sé óseljanlegt til jafnlengdar. Hver fer að kaupa íbúð fyrir 25 milljónir með veðbagga upp á 48 milljónir? Eða þó veðbagginn væri ekki nema upp á 30 milljónir. Jafnvel þó óljóst fyrirheit sé um að það sem ógreitt verði af honum verði fellt niður, ja, kannski, hugsanlega, árið 2050 eða svo?

Eru þetta góðir kostir? Eru þetta góðir stjórnarhættir? Er þetta lausn fyrir fólkið sem varð fórnarlömb hrunsins?

Ég sé ekki betur en það verði allan lánstímann fangar í skuldafangelsi, fjötrað innan sömu veggja alla tíð, jafnvel þó múrar henti fjölskyldunni engan veginn allan þann tíma.

Staksteinar Moggans töluðu um fjölskyldu sem keypti þriggja herbergja íbúð og gat svo ekki selt tveggja herbergja íbúðina, endaði með að missa báðar. Fólkið sem á allt sitt undir úrræðum vinstri stjórnarinnar í lánamálunum sem hrunið setti úr böndunum getur ekki einu sinni látið sig dreyma um annað en hírast megnið af ævinni í gömlu tveggja herbergja íbúðinni.


Hola eða hole?

Ehm -- ætli þeir hafi grafið holu eða búið til „hole“ í girðinguna?
mbl.is Fimmtíu fangar á flótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband