Færsluflokkur: Dægurmál

Greiðslumat og sanngjörn skattlagning leiðréttingar

Síðustu misserin fyrir hrunið var fólk að kaupa sér húsnæði. Fór í bankana sem vildu endilega lána sem mest til fasteignakaupa. Þar var fólkið tekið í greiðslumat. Mat sem var svo ítarlega og naumt unnið að í sumum tilfellum reið það baggamuninn hvort 150 þúsund króna bílræfill var á nafni væntanlegra lántakenda eða ekki. Stæðist fólkið greiðslumatið fékk það sitt lán með fasteignina að veði. Þessa  síðustu mánuð fyrir hrun var þetta gjarnan svonefnt gjaldeyrislán. Sem þýddi að lánið var veitt í íslenskum krónum en í lánssamningnum var klásúla sem nefndi  jafngildi þeirra íslensku króna í tilteknum gjaldeyri eins og gengið var þá.

Maður skyldi halda að lánveitandinn hefði nú haft borð fyrir báru og tekið tillit til þess í greiðslumati viðkomandi lántakenda hvernig kynni að fara fyrir þeim ef forsendubreytingar yrðu í fjármálaheiminum. En svo urðu forsendubreytingar og þær svo harkalegar að brest má kalla og síðan hefur ekki nokkur maður heyrt minnst á greiðslumat eða ábyrgð lánveitanda gangvart því  greiðslumati sem hann vann.

Til hvers var þetta greiðslumat? Var það aðeins blekkingarleikur til að telja lántakendum - og kannski einhverjum fleiri - trú um að vel og faglega væri að verki staðið af hálfu lánveitanda? Ljóst virðist vera, að minnsta kosti, að lánveitandinn hefur ekki tekið andartaks mark á því sjálfur sem hann var að gera í þessu efni.  Málið snerist um að ná taki á lántakanum, því hvað sem stendur um veð fyrir láninu í samningnum er ljóst að það er aðeins formsatriði. Veðið er í lántakandanum sjálfum. Lenti hann í þroti með greiðslur af láninu, þrátt fyrir hið vandaða greiðslumat af hálfu lánveitanda, og lánveitandi hirti til sín eignina sem skráð var að veði, dugði það aðeins skammt. Lántakandinn sjálfur var ábyrgur fyrir því sem skráð skuld stóð í umfram það sem fyrir veðið gat fengist.

Síðustu mánuðina fyrir hrun var þessum svokölluðu gjaldeyrislánum mjög haldið að lántakendum og sagt:  Jú, gengið á eftir að síga eitthvað, en aldrei nema svo og svo mikið. Svo varð hrunið og nú hefur komið í ljós að fyrir tilverknað bankanna sjálfra, sem tóku stöðu á móti krónunni, varð gengisfallið langt, langt umfram það sem fólkinu var kynnt sem svartsýnustu spár. Með tilvísun til klásúlunnar um gjaldeyristenginguna hækkaði höfuðstóll lánanna um 175%. 20 milljónir urðu að 55 milljónum. Nærri þrefölduðust.

Ansans ári, sögðu lánveitendur, en þú skrifaðir undir, góði, og stattu nú við þitt. Ekkert minnst á greiðslumatið sem lánveitandinn gerði og lánaði að eigin mati út á ítrustu greiðslugetu lántakans.

Sumir hafa síðar sagt að lánveitandinn hafi ekki átt annars kost en láta sem ekkert hefði gerst því hann hefði sjálfur tekið lán á móti láni sem hann veitti í þeim tiltekna erlenda gjaldeyri sem tilgreindur var. Það stenst varla, því þessa síðustu mánuði fyrir hrunið fengu íslensku bankarnir engin erlend lán.

Þess vegna varð hrunið.

Nú hefur hin góðviljaða ríkisstjórn Íslands slegið upp skjaldborg um skuldarana, um heimilin í landinu sem sitja uppi með þessar geggjuðu skuldir. Í þeim er gert ráð fyrir svo og svo miklum afskriftum af höfuðstóli þessara lána. Hver sem augu hefur að skilja hlýtur að sjá, af orðanna hljóðan ríkisstjórnarinnar  að ef  55 milljón króna höfuðstóll verður nú lækkaður í 30 milljónir svo dæmi sé tekið, (var upprunalega 20 milljónir, nóta bene), er skuldarinn að græða á tá og fingri. Og þá ber að skattleggja hagnaðinn.

Fyrirgefið:  Er þetta afskrift, eftirgjöf á raunverulegri skuld? Að mínum dómi ekki, heldur í áttina til að vera sanngjörn leiðrétting sem þó gengur of skammt. Og - er sanngjarnt að skattleggja sanngjarna leiðréttingu?

Ef ég borga tannlækninum mínum óvart tuttugu þúsund krónur þegar ég átti að borga honum fimmtán, og hann réttir mér fimm þúsund kall til baka, er þá sanngjarnt að ég borgi skatt af því?


Símagraðasti hópurinn vann

Fyrr á árum kynntist ég Færeyingi sem hét Jógvan. Þannig var nafnið hans skrifað. Fljótlega sagði hann mér með sinni prúðmennsku og hógværð að réttur færeyskur framburður væri samt Jeggvan.

Þetta hefur rifjast upp fyrir mér núna undanfarið í sambandi við undankeppni Evrósýnar þar sem piltur einn færeyskrar ættar, nú orðinn sveitungi minn, hefur tekið þátt sem íslenskur væri og gert það með sóma. Nafnið hans er líka skrifað Jógvan og var ævinlega í útvarpi og sjónvarpi borið fram sem slíkt -- En ætli hann heiti ekki í rauninni Jeggvan?

Ég horfði á fyrsta þáttinn sem sendur var út. En fannst japlið og aula-léttleikinn (ekki einu sinni hægt að kalla það aula-fyndni) í kringum það svo uppgerðar- og tilgerðarlegur að ég nennti ekki að horfa/hlusta fyrr en svo á lokakvöldið.

Þá var ég enn sömu skoðunar um lögin og flutningin og ég var eftir fyrsta kvöldið. Lagið sem Íris Hólm flutti var besta melódían (að mínum dómi) og flutningur hennar fínn. Fékk sem sagt mitt atkvæði í fyrsta sæti. (Í góðum hópi daginn eftir voru samt nokkrir á því að það hefði verið full sykrað -- en kannski finnst mér bara sykurinn góður. Önnur lög sem mér þótti koma til greina voru, númeruð að mínum smekk: í öðru sæti lag Jeggvans, í þriðja sæti lag Heru Bjarkar.

Ég velti svolítið vöngum yfir Hvanndalsbræðrum -- kannski hefði verið dálítið gaman að senda svoleiðis lummu í aðalkeppnina!

En svo fór sem fór. Í svona símakosningu er hættan alltaf sú að sá hópur sem er símagraðastur komi sínum kosti á toppinn. Altént má hugga sig við að það er ekkert skrípi á borð við Sylvíu Nótt sem við ætlum að senda í aðalkeppnina í maí.


Hvað á torgið að heita – og hvenær?

3. sept. 2007 skrifaði ég blogg um hringtorgin á Vesturlandsvegi á þessa leið:

„Ég vil gefa öllum hringtorgunum nöfn og setja skilti við þau. Á Vesturlandsvegi í réttri röð frá Reykjavík - og minnumst þess að torg nr. 1 þar af er í Reykjavík:

1. Lambhagatorg -- skammt frá bænum (býlinu) forna Lambhaga, þar sem vegurinn liggur upp á Lambhagafell og síðan inn Lambhagafell með Úlfarsfell á vinstri hönd.

2. Hamrahlíðartorg (stendur undir Hamrahlíð sem er vesturhlíð Úlfarsfells. Skógarreitur Skógræktarfélags Mosfellssveitar er þar á hægri hönd; eyðibýlið Hamrahlíð stóð niðri í mýrinni nær ánni.

3. Skarhólatorg. Stendur að vísu á Sauðholtsmýrinni miðri, allfjarri Skar-hólum (sem hétu Skarðhólar þegar ég var lítill) en svonefnd Skarhólabraut er þekkt gata og liggur til austurs frá þessu torgi þó hún hafi aldrei verið fullgerð og sé ekki mikill sómi sýndur.

4. Langatangatorg. Sama rökfræðin og með Skarhólatorg. Langatangi er dulítil tota sem krækist út í Leirvoginn innarlega að austan og er forn uppskipunarstaður; raunar voru viðir Lágafellskirkju það síðasta sem ég hef hermt að þar hafi verið skipað upp, líklega árið 1887. En gatan Langatangi endar við þetta torg.

5. Reykjatorg? Set spurningarmerki við þetta heiti af því ég finn ekkert nafn sem er eins sjálfgefið og mér finnst nöfnin á hin. En Reykjavegur liggur til austurs frá þessu torgi og nafnið gæti verið vísbending um að þarna liggur vegur upp í Reykjahverfi. Allar góðar tillögur um þetta torg vel þegnar. En nafnið verður að vera þjált í munni.

6. Kvosartorg. Kannski ætti að vera spurningarmerki líka við þetta heiti. Fleiri koma til greina: Brúartorg (með skírskotun til Brúarlands, söguríkasta húss Mosfellsbæjar), Álafosstorg (með skírskotun til þess er Álafossverksmiðjan var og hét, Varmártorg vegna nándar við sprænuna þá. En ég mæli með Kvosartorgi.

7. Ásatorg. Engin spurning með heiti þessa nýja torgs sem tengir Þingvallaveg við Vesturlandsveg við rætur Ásanna.

-- Þetta voru sem sagt hringtorgin á Vesturlandsvegi, frá Reykjavík suður að Reykjavík norður (Kjalarnesi). Fyrirheit er um að flest þeirra, kannski öll ég man það ekki, verði síðar meir að mislægum gatnamótum. Óskandi að skipulag bæjanna gleymi ekki að taka frá það pláss sem með þarf svo þetta verði ekki ömurlegar og kaoskenndar ljósaflækjur eins og sums staðar hefur gerst í Reykjavík.

Út af fyrir sig eru hringtorg ekki slæmur kostur til að greiða fyrir umferð. Því miður hafa vega-verkfræðingar nú ákveðið að þau séu ekki síður aðferð til að draga niður umferðarhraða. Það gera þeir með því að búa til undarlegar slaufur þannig að fyrst þarf að beygja til vinstri inn að torgunum áður en hægt er að beygja til hægri inn í þau. Meginárangur þessarar röngu hugsunar er að ergja menn í umferðinni og auka eldsneytisnotkun og þar með mengun. Hamrahlíðartorg er eitt grátlegasta skólabókardæmið um illgjarnar torgtengingar af þessu tagi.

Hitt er annað mál að furðu margir bilstjórar kunna ekki að aka um hringtorg og gera sér td. ekki grein fyrir að þar sem þau eru tveggja akreina gilda sömu lögmál um akreinar þar sem annars staðar, nema hvað innri akreinin á alltaf réttinn út úr torginu - en þá líka á sömu akrein áfram!"

Tillögu minni um að gefa hringtorgunum heiti var í sjálfu sér ágætlega tekið, amk. manna á meðal, en ekkert markvert gerðist annað en að Reykjavík rauk til að gefa sínum hringtorgum nafn og merkja þau. En svo fæ ég þær upplýsingar í athugasemdum á bloggi eins frambjóðandans til lista á komandi bæjarstjórnarkosningar í Mosfellsbæ að „hringtorgin hafa öll fengið nöfn enn hafa þau ekki verið merkt en vonandi verður það gert fljótlega.  En torgin heita, á Vesturlandsvegi norður úr, Hamratorg, Skarhólatorg, Lágafellstorg, Kóngstorg, Álafosstorg og Þingvallatorg".

Frambjóðandinn getur þess að hringtorg á svokölluðu Vestursvæði hafi einnig fengið nöfn: „Klappartorg, Höfðatorg og Hlíðatorg" og torgið í miðbænum hjá Ásláki og N-einum hafi fengið nafnið Kjarnatorg.

Út af fyrir sig þykir mér þetta góðar fréttir en gremst líka að fram hjá mér sé gengið við endanlega nafngift, því ég tel mig vita að hugmyndin sé frá mér komin. Ég get sætt mig við öll þessi nöfn sem ákveðin hafa verið nema mér finnst afleitt að hlíðinni skuli hafa verið sleppt úr Hamrahlíðartorgi, því bæði stendur það við Hamrahlíðina sjálfa og skammt þar frá sem kotið Hamrahlíð stóð. Mér finnst líka full langt til seilst með Ásatorg að gefa því nafnið Þingvallatorg því bæði er þar enn alllangt til Þingvalla og Þingvellir sjálfir í annarri sveit, en torgið stendur við sjálfa Ásana.

 


Stirðnaðir bloggfingur

Óneitanlega hefur dofnað yfir bloggi undanfarnar vikur og mánuði, amk. bloggi á mbl.is. Ég nenni ekki að eltast við allar bloggveitur úti um allt og veit því ekki hvort hið sama er að gerast þar. Finnst í rauninni óheppilegt að dreifa þessari miðlun út um allar koppagrundir.

Kannski er það lögmál hlutanna að í upphafi fylgir þeim visst nýjabrum en svo dofnar áhuginn eftir því sem lengra líður fram. Og mér þykir ekkert óeðlileg við að taka sér svo sem mánaðar frí af og til. En þegar lengri tími líður og það er eins og bloggarar hafi hreinlega gengið í sjóinn eða á annan hátt fyrir ætternisstapa hlýtur maður að áætla að þeir séu úr þessari sögu.

Ég tók tiltölulega snemma á bloggferlinum þá stefnu að hafa fáa en valda bloggvini og fylgjast með því sem þeir hafa að segja. Á þeim grundvelli hef ég hafnað nokkrum bloggvinum sem þó eru með nokkru lífsmarki enn, amk. sumir hverjir, eftir því sem ég hef fylgst með þeim.

En nú er svo komið fyrir nokkrum bloggvina minna að það er eins og þeir hafi hreinlega geispað golunni. Þess vegna á ég ekki von á að þeir hrökkvi stórlega við þó í ljós komi einhvern næstu daga að þá sé ekki lengur að finna á bloggvinalista mínum.

Kannski hlýtur mitt eigið blogg hægt andlát fyrr en varir eins og svo mörg önnur. Tek þó fram að ég hef engin sérstök plön þar um á skrifandi stund.

En -- þeim bloggfingrum sem þegar eru stirðnaðir þakka ég fyrir ánægjuleg bloggsamskipti, meðan þau stóðu.


Coca Cola er sannkallaður lífselixír

Þetta hef ég löngum sagt. Coca Cola er sannkallaður lífselixír, svo lengi sem það heitir ekki annað hvort Light eða Zero, sem eru hvort tveggja hálfgerðir ógeðsdrykkir, amk. í mínum munni. Ef einhver fullyrðir að þessi afbökun af Coca Cola sé með „rétta bragðið“ fullyrði ég að sá er með brenglaða bragðlauka.

Annars sá ég í bíó auglýsingu, langa og dýra, fyrir sullið Coca Cola Light, sem mér fannst skemmtileg. Mér finnst það alltaf virðingarvert þegar auglýsingar eru skemmtilegar. Það bætir það svolítið upp að maður neyðist að hafa fingur í eyrum meðan maður bíður eftir myndinni sem maður keypti sig inn á og bíóhúsin hafa þann ósið að stilla hljóðið svo hátt að það heldur við heyrnarskaða.


mbl.is Lifði á Coca-Cola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert „junk“

Einkennilegt er sú tilhneiging reyna að klína enskum framburði á orð eða heiti hluta og staða, á hvaða máli sem þeir eru. Ég hef áður nefnt dæmi um þetta út bílheimum, svo sem bíltegundinni Porsche sem er úr þýsku og borið fram porsé, en fínt mælandi Íslendingar hneigjast til að kalla þessa bíla upp á ensku Pors.

Dálítið skondið í útvarpinu áðan (Rás 1, auðvitað, það er besta rásin). Á föstudagsmorgnum er þar þáttur að norðan sem heitir Sagnaslóð, yfirleitt alltaf skemmtilegur og vel fluttur og það brást ekki fremur en endranær í morgun. Nema, þar brá fyrir tegundarheiti á þýskri herflugvél sem satt að segja varð talsvert fræg í heimsstyrjöldinni síðari og hefur verið það af sögum og sögnum síðan. Þessi vél heitir að sjálfsögðu „Júnkers“ upp á þýsku en ekki „dsjönkers“ eins og hún var kölluð í þættinum, enda ekkert „junk (dsjönk)“.


Sérkennilegur heimilisiðnaður

Auðvitað er alltaf sorglegt þegar menn fara sér að voða, og enn sorglegra ef það gerist fyrir einhverja vanhugsun.

En ég losna ekki við þær spurningar í huga mér, sem mótuðust við að hlusta á morgunfréttirnar í morgun: Maður slasast alvarlega við að búa til rörasprengju. 

Hvað er rörasprengja? Til hvers eru þær notaðar? Eru notuð rör við þennan sérkennilega heimilisiðnað? Þau hljóta að vera fleiri en eitt ef marka má fleirtöluna í heitinu rörAsprengja. Annars væri þetta bara rörsprengja.

Mér finnst vanta einhverja nánari skýringu á hvers konar búnaður þetta er og hvernig stóð á því að verið var að framleiða hann í heimahúsi, að því er virðast má af fréttum. Hvers konar iðnaðarmenn nota svona skotfæri?


Gróðursetning í dánarbeðið

Enn eitt snilldar málblómið á mbl.is. Einu sinni voru svona málblóm Mogga kölluð fjólur og útnefndur sérstakur Fjólupabbi. Ætli Óskar verði ekki að taka hlutverkið að sér.

Ég hef heyrt talað um blómabeð og gulrótabeð og ýmis fleiri svoleiðis beð. En dánarbeð -- er það í alvöru sömu sortar?

Mín vegna mættu fjólur af þessu tagi vera gróðursettar í dánarbeð. Ég myndi ekki einu sinni mótmæla því af dánarbeðinum.

-- Eftir að ég setti inn þetta blogg hefur einhver Fjólupabbinn tekið sig til og leiðrétt ósköpin sem blogg mitt beindist að, svo nú er það ónýtt. En upprunalega stóð þarna „Óskaði eftir skilnaði á dánarbeðinu“ sem var náttúrlega afskaplega léleg íslenska.

En batnandi fólki er best að lifa og því lifi ég rólegur við það að blogg mitt var gert óskiljanlegt með þessari leiðréttingu -- sem var fyllilega tímabær.


mbl.is Óskaði eftir skilnaði á dánarbeðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KSÍ = KvenSamur Íslendingur

Ég sé ekki svo glöggt hvernig hægt er að koma kvensemi í samhengi við þetta. Nema til að gera gilda skammstöfunina KSÍ = KvenSamur Íslendingur.

Í mínum eyrum hljómar þetta aðeins þannig að þetta sé hjólgraður Íslendingur. Með mikið sjálfstraust.


mbl.is Kvensamur Íslendingur rændur í Taílandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppvakningar

Aldrei hefur það þótt sérstaklega gott, að láta uppvakninga vinna fyrir sig!
mbl.is Þingmenn vaktir upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband