Færsluflokkur: Dægurmál

Villimenn á Íslandi

Ætli fleiri villimenn finnist ekki, ef vel er leitað? Svona þegar björgunarmenn eru búnir að vinda úr sér.
mbl.is Gæslan fann villta konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafið augun hjá ykkur ef þið ætlið að kaupa í Krónunni

Undanfarið hef ég látið mér vel líka að eiga samskipti við Krónuna og þótt verð þar á almennt séð ekki stórum verra en í öðrum álíka búðum.

En

núna rétt áðan stóð til að kaupa lauk. Þið vitið, venjulegan hvítan lauk sem oftast er keyptur með brún, ónýt lauf yst.

Jú, hann var til, forpakkaður í netsmokk. Stærðin svona í minna meðallagi. En einn þriggja lauka smokkur átt að kosta 185 krónur.

Ég saup hveljur.

Og fór í hina búðina. Þar var laukur til í lausu, að vísu heldur óhrjálegur svona almennt séð. Samt náði ég að velja mér þar 9 lauka, stærð í minna meðallagi. Skammturinn kostaði 113 krónur.

Boðskapurinn er: Hafið augun hjá ykkur ef þið ætlið að kaupa í Krónunni.


Ó, hann er svo mikið rassgat!

Litlu verður Vöggur feginn, segir gamalt orðtak og notað um það þegar einhver gerir úlfalda úr mýflugu og kætist yfir litlu tilefni.

Mér finnst kannski megi nota þetta um tiltekið orð sem tiltekinn aðstoðarmaður ráðherra notaði í rafpósti sem mér skilst hann hafi sent kunningja sínum. Þar notað hann sem áherslupart á undan orðinu -fínt það sem honum er sjálfsagt einna kærast á konum og nú taka þær það upp ein af annarri og vilja láta manninn gjalda sárlega fyrir -- mér liggur við að segja að þær vilji láta gelda hann.

Tussufínt er orð sem ég hef ekki heyrt né séð fyrr né heldur er ég líklegur til að taka mér það í munn. Frekar en orðið karlpungur eða þess vegna grjónapungur sem mér þykir hvort tveggja heldur leiðinleg orð, eins og þetta orð sem moldviðrinu er þeytt upp út af núna.

Hitt er annað mál að ég hef heyrt öllu óvirðulegri líkamspart -- ókyngreindan að vísu -- notaðan í tíma og ótíma og jafnvel úr munnum virðulegra frúa sem gæluyrði, t.d. um ungbörn: Ó, hann er svo mikið rassgat! Margvíslega aðra merkingu má leggja í þetta orð eftir því hvernig það er notað og í hvaða samhengi ég hef ekki orðið var við að notendum þess hafi beinlíns verið vísað í rassgat fyrir að nota það.

Það er kannski ekki sama hvað snýr fram og hvað snýr aftur.


Góð kona í rútu

Notfærði mér þjónustu strætó í morgun. Þurfti ekki að hanga eftir honum nema sosum 20 mínútur. Gerði ekki stórt til í veðurblíðunni (þó sólin hafi verið bak við ský).

Vagninn var var framleiðandamerktur Irisbus. Ég hef komið þar á hólinn sem slíkir vagnar eru framleiddir í Suður-Frakklandi og séð hvernig yfirbyggingarnar eru límdar saman og settar i bað svo þær ryðgi síður. Á um það allt saman ágætar minningar. Upprunalega var sú verksmiðja sett saman til að framleiða hjólbörur, ef ég man rétt.

En mikið fjandi eru sætin vond! Látum vera þó þau séu glerhörð, en þau eru svo kröpp að ég var eftir fáeina kílómetra búinn að fá illt í mjaðmirnar og mjóbakið og langaði mest til að standa upp mér til heilsubótar. Kunni þó ekki við það. Hinir farþegarnir tveir hefðu getað haldið mig skyggnan og ímyndað sér að ég sæi draug í hverju sæti svo ég yrði þess vegna að standa. 

Eins og konan hans Palla Vald sem bograði sig alla leið í aftasta sæti í Mosfellssveitarrútunni forðum og brosti og nikkaði í hvert sæti -- til þeirra sem hún sá sitja þar en engir aðrir.

Það var held ég góð kona.

Leiðrétt vegna villu kl. 18.12


Tiger Wood vergjarn?

Mér er rétt sama um golf. Veit að það snýst um að slá litla, hvíta kúlu misfast með mismunandi prikum og koma henni þannig mislanga vegalengd ofan í smáholu í jörðinni í sem fæstum höggum. Hvort tveggja mun fokdýrt, kúlurnar og prikin, og ekki síst að fá að nota þá aðstöðu sem þarf til að iðka þetta dundur.

Maður nokkur útlendur sem gengur undir nafninu Tígur Skógarins, á engilsaxnesku Tiger Wood, var nokkuð glúrinn í þessum kúlubarningi þar til uppvíst varð um að hann hafði verið áleitinn við konur og legið þær nokkuð margar -- man ekki hve margar? Voru þær ekki orðnar hátt í 30 við síðustu talningu? -- fram hjá sænskri konu sinni sem líkaði þetta illa og lét að lokum hendur skipta. Nokkuð sljákkaði í Tígrinum við þetta og hann kvað hafa farið í meðferð við kynlífsfíkn, sem á íslensku heitir einfaldlega gredda, og tók sé hlé frá kúlubarningi á meðan. 

Nú er hann kominn úr afgreddun og aftur farinn að berja kúlur. Nú ber hins vegar svo við að hann er ekki svipur hjá sjón og ekki líkt því eins hittinn og fyrr. Afgreddunin virðist hafa farið illa í hann.

Nema hann láti nú til sín taka á nýjum vettvangi. Í pistli í S-Mogga í dag um þetta mál er TW sagður hafa -- eða hafa haft -- brókarsótt. Og hvað þýðir brókarsótt? Jú, hún þýðir vergirni. Og hvað þýðir vergirni? Jú, það þýðir karlsemi, að vera fíkin(n) í karlmenn. Þetta er samkvæmt orðabókinni. Ég vænti hún sé til á Mogga.

Þó er ég ekki viss. Mér býður í grun að hún sé að minnsta kosti ekki mjög lúin, ef hún er til.


Að mæðast yfir reiknikúnstum

Nú stendur yfir vinnudeila milli tiltekinnar stéttar manna (munið að konur eru líka menn) og opinberra aðila, sem komin er í skæruverkfall. Eins og venjulega bitnar svoleiðis verkfall á almenningi en ekki viðsemjanda stéttarinnar. Harmanna er sem sagt hefnt á blásaklausum sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Og eins og venjulega strandar málið ekki beinlínis á einhverri tiltekinni krónutölu heldur á prósentureikningi. Jón má ekki fá sanngjarna hækkun af því þá myndi Guðmundur vilja fá sömu prósentuhækkun. Og Guðmundur og Jón reikna ekki prósentur á sömu forsendum og viðsemjendur þeirra -- þess vegna strandar allt á prósentureikningi.

Og við, almenningur sem hefur engum prósentum af að reikna, sitjum uppi með vandræðin sem hljótast af því að fólk úti í bæ er að mæðast yfir reiknikúnstum, í stað þess að stinga á kýlinu.

Leiðrétt vegna málvillu kl. 13.51.


Ekkert sérlega hissa

Einhvers staðar sá ég eða heyrði haft eftir talsmanni samninganefndar sveitarfélaganna að ef samið yrði við slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn myndi það auka kostnað sveitarfélaganna.

Einhverra hluta vegna varð ég ekkert sérstaklega hissa.


mbl.is Ganga ekki í störf slökkviliðsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þagað um SÍS-tímabilið

Sé á mbl.is að Benedikt Gröndal er fallinn frá. Honum var ég kunnugur um skeið en þó ekki meira en svo að tíðindin komu mér á óvart; hélt að hann væri löngu látinn.

Hitt kom mér líka á óvart að í fréttinni, þar sem rakinn er menntunar- og starfsferill hans er hreinlega skautað yfir SÍS-tímabilið. Því hvað sem allri pólitík líður var hann ritstjóri Samvinnunnar í heil 7 ár, frá 1951 til 1958. Þar að auki var hann forstöðumaður fræðsludeildar SÍS um skeið. Ég er ekki viss um árin en það getur t.a.m. Örlygur Hálfdanarson örugglega frætt okkur um; veit þó að hann var það sumarið 1959 og þó líklega fyrr, ég giska á 1957 til 1959.

Blogg yfir andlátsfrétt eru ekki leyfð á mbl.is og því set ég þetta í óháð blogg.

Mér líkaði vel að vinna með Benedikt Gröndal og vera í hans félagsskap, engu lakar en Gylfa bróður hans. Og að þeim heilindum þekkti ég hann að hann myndi ekki vilja þegja yfir þeim hluta ævinnar sem hann varði í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu, þó nú þyki víst ekki sæma að minnast á þess háttar yfir látnum eðalkrata.

Blessuð sé minning hans.


Bróðursonarsonur Guðrúnar Brunborg

Enn munu uppi þeir Íslendingar sem muna eftir Guðrúnu  B. Brunborg sem fór um sveitir landsins löngu fyrir dag sjónvarpsins og sýndi fólki skemmtilegar kvikmyndir frá Noregi, stóð gjarnan uppi við tjaldið sjálf og þýddi teksta og talað orð jafn óðum á íslensku með hárri rödd og skýrri. Hún var að safna í sjóð til minningar um son sinn sem nasistar drápu á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari.

Gunna Bóel, eins og hún var jafnan kölluð heima hjá mér, var mikil uppáhaldsfrænka og mikið gaman þegar hún kom í heimsókn. Tók mig stundum með sem eins konar rótara þegar hún hélt sýningar hér í grenndinni. Hún ók, amk. síðari árin, á Volvo Duett og á ábyggilega sinn dyggilega þátt í þeim ágalla mínum að vera gjarnan hræddur í bíl hjá öðrum.

En því nefni ég Gunnu Bóel að hún er, ef ættfærslan í fréttinni er rétt og ég hef ættfræðina rétta, afasystir hjólreiðakappans Edvalds Boassonar Hagen sem nú gerir garðinn frægan fyrir Noreg í Túr de Frans hjólreiðakeppninni. Þau voru tvö, systkinin, sem settust að í Norge og gengu að eiga þarlenda maka. Gunna Bóel Bóasdóttir og Eðvald bróðir hennar. Bóas faðir hennar var yngsta barnið sem langamma átti með fyrri manni sínum en Kristrún amma mín var elsta barnið sem langamma átti með síðari manni sínum.

Þegar Gunna Bóel féll frá rofnuðu öll tengsl við þetta norska frændfólk. Sem mér skilst að sé þó orðið býsna fjölmennur hópur og sumt af því nafnkunnugt fólk. Edvald B. Hagen er kannski bara nýjasta viðbótin á því sviði.


mbl.is Íslendingur í Tour de France
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattfrjálst að lauma lítilræði að Ómari. . .

Ekki skal ég tala illa um Fésbók (sem ég hef viljað kalla Smettu eða Trýnu). Eflaus hentar hún einhverjum en hún er of torskilin fyrir mig -- kannski bara af því ég nenni ekki að kafa ofan í hana og skoða til hlítar.

Nú hefur verið efnt til afmælisfagnaðar fyrir Ómar Ragnarsson á Smettu, að því ég heyri og les hér og hvar, og lagt til að hver landsmaður gefi honum þúsundkall á sjötugsafmælinu sem viðurkenningu fyrir framlag hans til umhverfismála. Ég hef gegnum tíðina sett nokkur spurningarmerki við ágæti Ómars á því sviði, en engin spurningarmerki við hann sem skemmtikraft og magnaðan einstakling. 

Vil gjarnan gefa honum þúsundkall í afmælisgjöf á sjötugsafmælinu 16. september fyrir afrek hans á því sviði. Eða einfaldlega af því hann á sjötugsafmæli og við höfum þekkst (mismikið þó) í hálfa öld eða svo.

Þegar ég þóttist leita eftir því í Smettu hvernig ég gæti komið gjöf minni til hans rakst ég á söfnunarreikninginn fyrir afmælisgjöfinni. Með því að gefa á þennan reikning fær Ómar afmælisgjöfina beint til sín, ómerkta einhverjum sérstökum afrekum:

kt. 160940-4929. Banki 0130, höfuðbók 26, reikningur nr. 160940.

Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa: Eru afmælisgjafir skattfrjálsar? Einhver sagði mér að það gæti ráðist af verðmæti þeirra. Samkvæmt nýjustu tölum sem ég hef séð eru komnir á Smettu eitthvað upp undir 5000 manns sem ætla að rétta vininum þúsundkallinn, sem sagt 5 millur í allt. 

Sem ætti kannski að vera skattskylt. Væri það ef ég gæfi honum fimm millur. En ef ég get honum skitinn þúsundkall. Ætti það að vera skattskylt? Mér finnst það fráleitt. 

Niðurstaðan er sú að skattmann geti ekki með nokkur móti látið það bitna á Ómari að hann eigi svona marga vini, sem vilja lauma að honum lítilræði hver fyrir sig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband