Færsluflokkur: Dægurmál

Land míns föður á Lækjartorgi

Fórum gömlu hjónin niður á Lækjartorg að taka þátt í mótmælum gegn inngöngu í EBS. Gerum ekki mikið af slíku en erum bæði á því að við eigum lítið erindi í EBS.

Þar var fámennt. Giska á svona 50 manns meðan mest var. Svo átti að samþykkja ályktun í lokin en sú romsa sem lesin var upp sem slík var allt of löng og ómarkviss til þess að ég vildi samþykkja hana. Var samt ekki gefinn kostur á neinu öðru. Svona ályktanir eiga að vera örfáar línur og beint í mark -- annars eru þær ómark.

Svo söng ræðumaður nokkur einsöng í lokin, Land míns föður og notaði við það lag Þórarins Guðmundssonar sem mér þykir afar fallegt. Hann hafði líka fallega rödd og hljómmikla og gerði þetta vel. Kunningi minn þarna á torginu sagði mér að þessi maður hefði eitt sinn verið kallaður Doddi Albanínukommi. -- Ég hafði ekki ráðrúm til að spyrjast fyrir um þá nafngift.

Það sem ég hafði helst upp úr þessu var að hitta mína gömlu vinkonu Önnu Ólafsdóttur Björnsson sem reyndar hélt þarna tölu yfir fámenninu. Í samtali -- þar sem ég vildi halda því fram að héðan af væri óráð að halda ekki áfram aðildarviðræðum þangað til séð væri hvað okkur stæði til boða við hugsanlega inngöngu í Ebsið -- sagði hún á móti að í þessum aðildarviðræðum væri verið að flækja okkur í flókið aðlögunarferli að mögnuðu regluverki Ebs, sem við sætum svo uppi með jafnvel þó við höfnuðum aðild í lokin. Og yrðum þá að sæta regluverkinu jafnvel þó við nytum engra hugsanlegra kosta aðildar.

--- Hmmm. Anna er nú vön að vera nokkuð vel lesin á þessu sviði. Er í alvöru verið að snúa á okkur í Brussel?


Ekki bara sement

Eitt sinn hafði ég setið við lengi nætur að þýða langa grein í Úrval sem ég ritstýrði í allmörg ár. Þetta var meðan tölvan hafði ekki enn leyst ritvélina af hólmi. Því má nærri geta að ég fraus og fékk hrísling milli herðablaðanna eins og þar væru að brjótast út fjaðrir þegar mér varð ljóst undir lok verks míns að ég hafði í gegnum alla greinina þýtt „the american eagle“ sem „ameríska uglan“, þó ég vissi mætavel að þessi fugl heitir örn á íslensku.

Þess vegna hef ég að vissu marki samúð með fréttamönnum beggja kynja sem þýða „leg“ sem „leggur“ þó ljóst sé af samhenginu að átt er við fótinn allan, allt upp í kríka, og annað eftir því.

Og fréttamanninum hjá RÚV sem rétt áðan, í hádegisfréttum, talaði um að tæknimenn BP ætluðu að hella sementi í borholuna leku í Mexíkóflóa. Blessaður drengurinn hefur í hita leiksins ekki munað að cement í ensku þýðir ekki bara sement heldur líka steinsteypa.

Þó maður sé sleginn blindu nokkra hríð skiptir megin máli að átta sig í tæka tíð.


Kaffikeimur úr Hálsasveitinni

Kaffi virðist mér í grundvallaratriðum soð af baunum sem búið er að svíða svo liggur við kolun. Þessar sótleifar baunanna er svo malaðar og af því kurli gert soð sem mennirnir drekka og láta sér þykja gott.

Sú var tíðin að mér þótti kaffi gott. Þá var líka kaffibragð að því. Síðan er liðið ár og dagur. Nú er þetta bara brúnt sull (eða svart) og í besta falli ekki vont. Maður drekkur þetta samt möglunarlaust og lætur sem ekkert sé.

Fyrir -- hvað? þremur árum? fjórum? fékk ég einu sinni kaffi með kaffibragði. Það var hjá honum Erni vini okkar í félagsheimilinu sem hann veitti þá forstöðu. Ég spurði hvaða kaffitegund þetta væri? Nú, hvað? bara rautt Gevalia svaraði hann, hissa á spurningunni. Ég í búð og keypti rautt Gevalia. Úr minni könnu var það bara brúnt sull (eða svart) en ekki kaffibragð að því frekar en ég hefði látið þveginn steypusand í kaffipokann.

Ég held að sú kaffitegund sé ekki til sem ég hef ekki prófað að hella upp á. Ég hef líka keypt mér kaffibolla hér og hvar. Stundum með ágætis bragði, en ekki kaffibragði fyrir tvo aura.

Hvað hefur gerst? Hvað varð til dæmis um gamla Kober (Kaaber, var það víst skrifað) kaffið sem maður fékk í gamla daga og var með kaffibragði? Og stundum þegar maður var á leiðinni í bæinn á morgnana og ók eftir Jörfanum (Vesturlandsveginum svona sirka fyrir neðan þar sem Ölgerðin stendur nú) lagði yfir mann þennan líka indælis ilm úr kaffibrennslunni sem var einhvers staðar þarna í Hálsasveitinni (les: þeim hluta Reykjavíkur þar sem göturnar eru kenndar við hálsa). Er meira að segja svo komið nú að það er ekki einu sinni keimur af kaffibrennslu lengur?

Stundum halda menn að ráðið til þess að fá kaffibragð sé að hafa kaffið nógu sterkt, þ.e.a.s. svo mikið kaffisótkurl í kaffipokanum að helst standi kúfurinn upp af. Þá verði kaffibragð að soðinu. Stundum er svona kaffi kallað organistakaffi. Ekki veit ég alveg hvers vegna. En málið er bara að því meira sót sem notað er því meira sótbragð verður að seyðinu. Maður getur sosum drukkið þetta sull þangað til maður verður brúneygður af því, en kaffibragðið vantar.

Dætur mínar vilja að ég hætti þessari fortíðarþrá og fari að drekka te. Bera mér allskonar heita vökva sem heita te. Sumir þeirra eru ekki afleitir. En þegar öllu er á botninn hvolft þykir mér vatn ekkert svo afleitt að ég þurfi að afbaka keim þess með einhverju laufasulli. Sorrí, stelpur mínar.

Mig langar bara í kaffi með kaffibragði.

Það skársta í þessu efni um þessar mundir heitir Nescafé Gold. Ef maður hittir á að láta mátulega mikið (mátulega lítið) í bollann, er svo heppinn að vatnið sem maður hellir yfir er af mátulegu hitastigi, kann henda að þetta minni obbolítið á kaffibragð.

Nóg fyrir þessa tvo, þrjá, bolla sem ég vil drekka yfir daginn. Þess á milli dugar mér vatn úr krananum.

Oftast nær.


Reiknidátar AGS

Einhvers staðar las ég, líklega í Haga-blaðinu, eða Móa-blaðinu, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi að skattar og álögur hvers konar á Íslandi yrðu hækkuð. Þar með talinn fjármagnstekjuskatturinn.

Nú veit ég ekki hvort til er einhver tölfræði um það hve ellilífeyrisþegar eiga stóran hluta  bankainnstæðnna sem bera fjármagnstekjuskatt. Hitt veit ég að bankainnstæður eru nær einasti vegur ellilífeyrisþega til þess að geyma varasjóð sinn. Hinn kosturinn væri hinn margfrægi staður „undir koddanum“. Víst er að hann dygði illa fyrir mig, sem er á eilífum flækingi með koddann mitt út um allt rúm alla nóttina, ýmist vöðlaðan, uppsnúinn eða -- tiltölulega sléttan.

Ef við gamalmennin eigum ekki obbolítinn varasjóð getum við ekkert gert okkur til gamans annað en spila rommý og ólsen og kóka hvert framan í annað. Almannatryggingarnar sem við borguðum í alla okkar starfsævi svíkja okkur alveg. Við fáum ekki einu sinni grunnlífeyrinn, ekki nema þau okkar sem hafa í alls ekkert annað hús að venda. Ef við fáum hungurlús úr lífeyrissjóði, ég tala nú ekki um „fjármagnstekjur“, fáum við ekki krónu í „grunnlífeyri“ sem aukin heldur hefur ekki einu sinni að nafninu til haldið í við kauphækkanir annarra launastétta undanfarið.

Flest okkar voru svo forsjál að eiga ofurlítinn varasjóð. Hjá mörgum okkar fékk hann þungan skell í hruninu vansællar minningar í október 2008. Samt var kannski dulítið eftir. Af því getum við fengið 6% vexti eða svo, í allra besta lagi 7% þau okkar sem eru svo heppinn að eiga svoleiðis reikning, sem verður víst ekki stofnaður lengur. Af þessum 6 prósentum er nú tekinn 18% fjármagnstekjuskattur meðan verðbólgan er -- hvað? 8%? Ég er bara ekki klár á nýjustu tölu þar um. En mér þykir einsýnt að með því má engu muna að skattmann (les: ríkissjóður) sé að ganga á höfuðstól ævisparnaðar okkar gamlingjanna. Hvað þá ef fjármagnstekjuskatturinn verður hækkaður enn!

Kannski hafa Commander Flannagan og Governor Roswadowski og reiknidátar þeirra ekki gert sér grein fyrir því hve stór hluti af fjármagnstekjuskatti lendir á gamla fólkinu. Kannski ekki Jóhanna og Steingrímur og þeirra blýantsnagarar ekki heldur. Eða kannski hafa þessir fjórmenningar einmitt gert það. Svo er að sjá sem hin fyrrnefndu fái engum andmælum hreyft við hina fyrrnefndu en gleypi allt ótuggið sem frá þeim kemur. Kannski hafa þeir kumpánar ekki gert sér grein fyrir hve hin svonefnda „félagsmála-ríkisstjórin“ fer illa með gamla fólkið sitt -- eða þeim er bara slétt sama og leggja því til meiri og argvítugri álögur á það.


Tilfinningalega gelt fólk

Yfirgengilegar mannvonskufréttir berast manni nú ofan af Akranesi, þar sem fólk nokkurt sem nýverið keypti sig þar inn í fjölbýlishús vill í krafti gamalla og fjandsamlegra húsreglna sem banna dýrahald í fjölbýlishúsum nema með samþykkri allra íbúa (íbúðareigenda?) vill meina daufdumbri konu um að hafa hjálparhundinn sinn.

Húsfélagið hafði áður samþykkt að veita henni leyfi fyrir hundinum.

Hvernig er það -- getur fólk sem á síðari stigum kemur inn í húsfélagið umræðulaust rift samþykkt sem búið var að gera áður en það kom þar inn? 

Eða, sem væri jafnvel enn verra, er þetta fólk gjörsamlega gelt tilfinningalega?


Að bera sig yfir storð eins og mörgæs

Nú á dögunum gat ég ekki orða bundist yfir sérlega klaufalegu orðalagi í Moggafrétt um dreng sem var fastur í kviksyndi upp á öðrum fæti upp í mitti. Gat ekki stillt mig um að gera samanburð á sjálfum mér en á mér ná fæturnir bara upp í klof, svo taka við mjaðmir áður en kemur að mittinu (eða þeim stað þar sem mitti er á þeim sem ekki eru með bumbu).

Nú ber svo við að ég fæ athugasemd frá Þorsteini. Hvaða Þorsteini hef ég ekki grænan grun um, því hann er óskilgreindur nema IP tala er sögð skráð. Þó hygg ég að ekki muni leyna sér hvaða Þorsteinn þetta er ef maður sér hann, því hann kemst svo að orði: „Þar sem ég þekki til nær fóturinn ekki ofar en að ökkla.... "

Ef einhver rekst á Þorstein þennan sem hlýtur að bera sig yfir storð með svipuðum hætti og mörgæsir gera bið ég að heilsa honum.

Í athugasemd við sama bloggi spurði ég hann (hef ekki fengið svar ennþá) á hvaða skanka hann væri með kálfa, hné og læri. Og hvort hann kannaðist ekki við konur með fagra fætur - ef svo, hvort fegurðin næði ekki nema upp að ökla.

Þá tók sig til Sigurður Jónsson (hve margir ætli gegni því nafni með þjóð vorri?) og vildi meina að konur hefðu bara fagra leggi. Þetta varð mér eilítil umhugsun, því mér hefur lengi þótt þetta leggjatal um limafagrar konur bera keim af klaufalega þýddri ensku sem notar orðið „leg" fyrir fót. Meira að segja „upper leg" fyrir læri hjá þeim sem eru of teprulegir til að nota orðið „thigh" sem amk. í sumum pörtum hins enskumælandi heims þykir víst frekar klúrt. - En, amk. hjá minni kynslóð þótti sómi að konum sem höfðu fallega fætur og þá vorum við ekki bara að einskorða okkur við ketstykkið aftan a leggnum. Við dáðumst að fallegum ökla, fallegu hné og ekki síst fagursköpuðu læri.

Sumir okkar gera þetta enn.

En þá er að grípa til orðabókarinnar og gæta að hvernig fótur er þar skilgreindur. Tekur nú ekki betra við, því fótur er bara annar tveggja ganglima tvífætlinga eða fjögurra ef ferfætlingar eiga í hlut.

Er nú ekki einhver orðhagur blogglesandi sem getur með snjöllum og skilvirkum hætti skilgreint hvað er fótur? Og, ef honum er eins farið og mér, að hafa fót alla leið upp í klof, haft yfir helstu kennileiti fótarins, frá il og upp úr? Og - eru ekki enn til konur með fallega fætur?

Hinum get ég ekki annað en vorkennt, sem verða að kjaga á fótum sem ná ekki nema að ökla.


Lélegur fingrafaraskanni

Í morgun brugðum við hjón undir okkur betri fætinum og brunuðum af stað til að endurnýja vegabréfin okkar, sem eru við það að renna út. Til þess þurfum við íbúar höfuðborgarsvæðsins að fara til Kópavogs, „of all places,“ eins og Guðrún Á Símonar sagði forðum, þó af öðru tilefni væri. Eina bótin að konurnar þar eru allar (sem við hittum) hlýlegar, huggulegar og notalegar. Þarna hitti ég líka gamlan vin og samstarfsmann sem ég hef ekki séð í áratug eða svo, en var þarna líka í álíka erindum eins og við, að breyttu breytanda.

Þegar kemur á þennan stað lendir maður þó í þeim hugsanlegu ógöngum að vera bara með kreditkort á sér, en ekki lausa aura. Debetkort hef ég aldrei notað og tími ekki að standa í því peningaplokki sem því fylgir. En þarna er aðeins tekið við beinhörðum íslenskum gullkrónum og ekki öðru vísi greiðslu. Af tilviljun vorum við með bláa seðla með okkur núna, aldrei þessu vant.

Að fjármálum fullnægðum er manni vísað þangað sem teknar eru af manni myndir og fingraför. Fingraförin eru eins og  myndin tekin í þar til gerðri maskínu en ekki vildi betur til en svo að hún nam engin fingraför af konu minni -- sem eru þó greinanleg með venjulegum (gler)augum. Það endaði með því að konan verður að sætta sig við vegabréf með engum fingraförum, sem vissulega er fötlun. Skrýtið að hið háa embætti lögreglustjórans í Kópavogi skuli ekki tryggja að fingrafaraskannar embættisins dugi svo sem vera skal.

En stúlkan við maskínuna brosti bara eins og þetta væri hið minnsta mál -- og svo fáum við nýju vegabréfin seinna í mánuðinum og getum haldið áfram að ferðast eins og okkur lystir


Hvar endar fóturinn?

Mikið er nú gott að drengnum var bjargað og að honum verður vonandi ekki meint af ævintýrinu.

En:

Á mér og þeim sem ég þekki háttar svo til að fóturinn nær bara upp í klof. Þess vegna skil ég ekki það vaxtarlag sem gerir einhverjum kleyft að sökkva „upp fyrir mitti á öðrum fæti“. Og hvar hafði hann hinn fótinn? Var hann geymdur uppi á bakka og lenti ekki í kviksyndinu?

Ég bið ykkur, kæra mbl.is-fólk, í guðanna bænum skrifiði skiljanlegar fréttir!


mbl.is Dreng bjargað úr kviksyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugfargjöld eftir vigt

Líklega er réttara að segja að útvarpið gangi yfir mér frekar en að ég sé að hlusta á það. Þannig missi ég af ýmsu sem ég hef þó kannski heyrt en stundum sperrast eyrun og ég fer að hlusta.

Þannig var það áðan með Samfélagið í nærmynd, æði misgóðan þátt sem á virkum dögum er á milli 11 og 12 á morgnana. Líklega er það á fimmtudögum sem hringt er í málglaðan Íslending búsettan í Noregi -- mig minnir ég hafi heyrt að hann sé kennari þar. Guðni heitir hann.

Núna var hann að segja frá því að Norðmenn frændur vorir eru að setja reglur um það hve feitir menn megi vera á sjó. Það er búið að setja upp formúlu um það. Þyngd í öðru veldi deilt með hæð -- ef útkoman er 30 eða meira en maðurinn ekki sjófær. Eða var það hæð í öðru veldi deilt með þyngd? -- Skiptir ekki öllu máli, aðalatriðið að einhvers staðar er farið að setja skorður við því að fólk langt umfram eðlilega þyngd sitji við sama borð og þeir sem eru nær eðlilegra lagi.

Hvaða meðalmaður kannast ekki við það að hafa t.d. þurft að borga svokallaða umframvigt á farangur sinn í flugi og sér svo að maðurinn í sætinu hinum megin við ganginn í flugi er a.m.k. 120 kg ef ekki meira. Og enginn rukkaði hann um gjald fyrir umframvigt. Þetta hefur mér alltaf þótt einstaklega ranglátt.

Hvernig væri að fara að reikna út flugfargjöld eftir einhverri þyngd? Grunngjaldið væri t.a.m. miðað við sentimetra í hæð umfram einn metra, en síðan kæmi umframvigt á kílóafjöldann umfram þennan sentimetrafjölda? Minnsta mál að láta farþegann stíga upp á vigtina áður en hann setur töskuna sína á hana. Þetta myndi kannski tefja innritun eitthvað, en hún tekur nú þegar fáránlega langan tíma vegna meira og minna gagnslausrar vopnaleitar, svo þetta væri sennilega ekki nema dropi í hafið í samanburðinum. Og gaurinn hinum megin við ganginn, sem er 40 kg þyngri en ég -- tvöfaldri leyfilegri farangursþyngd -- slyppi ekki svona ranglátlega billega með umframkílóin sín -- bara af því hann er með þau innbyggð.


Griðkonan sem varð að graðkonu

Íhaldssamur sem ég er saknaði ég vinar í stað þegar Lesbók Morgunblaðsins var lögð niður. Ekki man ég hvort Sunnudagsmogginn kom beint í kjölfarið en mér finnst margt þar snoturlega af hendi leyst og er hættur að sakna lesbókarinnar.

Sumpart er Sunnudagsmogginn með fasta þætti sem er hið besta mál. Ein griðkona blaðsins hefur t.a.m. verið útnefnd í hlutverk einskonar graðkonu og á að vera með vikulegan pistil sem kítlar kynhvöt lesenda. Kona þessi sem eftir mynd að dæma er einkar ísmeygileg (í kynlegri merkingu orðsins) á greinilega létt með að skrifa og gerir það oft léttilega en svo er að sjá sem tilskilin lengd pistilsins sé henni stundum full löng svo henni endist ekki ævinlega lotan þó lagt sé upp með góðan vilja og kannski góða hugmynd fyrir aðeins styttri pistil. En þónokkrum sinnum hefur hún komið mér til að brosa og takk fyrir það.

Um þessa helgi fjallar hún um fótboltageldingana sem vegna áhuga á spörkum annarra gleyma að sinna konum sínum og gera þeim svo gott í kroppinn sem þeim ber og huga ekki að tapi sínu á þeim velli. Svo sannarlega vorkenni ég þessum konum en þó öllu meira körlunum sem sitja stjarfir og náttúrulausir við sjónvarpið af því einhvers staðar er verið að sparka í bolta.

Út af fyrir sig minnir verður þetta sparkofhlæði RUV til að færa okkur hina aftur á tíma sjónvarpslausa mánuðarins hér áður fyrr, sællar minningar. Maður fær ekki einu sinni fréttirnar (þær eru að sögn sendar út, bara á einhverjum snarvitlausm tíma) þannig að þeim bagganum er létt af manni líka. Og fyrir okkur sem nennum ekki að horfa á þessi endalausu hlaup manna fram og aftur um víðan völl er þetta kjörinn tími til að gera eitthvað skemmtilegt með konunum okkar okkar og sjá, þeim tíma er vel varið. Allt hvað ræktað er færist í blóma á þessum tíma ársins.

Svo þannig séð má maður þakka fyrir þetta ágæta sjónvarpsleysi.

Leiðrétt vegna villu kl. 22.50


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband