15.9.2008 | 13:12
Hvorki út og suður né norður og niður
Mynd Gísla var frumsýnd - að vísu með nokkrum tæknilegum erfiðismunum - á 50 ára afmælishátíð Hollvinasamtaka Bifrastar - áður Nemendasambands Samvinnuskólans - sem haldin var í Bifröst á laugardaginn var. Eins og önnur mannanna verk myndi mynd þessi þola nokkra endurbót en er þó markverð um margt, einkum það hve vel hún sýnir fram á að ef ekki hefði komið til breyting (þróun) skólastarfs í Bifröst hefði farið fyrir staðnum eins og fór fyrir héraðsskólum landsins, svo og kvennaskólum og húsmæðraskólum, sem lögðust af og byggingarnar sem eftir stóðu urðu víða að draugabyggð sem fúkkalyktin var í mesta lagi viðruð úr yfir sumarið til að hýsa túrista.
Ég þarf ekki lengi að rifja upp mínar eigin hugmyndir um breytingar á skólastarfi í Bifröst til að vita að ég gerði mér ekki ljóst hvernig einmitt þær gera það að verkum að ég á enn í dag erindi við skólastaðinn þar sem minn gamla námsstað og síðar vinnustað.
Þó ég hefði gert mér aðra hugmynd um það hvernig þessi minningamynd Gísla og árgangs ´57 yrði og að þar yrði að finna fleiri heimildir frá eldri tíma er ég henni feginn að því leyti að hún gefur mér nýja sýn á það hvernig og hvers vegna það var nauðsynlegt að gamli verslunar- og félagsmálaskólinn sem ég þekkti sem slíkan varð að verða að svara kalli tímans og taka breytingum eins og hann hefur til allrar guðslukku gert.
Myndin er ekki út og suður. Því síður norður og niður. Einna helst upp og fram.
En hreint minningalega átti ég von á fleiri og skýrari skotum frá fyrstu árum skóla í Bifröst. Ég man eftir því að Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari tók þar á 16 mm kvikmyndavél nokkurn vísi að heimildamyndum um starf Samvinnuskólans í Bifröst - á þessum tíma hét þetta alltaf í Bifröst en virðist nú hafa breyst í á Bifröst - og mér finnst ég muna eftir þessum filmubút á kennarastofunni þegar ég starfaði þarna í upphafi áttunda áratugarins. En sá bútur hefur ekki fundist enn. Ef einhver veit um hann, eða aðrar kvikmyndir, merkilegar eða ómerkilegar, frá skólastarfinu í Bifröst meðan skólinn þar hét ennþá Samvinnuskóli, væri gott að fá að vita af því.
Því lengi má gott bæta.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.