Hættulegt í höndum illmennis

Skemmtilegar athugasemdir við síðasta blogg mitt rifjuðu upp fyrir mér dálítið atvik sem nú er að vísu orðið nokkurra ára, en það sem þar gerðist ætla ég að hefði alveg eins getað gerst á því ári sem nú er sem óðast að líða. Má eiginlega segja að þarna hafi ég komist næst því að lenda í vopnaskaki við nokkurn mann.

Fyrir fáum árum fór ég í stutta utanferð við þriðja mann. Far­ang­ur var lítill: nauðsynlegustu nærplögg til skiptanna, axlataska með tveimur mynda­vélum, smá­­segul­­bandstæki og hlutum þeim tengdum, snyrtiskjóða með tannbursta, rak­vél og öðru snyrtidóti, saumadóti til að geta tyllt á sig tölu ef þyrfti, höfuð­verkja­töfl­um og ein­hverju þannig smádóti, öllu saman í lítilli handtösku svo ekki þyrfti að setja í innskráðan farangur, enda fyrirhugað framhaldsflug til Mallorka með millilendingu í Malaga eftir næturgistingu í Frankfurt.

Við hefð­bundið eftirlit í Keflavík var ég látinn kannast við tösku mína og leidd­ur að borði þar til hliðar. Nú rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði ekkert tekið til í snyrti­skjóðunni eftir síðustu utanferð þar sem skjóðan hafði verið tösku sem þá fór í innskraðan far­angur, og sennilega væri ég með í henni minnstu gerð af „Sviss army" sjálfskeiðungi sem ég hef þar yfirleitt til ýmissa þæginda, með blaði ca 4 sm löngu, litlum skærum, tannstöngli og flísatöng.

Starfsmaður vopnaeftirlitsins sagði að ég myndi vera með hníf í farangrinum. Ég leitaði í snyrtiskjóðunni, fann strax naglaþjöl úr stáli, ca 12-13 sm langa. Hana greip starfsmaðurinn og gerði upptæka. Ég leitaði meira að honum ásjáandi án frekari árang­­urs. Þá tók hann skjóðuna, lokaði henni og fór með hana aftur á færibandið til gegn­umlýsingar. Kom með hana á ný og krafðist þess nú að fá að skoða í myndavéla­töskuna, sem ég lét honum að sjálfsögðu heimilt. Hann skoðaði í hana vand­lega, gegn­um­lýsti hana aftur, kom svo með hana og sagði mér að skoðun væri lokið og mér óhætt að fara mína leið.

En ég var svo viss um að ég væri þarna einhvers staðar með minn smákuta að þegar ég hafði stund aflögu eftir komuna á hótelherbergi í Frankfurt tók ég snyrti­skjóð­una og hvolfdi öllu úr henni. Viti menn: þar var ekki aðeins einn hnífur eins og ég hef að framan lýst heldur tveir - og önnur naglaþjöl sömu gerðar og tekin hafði verið af mér í Leifsstöð.

Hefði ég munað eftir því að þessir hlutir voru í skjóðu minni hefði ég, með tilliti til þess að ég var nú aðeins með handfarangur, skilið alla varhugaverða hluti eftir heima. En mér er fremur sárt um hnífa mína og vildi auk heldur ekki standa í frekara stappi af því tagi sem orðið hafði um morguninn, svo ég setti þessi vopn öll þrjú í umslag þarna í Frankfurt og sendi sjálfum mér heim með pósti.

Í rauninni þótti mér slælegt að mér skyldi sleppt í gegn með allt þetta vopnabúr. Nema starfsmanninum hafi ekki sýnst ég líklegur til stórræðanna. Þó held ég að ég hefði ekki hugsað öllu meira um það ef ekki hefði annað komið til -- í bakaleið.

Á Frankfurtflugvelli var ekki síður ströng leit á heimleið. Meira að segja var mér gert að taka upp úr utanávasa á buxum mínum vegabréfið mitt og blaða í því til sannindamerkis um að þar væru engin eggjárn falin. Því meiri varð undrun mín þegar kona nokkur skáhallt fyrir framan mig í flugvélinni tók skömmu eftir flugtak naglaþjöl upp úr pússi sínu -- nákvæmlega samskonar þjöl úr samskonar eðalstáli sýndist mér og tekin hafði verið af mér í Leifsstöð -- og lagaði með henni neglur sínar vel snyrtar af og til alla leiðina heim. Lengi lá þjölin á borðinu fyrir framan hana og ég hugsaði að nú myndi þjónustulið vélarinnar taka þetta hættulega tæki til handargagns, en á endanum stakk konan þjölinni niður hjá sér aftur eins og ekkert hefði í skorist.

Um þetta skrifaði ég sýslumanninum í Keflavík bréf. Ekki vegna eftirsjár eftir naglaþjölinni minni, heldur vegna þess að þetta tvennt - að ég skyldi komast með alla mína skelfilegu hluti til Frankfurt, og að konan skyldi komast með sitt hroðalega vopn frá Frankfurt - vakti með mér efasemd um gagnsemi leitarinnar í hinum ýmsu flughöfnum.

Þess verður að geta að sýsli svaraði mér skriflega og kurteislega að öll þessi mál væru í endurskoðun og athugun. Síðan hef ég farið nokkrar flugferðir og ávalt gætt þess að vera ekki með vopn af nefndu tagi í handfarangri en leyft mér að vera með tannstöngla og jafnvel kúlupenna sem aldrei hafa vakið sérstaka tortryggni þó hvort tveggja gæti verið stórhættulegt í höndum illmennis. En ég það sem ég hef séð til samferðafólks og frétt af öðrum er ekki til þess fallið að vekja mér sérstakt traust á eða samúð með þessari svonefndu vopnaleit.

Tel enda að það sé lítt hryðjuverkahamlandi að láta menn rífa af sér buxnahöld sín frammi fyrir langri röð áhorfenda eða fara á sokkaleistunum í gegnum málmleitarhlið. Eða hella niður sjampóinu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er bara lýsandi dæmi um sorglega langt gengna forræðishyggju sem búin er til vegna ofsóknaræðis ráðamanna. Til að sífellt aukinn fjöldi opinberra starfsmanna haldi störfum sínum þarf að sýna árangur í starfi og hann birtist okkur þegnunum með þessum hætti.

Það þarf að viðurkenna að öllu lífi okkar fylgir áhætta sem á góðri íslensku heitir acceptable risk.

Vopnaleit og flestar ráðstafanir á flugvöllum gerir ekkert annað en að gera 99.999% fólks óþarflega erfitt og leiðinlegt fyrir með ferðalög.

Sams konar rugl í öðrum lögum er t.d. að banna farsíma við akstur en leyfa át, drykkju, augnsnyrtingu og jafnvel rakstur án athugasemda. Það á að nægja að setja í lög að fólk almennt sýni ábyrgð og lögsækja það bara ef ábyrgðarleysi þessi veldur skaða, fyrr ekki.

Haukur Nikulásson, 29.8.2008 kl. 12:36

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég las bloggin og athugasemdirnar hérna á undan en þar sem ég er orðin svo yfir mig pirruð á Iceland Express þá ákvað ég bara að segja ekki neitt. Vissi sem var að það yrði tómt nöldur og neikvæðni. En nú get ég ekki stillt mig um að vera með.

Ég er eins og flestir mjög hlynnt því að öryggismál séu tekin föstum tökum og hef verið þolinmæðin holdi klædd þegar ég hef verið næstum afklædd í hliðunum til að vopnaleitarar geti leitað af sér allan grun um að mér séu ekki hryðjuverk í hug.

Núna um daginn tókst mér að tefja samflugsfólk mitt einhverjar mínútur vegna handvammar hjá starfsmönnum vallarins. Við vorum tvær á ferðinni, ég og tæplega 9 ára dóttla mín. Eftir að hafa tékkað inn ferðatöskurnar og fengið farseðla og ráðleggingar um að taka bara fartölvuna og lítið hlaupahljól (samanbrjótanlegt) stelpunnar sem handfarangur, var okkur óskað góðrar ferðar og trottuðum af stað í vélarátt. Eftir langan göngutúr eftir göngum og milli hæða komum við að vopnaleitarhliðunum þar sem við háttuðum að fyrirmælum ásamt fullum sal af ferðalöngum, settum skó og belti, kápur, úr og klink og annað píp-legt í svörtu bakkana. Mér var sagt að taka fartölvuna uppúr töskunni og leggja í bakka líka. Allt samkvæmt hefðinni, við erum ferðavanar mæðgurnar. Þó mundi ég allt í einu eftir að ég hafði gleymt að fara í gegnum handtöskuna mína og vissi af ýmiskonar "vopnum" þar ofaní, m.a. naglaþjöl úr ryðfríu og ýmislegt varasamt að auki. Æi, skítt með það, hugsaði ég. Það er ekki hundrað í hættunni, ef ég á ekki aðra heima þá fjárfesti ég í versta falli í nýrri.  

En rétt í þeim hugrenningum heyrði ég þrumandi rödd og leit beint í augu reiðilegs vopnaleitarmanns sem benti á mig strangur á svip: Frú, átt þú þetta hlaupahljól?? Ég var í voða góðu skapi yfir að vera að komast heim eftir yndislega mánaðardvöl í "gamla" landinu og fannst spurninginn bara svolítið sniðug. Ég brosti til hans og svaraði: Nei, dóttir mín á það en ég fæ stundum að leika mér á því líka. Manninum var ekki skemmt. Hann mundaði samanbrotna hljólafjölina og reiddi hana til höggs eins og hann ætlaði að lemja mig með henni. Þetta má nota sem barefli!, þrumaði sá reiði, og áður en ég náði að segja honum að það hefði mér aldrei hugkvæmst, krafðist hann þess að ég færi með þetta hættutól alla leið til baka og tékkaði það inn sem sérfarangur með barnakerrum og golfsettum, og kæmi svo aftur.

Þarna stóðum við mæðgurnar berfættar og hálfklæddar og allt okkar hafurstask enn á bökkum á rennunni - óskoðað. Ég sagðist skilja hvað hann ætti við.. en bætti við að ég hefði sérstaklega spurt stúlkuna í innrituninni um það hvort það yrði ekki gerð athugasemd við þetta sem handfarangur, þótt þetta væri í raun ekki mikið stærra um sig en offeitur göngustafur. En hún hafði fullvissað mig um að þetta væri í góðu lagi svo ég sá enga ástæðu til að rengja hana um það. En hér var engum haggað og okkur var sagt að drífa okkur í fötin, taka með okkur draslið á rennunni, tékka þetta hættutól inn með barnavögnunum og koma svo aftur. Við værum að tefja röðina. 

Það voru örugglega yfir hundrað manns í röðinni fyrir aftan okkur og biðin eftir skoðun verið löng svo við klæddum okkur í snatri, járnuðum á okkur glingrinu og reimuðum á okkur skóna. Ég spurði hikandi hvort ég mætti skilja tölvuna og þunga handtöskuna eftir hjá honum á meðan, því við myndum geta hlaupið mikið hraðar án svona þungavöru. -Sýnist þér þetta vera farangursgeymsla?, spurði sá reiði, en rétt í því að ég ætlaði að fara að verða fúl á móti og segja eitthvað sem ég hefði séð eftir, kom annar starfsmaður mér til bjargar með því að taka dótið mitt af rennunni og setja það á gólfið hjá sér. Hlauptu bara vinan og vertu snögg, sagði öðlingurinn eftir að hafa spurt mig um brottfaratíma minn og ég lét ekki segja mér það tvisvar.

Nú tók við spretthlaup mæðgnanna til baka með "bareflið" og aðrar biðraðir til að fá tólið tékkað inn. Eftir mikið span komumst við aftur að vopnaleitarhliðinu með sjálfar okkur og vorum auðvitað látnar afklæðast aftur móðar og másandi. Ég spurði hvort ég þyrfti ekki að setja handfarangurinn á gólfinu hjá þeim á rennuna fyrir gegnumlýsinguna en mér var sagt að það væri búið. Nú var lítill tími til stefnu og rétt í því að við fengum grænt ljós á sjálfar okkur og dótið heyrðum við að nöfnin okkar voru kölluð upp í hátalarnum. Við tók annar sprettur restina af leiðinni að flugvélahliðinu og baneitruð augnaráð frá flugfreyjunum og óþolinmóðum farþegum sem sátu niðurspennt í sætum sínum, horfandi reiðilega á okkur og klukkurnar sínar til skiptis.  

Eftir að hafa komið fartölvunni fyrir í hólfi fyrir ofan sætin, settumst við og spenntum beltin. Ég opnaði handtöskuna og ætlaði að leita að pappírsklútum til að þurrka af mér svitann eftir hlaupin. Og þar blöstu þá við mér öll vopnin mín; naglaþjalir, klippur, smáskæri, nokkrir pennar og einnota kveikjarar.

Ég varpaði öndinni léttar og fylltist notalegri öryggiskennd.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 29.8.2008 kl. 14:20

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sagan þín Helga Guðrún toppar mína sögu léttilega -- finnst þú ættir að setja hana inn í þinn eigið blogg svo fleiri megi sjá. Góð kveðja.

Sigurður Hreiðar, 29.8.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband