Færsluflokkur: Dægurmál

Að „axla ábyrgð“

Skrýtin skepna þessi ábyrgð. Mig rekur minni til þess í sambandi við allskonar hryðjuverk að einstaklingar eða hópar hafi lýst ábyrgð á þeim á hendur sér. Ábyrgð hvað? Að ábyrgjast að hryðjuverkið takist vel?

Svo gengur eitthvað úrskeiðis í stjórnmálum,eða bara pólitískum leikaraskap í tölvu eins og hjá Bjarna bóksala á Selfossi ádögunum, og hann „axlar ábyrgð" með því að stökkva frá öllu saman. Ég hef alltaf skilið ábyrgð sem svo að maður tæki að sér að tryggja eitthvað tiltekið verk, athæfi eða bara fjárskuldbindingu, að staðið væri við þetta allt saman, málinu fylgt til farsæls enda. Kannski ég „axli ábyrgð" næst þegar víxill fellur á mig sem ábeking (eða eitthvertsambærilegt skuldafyrirbæri, víxlar eru víst ekki til lengur) og stökkvi barafrá öllu, segi bara ég er hættur og ekki benda á mig.

Mér finnst sá einn axla ábyrgð sem stendur undir því sem hann hefur tekið að sér og fylgir því fram til fullnustu. Ekki sá sem stekkur undan ef illa fer og lætur aðra um að greiða úr óreiðunni. Ég hef aldrei skilið hvaða ábyrgðaröxlun hefur fylgt því, t.d. hjá ráðherrum grannþjóðanna, þegar þeir hafa sagt af sér ráðherraembætti af því upp hefur komist að þeir hafi freistast til að laumast upp í önnur rúm en sín eigin einhvers staðar út í bæ. Hvað snerti það eiginlega störf þeirra á daginn?

Það er hins vegar þegar menn hafa sýnt sig að valda ekki þeirri ábyrgð sem starf þeirra krefst sem mér finnst réttmætt að þeir segi af sér. En þá finnst mér þeir axla og auglýsa ábyrgðarleysi sitt. Mér fannst til að mynda ræða tiltekins seðlabankastjóra sem var í fréttum í fyrradag sýna nægilegt ábyrgðarleysi til þess að hann ætti að fá frí. Tilskipað, ef hann er í alvöru svo siðblindur að verða ekki fyrri til. Þar kom hann fram -eins og raunar stundum áður -- eins og hortugur og kjaftfor frekjupjakkur í fimmta bekk og sendi skotin allt í kringum sig í erg og gríð og leitaði að blórabögglumí öllum áttum til að fría sjálfan sig af því sem hann taldi sig með réttu eða röngu sakaðan um. En hann sleppti því sem fólkið í landinu vildi fá að heyra:hvað hann hefði til lausnar í óefninu, hver eða hverjir sem til þess hefðu stofnað; hvað hann vissi meira en þegar hefur komið fram um beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi gegn íslenskum hagsmunum, hver hefði fengið að stofna til þúsund milljarða skuldar við íslensk fjármálafyrirtæki og með hvaða rétti.

Við höfum ekkert með svona mann að gera í embætti sem krefst ábyrgðar og hennar ríkulegrar og vitrænnar. Hann ætti að komast í langt og ítarlegt frí - svo langt í burtu að hann nái ekki til þeirra fyrrum skósveina sinna beggja kyns sem kannski gætu spjarað sig ágætlega ef hann væri kominn utan þeirra seilingar.


Köld er krumla Ísbjargar

Kannski verður það lausnin okkar að kyssa vöndinn og sætta okkur við að sæta kúgun annarra þjóða álfunnar sem við teljumst til (þó ef grannt er skoðað komi í ljós að Ísland er í rauninni heimsálfa út af fyrir sig).

Já, köld er krumla Ísbjargar.

Mér datt það í hug í gær á degi íslenskrar tungu að það er í rauninni ótækt að við séum alltaf að nota erlend heiti á íslenskum fyrirbrigðum. Ef ég hef skilið rétt eru þessir árans æs-seif reikningar íslenskir og þá eiga þeir líka að heita íslensku nafni: Ísbjörg skulu þeir heita og eru jafn kuldalegir og nafnið bendir til.

Burtséð frá Ísbjörgu og kaldri krumlu hennar og þjóðanna sem við viljum vera í bandalagi við er satt að segja ótækt að hér skuli vera heill herskari fyrirtækja með erlend heiti sem ekki eru einu sinni skrifuð að íslenskum framburði. Hvers vegna heitir Europris ekki Júróprís? Eða Evruprís? Hvernig leyfir þýskt fyrirtæki sér að skrifa nafn sitt Bauhaus þegar það ætlast til að við segjum Báhás? Fleiri dæmi mætti tína til sem við látum yfir okkur ganga -- en svo erum við svo lítilla sanda að þegar við höldum í útrás köllum við ísbjargir okkar icesave upp á engilsaxnesku.

Litlar sálir eiga sennilega ekki ríka samúð skilið.


Bjargarleysið sem einkennir þeysireið samtímans

Hélt raunar að meira væri um draumáhugafólk en vera virðist, eða þá að það les ekki blogg. Ég sagði hér frá draumi mínum af því mér þótti hann vera svo fullur af táknum að það myndi kitla þá sem hafa gaman af að lesa í drauma. Og þó aðeins örlaði á því í sumum athugasemdunum þótti mér sem megingildi draumtáknanna færu fyrir ofan garð og neðan.

Skal nú segja frá því sem ég sá út úr draumi þeim er frá sagði í síðasta bloggi:

Að mér fóru tveir bílar af tegundum sem mjög tengjast vestrænum menningarheimi (sem nú hefur raunar teygt anga sína langt út fyrir þær áttir). Á undan fór vel pússaður og gulur Diamond trukkur. Diamond þýðir demantur og stendur í draumnum fyrir auðsöfnunina sem setti mjög mark sinn á hinn vestræna heim nú hin síðari árin. Á eftir kom hvítur almenningsvagn af gerðinni International = alþjóðlegur. Og ekki skorti það að almenningur allra þjóða, sem til þess höfðu nokkra getu, stykki á þann vagninn að elta auðsöfnunina.

Nú, farartæki þessi ruddust að mér og fóru geyst sem fellur mjög að því ástandi sem ríkti í landi okkar og raunar menningarheimshlutanum öllum nú síðari árin. Og ekki laust við að mér setti nokkurn beyg yfir aðsópi þeirra og víst er um það að að manni hafði aðeins hvarflað að gera sér áhyggjur af því hvernig góðærið myndi enda. En í þann mund sem þau voru að skella á mér sveigðu þau frá og þeyttu yfir mig svo miklum mekki að allt umhverfið hvarf mér og ég sá ekki handa skil.

Getur það átt við ástandið frá sprengingunni miklu sem varð í byrjun nóvember?

Næsta sem ég vissi var að mér hafði verið kippt upp í almenningsvagninn mikla af gerðinni International = alþjóðlegur, þar sem ég sat ásamt fulltrúum elstu og yngstu kynslóðanna, án þess að ráða í nokkru för minni eða ná nokkru sambandi við stjórnanda ferðarinnar sem raunar sá aldrei almennilega en hét því táknræna draumnafni Engin Björg.

Og ég gat á engan hátt ráðið í hvert för minni var heitið. Fannst það vera í suður - í átt til sólar og birtu - eða var það meira til vesturs, í sólarlagsátt?

Ég hef enga vissa merkingu getað lagt í köttinn sem mér tókst á elleftu stund að bjarga og fylgdi mér upp frá því. -- Er hugsanlegt að hann standi fyrir 68,8% endurgreiðslu inneignar í peningabréfum?

Meginatriðin eru þessi: 1. Demanturinn, 2. alþjóðleg samferð almennings sem hann þó ræður engu um né áttar sig á hver leiðir, 3. bjargarleysið sem einkennir þeysireið samtímans án þess að nokkur átti sig almennilega á hvert leiðin liggur.

Nokkrir álitsgjafar að síðasta bloggi létu að því liggja eða sögðu berum orðum að draumurinn hefði enga merkingu aðra en undirstrika bíladellu (=bílaáhuga) mína. Ég sé þetta öðru vísi: mér voru birtar þessar bílategundir vegna merkingar heita þeirra, ef ég bæri gæfu til að skilja þá merkingu.

Nú bíð ég eftir næsta draumi með merkingu. Hjá mér hafa flestir draumar merkingu ef ég man þá fram yfir rúmstokkinn. Kúnstin er bara að ráða í tákn draumanna.


Draumráðandi óskast

Nú vantar mig draumspakan mann (sama hvorskyns hann er) til að ráða fyrir mig draum. Að vísu eru nokkrar nætur liðnar síðan mig dreymdi hann en hann stendur mér enn nokkuð fyrir hugskotssjónum og lætur mig ekki alls í friði - sem var nokkurt einkenni á draumum meðan ég var barn að aldri og dreymdi enn fyrir daglátum og rúmlega það.

En þessi draumur var á þá leið að mér þótti ég vera dyrum utar á mér einhverjum kunnugum stað sem ég geri mér þó ekki alveggrein fyrir. Sé þá koma utan götu sem bar nokkuð við loft þaðan sem ég stóð gulan Diamond-trukk eins og þeir voru hér á árum heimsstyrjaldarinnar síðari og árunum þar á eftir, og á eftir honum hvítan International School Bus líklega frá miðjum síðari helmingi liðinnar aldar, einna líkastan honum „Hæringi" gamla sem ég var látinn taka á meiraprófið á vellinum fyrir óralöngu.

Báðir voru bílarnir vel til hafðir og skínandi hreinir og fóru mikinn. Nema hvað skyndilega tóku þeir óvænta beygju í áttina til mín og ég sá ekki betur en þeir ætluðu að stíma á mig en kom þá auga á kött nokkurn ókunnugan, hvítan með gráum flikrum, sem mér leist mundu verða fyrir bílunum svo ég kastaði mér eftir kisa og tókst að grípa hann en um leið beygðu bílarnir báðir frá mér og jusu ryki yfir mig og köttinn. Þegar mér kyrrðist aftur fyrir augum voru þau umskipti orðin að guli Diamondinn var horfinn en við kisi vorum orðnir gíslar í hvíta International almenningsfarartækinu ásamt karli einum fjörgömlum og drengbarni kannski 7-8 ára og vissi ég deili á hvorugum. En allir vorum við gíslar ökumannsins sem sat í afgirtu búri og virti að vettugi allar tilraunir okkar gíslanna til að hafa samband. Ég vissi það eitt um þennan ökumann að hann hét Ingibjörg og keyrði afskaplega hratt.

Ekki vissi ég hvert stefndi nema mér þótti það helst vera í suðurátt og þó kannski eilítið meira til vesturs og engan enda hafði þessi draumur umfram þann raunalega enda margra drauma að daga uppi þegar dreymandinn vaknar.

Er þessi draumur fyrir einhverju? Boðar hann eitthvað?

Er það rétt að nafnið Ingibjörg hafi í draumi merkinguna „engin björg"?


Ný öreigastétt í uppsiglingu

  Fyrir rúmu ári keypti nýstofnað fyrirtæki í byggingaiðnaði nýtt iðnaðarhúsnæði sem kostaði 135 milljónir. Tók til þess myntkörfulán skv. ráðgjöf þjónustufulltrúa í viðskiptabanka sínum og sem að bestu manna yfirsýn þótti álitlegasta aðferð til lántöku þá, upphæð í Íkr. 110 milljónir. Veð í hinni keyptu eign sjálfri.

Nú er lánsupphæðin komin í 240 milljónir og fyrirtækið - ja, ekki verkefnalaust heldur getur ekki sinnt verkefnum af því það fær ekki a) lán til að kaupa hráefni til rekstursins b) yfirfærðan gjaldeyri til hins sama. Gjaldþrot blasir við. Bankinn verður að ganga að veðinu. Eignin sjálf er lítt seljanleg nú (vegna skorts á eftirspurn) en þó hún stæði undir upprunalegu verði vantar samt 130 milljónir upp á að veðið standi undir skuldarupphæðinni. Þessi mismunur fellur á bankann sem beint tap hans.

Fyrirtækið er ónýtt og gjaldþrota. Eini ljósi punkturinn að ef eigandinn er ekki sjálfur gjaldþrota og heldur heimili sínu getur hann ef til vill stofnað nýtt fyrirtæki á annarri kennitölu og haldið áfram að lifa mannsæmandi lífi.

Ennþá verra er sá hluti þessa lánafyrirkomulags sem lýtur að fjölskyldum landsins. Dæmi: Hjón á fertugsaldri með tvö börn keyptu fyrir rúmu ári íbúð fyrir 31 milljón. Tóku til þess 70% myntkörfulán að fengnu greiðslumati, í samráði við þjónustufulltrúa í bankanum sem bestu kjörin bauð og sem að bestu manna yfirsýn þótti álitlegasta aðferð til lántöku þá. Veð í hinni keyptu eign sjálfri. Lánsupphæðin upprunalega tæpar 22 milljónir króna. Stendur núna í rúmum 48 milljónum.

Þessi hjón geta ekki skipt um kennitölu og byrjað einfaldlega á núlli. Við þeim blasir ekkert annað en persónulegt gjaldþrot og þau mega þá ekkert eiga og nánast ekkert gera næstu sjö árin. Spurning hvað þau geta síðan gert, með þennan fjármálaferil á bakinu. Þau geta ekki skipt um kennitölu og látið sem ekkert sé.

Bankinn hins vegar gengur að veðinu, íbúðinni, og lætur að öllum líkindum bera fjölskylduna út. Situr uppi með íbúðina sem hugsanlega selst einhvern tíma á næstu misserum. Verð hennar hefur lækkað nú þegar en þó að fyrir hana fengist svipuð krónutölu og í fyrra vantar bankann samt 26 milljónir miðað við daginn í dag til að fá lánið að fullu greitt. Það er fyrirsjánlega hans tap.

Þessi tvö dæmi eru tekin bara úr því umhverfi sem ég þekki til sjálfur. Fullvíst að tilfæra mætti um þessar mundir þúsundir ef ekki tugþúsundir svona dæma. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk ber ábyrgð á þessu ástandi og verður að greiða úr því. Ef hún gerir það ekki verða afleiðingarnar fyrir almenning í landinu, og kannski sérstaklega litla manninn sem amk. sumir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar nefna stundum með snert af klökkva í röddinni, ekkert annað en persónulegt gjaldþrot með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum og allsleysi, andlega sem veraldlega. Ríkisstjórninni dugar ekki að vísa málinu til bankanna með tilmælum um úrbætur eins og tímabundna frystingu afborgana. Hún verður að bjarga þessu fólki ef hún ætlar að bjarga sjálfri sér.

Eitt það aumasta sem hún gæti gert væri að slíta stjórnarsamstarfinu og láta allt reka á reiðanum með þeirri óreiðu og stertabendu sem af því hlytist.

Það er deginum ljósara að bankar eru ekki og hafa aldrei verið góðgerðastofnanir, ekki heldur þó að þeir séu nú aftur ríkisreknir. Eðli þeirra stofnana samkvæmt og ef ekkert verður að gert verða skuldirnar einfaldlega gjaldfelldar með þeim afarkostum sem því fylgja og því tapi sem bankarnir óhjákvæmilega hljóta að verða að sýna samkvæmt því. Lánþegarnir sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér verða reknir út á gaddinn með börn og buru, stimplaðir vanskilamenn og óreiðufólk.

Hér verða stjórnvöld að taka myndarlega á með tilskipun um virka skuldbreytingu og niðurfellingu hluta skuldanna þannig að lánin séu ekki himinhátt yfir því veði sem að baki þeim stendur. En leyfa lántakendum að koma niður standandi - alveg skilyrðislaust þar sem íbúðarhúsnæði, eitt af frumþörfum mannsins, er að veði, fyrir utan mannorð og persónulegan fjárhag lántakandans og fjölskyldu hans.

Verði það ekki gert er þar með skotið rótum undir nýja öreigastétt sem samanstendur einkum af vel menntuðu, dugmiklu og ábyrgu fólki. Ég get lofað núverandi stjórnmála- og stjórnarflokkum því að það fólk mun ekki taka niðurlægingu sinni þegjandi og aðgerðalaust.

– – Pistilinn hér að ofan sendi ég Morgunblaðinu til birtingar fyrir tæpri viku, en þar á bæ ekki ekki pláss fyrir allt aðsent efni og það brennur á mér að koma þessu á framfæri. Mér finnst það ekki hafa verið gert nógu skilmerkilega hingað til, amk. ekki þar sem ég veit til. – Rétt líka að taka fram að á þeim tíma hafa gengistryggðar tölur hækkað enn frá því sem hér er tilgreint.


Barist fyrir friði?

Það er auðvelt að efna til múgæsinga og epsa lýð sem ýmist hefur gaman af látum og gauragangi eða hefur ekki vit til að skilja hvað af því getur hlotist og að ofbeldi er ekki rétta leiðin -- ekki einu sinni þó að barist sé fyrir friði.

Enn tíðkast að hengja bakara fyrir smið.


mbl.is Eggjum kastað í Alþingishúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar þjóð á að greiða skuldir einkafyrirtækja sinna

Sú var tíðin að mér var Bretland einkar kært og hugur minn stefndi þangað löngum, meðtók þar hluta af menntun minni og átti þar góða vini. Bæði í Englandi og ekki síður Skotlandi.

Allt er þetta nú tekið að fölna og ekki síst við þau fantabrögð sem ráðherrar stjórnarinnar þar hafa tekið okkur og sýnast helst ætla að herða að ef nokkuð.

Skil reyndar ekki hvernig hægt er að ætla heilli þjóð að standa undir og greiða upp skuldir sem einkafyrirtæki manna af því þjóðerni hafa stofnað til í öðrum löndum.

Sú var tíðin að ég átti nokkur pund í bankabók á Englandi er til þess að stofna hana þurfti ég að ganga fyrir mann og annan og á endanum þurfti ég að fá þann sem leigði mér húsaskjól, landlordinn minn, til að ganga í ábyrgð fyrir mig í því efni. Og þó var þetta einneign hjá mér en ekki lántaka. Þessa transaksjón hef ég aldrei getað skilið almennilega.

Vitaskuld tæmdi ég sjóðinn áður en ég yfirgaf staðinn og hvarf aftur til minna heima. Bankabókin mín var götuð rækilega og líklega einnig sett í vélrænan tæptara. Minnist þess ekki að þar hafi pund mitt ávaxtast að neinu marki. En bæði bankinn og landlordinn minn sluppu skaðlaust frá þessum viðskiptum.

Og langt er síðan ég hef heyrt frá vinum mínum þar eystra eða látið þá heyra frá mér.


Vangaveltur um blogvini

Mál að hjala aðeins um ómerkilega hluti til að hvíla sig frá þessum landsmálum sem eru dæmalausari nú en ég man nokkru sinni fyrr á minni bara þó nokkuð löngu ævi.

Hvað er nær að hjala um i blogi (les: bloggi) en blogið sjálft?

Ég hef verið í því undanfarið að afþakka fleiri blogvini. Nú gat ég ekki á mér setið að þiggja þangað gamla kunnkonu og samstarfsmann, hana Kolu (sem ég hef raunar aldrei þekkt undir því nafni). Ég réttlæti það fyrir sjálfum mér með því að hafa þegar tekið nokkuð til á blogvinalistanum og svo hitt að tvær blogvinkonur sem ég hef haft svo að segja frá upphafi hafa nú svikið lit og í raun gert sig óvirkar á blogvinalistanum. Önnur komið upp sinni eigin bloggistiþjónustu en hin fór á heimaslóðir vinnu sinnar. Þó báðar séu hinar merkustu konur og oft skemmtilegar þar sem þær fara blogförum nenni ég ekki að elta þær út um allt -- takk fyrir samfylgdina svo langt sem hún náði, Gurrí og Helga Guðrún! Velkomin í hópinn, Hjördís.

En: ég nenni ekki að hafa fleiri blogvini en ég get fylgst nokkuð með, og því kýs ég að hafa blogvinalistann stuttan en vel skipaðan. Og blogvinir fagrir: ef þið dettið út af listanum er það vegna þess að lítið hefur verið að gerast og/eða blogvináttan býsna tíðindalaus en ekki af því ég sé í einhverri fýlu -- né heldur mun ég fara í fýlu þó einhver af listanum verði mér fyrri til að stofna til skilnaðar. (Þetta er ekki alveg rétt, það eru nöfn á þessum lista sem ég myndi móðgast alvarlega við ef þau skildu við mig skýringa- og fyrirvaralaust!)


Eins og orðspor Íslands er núna

Hvað mína beint persónulega hagi snertir er mér í rauninni slétt sama hvort útlánsvextir banka eru 2% eða 20%. Hitt get ég ómögulega skilið hvernig nokkrum manni, hversu lærður sem hann kann að vera og hvort sem hann þiggur íslensk ölmusulaun eða fær sín góðu laun frá Alþjóðagóðgerðasjóðnum – fyrirgefið, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vildi ég sagt hafa, getur dottið í hug að háir vextir séu það sem íslensk þjóð þarf á að halda þessa stundina.

Atvinnulífið er í stíflu. Fyrirtækin eru verkefnalaus og þau sem kynnu að hafa verkefni fá víst ekki einu sinni lán þó þau létu til leiðast að ganga undir okurvextina. Peningaflæðið innanlands er að verða að sprænu. Er það þá sem við þurfum háa vexti?

Einhverjar raddir eru þeirrar meiningar að ef við höfum (stýris)vexti háa muni útlendingar hlaupa til að leggja sitt dýrmæta fé á vexti hér eða jafnvel koma með fyrirtæki sín hingað. Svo ég fari í spurningaleik við sjálfan mig eins og Jón Baldvin: Er líklegt að heimurinn streymi hingað til lands með fjármuni sína, eins og orðspor Íslands í samfélagi þjóðanna er núna? - Og til þess að jafna leikinn: svari hver fyrir sig hvað honum þykir líklegt.

Persónulega held ég að einmitt ætti nú að lækka vexti, amk. að taka 1 framan af 18% stýrisvaxtatölunni. Dæla fé inn í atvinnulífið. Leyfa því að skapa verðmæti, jafnvel sem selja mætti fyrir dýrmætan gjaldeyri.

Hvernig ætli færi fyrir virkjunum okkar og þá stóriðju sem þær knýja, ef skrúfað væri fyrir vatnsorkuna sem snýr rafölunum? Forlátið mér þó mér finnist það dálítið sambærilegt að skrúfa einmitt nú vexti upp úr öllu valdi.


Kannski er ég eitthvað að dofna

Ég fékk ákúrur fyrir blogg mitt hér á undan og átti þær skilið. Ég kallaði Siv þingkonu í staðinn fyrir þingmann sem hún að sjálfsögðu er. Þetta er augljóst stílbrot hjá sjálfum mér, því ég hef áratugum saman vitað að konur eru menn engu síður en karlar eru menn.

Ég bið Siv og lesendur mína forláts.

Kannski er ég eitthvað að dofna. Það er þá í stíl við það sem er að gerast í umhverfinu. Í útvarpi allra landsmanna heyrir maður til að mynda hvað eftir annað að grunur leiki á um eitthvað og þetta er aldrei leiðrétt. Nýlega fékk ég líka auglýsingamiða hér inn um lúguna sem auglýsti sóttarpizzur á hálfvirði. Og ekki virðist þetta vera betra í skólum landsins. Frænka mín selur stundum bakkelsi og drykkjarvörur í einum af menntaskólum landsins. Hún sagði mér að nýlega hefði komið þar til hennar ung og álitsfögur skólamær, rétt henni eitthvert ílát og sagt: „Jatla fá tvær kókómjólkir og geturðu svo látt vatn í þetta fyrir mig.“ Innan sviga má geta þess að frænka er ekki ýkja hrifin af mannasiðum menntaskólanemanna sem ekki drullast til að víkja úr vegi fyrir fólki sem á erindi með klyfjar eftir göngum skólans; hvað þá að það hvarfli að þeim að rétta þessu fólki hjálparhönd svo ekki sé minnst á að opna fyrir því dyr.

Kannski lagast þetta ef við tökum upp Evru og göngum í ESB.

Lagfært skv. ábendingu kl.22.24.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband