Færsluflokkur: Dægurmál

Lofsöngur til landfræðilegrar þekkingar

Sennilega hefur þessi vesalings Svíi komið við í Munic á leið sinni til Nüremberg -- og gott ef hann hefur ekki líka átt viðkomu á Turin á Ítalíu.
Líklega hefur sami snillingurinn þýtt þessa frétt eins og sá sem fyrr í dag mærði framkomu Sivjar þingkonu í Helsingfors. Maður gæti giskað á að snillingur þessi hefði numið fræði sín í Copenhagen ef ekki bara í Moscow! Hann hefur að minnsta kosti aldrei pælt neitt í Nürnbergréttarhöldunum enda kannski of ungur til að hafa nokkurn tíma heyrt um þau.
mbl.is Svíi laug að lögreglunni að sér hefði verið rænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna „því miður“?

Skrýtin frétt a tarna. Hvers vegna þykir Karli Steinari verra að þetta skuli vera gabb? Ég er svo barnalegur að mér þætti verra að þetta væri sönn frétt og verið væri að véla afkomendur okkar til að ánetjast fíkniefnum.

Sem minnir mig samt á dálítið annað: þegar ég ungur maður settist að í höfuðstað landsins var mér fjár vant eins og stundum endranær -- byrjaði í 1½ vinnu og bætti raunar aðeins við það þannig að nætursvefn var stundum frekar skammur. Mér var þá bent á ákveðna tegund af fjölvítamíni sem fékkst í Laugavegs Apóteki og þetta vítamín tók ég þennan hinn fyrsta vetur minn í Reykjavík eins og leiðbeiningar á glasinu sögðu til um, vann eins og berserkur allt sem til féll og varð aldrei úrvinda.

Um vorið hætti ég að gadda þetta í mig, taldi að sól og blíða myndu færa mér þau fjörefni sem mér dygðu sem og varð, enda komu þá lögbundin sumarfrí til sögunnar líka. Um haustið hugsað ég mér að ná mér í fjölvítamínið góða en það var þá uppselt í apótekinu. Ég vildi fá að vita hvenær það kæmi aftur en fékk þá þau svör og nokkuð snúðug, að það kæmi ekki aftur. Það hefði sumsé komið á daginn að í því hefði verið meira af amfetamíni en nokkurn tíma vítamínum. Ég vissi þá ekkert hvað amfetamín var og þóttist heldur hafa verið svikinn en hitt að fá ekki þetta góðgæti áfram.

En þar með var sem sagt lokið ferli mínum sem amfetamínfíkils. Hissa hef ég stundum orðið á því að ég man ekki eftir neinum fráhvarfseinkennum. Kannski er amfetamín ekki alslæmt, þegar allt kemur til alls.


mbl.is Foreldrar varaðir við nýju fíkniefni - Gabb sem gengur á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir síelti?

Hvað þýðir síelti? Er það sama og ofsóknir? Í hvaða orðabók ætli þetta sé að finna? Þýðing á hvaða erlendu orði ætli þetta sé? Ensku eða þýsku?
mbl.is Refsikröfu vegna ummæla vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá 21. október

Ef þú gengst við þessu... segir Leifur hinn leiði lögreglumaður við spæjóspíruna Árna í spennumyndaröð RUV um Svarta engla, sem nú er verið að sýna. Merkilegt hvernig tungumálið breytist. Því hér virðist mér Leifur vera að gylla fyrir Árna hve björt framtíð hans verði ef hann gangi að því sem Leifur er að bjóða honum. Að gangast við einhverju þýddi áður að játa eitthvað, viðurkenna eitthvað. sbr. að gangast við faðerni barns. En nú virðist það hafa breyst.

Er annars ekki mál að taka upp léttara hjal? Því enginn virðist ætla að gangast við því að hafa sett landsmenn á hausinn, sem mér finnst annað en að setja landið á hausinn.

Í framhaldi af því: Nú tíðkast mjög að segja „á þessum síðustu og verstu tímum". Vissulega eru þetta hinir verstu tímar, amk. fyrir budduna. En ég vona svo sannarlega að þeir séu ekki hinir síðustu. Því jafnvel þótt hnötturinn Jörð myndi splundrast núna á eftir, eða í síðast lagi á morgun, hygg ég að tíminn héldi áfram að vera til. Og ég er enn það sólginn í lífið að ég vona að mín síðasta stund sé ekki alveg á næstu grösum.

Og áfram um tuggur í málfari: Hitt og þetta á að gerast þann XX október. Eða þann XX nóvember. Og nýtt á rennur upp þann fyrsta janúar næstkomandi. Af hverju endilega alltaf þann - þetta og hitt? Eigum við þá ekki líka alltaf að segja: Í dag er 21. október?

 Lítillega lagfært kl. 14.14. skv. ábendingu lesanda.


Ekki nema hálfsögð frétt

FEB segir miklu meira en hér er tæpt á. Niðurlag yfirlýsingarinnar er á þessa leið -- og skiptir ekki síðra máli en það sem áður var sagt um lífeyri frá TR og lífeyrissjóðunum:

„LEB leggur á það ríka áherslu að allt verði gert til þess að vernda sparifé landsmanna hvort sem það er varðveitt á sparireikningum eða í peningasjóðareikningum. Þar sem  hér er um að ræða mjög mikilvægan  sparnað, sem ríkinu ber að tryggja.“

 

 


mbl.is Hlutur eldri borgara verði ekki fyrir borð borinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og svo varð nokkuð að frétta

Jú, þar kom svo að því að það var eitthvað að frétta. Virðið mér til vorkunnar þó að ég skil ekki fréttirnar út í hörgul og veit ekkert almennilega hvar ég er staddur í ólgusjó tilverunnar um þessar mundir.

Þó virðist mér í þessu fljóta bragði að einhverju hafi verið bjargað og kannski haldi maður axlaböndunum, amk. öðru megin. Hef enda aldrei verið í hópi ofurlaunamanna.


Er eitthvað að frétta?

Var að reyna að fylgjast með fréttum nú um helgina. Það vantaði ekki, fréttamiðlar héldu langar lokur um hvað væri að gerast þegar engar fréttir var að hafa og því engar fréttir að segja. Minntu mest á Ingva Hrafn forðum dag þegar Gorbasjoff og Regan krúnkuðu saman í Höfda House og sjónvarpsáhorfendur fengu klukkutímum saman aðeins að horfa á hreyfingarlausan hurðarhún þeirrar snotru byggingar. Nema hvað Ingva Hrafni tókst í það skiptið sá undarlegi galdur að geta haldið áhorfendum/heyrendum í einhverri spennu klukkustundum saman yfir engu.

Núna hefði landslýður verið því fegnastur ef fréttamiðlarnir, blöð, útvörp og sjónvörp, hefði einfaldlega sagt eins og var:

Góðir landsmenn -- enn er engar fréttir að hafa af björgunarmálum þjóðarinnar. Reynum aftur síðar.

En það var ekki svo einfalt: hálftímum saman var reynt að naga eitthvað út úr ráðherrum og öðrum sem yfir þessum málum sátu, ef þeir létu sjá sig utan við læstar dyr. Þó fyrir lægi að þeir myndu ekkert segja fyrr en þeir hefðu eitthvað að segja og þá yrði blásið í þá lúðra að ekki færi framhjá neinum.

Erum við ekki búin að fá nóg af því gaspri og skrumi sem kjaftað hefur allan þrótt úr vesalings krónunni? Eigum við ekki skilið dálitla þögn og dálítinn frið, þangað til kemur að því að eitthvað sé að frétta?

Því þegar öllu er á botninn hvolft er það heimatilbúinn rógburður um krónuna sem hvað verst hefur leikið hana og þar með fjármálakerfið líkast til allt.


Kviknar í bílum af glyserínnotkun?

Á þessum dögum, þegar ævisparnaður og inneignarfé landsmanna er að brenna til ösku í veislulokum fjárgleðinnar, hafa fréttir af því að það er annað veifið að kvikna í bílum þar sem þeir bruna um höfuðborgina gersamlega fallið í skuggann.

Hvernig stendur á því að kviknar í bílum óforvarendis og þar sem þeim er ekið í mesta sakleysi? Kannski margar ástæður mögulegar. Man eftir því að ég átti 5 strokka Audi og eitt sinn er ég var nýlagður af stað fannst mér koma furðu mikil bensínlykt, svo ég nam staðar og lauk upp vélarsalnum. Þá hafði komið sprunga í bensínslöngu og runnið úr henni ofan í einskonar bolla eða skál ofan á pústgreininni, sem til allrar hamingju fyrir mig var í þetta skipti ekki orðin nógu heit.

En -- mér dettur í hug hvort þessir endurteknu eldsvoðar í bílum á ferð nú til dags geti átt samhengi við að sumir eru að reyna að spara eldsneyti með því að blanda út í það glyseríni? Er það til í dæminu?


Sagan af Rudolf Diesel

Rudolf Christian Carl Diesel var þýskrar ættar en fæddur í Frakklandi 18. mars 1858 og hefði því orðið 150 ára á yfirstandandi ári. Uppfinning hans, dísilvélin sem ber nafn hans, á 110 ára afmæli á þessu ári. Rudolf Diesel nam verkfræði í München með varmafræði sem sérgrein. Að námi loknu sneri hann aftur heim til Parísar og næsta áratuginn var hann þar framkvæmdastjóri útibús þýska rjómaísfyrirtækisins Geschellschaft für Lindes Eismaschinen uns hann var ráðinn tæknilegur framkvæmdastjóri Lindes með aðalstöðvar í Berlín.

Uppfinningin sem fremur en rjómaísin heldur nafni hans á lofti var þó sprengihreyfill sem kveikti í blöndu af lofti og eldsneyti af hitanum sem myndast við samþjöppun lofts. Hreyfill þessi er síðan við hann kenndur og kallaður dísilvél. Hann fékk einkaleyfi á dísilvélinni árið 1893. Árið 1898 var nothæf dísilvél tilbúin til framleiðslu og fyrst notuð hjá MAN í Augsburg - en MAN stendur einmitt fyrir „Maschinfabrik Augsburg-Nürnberg".

001__scaled_600_003Á grundvelli einkaleyfisins voru hreyflar af þessu tagi víða framleiddir og notaðir í iðnaði, útgerð og víðar. Haustið 1913 lagði Rudolf Diesel af stað með þýskri Ermarsundsferju áleiðis til Englands þar sem hann ætlaði að vera viðstaddur opnun nýrrar Carels-verksmiðju í Ipswitch, en Carels var belgískt fyrirtæki sem framleiddi vélar eftir einkaleyfi Diesels. Eftirá komst líka sú saga á kreik að hann hefði ætlað að eiga fundi með forráðamönnum Rover-verksmiðjanna um hugsanlega nýtingu þeirra á einkaleyfi hans. Þegar ferjan náði landi í Englandi var Diesel horfinn. Lík hans fannst á floti nokkrum dögum síðar.

Aldrei hefur fengist úr því skorið hvort hann fórst af slysni, af eigin ákvörðun eða hvort hann var myrtur. Síðastnefnda skýringin fékk þó hvað mestan hljómgrunn.

Segja má um Diesel að hann væri Evrópumaður frekar en landsmaður einhverrar ákveðinnar þjóðar. Hann seldi afnot af einkaleyfi sínu hverjum sem kaupa vildi. Á þessum árum var heimsstyrjöldin fyrri yfirvofandi. Sú skýring sem flestir töldu líklegasta á slysinu var sú að þýskir útsendarar hafi „hjálpað" honum fyrir borð til að koma í veg fyrir að uppfinning hans kæmist í fleiri óvinahendur þýska ríkisins en orðið var.


Krónan kjöftuð í ógöngur

Í árdaga traktorsgrafna varð ég vitni að því að gröfumaður festi gröfu sína þar sem hann átti að vera að moka úr grunni upp á vörubíl. Þar sem hann baslaði við að hjakka henni fram og aftur og reyna að losa hana hoppaði vörubílstjórinn um á gryfjubrúninni eins og hauslaus hæna, pataði og potaði og hrópaði gerðu svona og gerðu hinsegin, ekki gera svona maður og ekki svona, þú festir þig bara meira, þú verður að gera bara svona og svona!

Allt í einu hætti gröfumaðurinn baksi sínu, setti gröfuna í hlutlausan gír og hægagang, hoppaði upp úr sæti sínu og brölti upp á bakkann til bílstjórans. Þar benti hann með þumalfingurshnykk á gröfuna og sagði með augljósu ergelsi: Kjaftaðu hana upp úr!

Oft hefur mér dottið þetta atvik í hug og ekki síst núna síðustu dagana þegar fjölmiðlar og aðrir kjafta hver um annan þveran og hver ofan í annan um efnahagsmál þjóðarinnar og ekkert skánar. Og fer ekki hjá því að manni finnist kjaftavaðall einmitt hafa komið okkur þangað sem við erum.

Allt kjaftæðið um upptöku evru í stað krónu hefur náttúrlega ekki orðið til nokkurs gagns en miklu fremur þess ógagns að gera öllum lýðum ljóst hvar í heimi sem er að á Íslandi sé allt að fara til Andskotans og krónan í fararbroddi. Þessir gasprarar sem nú í nokkur misseri hafa tuðað um upptöku evru þó öllum megi vera ljóst að það gerist ekki bara eins og að skipta um nærbuxur hafa með ábyrgðarlausum vaðli sínum að verulegu leyti kjaftað okkur út í þær ógöngur sem íslenska krónan okkar er í um þessar mundir.

Væri mannsbragur á þeim sneru þeir nú blaðinu við og kepptust um að kjafta okkur upp úr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband