Færsluflokkur: Dægurmál
28.9.2009 | 14:53
Hvaðan kom löggan?
Ég er alveg viss um að drengurinn er betri ökumaður en faðirinn. Veit sosum ekkert hver faðirinn er né reyndar hvorugur þeirra feðga, veit bara að þeir sem læra ungir að aka og fá að spreyta sig í umferðinni leggja alúð í það sem þeir eru að gera og eru flestir býsna leiknir.
En þetta með þjófavörnina sem fór í gang lengst upp í Hrunamannahreppi (takk annars fyrir að kalla ekki allan hreppinn Flúðir eins og helst tíðkast nú) -- en bófarnir voru farnir þegar löggan kom á vettvang. Hvaðan kom hún? Ég giska á Selfoss. Það er hægt að gera ýmislega uppi í hreppum meðan löggan er á leiðinni þangað frá Selfossi.
![]() |
Lét þrettán ára son sinn keyra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2009 | 13:50
Að reisa við þjóðarhag á blóðpeningum
Eitt af snilldarbrögðum núverandi ríkisstjórnar til að forða þjóðinni í heild frá gjaldþroti var að ráðast á ellilaunafólkið. Með því að fella út í mörgum tilvikum möguleika sumra okkar til að fá nokkurt skitirí af eftirlaununum frá TR sem við héldum okkur hafa verið að byggja upp alla okkar starfsævi , með því að láta greiðslur til okkar úr lífeyrissjóði (sem er í sjálfu sér bara sparnaður okkar og nurl gegnum tíðina og kemur TR í rauninni ekkert við, þegar grannt er skoðað), skerða ellilaunin sem okkur ber siðferðislega að fá frá Tryggingastofnun ríkisins.
Annað atriði var að hækka svokallaðan fjármagnstekjuskatt um helming, úr 10% í 15%. Á hverja leggst þessi fjármagnstekjuskattur helst nú til dags, þegar ávöxtunarmöguleikar fjármagns eru næstum eingöngu bankareikningar með innlánsvexti frá 1,5% upp í ríflega 7%? Jú, á ellilaunafólkið sem var svo vitlaust að halda að því yrði leyft að eiga einhvern varasjóð til elliáranna sem það fengi að nota til að njóta ævikvöldsins án þess að þurfa að tvískoða hverja krónu áður en það léti hana frá sér.
Nú geta fjármagnstekjur þessa fólks mest orðið 7-8% á ársgrundvelli meðan verðbólgan er nærri 11%. Vextir ná sem sagt ekki einu sinni að viðhalda verðgildi þeirrar innstæðu sem við, blessað" gamla fólkið, höfum leyft okkur að nurla saman. Þar að auki eigum við að gjalda keisaranum 15 krónur af hverjum hundrað sem við þó fáum í vexti af varasjóðum okkar til ævikvöldsins -- sem duga ekki einu sinni til að viðhalda verðgildi höfuðstólsins.
Og við búum ekki svo vel að geta farið í greiðsluverkfall. Því sá sem reitir í okkur vextina reitir fyrst af þeim 15% svo þjóðin fari ekki á hausinn.
Mun þeirri þjóð farnast vel sem ætlar að reisa við hag sinn á svona blóðpeningum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2009 | 11:59
Svar óskast frá Hæstarétti og VÍS
Gott væri að fá frá Hæstarétti (og VÍS) leiðbeiningar um örugga staði til að geyma bíllykla á. Fyrir þennan dóm hefði maður haldið að hanskahólf í læstum bíl væri sæmilega öruggur staður svo sem yfir eina nótt.
Hvað með buxnavasa á stól í svenherberginu?
Eða skrifborðsskúffu?
Eða einhvern annan stað innan húss sem komast má að með því að brjótast inn í húsið?
Má hugsa sér einhvern slíkan stað sem öruggan?
Eða dugar ekki minna en innmúrað öryggishólf í læstri íbúð á fjórðu hæð?
![]() |
Hanskahólfið ekki öruggur staður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.9.2009 | 16:21
Eimskip Outlet
Ekki ber nú þessi nafngift vitni um mikla reisn eða sköpunargáfu. En við megum þakka fyrir að það var þó ekki Eimskip Outlet!
Hver skyldi annars hafa átt A1988 síðast? Einu sinni átti ég A3118 -- sem var svona um það bil lakasti bíll sem ég hef átt, enda amrískur!
Sláttuvilla leiðrétt 17.53
![]() |
Nafni Eimskips verði breytt í A1988 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2009 | 11:39
Í guðanna bænum, fjölmiðla- fjármála- og stjórnmálamenn: Notið rétt orð!
Ég undrast að tönglast skuli vera á þessu orði, afskrifa og afskriftir, þegar einfaldlega er átt við að leiðrétta tölur í sambandi við lán. Dæmi: Íbúðareigandi (á pappírnum) tók 20 milljón króna lán til að kaupa íbúð sumarið 2007. Það stendur nú -- á pappírnum -- í 50 milljónum. En hann fékk aldrei nema 20 milljónir í hendur og lánveitandinn lét aldrei nema 20 milljónir af hendi. Hitt er sjónhverfing í samhengi við svokallaða gengistryggingu, sem enginn -- ítreka enginn -- (nema örfáir eftirá-beturvitringar) ímyndaði sér að valda myndi því gengishruni sem varð. Sem sagt: 30 milljónir af þeim 50 sem höfuðstóll lánsins stendur nú í, með sjónhverfingum, hafa aldrei farið frá neinum til neins. Að færa lánið aftur til upphaflegs höfuðstóls og strika allar gengissjónhverfinar út er ekki afskrift heldur leiðrétting.
Í guðanna bænum, fjölmiðla- fjármála- og stjórnmálamenn: Notið rétt orð! Þannig verður allt samhengi skiljanlegra.
Sláttuvillur leiðréttar kl. 12.15
![]() |
Vaxandi þrýstingur á að afskrifa íbúðalán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
24.8.2009 | 12:25
Eiginleiki skynseminnar
Merkileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins á laugardaguinn, um að félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason segi að afskrifa þurfi skuldir til að leiðrétta það misræmi sem orðið hafi í hruninu.
Fyrir skemmstu sagði hann að það væri bara öldungis ómögulegt. En í téðu tölublaði Fréttablaðsins hefur vitið komið fyrir hann og hann segir: Við verðum að horfast í augu við að þetta eru að miklu leyti tapaðar kröfur.
Ekki bara það, Árni Páll. Heldur eru þetta ranglátar kröfur og að halda þeim til streitu veldur m.a. stöðnun í samfélaginu þar sem fólk í fjárhagslegri spennitreyju á ekki í eðlilegum samskiptum innan þess.
Þó ég vilji ekki nota orðið afskriftir í þessu samhengi heldur leiðrétting þykir mér samt góðs viti að ráðherrann hefur kúvent í málinu. Til þess var okkur gefin skynsemin að við gætum skipt um skoðun, var eitt sinn haft eftir málsmetandi manni íslenskum, því miður virðist þessi eiginleiki skynseminnar hafa farið fram hjá of mörgum eða þeir hafa gert sitt ítrasta til að berja hann niður.
Í umræðunni um þessi efni á undanförnum mánuðum hefur maður eftir mann komið fram og sagt að við höfum ekki efni á að leiðrétta skuldir með þessum hætti. Mér er spurn: Hver tapar á því?
Tökum dæmi. A lánar B þúsundkall (kr. 1.000) til 10 ára og A lofar að borga 5% árlega vexti af láninu. Þeir gera samning sín í milli til að hafa allt klárt og í honum er klásúla þess efnis að ef jörðin fari að gleypa hús í miðborg Reykjavíkur skuli skrifuð lánsupphæð hækka um tiltekin prósent fyrir hvern fermetra húsa sem jörðin gleypi. Svo leggur A kr. 1.000 í hendur.
Hvað gerist? Á einni nóttu gerist það sem engum datt í hug að gerst gæti (nema fáeinum eftirá-beturvitringum) að jörðin fer að gleypa hús í miðbænum. Og á skömmum tíma er skráð upphæð 1.000 krónanna orðin að 10 þúsund krónum. A hefur samt ekki afhent B fleiri krónur eða aukið við lán til hans með nokkrum hætti.
Eftir um 11 mánuði dettur skynsömum ráðamönnum þjóðarinnar í hug að svona getur þetta ekki gengið og setur lög þess efnis að lán af þessu tagi skuli aftur færð til þeirrar fjárhæðar sem raunverulega var lánuð. Að lánið sem B tók skuli fært aftur niður í sinn upprunalega þúsundkall og ekki bofs framyfir það.
Hefur þá einhver tapað? A lánaði aldrei nema þúsundkall og fær það nú endurstaðfest að B skuldi honum hann. Þessi níu þúsund sem sjonglerað var með þarna á milli til þess einkum að B gæti sýnst stöndugri en hann er voru aldrei til. Það hefur enginn tapað nema sá sem átti fermetrana í miðbænum sem jörðin gleypti. Og það var út af fyrir sig óviðkomandi gjörningnum milli A og B.
Leiðrétting af þessu tagi er ekki afskrift. Því síður eftirgjöf. Hún er einfaldlega það sem hún er: leiðrétting.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2009 | 15:18
Prúttnir þjófar og ómannleg mistök
Stundum er eins og við tölum áður en við hugsum eða jafnvel án þess að hugsa og þetta á ábyggilega við um ritað mál líka: við skrifum áður en við hugsum eða án þess að hugsa.
Dæmi um þetta eru fastir frasar sem hver étur eftir öðrum án þess að hugsa um hvað það þýðir sem við erum að segja. Kvenkyns þingmaður Borgarahreyfingarinar bar samhreyfingarmann sinn forláts á því á dögunum, og það úr ræðustóli Alþingis ef ég hef skilið rétt, að segja efnislega í tölvupósti til þriðja (eða jafnvel líka fjórða og fimmta) að hann væri sjúklegur rugludallur. Þingmaðurinn bar því við að þetta hefðu verið mannleg mistök.
Mér er spurn: Eru til mistök sem ekki eru mannleg?
Oft heyrir maður og les að einhver geri eitthvað sem honum einum er lagið. Þá hefur mér skilist að hann hafi gert eitthvað sem hann gerir vel, eða að minnsta kosti liðlega. En í mörgum tilvikum er vitað um sosum hundrað manns sem gera þann sama hlut vel, eða að minnsta kosti liðlega. Þarna hlýtur að vera átt við að manninum sé þetta lagið -- sem sagt til lista lagt, án þess að það sé að nokkru leyti hans einkaleyfi.
Í Fréttablaðinu í dag er sagt undir eyranu FRÉTTIR AF FÓLKI frá því að óprúttnir þjófar hafi einhvern tíma í sumar stolið tölvu úr Borgarleikhúsinu.
Mér er spurn: Eru til prúttnir þjófar -- eða yfirleitt þjófar sem ekki eru óprúttnir?
Væri ekki stundum gott að hugleiða hvað orðin þýða -- og jafnvel fletta þeim upp?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2009 | 14:55
Blikastaðir hafa breytt um nafn
Rétt við bæjardyr Reykjavíkur stendur enn bærinn Blikastaðir. Nú í Mosfellsbær, þar áður Mosfellssveit. Framan af öldum þótti þetta hálfgert kot en það dæmi snerist við á öldinni sem leið og um hríð var þar rekið eitt stærsta kúabú norðan Alpafjalla -- alveg örugglega stærsta bú með íslenskar gæðakýr sem eins og kunnugt er gefa af sér heilsusamlegri mjólk og mjólkurafurðir en dýr með sama tegundarheiti gera annars staðar.
Nú mun bær þessi kominn í eigu verktakafyrirtækis sem smám saman er að breyta túnum og móum, melum og hólum í byggingalóðir og golfbrautir. Og líklega nafni bæjarins líka. Blikastaðir eru víst ekki lengur í fleirtölu heldur sýnist heitið Blikastaður vera orðið nýtt heiti bæjarins. Ef marka má skilti sem komið er upp við heimreiðina að bænum. Samanber myndina hér að neðan, sem ég tók núna rétt áðan:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.8.2009 | 19:31
Gekk ég yfir sjó og land… eða bara sjó…
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2009 | 12:39
Í krafti illa fenginna atkvæða
Sú var tíðin að þrír piltar lásu saman til stúdentsprófs uppi í turnherbergi á húsi sem ég átti heima í um stundarsakir í Reykjavík. Einn þeirra átti heima í húsinu en hinir voru aðkomumenn. Móðir heimapiltsins kallaði þessa tvo fóstursyni sína ósköp hlýlega Frankenstein og uhyret en ég fékk aldrei upp úr henni hvor var hvor.
Öðrum þeirra hef ég kynnst lítilsháttar af og til á lífsleiðinni og fallið þau kynni dável. Hann er líka liðtækur skrifari og margt af því sem hann hefur skrifað og talað hef ég kunnað vel að meta.
En nú hefur piltur skitið á sig að mínum dómi og opinberlega og feimulaust tekið ófrjálsri hendi það sem hann ekki á: bunka af atkvæðum sem borgarahreyfingunni voru greidd en alls ekki honum persónulega.
Þráinn Bertelsson: ég kaus Borgarahreyfinguna á liðnu vori en alls ekki þig sem einstakling. Ég lýsi því hér með yfir að þér er óheimilt að sitja á þingi sem óháður í skjóli þess kross sem ég krotaði við bókstaf Borgarahreyfingarinnar í síðustu alþingiskosningum.
Að mínu viti er enginn einstaklingur frjáls að því að helga sér þau atkvæði persónulega sem fleyttu honum inn á þing í listakosningum.
Hafðu manndóm til að skila af þér því starfi sem þú treystir þér ekki til að sinna í nafni þeirrar hreyfingar sem þú treystir þér til að bjóða þig fram fyrir.
Skrifaðu heldur eins og eina góða bók í viðbót.
Ekki sitja á þingi í krafti illa fenginna atkvæða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar