Í guðanna bænum, fjölmiðla- fjármála- og stjórnmálamenn: Notið rétt orð!

Ég undrast að tönglast skuli vera á þessu orði, afskrifa og afskriftir, þegar einfaldlega er átt við að leiðrétta tölur í sambandi við lán. Dæmi: Íbúðareigandi (á pappírnum) tók 20 milljón króna lán til að kaupa íbúð sumarið 2007. Það stendur nú -- á pappírnum -- í 50 milljónum. En hann fékk aldrei nema 20 milljónir í hendur og lánveitandinn lét aldrei nema 20 milljónir af hendi. Hitt er sjónhverfing í samhengi við svokallaða gengistryggingu, sem enginn -- ítreka enginn -- (nema örfáir eftirá-beturvitringar) ímyndaði sér að valda myndi því gengishruni sem varð. Sem sagt: 30 milljónir af þeim 50 sem höfuðstóll lánsins stendur nú í, með sjónhverfingum, hafa aldrei farið frá neinum til neins. Að færa lánið aftur til upphaflegs höfuðstóls og strika allar gengissjónhverfinar út er ekki afskrift heldur leiðrétting.

Í guðanna bænum, fjölmiðla- fjármála- og stjórnmálamenn: Notið rétt orð! Þannig verður allt samhengi skiljanlegra.

Sláttuvillur leiðréttar kl. 12.15


mbl.is Vaxandi þrýstingur á að afskrifa íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

takk fyrir þetta - þarna hittir þú naglann á höfuðið

Steinar Immanúel Sörensson, 25.8.2009 kl. 12:07

2 Smámynd: Árni þór

Er að undra að margir skilji ekki hvað sé í gangi, gott innlegg hjá þér Sigurður Hreiðar

Árni þór, 25.8.2009 kl. 12:20

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hárrétt, og þetta kostar ekki neitt! Þegar lán hækkar úr 20 milljónum upp í 25 milljónir, þá "eignast" bankinn 5 milljónir án þess að hafa lagt fram nein verðmæti á móti. Bankinn er þ.a.l. ekki að tapa neinu þó hann afskrifi hækkunina. Til að taka hliðstætt dæmi, ef ég vinn 5 milljónir í lottóinu og gef þær til góðgerðamála (læt þær renna aftur til samfélagsins), þá kostar það mig ekki krónu á heildina litið, nema upphaflega kaupverðið á lottómiðanum.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2009 kl. 13:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rímar alveg við söguna mína hér á blogginu nýlega af manninum sem var á barmi sjálfsmorðs og konan að skilja við hann eftir að hann taldi sig hafa tapað 20 milljónum sem aldrei voru til.

Átti samt enn 10 milljónir, tveimur milljónum meira en hann hátti þegar hann lagði út í fjárfestingarsjónhverfingarnar fyrir áratug.

Ómar Ragnarsson, 25.8.2009 kl. 13:11

5 identicon

Það er talað um afskriftir af því að niðurfelling hluta höfuðstóls er afskrift,  ekki „leiðrétting“. 

 

Hugtakið „leiðrétting“ er notað í áróðri samtaka eins og „Hagsmunasamtaka heimilanna“ af því að það hljómar betur.

Gunnlaugur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 13:35

6 identicon

Gunnlaugur.......

Verðtrygging var sett á til þess að raunvirði lána héldist, gott og blessað, mistökin voru að festa verðtrygginguna við verðlagsvísitölu.  Það hefur sýnt sig og verið margsannað að verðtryggingin hefur leitt til hækkunar á raunvirði lána, ekki síst núna þegar raunverulega er verðhjöðnun í efnagslegu tilliti. 

Lánin hafa því hækkað óeðlilega og þess vegna ekkert "áróðursbragð" að tala um leiðréttingu.

 Hagfræðingar og fleiri eru í raun sammála um þetta atriði.  En afstaða þeirra til leiðréttingar ræðst af því hvar þeir standa sjálfir.   Allt frá því: "ÚPSS..."Við ætluðum ekki að mergsjúga þig en svona eru bara reglurnar".

yfir í:

"Ríkið hefur ekki efni á því að leiðrétta"

Æ fleiri eru þó farnir að segja:

"Höfum við efni á að leiðrétta ekki"

Þórður Magnússon (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:01

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gunnlaugur: ef "leiðrétting" er áróðurshugtak yfir afskriftir, þá hlýtur að sama skapi "verðtrygging" (í núverandi mynd sem á ekkert skylt við hagrænar forsendur) að vera áróðurshugtak yfir eignaupptöku.

Þórður: Ég hef allan tímann hallast að því síðastnefnda: Við höfum ekki efni á því að gera heimilin gjaldþrota í stórum stíl. Leiðréttingin er óhjákvæmileg, spurningin er bara hvort það er vilji til að gera hana með skynsamlegum hætti eða hvort það á leggja þjóðfélagið endanlega í rúst.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2009 kl. 14:16

8 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gunnlaugur Ásgeirsson (IP tala skráð): Höfuðstóllinn var, eins og í dæminu sem ég tók, aldrei nema 20 milljónir. Að hann ryki upp í 50 milljónir var sjónhverfing og þess vegna er þetta leiðrétting en engin afskrift. Bankinn er ekki að tapa neinu sem hann átti -- eða kannski réttara, ekki að tapa neinu sem hann hafði lagt fram. Þess vegna er þetta leiðrétting en áróður að kalla það afskrift -- það hljómar eins og skuldarinn sé að fá einhverja eftirgjöf sem ég vil ekki fallast á þegar málin eru svona í pottinn búin. Þess vegna skulum við tala um þetta sem leiðréttingu, sem það í raun er.

Sigurður Hreiðar, 25.8.2009 kl. 14:19

9 identicon

Ef það á að nota rétt orð, verður þá ekki að nota rétt orð yfir allt? Íbúðareigandinn (á pappírnum) í dæminu þínu tók ekki 20 milljóna króna lán. Hann tók lán upp á 250 þúsund evrur (miðað við að evran hafi kostað 80 krónur). Hann skipti evrunum strax yfir í krónur og þar sem þetta var allt gert í einum banka, þá sá hann aldrei everurnar, en þetta er það sem hann gerði á pappírnum. Ef við reiknum með að lánstíminn hafi verið 20 ár, þá þarf hann að borga 12.500 evrur á ári. Þá er höfuðstóllinn í dag, tveimur árum seinna, 225 þúsund evrur, sem á genginu í dag eru um 41 milljón króna. 20 milljónir króna eru í dag rúmlega 109 þúsund evrur. Ef lánið væri fært niður í þá upphæð, þá þýðir það að bankinn afskrifar 116 þúsund evrur (ca. 21 milljón króna) sem íbúðareigandinn fékk lánaðar en þarf þá ekki að borga. Þetta er engin sjónhverfing, heldur afleiðing þess að taka lán í einni mynt sem maður ætlar síðan að borga í annari mynt.

Svo langar mig til að spyrja einnar spurningar að lokum. Hvað ef gengissveiflan hefði verið í hina áttina? Í staðin fyrir kreppu, hvað ef við byggum nú við enn meira góðæri og evran væri komin niður í 40 krónur? Þá væri höfuðstóll lánsins ekki nema 9 milljónir. Ef bankinn segði að þetta væru "gengissjónhverfingar" og færi fram á að "leiðrétta" lánið aftur upp í upphaflegan höfuðstól, myndu menn sætta sig við það? Það efast ég um. 

Það verður að gera eitthvað til að hjálpa því fólki sem er í vandræðum vegna þessarar kreppu sem engin, hvorki bankar né lántakendur, gat séð fyrir, en það hjálpar engum að vera í einhverjum orðaleik. Þegar banki ákveður að lántakandi þurfi ekki að borga allt sem hann skuldar, þá er það kallað afskrift. 

Kristinn (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 14:56

10 Smámynd: Gunnlaugur Ásgeirsson

Sælir aftur

Þetta er ömurlegt að eigið fé fólks í fasteignum sé að brenna upp þessa dagana.  Á sama hátt var það frábært þegar fasteignaverð hækkaði umfram lánin.

 

Hugmyndafræðin varðandi  „leiðréttingu“ er svolítið skrýtin, en hún virðist vera að samræma skuldafjárhæð og verðmæti eignar, amk að einhverju marki.  Ef eign hækkar í verði miðað við tekin lán verður gróði.   Þannig hefur þetta verið síðustu árin.  Á þá bankinn að geta krafist „leiðréttingar“ (sem væri þá ekki afskrift heldur álag)  og sent látakanda reikning fyrir hluta gróðans?

 

Það eru rök fyrir því að  fella niður hluta af höfuðstói  láns hjá einhverjum, það er afskrift ekki „leiðrétting“.  Köllum hlutina réttum nöfnum.

Gunnlaugur Ásgeirsson, 25.8.2009 kl. 15:12

11 identicon

Jú, leiðrétting á falskri verðbólgu eða leiðrétting á fölskum höfuðstól.

En ekki samræming skuldafjárhæðar og verðmæti. Það er ekki leiðrétting og þeir sem eru hlynntir þeirri leið ættu alls ekki að kalla það leiðréttingu vegna þess að aðgerðin er í sjálfu sér mjög óréttlát og hefur lítið að gera með raunverulegt tap fólk af gengishruninu auk þess að vera með augljósa vankannta eins og þú(Gunnlaugur) nefnir réttilega

 Bankarnir(og Árni Páll) eru hins vegar mest hrifnir af þessari leið vegna þess að með því er hægt að fá fólk sem er tæknilega gjaldþrota til að borga og borga fram í rauðan dauðann.

Hagsmunasamtök Heimilanna hafa ekki að mér vitandi stutt þessa hugmynd.

Þórður Magnússon (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 15:27

12 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir þetta Gunnlaugur. Leiðréttingin er ekki að samræma skuldafjárhæð og verðmæti eignar, ekki eins og ég sé hana. Heldur að haldið sé við þá tölu sem lánuð var og tekin að láni, ekki einhvert töluleik eins og Kristinn er að tala um að taka Evrur að láni, fá þær aldrei og sjá þær aldrei heldur þáverandi jafngildi þeirra. Um það stóð einmitt málið í upphafi, að fá íslensku krónurnar -- hitt var bara sjónhverfing og verður aldrei annað. Þess vegna er umræðan um verðmæti eignar til eða frá, eins og í athugasemdinni frá þér hérna að ofan, því miður bara út í veður og vind.

Það er leiðrétting að halda við þá upphæð sem fengin var að láni. Köllum hlutina réttum nöfnum og tölum um rétta hluti.

Sigurður Hreiðar, 25.8.2009 kl. 15:29

13 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sælir. Ég er sé nú ekki að það skipti öllu máli hvaða nafn er á aðgerðirnar sem um er rætt. Það er alveg ljóst að lánsfjárhæðir eru skrifaðar í lánabækur bankanna og ef á að aflétta skuldum á lántaka þá eru það afskriftir hvort sem þær eru tilkomnar vegna gjaldþrots lántakandans eða vegna leiðréttingar af hálfu yfirvalda. Ég er nokkuð sammála Þórði og Kristni. Það má heldur ekki gleyma því að bankinn tekur lán til að lána út aftur og við erum að súpa seiðið af þeirri gjörð með Icesave, Jöklabréfum og Krónubréfum. Ég tel mig ekki "eftirábetrung" en það var löngu ljóst að samsetning neysluvísitölunnar var bönkunum hagstæð og að mínu mati mjög óeðlileg. Erlend lán hafa alltaf verið áhætta og gat brugðið til beggja vona með þau. Það átti hinsvegar að leiðrétta verðtryggingarviðmiðið strax þegar ljóst var hvert stefndi í júní/júlí 2008  kveðja Kolbrún.

Kolbrún Stefánsdóttir, 25.8.2009 kl. 21:16

14 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Kolbrún -- votta þér samúð mína á erfiðum dögum. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að leiðréttingu eigi að kalla leiðréttingu hvar sem þær eru skrifaðar. Ef lánabækur bankanna eru orðnar rangar vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna er það leiðrétting en ekki afskriftir. Í því tilviki sem ég tiltók hér í upphafi tók bankinn amk. ekki hærra lán til að lána út aftur en sem nam þeirri fjárhæð sem veitt var í upphafi og í þessu dæmi kemur þrennan ógurlega sem þú nefnir ekki við sögu. Erlend lán koma í tilvikinu ekki við sögu nema óbeint -- að því marki sem bankinn tók þau til að halda sjálfum sér gangandi og á ekki að koma niður á viðskiptavinum þeirra sem fengu lán í íslenskum krónum.

Nefnum hlutina réttum nöfnum: leiðrétting er ekkert annað en leiðrétting, hvað sem sjónhverfingum í lánabókum bankanna líður.

Sigurður Hreiðar, 25.8.2009 kl. 22:46

15 Smámynd: Landfari

Sigurður, ég keypti íbúð að mig minnir á 1,4 millur árið 1985. Ég seldi hana í fyrra á 15 millur. Finnst þér sanngjarnt að mér yrði gert að skila þessum mismun að hluta eða öllu leiti vegna þess að það þarf að "leiðrétta" hjá áhættufjárfestum.

Það er mikil áhætta að taka lán miðað við erlenda mynt þegar þú ert með tekjur í íslenskum krónum. Ég þekki nokkra sem eru reyndar búnir að hagnst mikið á því á undanförum árum en haf sumir tapað því öllu aftur, sumir að hluta og einn mun meira en hann hafði hagnast. Allt eftir því hvenær þeir tóku lánið. Hjá verum þeirra viltu "leiðrétta" með afskriftum af höfuðstól? Öllum eða bara þeim sem er búnir að tapa í heildin? 

Guðmundur Ásgeirsson þú ert nu meira en lítið einfaldur ef þú heldur að það kosti bankana ekki krónu að afskrifa höfuðstól að hluta. Bankinn er ekki bara að lána eigið fé heldur að stærstum hluta peninga sem hann tekur að láni og þarf að borga fyrir. Hafi hann tekið lán hjá lífeyrissjóðunum í íslenskum verðtryggðum krónum reynir hann að lána það út í íslenskum verðtryggðum krónum. Hafi hann tekið það í erlendri mynt reynir hann að lána það með viðmið í erlendri mynt. Hvers vegna? Til að lágmarka sína áhættu á gengisþróuninni. Vegna þess hefur það alltaf legið ljóst fyrir að það er áhætta að vera með skuldir í annari mynt en tekjurnar.

Ef bankinn á að afskrifa einhverjar 20 millur af einu láni vegna þess að evran hefur hækkað svo mikið þá leysir það ekki bankann undan þeirri kvöð að greiða þeim sem lánaði honum  jafnmargar evrur til baka og hann fékk lánaðar.

Hitt er svo annað að það eru deildar meiningar hvort þessi erlendu myntkörfulán séu lögleg því það er bannað að lána íslensk lán með verðtryggingu miðað við erlenda mynt. Bankarnir hafa því kallað þetta erlend lán en form þeirra allt bendir til þess að það sé íslenskt. Ef hæstiréttur kemst að því að þessi lán séu ekki lögleg er hætt við að nýju bankarnir rúlli eins og þeir gömlu nema þetta verði útkljáð áður en skilið verður endanlega á milli gömlu og nýju bankanna.

Landfari, 25.8.2009 kl. 23:39

16 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú fyrirgefur, Gunnar minn landfari, en mér finnst þetta hálfgert bull hjá þér. Í fyrsta lagi er ekkert samhengi milli þess að selja íbúð dýrar eftir að hafa átt hana í 20 ár gegnum fjölda verðlagsbreytinga og að hafa tekið lán -- eftir (væntanlega) vandað lánshæfismat -- sem síðan rýkur upp úr öllu valdi vegna atvika sem öllum voru ófyrirsjáanleg -- nema, eins og ég hef margsagt og stend við, einhverjum bráðsnjöllum eftirá-vitringum.

Ef endurreisa á bankana með því að leggja inn í þá skuldara sem fyrirsjáanlega geta ekki og munu ekki borga þær stjarnfræðilegu upphæðir sem sjónhverfingar af því tagi sem blogg mitt fjallar um eru þeir fallnir áður en þeir eru komnir á laggirnar.

Sigurður Hreiðar, 26.8.2009 kl. 10:09

17 Smámynd: Landfari

Ég skil þig Sigurður, verðbætur eru bara vondar þegar maður þarf að borga þær. Þegar maður fær þær eru þær hið besta mál semsagt.

Vandamálið er að þú getur ekki afnumið verðbætur hjá þeim sem borga nema afnema þær líka hjá þeim sem fær þær.

Lífeyrisþegarnir eiga sem sagt bara að lifa á hálfum matarskammti framvegis. Það eru jú þeir sem eru hvað stórtækastir í úlánum á íslenskum krónum. Þeir eiga bara að fá sömu krónutölu til baka og þeir lánuðu og þegar maturinn hefur hækkað um 100% segir það sig nokkuð sjálft að þeir fá bara hálfan skammt fyrir sömu upphæð og þeir fengu fullan skammt áður.

En málið var nú upphaflega að þegar 50 millu krafa "á pappírnum" er færð niður í 20 millur eru 30 millur afkrifaðar en ekki leiðréttar.

Landfari, 26.8.2009 kl. 19:06

18 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Leiðinlegt, landfari góður, þegar menn skilja ekki hlutina. Ef eitthvað er aldrei látið af hendi, hvorki beint né óbeint, er einfaldlega leiðrétting að hætta við að krefja um það sem aldrei var úti látið.

Sigurður Hreiðar, 26.8.2009 kl. 22:58

19 Smámynd: Landfari

Já það getuir verið snúið þegar menn skilja ekki merkingu orðanna. Enn verra er þegar menn vilja breyta merkningu þeirra þó önnur orð sé fyrir hendi sem tákna það sem nýja merkingin á að gera.

Það virðist greinilega fara eitthvað í taugarnar á þér að ef til þess kemur að lán í yfirveðsettu húsnæði almennings verður lagað að greiðslugetu skuldara með afkriftum á höfuðstól beri sú aðgerð sama nafn almenningur hefur mótmælt og hneykslast á að bankastjórnendur og aðrir hafi gert fyrir hvern annan vegna milljarðalána til hlutabréfakaupa.

Eða á þá ekki að kalla það þá leiðréttingu líka? Þar eru lán sem bara hækka en engin verðmæti í dag sem látin voru á móti.

Landfari, 27.8.2009 kl. 18:18

20 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ef landfari læsi nú aftur bloggið sem allur þessi hali kemur út frá sæi hann kannski að þar er hvergi minnst á yfirveðsett hús og niðurfærslu skuldar til að mæta því. Aðeins að höfuðstóll láns sé lagfærður aftur til þess upprunalega var veitt. Það er leiðrétting. Allt umfram það væri afskrift eða niðurfelling, en um það fjallaði bloggið ekki. Vona að það sé ekki mjög snúið að skilja þá merkingu.

Sigurður Hreiðar, 27.8.2009 kl. 18:44

21 Smámynd: Landfari

Þú ert nú einmitt þar að tala um lán til íbúðakaupa sem hækkar úr 20 í 50 millur með veði í íbúð. á sama tíma fer íbúðaverð lækkandi þannig að sennilega í yfir 90% tilfella væri íbúðin orðin yfirveðsett.

Þegar þú talar um að færa höfuðstól aftur til þeirrar tölu sem var á pappírunum þegar lánið var tekið gleymirðu að gera ráð fyrir því að krónan er væntanlega helmingi verðminni núna en þá.

Þetta er að öllum líkindum svokallað myntkörfulán (sem rök hafa verið færð fyrir að séu ólögleg) þannig að höfuðstóllinn í erlendu myntinni hefur væntanlega lítið breyst, en þú vilt fá hann lækkaðann frá þeirri tölu sem upphaflega stóð þar. (Þ.e.a.s. hafi upphæðarinnar verið getið í erlendri mynt sem virðist alls ekki alltaf hafa verið og því mikill vafi á hvort þessi lán séu lögleg á annað borð.)

Landfari, 28.8.2009 kl. 17:11

22 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að sjá, Landfari, að þú ert að þokast til skilnings. Í þessari umræðu -- þó það komi ekki fram einmitt í þessu bloggi -- er ekki talað um verðlækkun á íbúð heldur látinn slagur standa. Myntkörfulán voru aðeins með ímyndaða gengisviðmiðun, þar skipti aldrei neinn gjaldeyrir um hendur. En sanngjarnir skuldarar hafa einmitt talað um að taka þurfi tillit til sanngjarnra verðbóta í samræmi við verðtryggingu eins og seðlabankinn reiknaði hana á sínum tíma. En ég tek undir það með þér, mikill vafi leikur á að myntkörfulánin hafi verið lögleg eða séu það.

Sigurður Hreiðar, 28.8.2009 kl. 22:26

23 Smámynd: Landfari

Ég skil nú ekki alveg hvað það er sem ég er að skilja betur en vonandi veit það bara á gott:)

Þú mótmæltir að þú værir með yfirveðsett hús í dæminu þínu og ég skýrði hvers vegna eðlilegt væri að draga þá ályktun að um yfirveðsetningu væri að ræða.

En það breytir engu um það að lækkun á höfuðstól án greiðslu eru  og hafa verið kallaðar afskriftir. Hvort myntkörfulánin svokölluðu eru lögleg eða ólögleg kemur íslenskri tungu hinsvegar ekkert við.

Landfari, 31.8.2009 kl. 21:21

24 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það sem landfari ekki skilur en ætti þó að vera auðskiljanlegt er að leiðrétting á höfuðstól er annað en lækkun á höfuðstól og þar af leiðandi leiðrétting en ekki afskrift.

Einfalt?

Þar að auki: Ég held ég muni það rétt að ég var ekki með neinar vangaveltur um verðmæti þess sem lánið var veitt út á. 

Svo það er að fara út fyrir málefnið að blanda því í umræðuna.

Sigurður Hreiðar, 1.9.2009 kl. 12:12

25 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Í mínum huga er engin spurning um það hvað kalla eigi hlutina auðvitað er þetta LEIÐRÉTTING en ekki AFSKRIFTIR.  Þegar talað er um afskriftir þá er skuld sem sannarlega var stofnað til og fjármagn skiptir raunverulega um hendur, en þegar er talað  um leiðréttingu þá er átt við að sú skuld sem stofnað var til og hefur margfaldast vegna aðstæðna sem skuldari hefur ekkert með að gera s.s. vegna bankahruns í kjölfar kreppu,  svikulla landráðamanna og gjörspilltra pólítíkusa og þjóða sem nýta sér stærð sína og völd til þess að kúga og drottna yfir grandalausum lántakendum. ÞAÐ ER LEIÐRÉTTING 

Hulda Haraldsdóttir, 1.9.2009 kl. 13:41

26 Smámynd: Landfari

Þetta er nú voðalega mikð deila um keisarans skegg. Þetta hefur hingað til verið kallað afskriftir og í bókhaldi fyrirtækja er til eitthvað sem heitir afskriftareikningur sem er hugsaður til að mæta þeim kröfum sem taldar eru til eigna en ekki er öruggt að innheimtist.

Ég sé ekki hverju menn eru bættar með því að breyta merkingu orða.

Ég held nú Hulda að hinn almenni skuldari beri hvorki meiri né minni ábyrgð á verðbólgunni hvort sem hún er 20% eða 100%. Vandamálið er að við sem skuldarar settum enga fyrirvara um endurskoðun ef verðbólgan færi yfir einhver ákveðin mörk.

Ekki frekar en núverandi ríkistjórn ætlaði að fá Icsave samninginn samþykktan án nokkurra fyrirvara um eitt eða neitt.

Þá lendir maður í að borga, sama hvað gengur á, þangað til maður getur ekki meir.

En Sigurður, ef við gefum okkur að myntkörfulánin séu lögleg (sem er umdeilanlegt) og þú hafir lánað mér í fyrra 100.000.- evrur (gefum okkur að þú hafir verið að safna fyrir bát) því mig langaði svo ósköp í nýjan bíl. Ég lofaði að greiða þér aftur í því sama ásamt einhverjum vöxtum. Nú kemur í ljós að 8 millurnar íslensku sem ég fékk fyrir aurana sem þú lánaðir mér duga bara fyrir hluta af þeim evrum sem ég skulda þér.

Hvað er sanngjarnt í stöðunni? 

1) Að ég greið þér 44.500 evrur sem er nálægt því sem fengist fyrir 8 millur íslenskar í dag? (Þú heldur svo bara áfram að safna til að geta keypt spíttbátinn sem þú hafðir hugsað þér að gera í fyrra fyrir evrurna) Þú "leiðréttir" svo bara höfustólinn, enda voru þetta bara "sjónhverfingar" að þínu áliti. Gallinn er að þrátt fyrir allar sjónhverfingar kostar báturinn sem þú hafðir augastað á enn 100.000.- evrur.

2) Að ég selji ofan af mér íbúðina til að geta önglað saman fyrir 18 millum íslenskum sem ég þarf til að geta greitt þér 100.00.- evrurnar.  Ekki dugar að selja bílinn, auk þess sem enginn markaður er fyrir svoleiðis tæki í dag.

Ég hef sterkan grun um hvað þér findist það eina rétta í stöðunni þó við getum báðir verið sammála um að hvorug leiðin er góð.

Málið er Sigurður að bankarnir (burtséð frá því hvort það voru glæpamenn eða ekki sem stjórnuðu þeim) reyndu að takmarka gengisáhættu sína með því að lána þær verðtryggðu íslensku krónur sem þeir tóku að láni hjá lífeyrirsjóðunum og fleirum aftur út til viðskiptavina sinna í íslenskum verðtryggðum krónum.

Erlend lán sem þeir tóku í stórum (allt of stórum) stíl hjá erlendum bönkum lánuðu þeir sem mest þeir gátu í gengistryggðum lánum. Það gera þeir með því að lána til erlendra fyrirtækja í erlendri mynt og einnig með þessum svokölluðu myntkörfulánum. Þeir sem lánuðu bönkunum vilja fá sínar evrur, dollara yen og hvað þetta heitir nú allt saman til baka. Frá þeirra sjónarhorni haf ekki verið neinar sjónhverfingar. Bankinn sem lánaði milljón evrur vill fá milljón evrur til baka. Ef hann fær þær ekki þarf hann að afskrifa það sem á vantar.

Mér finnst stundum eins og þú fallir í þann pytt Sigurður, eins og Guðmundur Ásgeirsson hér að ofan ásamt mörgum fleirum, að halda að bankinn sé bara að lána peninga sem hann á í handraðanum. Það er bara ekki svo. 90% af því sem bankinn lánar hefur hann sjálfur tekið að láni og þarf að standa skil á til sinna lánadrottna.

Bankarnir bera vissulega sína ábyrgð, en það voru svo margir búnir að græða svo mikið á undanförnum árum á því að vera með þessi umdeildu myntkörfulán í stað verðtryggðu krónunnar ég hlaut að geta grætt á því líka í dæminu hér að ofan.

Þrátt fyrir að ég vissi að það væri umtalsverð áhætta fyrir mig að vera með stóra útgjaldaliði í annari mynt en tekjurnar.

En það bera fleiri ábyrgð en bankarnir þó þeirra hlutur sé náttúrulega stærstur.

Hvað með fasteignasalana. Þegar íbúðaverð var búið að hækka um 100% meðan byggingakostnaður hækkaði um 30% voru þeir enn að tala um eldri verðleiðréttingu. "Ekkert mál, srifaðu bara undir hérna og þá ertu búin að tryggja þér húsið. Ég sel íbúðina þína svo á viku, mesta lagi 10 dögum."

Hvað ætli margir hafi fengið einhverja útgáfu af þessari setning, kanski fyrir ári en 10 dagarnir ekki enn liðnir.

Það sem ég hef verið að reyna að skýra fyrir þér Sigurður (í altof lögnu máli reyndar) að það eru engar sjónhverfingar á bakvið þessar kröfur.

Þegar viðakiptavinur óskar eftir þessu umdeilda myntkörfuláni til að fá lægri vexti með meiri áhættu þá gerir bankinn þær ráðstafanir til að minnka sína gengisáhættu að mæta því með erlendu láni en ekki íslensku. Þegar þú vilt svo eftirá þegar allt er komið í steik leiðrétta erlenda lánið því í ljós er komið að það var mun óhagstæðara þá þarf bankinn að eftir sem áður að greiða þeim sem lánaði honum erlendr myntina í sömu mynt. Það þíðir lítið rétta erlendum banka einhverja fimmþúsundkalla og segja að þetta var jafn verðmætt þegar við tókum lánið.

Það eru engar "barbabrellur" til sem láta skuldir hverfa. Á endanum þarf alltaf einhver að greiða þær. Því miður er það í allt of mörgum tilfellum við skattborgarar.

Landfari, 1.9.2009 kl. 18:31

27 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Að mínu viti hangir þú enn í því, landfari, að lánin hafi verið í gjaldeyri sem þau voru ekki, aðeins viðmiðun þeirra. Þess vegna er leiðrétting til upphaflegs horfs leiðrétting en ekki afskrift.

Um þessa orðanotkun snýst það sem ég var að blogga um, ekki þær sjónhverfingar sem þú sérð fyrir þér.

Sigurður Hreiðar, 1.9.2009 kl. 21:12

28 Smámynd: Landfari

En það er akkúrat málið Sigurður að af því að kúnnin vildi að viðmiðið væri gjaldeyrir (til að fá lægri vexti þó það væri meiri áhætta) þá tekur bankinn erlent lán í sama gjaldeyri til að taka ekki áhættu á gengisbreytingum á móti láninu.

Þó svo að kúnninn sjá aldrei gjaldeyririnn þá er viðmiðið ákveðinn gjaldeyrir og bankinn fjarmagnar lánið til kúnnans með láni erlendis frá í sömu mynt. Það lán þarf bankinn að endurgreiða og þarf til þess mun fleiri íslenskar krónur í dag en hann fékk fyrir erlenda lánið á sínum tíma. Það eru engar sjónhverfingar heldur bláköld staðreynd.

Ef kúnnin hefði viljað hafa viðmiðið vertryggðu krónuna þá hefði bankinn tekið lán í íslenskum krónum á móti því. Bankinn tekur ekkiverðtryggð lán hjá lífeyrirssjóði og lánar til sinna viðskiptavina miðað við gengi annara gjaldmiðla.

Í dæminu sem þú nefndir í byrjun getur bankinn ekki breytt sinni lántöku eftirá þegar í ljós kemur að gengið hríðfellur. Þess vegna getur hann ekki breytt láninu til viðskiptavinarins eftirá.

Bankinn held ég að megi ekki taka þá áhættu sem einstaklingurinn gerir að hafa útgjöldin ekki miðuð við sömu mynt og tekjurnar.

Svo hlýtur nú að fara að styttast í að einhver láti á það reyna fyrir dómstólum  hvort þessi lán séu lögleg.

Landfari, 1.9.2009 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 305906

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband