Færsluflokkur: Dægurmál

Af hverju líkt og?

Af hverju „líkt og“? Hvernig líkist það því sem kom fram í máli Ástu Ragnheiðar? Er það ekki bara nákvæmlega eins? -- Er enska forsetningin like að þvælast hér fyrir? Like I said þýðir ekki líkt og ég sagði, heldur einfaldlega eins og ég sagði.

Enn og aftur sannast hve slöku við sláum við móðurmálskennsluna í skólum landsins, að sæmilega menntað fólk eins og ég vil fá að trúa að blaðamenn mbl séu, kunni ekki skil á því hvað líkist einhverju og hvað er eins og eitthvað.

Leiðrétt villa föstudag kl. 11.25


mbl.is Þingfundum frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugtakaruglingur

Er ekki einhver hugtakaruglingur hér á ferðinni? Ég tók svo til að dómur hæstaréttar hefði fjallað um svonefnd myntkörfulán -- þ.e. lán veitt í íslenskum krónum með verðbindingi við tiltekinn erlendan gjaldeyri.

Hér talar Arion banki hins vegar um lán í erlendri mynt (kallað þar raunar „í erlendum myntum“) en þau skilst mér að dómurinn hafi ekki fjallað um. Sá sem tók t.d. 1000 evrur að láni og fékk þær 100 evrur í hendur skuldar einfaldlega áfram 1000 evrur og það nafnverð er ekkert á leiðinni með að lækka.


mbl.is Stefnir ekki efnahag bankans í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig, Mörður?

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á heimasíðu sinni í dag að eðlilegt sé að verðtrygging verði sett á gengistryggðu lánin.

„Þeir sem þau tóku hagnast verulega (vonandi) miðað við að bera gengisfallið, en geta ekki vænst þess að lánin nánast falli niður – eða með öðrum orðum að að aðrir Íslendingar borgi þau, með auknum sköttum eða minni velferðarþjónustu eða skertum lífeyri.“

Ég sem hef um alllangt skeið talið Mörð með skírari mönnum og með lógískari hugsun. Nú sýnist mér hann snúa byssunni öfugt.

Maður tók 10 milljón króna húsnæðislán á uppgangstíma og þáði að bestu (banka)manna ráði að binda það við svissneskan franka og japanskt jen. Svo varð efnahagshrun og vegna þessarar bindingar fór höfuðstóllinn á pappírum úr 10 milljónum í 20 milljónir. Bankinn lét ekkert meira í té heldur voru þetta bara tölur á pappír.

Svo fellur dómur þess efnis að þessi binding upphæðar höfuðstóls á pappír hafi verið -- og sé -- ólögleg. Samkvæmt því fellur höfuðstóllinn aftur niður í þá upphæð sem samið var um í upphafi. Eina breytingin er breyttar tölur á pappír, breyttar aftur til hins upprunalega forms.

Og hver á þá að borga hinn pappírslega mismun, Mörður? Mismun sem var í rauninni aldrei til nema sem tala á blaði. Hvernig kemur hann inn í velferðarþjónustu eða lífeyri?


Það hefur verið hundur í honum.

Samkvæmt staðarfréttum rak hann beran rassinn framan í vítisenglana en þar er ekkert sagt um að hann hafi sent þeim fingur. Og jarðýtan var samkvæmt sömu heimildum það sem við köllum gjarnan peilóder -- mokstursvél -- en ekki jarðýta. Þann grip hafði piltur tekið traustataki hjá verktökum þar í grenndinni.

En þetta með hvolpgreyið? Það hefur líklega verið einhver hundur í þýska námsmanninum.


mbl.is Kastaði hvolpi í Vítisengla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

G. Narr

Smám saman er maður að jafna sig eftir sveitastjórnakosningarnar og það sem þeim fylgdi. Skringilegt þó ýmislegt væri. Dagur Bergþóruson Eggertsson bísperrtur í beinni þegar sýnt var að flokkur hans í Reykjavík væri að tapa og sagðist hafa fundið fyrir miklum meðbyr í aðdraganda kosninganna. Sá ekki að nú stefndi í bakslag. Og þegar á hæla honum kom Hanna Birna Kristjánsdóttir í sjöunda himni yfir einhverjum úreltum prósentutölum þegar hennar lið stóð sýnilega í bullandi tapi.

Á hvaða plani hugsar þetta fólk? Lifir það á annarri plánetu?

Í einhverri fjölmiðlapælingu á bak kosningunum heyrði ég þá ágiskun að fólk í Reykjavík hefði verið að kjósa móti vinavæðingu. Hmm, hugsaði ég. Hvernig er listi Besta flokksins skipaður? Er hann ekki skipaður vinum Jóns Gnarrs eingöngu? -- Er nokkur rækilegri vinavæðing til?

Svo er kannski vinavæðing kannski ekki það versta né vitlausasta sem til er. Altént myndi ég fyrst leita í vinahópi mínum ef ég væri á hnotskógi eftir samstarfsmönnum. Samt myndi ég ekki láta vináttuna eina ráða heldur huga að því hver væri best til þeirra verka fallinn sem ég hefði handa honum. Og þá skiptir engu hvors kyns vinurinn er heldur réði hæfni hans, kunnátta og færni, að mínu mati. Kynjakvóti per se þykir mér arfavitlaus hugsuns.

En einhvern tíma þarna á kosninganóttina rann það upp fyrir mér að nafn sigurvegarans er líklega rangt skrifað. Það er að segja síðara nafnið. Það á vafalaust að vera G. Narr. Þá verður þetta allt skiljanlegra, altént ef maður hugleiðir merkingu orðsins „narr“ -- til dæmis á dönsku -- reyndar skrifað þar með einu r-i.


Að hefna í héraði

Undarlegt fólk, Reykvíkingar, þessir nærsveitarmenn mínir, ef þeir ætla virkilega að kjósa Georg Bjarnfreðarson fyrir næsta borgarstjóra.

Það er ekki víst að höggið lendi á þeim sem það væri þá ætlað, heldur gæti það lent á kjósendunum sjálfum.

Það er dálítið snöggsoðin hugsun að rugla saman landsmálapólitík og sveitarstjórnarpólitík.

Mér datt í hug sem athugasemd við bloggi hjá öðrum gömul vísa Páls lögmanns Vídalín (uppi á 18. öld) og bæti henni við hér líka:

Kúgaðu fé af kotungi, / svo kveini undan þér almúgi; / þú hefnir þess í héraði, / sem hallaðist á alþingi.

 

 


Hugtakaruglingur

Hver heitir eftir hverjum? Hér er algjör hugtakaruglingur á ferðinni. Stúlkunni hefur verið gefið nafn löngu áður en tæknideild Renault-verksmiðjanna fór að leita að nafni á nýja hugmynd að bíl. Miklu nær væri að segja að bíllinn héti eftir stúlkunni.

Stundum heldur maður að það sé eitthvað bogið við íslenskukunnáttu og íslenskuskilning þeirra sem skrifa fréttir mbl.is


mbl.is Vill ekki heita eftir bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl kona?

Eftir mynd að dæma getur þessi maður ekki verið ráðskona. Kvenmaður í sama embætti gæti hins vegar verið ráðsmaður. Konur eru líka menn, en karlar eru ekki líka konur. Ekki svona almennt séð, amk.
mbl.is Fagna kynjagreiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loppin fréttamennska

Um daginn týndist gamall maður breskur, búsettur á Spáni, gestur á Íslandi. Hann þjáðist af öndunarsjúkdómi skv. fréttum, hafði gist um stundarsakir í húsbíl á Háaleitisbraut í Reykjavík og er sagður hafa ætlað að skreppa og ná sér í lausa aura í hraðbanka. Fannst daginn eftir látinn á floti í Hafnarfjarðarhöfn.

Þessari frétt hefur ekkert verið fylgt eftir, svo ég hafi tekið eftir. Hver var dánarorsök hans? Hvernig komst hann til Hafnarfjarðar? Kannast einhver leigbílstjóri við að hafa ekið honum þangað? Einhver strætóbílstjóri við að hafa haft hann fyrir farþega? Hvar liggur beinast við að taka Hafnarfjarðarstrætó frá Háaleitisbraut? Tók hann einhvern tíma út peningana? Var hann með þá á sér þegar hann fannst? Var hann með bankakortið á sér (kredit eða debet)? Ef ekki, hefur verið reynt að nota kortið eftir þann tíma sem maðurinn hugsanlega var með það í grennd við Háaleitisbrautina? Fleiri spurningar af þessu tagi væri hægt að hafa uppi og hér með er kallað eftir svörum.

Mér finnst afleitt að fréttir deyi bara út með þessum hætti. Hefði varla gerst hefði maðurinn verið íslenskur ríkisborgari.

Það er kannski ekki hægt að segja að þetta sé slæm fréttamennska, eins og er svo vinsælt að staðhæfa nú til dags. En það er óhætt að segja að þetta sé loppin fréttamennska.


Herralager – líka fyrir konur

 Ég eins og kannski fleiri heyri í útvarpi af því það er í gangi -- ekki að það sé í gangi af því hafi einbeittan vilja til að hlusta á það. Ég er kannski í einhverjum snúningum og heyri glefsu af þessu og hinu eftir því hvernig stendur á bílferðum. Mér finnst galli að útvarpsfólk kynnir oft ekki nema í upphafi eða svo viðmælendur sína þannig að þeir sem fara að leggja við hlustir á seinni stigum vita ekkert við hvern er verið að tala, jafnvel þó það væri áhugavert, eða nákvæmlega hvað er verið að tala um. Nýlegt dæmi: verið var að tala um sýningu á myndum frá hernámsárunum á Íslandi, sem mér þykir forvitnileg, en viðmælendur voru kvaddir án þess að ég vesalingurinn á leið á næsta áfangastað fengi að vita hvar í húsi þessi sýning væri.

Svo eru þessar skondnu auglýsingar. Eitt dæmi núna rétt áðan. Eitthvað á þessa leið: Herralagerinn í bláu húsunum. Líka fyrir konur. -- Þetta finnst mér alltaf jafn skondið. Ég hefði haldið að herralager hlyti að vera fyrst og fremst fyrir konur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband