Færsluflokkur: Dægurmál

Slétt sama um rassgöt

Aldeilis þótti mér gaman að sjá að Þórunn fyrrum sveitungi minn baðst afsökunar á að hafa -- óafvitandi í útsendingu útvarps (eða sjónvarps?) -- beðið fyrir þau skilaboð til frænda einhvers að hann skyldi hoppa upp í rassgatið á sér -- hvað svo sem það þýðir.

Hef svo sem ekki orðið var við að nokkur hafi amast við því að Þórunn skyldi kunna heiti á þessu líkamsopi.

Öðru vísi var moldviðrið sem þeyttist upp úr pennum og kjöftum svokallaðra feminista þegar annar maður í pólitískri stöðu varð upp vís að því að nota hugsanlegt heiti annars líkamsops, á svipuðum líkamlegum slóðum, í persónulegri sendingu sem heldur hefði ekki átt að komast út á milli manna, frekar en strákslegt orðalag Þórunnar -- sem mér finnst hún svo sem ekkert þurfa að skammast sín fyrir.

En feministum er sjálfsagt slétt sama um rassgöt.


Mannamat stjórnarflokkanna annað en almennings

Ef sannar reynast flugufréttir af stólahrókeringum innan ríkisstjórnarinnar, að Árni Páll verði settur á en Ragna látin hætta, er ljóst að mannamat innan stjórnarflokkanna er annað en almennings.
mbl.is Þingflokkar funda í allan dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhvern veginn finnst mér…

Einhvern veginn finnst mér að

þessa stærstu skepnu jarðarinnar hafi rekið á fjöru

ekki að hún hafi rekið neitt a fjöru

og einnig finnst mér að þessi kona sem tók úr henni sýni og af henni mál hljóti að hafa verið af tegundinni maður og eiga því skilið að kallast starfsMAÐUR Hafrannsóknarstofnunar.


mbl.is Margir skoða skepnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki alls staðar kallaðir á teppið

Án þess að hafa neinar upplýsingar handbærar þar um grunar mig að þessir erlendu ferðamenn hafi verið danskir, þýskir, franskir, belgískir, hollenskir, eða ítalskir, jafnvel breskir.

Í þeirra heimalöndum er lögreglan almennt ekkert að skipta sér af því þó farið sé nokkuð fram yfir skilgreindan hámarkshraða í dreifbýli, þegar umferð er lítil og veðurskilyrði góð.

Lögreglustjóri í ákveðnu skíri í Mið-Englandi sagði mér einu sinni í spjalli að lögregluþjónar þar í landi hefðu það á sínu valdi að ákveða hvort akstur væri glannalegur, þó hann væri yfir tilteknum hámarkshraða.

Þetta sagði hann mér sem sessunautur minn í kvöldverðarboði, þegar ég sagði honum frá því að þá um morgunin hefði ég farið á 25 mílum yfir hámarkshraða gegnum radarmælingu lögreglunnar og látinn óáreittur.

Hér á landi veit ég til þess að lögreglumenn hafa verið kallaðir inn á teppið af því þeir hafi ekki skilað inn nægilega mörgum sektum fyrir „hraðakstur“.


mbl.is Erlendir ökumenn að flýta sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á um hlandforarhneykslið

Grunur leikur á um -- eitthvað, heyrðist mér ég heyra í útvarpi á dögunum, trúði ekki að fréttamenn helsta miðils þjóðarinnar allrar tækju svo fáránlega til orða. En svo heyrði ég þetta aftur í hádeginu í dag og nú voru með mér nokkur vitni sem líka urðu öldungis hlessa. Þá var verið að tala um hlandforarhneykslið í Kárastaðalandi.

Þarna er þessu „um“ algerlega ofaukið. Grunur leikur á einhverju. Grunur leikur á að starfsmenn Stífluþjónustunnar hafi bunað hlandfor þar sem það er alls óleyfilegt. Grunur um eitthvað er allt annað orðalag og allt öðru vísi notað. Uppi er grunur um að -- og svo hvað það er. Á um gengur ekki saman. Amk. ekki í þessu samhengi.

Hvernig væri að kunnáttumenn færu yfir texta t.d. hádegisfrétta eða kvöldfrétta með fréttamönnum RÚV -- og létu þá helst finna sjálfa það sem aðfinnsluvert er? Eða er umburðarlyndið í hlutfalli við peningaleysi stofnunarinnar?


Landslög og -- Waagelög?

Þar höfum við það. að mati þessa klerks, sem mér hefur um margt fundist hinn mætasti maður og ágætlega sögufróður, eiga að gilda tvenn lög í þessu landi. Landslög -- og hvað gætu hin heitað? Saríalög er víst upptekið orð. Kannski gætu þessi heitað Waagelög -- guðs lög eru þau ekki.
mbl.is Þagnarskyldan er algjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af rakvélaraunum

Stundum hef ég lofað skeggi mínu að vaxa nokkurn veginn sem því þóknast þó aldrei hafi það náð mér niður á miðja bringu eins og honum afa mínum forðum. Þessi skeggræktun mín hefur ekki stafað af letinni einni heldur hef ég átt við ýmisskonar skegg– eða kannski væri réttara að segja rakstrar– vandamál að etja og vandamál í granstæðinu (enn munu þeir menn uppi sem skilja þetta orð!).

Meðal annars hefur skeggstæði mitt verið vandfýsið á þau áhöld sem notuð hafa verið til að skrapa það. Rafmagnsrakvélar með hjólum sem snúast hef ég aldrei getað notað og heldur ekki nema sumar gerðir af þeim sem eru með kamba til rakstrar; leiðist afturámóti heilmikið að skafa mig með sápu og handrakvél þó ég láti mig sosum hafa það þegar þannig stendur á snúningi.

Fyrir rúmum 13 árum áskotnaðist mér rafmagnsrakvél af gerðinni Braun. Hún er orðin svo máð og slitin að ég get ekki lengur lesið týpunúmerið, en það byrjar á 4 og endar á fimm einum fjórum eða fimm stöfum síðar. Á þessum tíma hef ég líklega þrisvar sinnum keypt á hana nýjan haus en henni er á ýmsum öðrum sviðum farið heldur að förlast, á tam. til að slökkva á sér í miðjum rakstri sem er helvíti sárt. 

Ég ætlaði því að rausnast við að leysa greyið af hólmi og fór í þar til gerða búð að skoða hvað væri í boði. Best leist mér á vél með einum kambi af gerðinni Panasonic, keypti hana og fór með heim. Þótti gaman að nota hana og gott, gat mas. rakað mig meðan ég horfði á sjónvarpsfréttirnar. 

En Adam var ekki lengi í Paradís með Panasonicinn. Á fjórða degi datt hausinn í tvennt. Ég fór með gripinn aftur til seljanda en eftir nokkrar þreifingar kom í ljós varahlutur var ekki til og varan var endurgreidd án frekari málalenginga.  Við nánari skoðun kom í ljós að þetta hafði verið síðasti gripur sinnar gerðar í höndlaninni svo ég splæsti í aðra Panasonic, nú tveggja kamba, þó hún væri nokkru dýrari.

Er nú ekki að orðlengja það að sá gripur varð mér ekki til fagnaðar. Og þegar ég hafði að mínum dómi reynt til þrautar og ekki náð líkamlegu eða vitrænu sambandi við greyið og vikan var á enda nýtti ég mér 30 daga skilaréttinn og skilaði apparatinu gegn staðgreiddri endurgreiðslu. Og hef tekið mína gömlu Braun í gagnið aftur, enda virðist Panasonic með einum kambi hvergi vera til þar sem leið mín hefur legið.


Glasið á þúsundkall

Sá einhvers staðar klausu um að fjáðir ferðamenn hækkuðu verðlag á ýmsu hér hjá okkur, vörum og þjónustu. ég er ekki viss um að þetta sé rétt heldur mun það vera græðgi þeirra sem selja sem veldur þessari hækkun -- og vissan um að það sé ærinn spölur til næsta keppinautar.

Ég hef ekki víða farið í sumar. Sá sem á hús sem stendur á 2000 fermetra lóð, sem er eins og minibúgarður, á ekki mikið heimangengt. Þó skruppum við hjón í dálitla skemmtiferð snemma sumars og gistum á auglýstum gististað úti á landi. Það var ágætis gisting en maturinn kannski ekki nógu góður miðað við verð. Þó var það einkum fljótandi veitingar sem okkur ofbauð verðið á. Glas af óskilgreindu rauðvíni á þúsundkall, eða dolla af bjór á þúsundkall.

Þetta kalla ég græðgi.


Stunda … hvað?

Enn einu sinni hlýt ég að undrast hvernig þeir sem stunda það að skrifa um kynlíf nota sögnina að stunda. Hvað þýðir hún? Jú, hún þýðir að gera eitthvað aftur og aftur, iðka eitthvað að staðaldri. Til að stunda mök þarf að hafa mök síendurtekið -- kannski ekki 104 sinnum á mánuði en kannski eitthvað í áttina.

Fólk stundar ekki eitthvað sem það gerir kannski einu sinni í mánuði eða á misseri. Þeir sem gera dodo svo sjaldan stunda ekki mök þó þeir séu kannski ekki alveg náttúrulausir. Þeir iðka kynlíf svona við og við, þegar það liggur vel við. 

Þar að auki í samhengi við þessa arfavitlausu frétt: hvert barn kemur ekki undir nema í eitt skipti.


mbl.is Meðalparið þarf 104 skipti til óléttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndatökur á almannafæri eða brot á friðhelginni?

Nýlega var á pressunnipunkturis og kannski víðar sagt frá manni sem í grandaleysi var að taka myndir í Reykjavíkurborg þegar þrjár dömur, sem töldu sig hafa lent inni á mynd hjá honum, réðust að honum og heimtuðu að hann eyddi myndinni, hann hefði tekið af þeim mynd í heimildarleysi og þar með ráðist inn í friðhelgi einkalífs þeirra.

Úr þessu urðu slagsmál sem mannauminginn með myndavélina fór illa út úr, því dólgar nokkrir sem gáfu sig út fyrir að vera þá riddara að bjarga mannorði þessara „damsels in distress“ léku hann grátt sér til skemmtunar.

Ekki veit ég um lyktir þessa máls, hafi þær einhverjar verið. En ég hef lifað í þeirri trú að manni sé heimilt að taka ljósmyndir hvar sem er á almannafæri, brjóti það ekki í bága við almannaheill, og það komi friðhelgi einkalífs manna ekkert við ef þeir eru af tilviljun á þessu almannafæri.

Man eftir því þegar ég var að byrja í blaðamennsku fyrir margt löngu að ég birti mynd af sérlega fallegum gluggatjöldum sem héngu fyrir glugga sem ég átti stundum leið hjá -- glugginn var sneri sem sagt út að almannafæri. Konan sem átti gluggann eða amk gluggatjöldin, varð æf yfir þessu þó ég segði engum hvar glugga hennar væri að finna, hringdi í mig og ritstjóra blaðsins og hótaði okkur afarkostum eða við greiddum henni skaðabætur ella. Við báðum hana endilega að fara í mál því glugginn hennar væri á almannafæri og því öllum heimill að horfa á og jafnvel taka mynd af. Heyrðum svo ekki af því meir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband