RÚV í síðastaleik?

Undarleg sú áhersla sem fjölmiðlar leggja á frásagnir af misjafnlega lítið áhugaverðu íþróttabrölti. Í fréttum RÚV -- já, mér finnst þetta ágætis skammstöfun og er alveg til í að nota hana -- er þessu jafnan skeytt sem viðhengi við fréttir og maður situr undir þessu grandalaus og hefur ekki döngun til að spretta upp og slökkva á útvarpinu þó ýmislegt fari í taugarnar á mér, sosum eins og lestrarmáti eins íþrótta„frétta“mannsins sem hefur fyrir sið að hnykkja sérstaklega á síðasta orði flestra MÁLSGREINA! Þið vitið: skoraði markið úr VÍTI! „leikur á MORGUN! og annað eftir þessu.

En stundum saknar maður þess að hafa ekki hlustað í alvöru. Núna rétt áðan var þetta að ganga yfir. Ég heyrði ekki betur en „frétta“ maðurinn væri að tala um eitthvað sem gerðist í síðastaleik.

Og ég sem hélt að síðastaleikur hefur dáið út með minni barnaskólakynslóð, rétt eins og stórfiskaleikur og kýlubolti. Jafnvel sto.


Asláttur eða lagfæring?

Svigrúm vegna afsláttar er eitt. Lagfæring sem raunverulegur mismunur lánsupphæðar og þess sem rukkað er um er annað. Afslátt ættu bankarnir að gefa í einhverju samræmi/hlutfalli við það sem þeir raunverulega keyptu skuldakröfurnar á. Fyrst ættu þeir þó að færa lánsupphæðir/höfuðstól lána niður til samræmis við þá upphæð/höfuðstól sem í raun var lánaður.
mbl.is Loksins upplýst um afslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í gegnum hurðina

Um helgina kom ég í snoturt safn í sjávarplássi við suðurströndina. Að greiddum aðgangseyri sagði blómarósin í afgreiðslunni: „Þið farið svo bara þarna í gegnum hurðina.“ Og benti á hurð sem lokaði dyrum á veggnum framundan.

Það var akkúrat. Þegar Jónas Jónasson útvarpsmaður sá ömmu sína koma í gegnum hurð einhvern tíma þegar hann var snáði var það í bókstaflegri merkingu. Og hún framliðin. Við í hópnum sem tilheyrði þarna á safninu voru ekki framliðin og urðum því að ljúka upp dyrunum til að komast inn. Við gátum ekki einu sinni opnað hurðina. Hún var rammger. Því síður gátum við lokað hurðinni á eftir okkur. Þurftum þess ekki einu sinni. En við gátum lokað dyrunum. Með hurðinni.

Við getum líka horft í gegnum rúður. En við getum engu fleygt í gegnum rúður. Né heldur rekið handlegginn út í gegnum rúðu -- eða guð forði okkur frá því slysi. Samt heyrum við þetta iðulega.

-- Eigum við ekki aðeins að hugsa hvað það þýðir sem við segjum?


Í Sirt á pors í lívæsbuxum?

Austur í Líbíu eru þeir að berjast og fara mikinn. Ekki síst í borg sem heitir víst Sirte.

Ekki veit ég hvernig nafn þessarar borgar er borið fram á máli þarlendra. En allt í einu eru þulir íslenskra fréttamiðla farnir að bera þetta fram sem Sirt. Ætli það sé rétt? Eða gætir hér áhrifa engilsaxnesku?

Um tíma framleiddi Renault strumpastrætó sem hét Espace. Á máli heimamanna, Frakka, Espas. Hérlendir menn vildu endilega kalla þennan bíl Espeis. Þjóðverjar framleiða bíl sem heitir Porsche. Á máli þarlendra Porsé. Hér eru menn að burðast við að kalla þennan bíl Pors. Sem er ekki einu sinni enska. Á sínum tíma flutti Austurríkismaðurinn Levy Strauss (Leví Stráss) til Ameríku og fór að sauma þar gallabuxur sem kenndar voru við hann og kallaðar buxurnar frá Levy. Nema hvað Kanar breyttu framburðinum til nándar við það mál sem þeim var tamast og kölluðu Leví gamla Lívæ. Eigum við þess vegna að kalla buxurnar hans Lívæs buxur? Væri ekki réttara að kalla þær Levís buxur? Bretar kalla ríkisútvarpið sitt Bíbísí eftir skammstöfuninni BBC. Furðu margir hérlendir hafa þó haft burði til að fara með heiti þessara stafa á íslensku og kalla það Bébésé. Húrra fyrir því. --

Ef ég skrepp í bæinn fer ég í báðum leiðum framhjá draugahöll sem á stendur stórum stöfum Bauhaus. Þetta orð mun vera þýskt að uppruna og kallast í munni þarlendra báhás. Er eitthvert vit að ég og aðrir sem þarna fara fram hjá séum að eltast við það? Megum við ekki bara kalla það bauhaus með íslenskum framburði?


Leitað eftir viti

Getur einhver skýrt fyrir mér af skynsamlegu viti hvernig við getum tekið og farið að nota gjaldmiðil einhverrar annarrar þjóðar án þess að hann tengist og styðjist við hagkerfi okkar þjóðar og byggi á því?
mbl.is Raunsætt að horfa á krónu í höftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um misþyrmingu málsins

Nú fjargviðrast bloggheimar -- þar með talin fésbók sem er eins konar ör-blogg -- yfir bögumælum kvenkyns þingmanns sem eftir því sem eftir henni er haft er gengin í björg=steina. En þetta er bara sýnishorn af því sem koma skal eftir því sem þinglið yngist. Hlustiði bara á útvarpið (og þá meina ég auðvitað Rás 1 á Ríkisútvarpinu, það er eina útvarpið sem hlustandi er á). Þar ríður hver ambagan annarri, röng orðanotkun og ensk hugsun snúin til íslenskra orða. Alltof oft heyrir maður þetta í þáttum sem sérfræðingar einhverra greina hugsa um; mér hefur tam. stundum orðið illt í eyrunum af að hlusta á misþyrmingu málsins í þáttum sem fjalla um bókmenntir (þó ég muni ekki dæmi á stundinni, ég er víst ekki nógu langrækinn) og hefði þó haldið að það stæði bókmenntafræðingum nærri að kunna með íslenska tungu að fara.

Í morgun var maður að tala um myndlist, að ég held, hlustaði bara á upphafið. Hann kom með skemmtilega myndlíkingu af því að sitja undir stýri á bíl og „aka niður götuna“. Án þess að nokkur skilgreining væri á bratta vegarins að öðru leyti. Hann talaði líka um einhvern sem var heltekinn af einhverju, þó ekkert annað benti til að viðkomandi hefði verið eða væri dauðvona. Menn rugla vilt og galið saman því að vera heltekinn=dauðvona og að vera altekinn=gagntekinn. Þetta var nóg til þess að ég fór að gera annað og hætti að hlusta á þáttinn, sem fyrir utan vonda notkun íslensks mál virtist hafa beinin til að geta orðið skemmtilegur. 

Í guðanna bænum, fólk! Leyfið ykkur að dvelja við orðin sem þið ætlið að nota og leggja niður fyrir ykkur hver merking þeirra er, eða uppruni orðtaka. Annars fer fyrir ykkur eins og konunni sem ætlaði að stinga höfðinu í steininn eða manninum sem hafði farið ofan í hvern krummaskurð í leit sinni að myndefni.

Leiðrétt vegna sláttuvillu kl. 15.20þ


Augu skynseminnar

Ef ég man rétt var það einmitt þetta sem þessum pilti var sagt þegar hann var nýorðinn ráðherra og vissi ekki enn sitt rjúkandi ráð. Það hefur tekið hann á þriðja ár að átta sig. En batnandi manni er best að lifa og því ber að fagna ef ÁPÁ hafa loksins opnast augu skynseminnar.
mbl.is Vill afskrifa meira en minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallbeygingar af lagðar?

Hafa fallbeygingar í íslensku máli verið aflagðar á mbl.is? Samnber fyrsta orð meðfylgjandi fréttar.

Nú, klukkan 22.38, sé ég að beygingarvillan hefur verið lagfærð. Hefði þó mátt fyrr vera. En batnandi manni er best að lifa.


mbl.is Stal 160 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný afsökun

Þeir hjá Astraeus Air (= Iceland Express) hafa ekki enn notað þessa afsökun.

Og komnir einir þrír dagar síðan mbl.is hefur fundið eitthvað athugavert við Iceland Express. Þá er alltaf gott að geta gripið til SAS.


mbl.is Flugmaðurinn var fullur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tittlingaskítur

Það er eiginlega ekki alveg normalt hvað mbl.is leitar uppi allt sem hægt er að gera til að ófrægja Iceland Express (sem ég kýs raunar að kalla Iceland Compress miðað við þrengsli milli sætaraða). Eða hvað þolinmæði fólks gagnvart óvæntum uppákomum er gersamlega komin niður í núll. Ég hélt nú að „eldri borgarar“ ættu kannski margir hverjir að muna tímana tvenna í lélegri þjónustu í flugi. Í sjálfu sér sýnist mér hér sé einkum verið að tala um tittlingaskít. En gremst að blaðafulltrúinn skuli leyfa sér að tala um IE sem flugfélag. Treystir hann sér til að standa við það?
mbl.is Óánægja með tafir hjá IE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 305941

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband