Færsluflokkur: Bloggar

Húrra fyrir Rás 1 og veðurstofunni1

Get ekki á mér setið að hrósa Rás 1 og Veðurstofu Íslands fyrir að leyfa manni sem virðist ekki eiga íslensku að móðurmáli að lesa veðurfréttir -- og það í hádegisútvarpi!

Ég heyrði því miður ekki nafn þessa ágæta manns, sem mér virtist vera kvenkyns, en sperrti eyrun. Venjulega fara veðurfréttir meira og minna ofan garðs og neðan hjá mér, en þarna naut ég þess að hlusta á hvert orð, með yndislegu skrolli, sem því miður er að mestu eða öllu búið að rækta úr innfæddum. Skemmti mér við að geta mér til um upprunaþjóðerni -- af því ég kom og seint að tækinu til að heyra kynninguna -- er það danskt? Nei, líklega frekar þýskt. Gæti verið belgískt -- eru Belgar ekki líka með kokerr?

En sem sagt -- meira svona. Fáum að heyra í síðkomnum Íslendingum (nýbúi er hálf ljótt orð) -- leyfum þeim að spreyta sig á okkur. Það hlýtur að efla samkenndina.


Aldarminning – var þetta stílbrot?

Á dögunum fór breiðfylking fornbíla Kóngsveginn svokallaða – gamla Þingvallaveginn, þann sem lagður var til þess að konungur Íslands og Danmerkur kæmist þægilega frá Reykjavík til Þingvalla. Þangað átti að aka honum í völdum hestvagni.

 

Ef ég man söguna rétt var Kóngsvegurinn þó aldrei notaður undir kónginn, því hann vildi heldur fara ríðandi á hvítum fáki heldur en hossast í vagni.

 

Nema hann hafði hleypt þeim hvíta (voru ekki hvítir hestar annars kallaðir gráir hér fyrr á árum?) á þessum blessuðum vegi?

 

En var það eindregið stílbrot að minnast aldarafmælis Kóngsvegarins með langfylkingu farartækja sem ekki voru til hér þegar hann var lagður? Hefði ekki verið nær að fara með röð hestvagna/léttikerra? Eða bara ríðandi?

 

Sumarið 1907 voru aðeins tveir bílar til í landinu, Grundarbíllinn sem kom í Eyjafjörð þetta sumar og kom því ekki til greina á Kóngsveginum, svo og Thomsensbíllinn svokallaði sem til var í Reykjavík. Reynt hafði verið að nota hann eitthvað lítilsháttar tvö sumur, 1904 og 1905, en þegar hér var komið sögu hafði honum endanlega verið lagt við lítinn orðstír.

 

Nema það hafi einmitt verið þetta sumar sem börn í Reykjavík höfðu sér til skemmtunar að draga hann upp Arnarhólsbrekkuna (Hverfisgötu sunnan Arnarhóls) og láta hann svo húrra niður aftur – án þess vitanlega að reyna að setja í gang.

 

Þetta endaði með að krakkarnir hittu ekki á brúna við brekkufótinn í einni salíbununni og bíllinn húrraði ofan í rottulækinn (sem einhverjir hafa nú látið sér detta í hug að opna aftur, sennilega til að auðga lífið í miðborginni). Það mun hafa verið hans síðasta för á hjólunum, að minnsta kosti hér á landi. En eins og kunnugt er var honum skipað út til Danmerkur aftur árið 1908 og bílar ekki reyndir hér aftur fyrr en hálfum áratug síðar.

 

Hitt verður þó að meta við lagningu Kóngsvegarins að þegar nothæfir bílar loks bárust til landsins árið 1913 var til vegur sem notast mátti við til að komast á bíl til Þingvalla.


Tilkynni hr. höfuðsmaður

Tilkynni, hr. höfuðsmaður

Þannig hóf góði dátinn Svæk gjarnan orðræður sínar þar sem hann kom á vettvang. Ég geri mér nú þetta ávarp að mínu þegar ég kem í fyrsta sinn inn sem bloggari.

Tilkynni hr. höfuðsmaður – ég ætla að vera með.

Tek fram, til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að í mínum huga eru konur líka menn, þannig að kona getur allt eins verið höfuðsmaður.

Hins vegar getur karl ekki orðið kona nema eftir heilmikinn og örugglega erfiðan prósess.

Ég hef nú um skeið fylgst talsvert með bloggi, ekki síst út frá moggablogginu. Ærið er það nú misjafnt, en hafa komið býsna góðir sprettir og lægðir séu þar inn á milli.

Hvers vegna er ég þá að ryðjast inn á völlinn?

Einhvern tíma var eftir einhverjum haft: Þegar aðrir þenja kjaft, þá vil ég fá að tala líka. Mig minnir að það hafi verið minn góði vinur, kennari og samstarfsmaðu Snorri á Hvassafelli (raunar löngu fluttur í Borgarnes) sem kenndi mér þetta. En það er eins og talað út úr mínu hjarta.

Ætla má að ég muni fyrst og fremst spjalla um það sem mér hefur verið hvað hugleiknast. Nefni þar bíla og umferðarmálefni (lítið kannski um mótorhjól, það eru ekki tæki að mínu skapi). Nefni líka íslenskt mál og meðferð þess. Kannski líka eitt og annað um útiveru og veðurfar – bara þetta almenna basl sem maður verður að stauta við á langri leið. Og segja sögur, ef þannig stendur á snúningi.

Ég geri mér ljóst að þetta getur orðið skrykkjótt – eins og mér sýnist raunar að það sé hjá mörgum. Stundum tvö þrjú blogg á dag, stundum eyður upp á nokkrar vikur. Það er rökrétt. Stundum flóir yfir, en það er líka tilgangslaust að kreista tóma skjóðu.

Markmiðið hlýtur að vera hjá mér eins og öðrum bloggurum að hafa áhrif á samfélagið – með öðrum orðum, láta ljós mitt skína.

Megi því auðnast að bregða birtu á lífið.

 

 


Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 305893

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband