2.6.2008 | 11:08
Að láta féfletta sig án þess að drepa tittling
Að þessu sinni ætla ég að sýna ykkur dæmi um löglegt rán um hábjartan dag -- og hvernig maður lætur féfletta sig án þess að drepa tittling.
Fyrir nokkrum árum endurnýjaði ég vélorf (sem sumir kalla sláttuorf en getur einhver nefnt mér dæmi um orf sem ekki er ætlað til að slá með? Vélknúið eða ekki!) og lét þá ráða að fá mér létt orf og meðfærilegt, hafði áður átt annað þungt og frekar stirðbusalegt.
Þegar ég ætlaði að fara að nota það um daginn kom í ljós að plast-tútta á blöndungnum, sem á að vera til að ausa bensíni inn í brennsluhólfið svo apparatið fari frekar í gang, var ónýt -- rétti sig ekki þegar hún hafði verið kreist.
Ég fór náttúrlega til að ná mér í nýja túttu, í umboðið þar sem ég keypti gripinn í upphafi. Jú, hún var til -- og kostaði 1114 krónur! -- Fyrir þetta smáræði, sem rétt hylur á manni litlafingursnöglina!
Ef þetta er ekki rán er það að minnsta kosti okur! Þið sem eigið eftir að kaupa vélorf eða annað sambærilegt, hvernig væri að huga að viðhaldskostnaðinum áður en kaupin verða gerð?
Ég mun amk. hugsa mig rækilega um áður en ég kaupi nokkuð fleira hjá Þór hf. í Ármúlanum. Og ef orfskrattinn bilar aftur ætla ég að hugleiða að kaupa heldur nýtt orf heldur en láta féfletta mig svona.
Hér kemur mynd af fyrirbærinu. Orfinu með ónýtu túttuna (sem skv. reikningi heitir Primer takki) og nýja túttan fremst á litla fingri mínum:
Og reikningurinn með, því það er ekki von að þið trúið mér!
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 306295
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já þetta er óneitanlega nokkuð dýrt fyrir svona ómerkilegt stykki.
En óháð því þá á ég reyndar nákvæmlega eins svona sláttuorf sem ég keypti í Þór á Akureyri af Pálma fyrrverandi bónda á Barká, árið 1995. Og það hefur ekkert bilað þó ég hafi notað það á hverju sumri síðan. Reyndar ekki mikið notað en þó nokkrum sinnum á hverju sumri.
Ég er alltaf jafnhissa þegar það hrekkur í gang á vorin þegar ég er búinn að setja nýtt bensín á það. Þessi fuel primer hefur alveg dugað hjá mér enda hef ég ekkert gert við orfið, ekki einusinni skipt um kerti.
Svo ég reikna með að orfið dugi þér í mörg ár eftir að þú ert búinn að laga það
Walter Ehrat, 2.6.2008 kl. 14:21
Þú ert heppinn, Walter, að þurfa ekki að kaupa varahluti í gripinn.
Að mínu viti er þetta vélorf. Sláttuorf væri jafnvel frekar þetta sem maður setti ljá í í gamla daga. Vildi óska að ég ætti slíkan grip -- ljáinn á ég!
Sigurður Hreiðar, 2.6.2008 kl. 15:11
Dýrt er drottins orðið, þykir mér. Ef þú þyrftir að kaupa annan svona örlítin varahlut á vélorfið þitt þá værir þú kominn með heildarverðið sem ég borgaði fyrir mitt litla sláttuprik, eða nálægt 20 pundum. Þetta verð nær ekki nokkurri átt.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.6.2008 kl. 20:20
Ég er sammála að þetta er mikill peningur fyrir lítinn hlut. En hefurðu spáð í hvað það hefði kostað þig ef þeir hefðu ekki átt þetta til. Akstur á annan staða að leita að varhlut eða nýju orfi. Fljótt að koma í þúsund kallinn í vinnutapi. Nema þú sért á eftirlaunum eða í aðstöðu til að "skreppa" í vinnunni.
Svo er það hinn handleggurinn, hvað kostar að liggja með alla mögulega og ómögulega varahluti í allar þessar tegundir sem eru hér á markaðnum.
Gæti alveg trúað því að bara vinnan sem liggur í því að panta, tollklára skrá, verðútreikna og svo að telja um áramót að ógleymdri sjálfri afgreiðslunni kosti meira en þúsund kall þegar allt er talið. Þannig að sennilega er þetta stykki niðurgreitt af dýrari varhlutum. Svo má náttúrulega ekki gleyma að búðin fær innan við 900 kr af þessu en Árni fær restina í samfélagsþjónustuna.
Landfari, 2.6.2008 kl. 23:11
Manni verður hugsað til Hafliða alls!
Beturvitringur, 3.6.2008 kl. 00:58
Það fæst nú ekki mikið fyrir þúsundkallinn í dag svo mér blöskrar þetta ekki miðað við margt annað.
Brynja Hjaltadóttir, 3.6.2008 kl. 09:44
Miðað við stærðina á varahlutnum þá getur þetta jú vissulega hljómað mjög dýrt. Þarna er a.m.k. um að ræða dýrt kílóverð. Var ekki annars einhvertíman var sagt "að stærðin skipti ekki öllu máli"....??
Þessi primer takki gegnir mikilvægu hlutverki og er oftast talsvert notaður á slíkum tækjum og telst því slithlutur. Svo ég læt nú alveg vera þó hann kosti 1114 krónur fyrst hann er á annað borð til uppi í hillu í umboðinu. Hugsaðu þér hvað það hefði verið pirrandi fyrir þig hefði þetta ekki verið til og þú hefðir þurft að bíða í 1-2 vikur og koma aftur?
gudni.is, 6.6.2008 kl. 13:10
"valtakkahlíf" í lyftu (plastskel með númeri hæðar, ekki innvolsið) kostaði um 6þúsund kall! OG ég fékk reikninginn ÁÐUR en skipt hafði verið um takkann. (viðg.maður búinn að taka varahlutinn af lager, en ekki búinn að skipta, þegar reikn. var gefinn út) Einokun í þessu tilviki.
Beturvitringur, 6.6.2008 kl. 13:37
Hef einnig lent á áþekkum hremmingum við þetta fyrirtæki á Ármúlanum. Keypti keðjusög fyrir einum 4 árum sem reyndist þokkalega til að byrja með. Svo eftir því sem lengra leið á milli þess sem sögin væri notuð gekk erfiðlegar að koma henni í gang. Skipt var um kerti, olíur og bensín, vélin hreinsuð bæði hjátt og lágt en ekki fór hún í gang. Að lokum hafði eg hana með til skógarvarðar sem kann mjög góð skil á svona verkfærum. Hann skrúfaði hana alla í sundur og í ljós kom að aldrei hafði nein bensínsía verið í söginni eins og er þó í öllum bensínmótorum stórum sem smáum. Þá var ábyrgðin löngu að baki og til einskis að kvarta.
Síðan keypti eg aðra keðjusög hjá Húsasmiðjunni í fyrrasumar sem reyndist þokkalega til að byrja með. En hún hefur reynst treg í gang en hún er ekki útbúin svona túttu til að dæla bensíni beint inn í brunahólfið eins og sú fyrri. Þessi sög var síðast notuð suður í Kópavogi núna um páskana við að fella stóra ösp hjá kunningja. Allt gekk vel að fella tréð þangað til stóð til að hluta trjábolinn í sundur. Þá hrökk bensíntitturinn í sundur og síðan hefur ekki verið sagað nokkur skapaðar hlutur með vélinni síðan. Fór þá með maskínuna í Húsasmiðjuna sem tekin var í viðgerð. Tók það um það bil mánuð að fá varahlutinn og á meðan fékk eg lánssög til minna þarfa. Þær reyndust afarilla enda keðjurnar gjörsamlega bitlausar. Var mér sagt eftir að eg skilaði 3ju lánssöginni að venja væri að lántakendur keyptu nýja keðju! Satt best að segja handsagaði eg mest af því sem eg hugðist saga með keðjusögunum. En enn bíður dágóður eldiviðarhlaði til að hluta í sundur.
Mér varð gjörsamlega kjaftstopp við þessa reynslu og er það sennilega saga til næsta bæjar. Hef vart komið í Húsasmiðjuna síðan enda er slæm reynsla til þess fallin að fæla viðkomandi frá viðskiptum. Í Húsasmiðjunni hefur maður keypt sitthvað bæði stórt sem smátt gegnum tíðina jafnvel heilu húsin ósamansett að vísu. Stundum hefur leiðbeiningarþjónusta í Húsasmiðjunni verið mjög góð en stundum er hún verri en engin. Þegar húsið var keypt fengum við t.d. ráðleggingu að kaupa sérstaka teina til að setja í hornin á kofanum utanverðum. Þessir teinar áttu að halda bjálkunum saman en gerðu í raun sáralítið gagn því í frostum dregst járn meira saman en timbur og ollu teinarnir skemmdum þar sem þeir voru festir uppi og niðri á langhliðum kofans. Í Skorradal geta nefnilega orðið grimm frost á vetrum, síðasta vetur sá eg -29C um miðjan janúar og hef aldrei nokkurn tíma séð lægra hitastig. Við rifum járnteinana burt en festum breiðar fjalir lóðrétt í stað teinanna og hafa þær reynst mun betur en járnaruslið.
Sjálfsagt mættu allir taka sér neytendakallinn með hattinn hann Silla í Spaugstofunni sér til fyrirmyndar en ætli fyrirtækin verði ekki fljót að fara á hausinn ef þau bregðast eins vel við og gert er grín af.
Nú er að bíða eftir því að þýska byggingavörufyrirtækið Bauhaus opni sína sölubúð, kannski við fáum þá loksins óaðfinnanlega og ósvikna þjónustu þar sem þýskir og góð verslunarvenja er höfð í fyrirrúmi.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.6.2008 kl. 14:34
Sæll Sigurður. Það er orðið alltof mikið um okur og það er ótrúlegt að bera saman verð á nokkrum lyfjum frá 2006 og núna.
Annars á ég við þig annað erindi í dag þar sem þú ert svo góður íslenskumaður. Á visir.is stendur í dag að Paul Newman sé kominn á banaleguna. Leggst fólk ekki banaleguna en fer ekki á hana??? Mér þætti vænt um að fá svar frá þér kæri Sigurður. Bestu kveðjur Anna
Anna (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 12:11
Ekki þykir mér þetta vera neitt sérlega dýrt, miðað við margt ( ef ekki flest ) annað nú til dags.
Ef þú átt nýjan bíl og týnir lykli, þá kostar nýr lykill tugi þúsunda. Og hvað kostar svo 5 mínútna símaviðtal við lögfræðing ? Alla vega annan handlegginn, ef ekki hálfan annan...
Helgi B. (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.