24.4.2008 | 16:31
Lögreglan sem byrjaði?
Gleðilegt sumar, bloggvinir og aðrir lesendur!
Afar fróðlegt að lesa skeytasendingarnar sem urðu blogghalinn minn í gær. Mest áberandi er hve margir þeirra sem skeytin sendu virðast hafa lesið bloggið mitt eins og sagt er að skrattinn lesi Biblíuna og/eða ekki skilið það sem þeir voru að lesa.
Kannski hefur mál mitt verið svona óskírt. Ég held þó frekar að viðbrögðin hafi orðið þau sem þau urðu vegna þess að ég var ekki í þeim hallelújakór sem söng aðgerðum vörubílstjóra við Baldurshaga lof og prís og ullaði á lögguna.
Augljóst mátti þó vera að mínum dómi að ég var ekki að fordæma þann málstað sem bílstjórarnir segjast vera að berjast fyrir. Ég var að fordæma það ofbeldi sem þeir beita í aðgerðum sínum.
Forystumaður þeirra leyfir sér að segja frammi fyrir alþjóð að það hafi verið „lögreglan sem byrjaði“ og átti við átökin þar sem trukkunum hafði verið raðað saman á Suðurlandsveg við Baldurshaga -- eða mér virtist sá vera staðurinn eftir myndum að dæma.
Lögreglan sem byrjaði? Var það hún sem safnaði trukkunum þar saman? Hver var byrjunin, ef ekki það?
Þær fréttir sem fluttar hafa verið eru ekki nógu alhliða til að geta dæmt um framgöngu lögreglunnar og fagmennsku í því efni. En sjónvarpsmyndin af ungum og heldur fríðum lögreglumanni sem gekk fram með piparúðabrúsa öskrandi „gas, gas“, var ekki beinlínis til að vekja aðdáun á lögreglunni sem verjendum lands og lýðs.
Á sama hátt má segja um þær myndir sem þjóðinni hafa borist af vettvangi að þær hafi ekki orðið til að vekja samúð með múgnum sem þarna safnaðist saman til æsingar. Ljóst að sumir fóru aðeins til að komast í hasar. Aðrir hafa ugglaust haldið að þeir væru að leggja góðum málstað lið.
Það sama mátti segja um margar athafnir td. í heimsstyrjöldinni síðari sem síðan hafa verið fordæmdar og heilum þjóðum lagðar til lasts.
Í athugasemd frá mér við öðru bloggi í gær sagði ég það sem ég vildi sagt hafa í þessu máli öllu: Það er eitt að hafa samúð með þeim málstað sem flutningabílstjórar -- amk. í orði kveðnu -- eru að berjast fyrir með því ofbeldi sem almennri umferð er sýnt með aðgerðum þeirra. Allt annað er hvort maður hefur samúð með aðferðum þeirra og skrifar upp á þær.
Hið þriðja kynni svo að vera hvort maður hefur skilning á því skilningsleysi sem kröfum þeirra en sýnt af hálfu þeirra manna sem boðið hafa sig fram til að þjóna þjóðinni og leysa úr vandamálum hennar og verið kosnir til.
En einnig þeim óska ég gleðilegs sumars.
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 306474
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég er alveg sammála þér.Það er búið að vera ömurlegt að horfa upp á aðfarir þessara manna.Þeir eru ekki einu sinni með það á hreinu hvað það er sem þeir eru að berjast fyrir.Þetta er alveg tóninn sem gefinn er í símatímum á Útvarpi Sögu þar sem menn eru hvattir til lögbrota.Fara þar fremstir í flokki Eiríkur Stefánsson Almar Óskarsson og Sigurður Hólm.Það er komin tími til að lögreglan fái að stunda vinnuna sína í friði.Fjölmiðlar og almenningur gera þeim afar erfitt fyrir.
Anna (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 22:29
Enn á ný kvaka ég. Það var ekkert að ástæðulausu og út í loftið sem ég var að mæra þig með sumarkveðjunni í síðustu heimsókn, vitri bloggvinur. Hvar í liðum sem menn leika þá held ég að flestir myndu samþykkja að þessi færsla er það lang viturlegasta sem nokkur hefur sagt um þetta mál. En þú manst kannski þegar ég tjáði þér að ég væri á öndverum meiði með mótmælin og reyndi að raula fyrir þeim rök, þá var það áður en ég áttaði mig á að við erum í raun sammála um málið að langflestu leyti... ég er bara svona réttlætisrebbel sem stekkur til og lætur ófriðlega, blæs í lúðra og höfðar til víkingaeðlisins í baráttu fyrir sanngirni og réttlæti. (Alveg burtséð frá því þegar ég efni til óláta eða stofna til vandræða, mér til gamans eða skíteðlisútrásar.)
Þú vilt augljóslega líka berjast fyrir sanngirni og réttlæti en ert bara meira prúðmenni og sérð diplómatískari leiðir að sömu markmiðum. En þannig eru nú bara hugrenningar Helgunnar um miðja nótt meðan saklausir sofa og leiðréttu mig endilega ef ég er á villigötum. Þangað hef ég oft komið áður, en mér finnst engin minnkun í því að spyrja til vega. Mér finnst mun aulalegra að vera rammvilltur og þora ekki að viðurkennt það. Running blind, eða Út í óvissuna, eins og það var meistaralega þýtt, hefur til þessa bara verið bókartitill en kemur æ oftar upp í hugann þegar maður fylgist með stjórnun landsins og ferðum stýrimanna þess.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 25.4.2008 kl. 04:53
Þakka þessi viðbrögð. Ég er sammála Önnu -- þær eru nú margar Önnurnar -- um að það eru fáránleg viðbrögð sumra fjölmiðla að rjúka til og tala um lögregluríki í framhaldi af atburðum sem þeim sem urðu við Baldurshaga á föstudaginn var. Útvarp Saga er þar ekki ein á báti.
Helga Guðrún: Þakka fyrir þessa kveðju og einnig þá í gær, forláttu mér þó ekki sé laust við að ég fari aðeins hjá mér! En margt af því sem þú hefur lagt til mála hefur mér þótt skemmtilegt og stundum skemmtilega hvatvíst, næstum víst samt að væri ég nær myndi ég stundum biðja til að draga andann djúpt tíu sinnum áður en þú sveiflar vopnum þínum. -- Í hita andartaksins er auðvelt að ruglast á málstað og baráttuaðferðum fyrir honum og lifa í þeirri sannfæringu að tilgangurinn helgi meðalið, sem því miður er rammasta fjarstæða. -- En -- gleðilegt sumar -- líka bloggsumar -- í UK svo vel sem á Íslandi.
Sigurður Hreiðar, 25.4.2008 kl. 09:26
það er sat löggu helvítinn byrjuðu og og þeir segja að vörubílstjóra hafa byrjað
Binni (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 14:07
Það er í eðli ofbeldismanna sem skortir hugrekki til að standa fyrir sínu, að kenna hinum um. Dæmisaga Esóps þar sem lambið og úlfurinn voru að drekka úr sama læk. Lambið var neðar við lækinn. Og úlfurinn sagði: "Ef þú gruggar fyrir mér vatnið, þá ét ég þig."
Það gerðist fyrir mörgum árum síðan þegar ég var ungur, að ráðist var á mig í Lundúnum/Englandi og ég sleginn í hausinn. Þetta var dökkur maður yfirlitum, líklega frá norður Afríku. Félagi minn spurði manninn: "Af hverju gerðir þú þetta?" Svarið var: "He started it. Did you see how he looked at me?" ("Hann byrjaði. Sástu hvernig hann horfði á mig?")
Sigurbjörn Friðriksson, 25.4.2008 kl. 16:30
Þetta hebbði hann faðir minn getað hafa saggt.
Kannski sæki ég svona hingað vegna þess að ég finn í þér föðurlega skynsemi sem mig skortir eðlilega.. já og augljóslega. Einhverra hluta vegna haga ég mér samt miklu betur á þínu bloggi en mörgum öðrum. Svona á sunnudagakjólnum, vera prúð í kirkjunni og kurteis við presthjónin. Ég fékk nefnilega ótrúlega gott uppeldi miðað við útkomuna. Pabbi var grandvar maður og góðmenni, hann sagðist hafa átt marga hesta um dagana "en hún Helga mín er eina tryppið mitt sem ég hef aldrei getað tamið", sagði þessi yndislegi maður ástúðlega. "Hún er villiblóm", bætti hann við, og sennilega hefur honum bara þótt það allt í lagi. Hann var sjálfur náttúrubarn og kenndi pabbastelpu að elska moldina og jörðina og þekkja fuglana og blómin og merkilegustu stjörnurnar. Og svo dönsuðum við listdans á skautum á tjörninni fyrir neðan fjárhúsin og æfuðum gömlu dansana í eldhúsinu við harmonikkulögin í útvarpinu. Þetta sagt; hvað fór eiginlega úrskeiðis.. 
Jæja, svona geta ælupestir örvingjanna næturlangt farið með svefnvana mæður. (..afsakanir, afsakanir..) Mæður sem nú benda á dætur sínar og þruma kunnuglega móðurlegar hótanir; þú skalt ekki láta þig dreyma um að voga þér út í þessum efnisbút sem þú kallar pils...!
Og fagnaðarlætin ætluðu aldrei að hefjast...
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 25.4.2008 kl. 17:14
Mikið finnst mér þín viðbrögð skynsamleg, ekki síst það að maður getur haft samúð með málstað þó maður sé á móti ofbeldi Þeirra sem sækja málstaðinn.
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.4.2008 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.