Beint lýðræði??

Einhvern tíma meðan þjóðflokkur allaballa var uppi var þar í hópi maður sem hét Garðar Sigurðsson, ef ég man rétt, Vestmanneyingur að ég ætla. Svo háttaði til að við urðum samferða í hópi til útlanda í nokkra daga og höfðum ekki sést fyrr. Í flugstöðinni í upphafi ferðar leitaði hann mig uppi og las mér pistilinn fyrir eitthvað sem ég hafði skrifað í ritstjórnargrein þar sem ég starfaði þá, og skammaði mig gríðarlega fyrir hægrimennsku. Þetta þótti mér vænt um og sagði honum það, því á undan höfðu dunið á mér skammir úr hinni áttinni fyrir vinstrimennsku. Þegar svona er háttað, sagði ég Garðari, líkar mér lífið, því þá þykist ég mega álykta að ég sé svona nokkuð mitt á milli, sem sagt með báða fætur á jörðinni.

Einhver orðaskipti áttum við fleiri um þetta og þann tíma sem ferðalagið stóð fékk ég marga hnútuna frá honum og flestar skemmtilegar, reyndi að láta ekki mitt eftir liggja og sendi þær til baka eftir fremsta megni og sumar lítt nagaðar. Í heimfluginu kom hann til mín í flugvélinni, settist á bríkina hjá mér og sagði, heldur hógværlega eftir því sem honum var lagið: Ekkert skil ég, Sigurður, hvers vegna þú ert ekki í Alþýðubandalaginu. -- Þetta var svo milt að mér vafðist tunga um tönn og fann ekki í fljótheitum neitt hvasst til að senda til baka en spurði: Nú, hvers vegna? Og hann svaraði, jafn mildilega: Jú, þú ert ekkert vitlaus!

Ekki er að orðlengja að við Garðar skildum sem vinir og jafnvel mátar og vorum það svo lengi sem samskipti okkar eftir þetta entust, sem því miður var of stutt því þessi skemmtilegi maður varð ekki langlífur og gekk ekki heill til skógar síðustu misserin áður en hann lést. En minningin um hann og samskipti okkar yljar mér enn innan rifja.

Þetta rifjast upp fyrir mér núna af því að bloggvinur minn Sæmundur Bjarnason helgar mér að mestu bloggið sitt í dag, en hann bisast við af mikilli elju að blogga daglega og er nú að verða síðasti móhíkaninn með þvílíka þrautseigju. Hann flokkar mig til hægri og hefur til marks að ég setti athugasemd hjá honum, líklega í gær, um að ég hefði efasemdir um ágæti þess beina lýðræðis sem nú til dags þykir falleg pólitík. Um það gæti ég raunar sett saman heilt blogg ef ég nennti

-- en í fljótu bragði sé ég ekki alveg hvernig hægt er að skipta því upp í hægri eða vinstri hvort menn vilja leggja alla skapaða hluti undir „beint lýðræði“ eða ekki.

Einhvers staðar minnir mig að standi vísdómsorð eitthvað á þessa leið: „Því verr gefast heimskra manna ráð sem þau koma fleiri saman.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 305958

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband