Færsluflokkur: Dægurmál
16.4.2011 | 10:13
Vonandi eitt af því sem stjórnlagaþing tekur á
Það kemur mér ekki á óvart þó sundrung og togstreita ríki meðal VG manna. Það hefur alla tíð komið í veg fyrir veruleg ítök ystu vinstri manna á Íslandi að þeir geta aldrei gengið í samræmdum takti fornum. Þeir hafa ekki þann sveigjanleika að geta unnið í flokki.
Á því þingi sem nú situr, jafnvel fremur en nokkru sinni fyrr ef minni mitt svíkur mig ekki, hefur verið meira um það en nokkru sinni fyrr að þingmenn hagi sér eins og þeir séu kosnir persónukjöriog skelli skolleyrum við því að þeir flutu eingöngu inn á þing í krafti þeirra atkvæða sem flokkur þeirra hlaut.
Þetta fólk sem flakkar á milli flokka og/eða sker sig frá þeim flokkum sem þeir voru kosnir á þing fyrir fer með umboð sitt eins og þeir hefðu verið kosnir í persónukjöri. En svo var ekki, þeir sátu á lista fyrir ákveðna flokka/samtök og fengu þingsæti/umboð í krafti atkvæðamagns þeirra flokka/samtaka. Þeir eru því óheimildarmenn að því að valsa með umboð sitt eins og þeir hefðu persónulega verið kjörnir á þing. -- Þetta er þó látið viðgangast með einhverjum óskiljanlegum hætti og verður vonandi eitt af því sem Stjórnlagaráð tekur á.
Ég get ekkert fundið að því að fólk segi sig úr flokki og jafnvel gangi í annan flokk í sömu andrá. En sitji það á þingi í krafti atkvæða flokksins sem það fór frá á það þá að fara af þingi -- segja af sér þingmennsku -- svo flokkurinn geti sett varamenn inn á svo sem atkvæðamagnið segir til um og þeir sem flokkinn kusu eigi sína fulltrúa áfram á þinginu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2011 | 10:18
Ofbeldi í skjóli einokunar
Pósturinn ætlar að svíkjast um að bera út póstinn til mín frá og með 15. apríl nema ég letri nafnið mitt utan á húsið mitt. Fékk bréf þess efnis inn um lúguna hjá mér mánudaginn 11. apríl og hef fengið þetta staðfest með símtali til póstsins.
Ég verð seint við þessari tilskipun sem mér skilst að sé tilskipun frá Póst- og fjarskiptastofnun, væntanlega að ósk Póstsins. Hins vegar krefst ég þess að póstur sem borgað hefur verið undir og er merktur mínu heimilisfangi verði borinn út til þess heimilisfangs, þó það sé ekki merkt með nöfnum íbúanna.
Er þetta ekki gróft dæmi um ofbeldi í skjóli einokunar/einkaréttar?
Póstinum og öðrum sem leið eiga að mínum húsdyrum kemur ekkert við hver eða hve margir eigi heima eða eigi póstmóttöku í mínu húsi. Það sem máli skiptir er hvaða heimilisfangi pósturinn er merktur.
Allt annað er yfirgangur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2011 | 10:47
Orðin eru íslensk, mikil ósköp
Hvað þýðir sögnin að stunda -- að stunda eitthvað? Er það ekki sama og að leggja stund á eitthvað, gera eitthvað ítrekað og kannski reglulega?
Nú til dags er sagt að fólk stundi kynlíf ef það gerir einu sinni dodo. Sagt að unglingar séu farnir að stunda kynlíf ef þeir hafa einu sinni sofið hjá. Jafnvel þó vonbrigðin séu svo slæm að þeim detti þessi fjandi ekki í hug aftur fyrst um sinn. Núna er á pressan.is sagt frá fyllipari sem brá á leik einn sunnudagsmorgun. Í frásögninni segir ma: Þau létu vel að hvoru öðru og enduðu á að stunda kynlíf. Klukkan hefur verið um korter yfir tíu á sunnudagsmorgni, það voru börn á fótboltalvellinum og þau sáu þetta öll.
Ætli parið hafi gert þetta ítrekað og reglubundið allt korterið? Er það að stunda eitthvað að gera það einu sinni? Og aumingja börnin, þau sáu þetta öll.
Já, ég er dálítið í því að láta svona lagað fara í taugarnar á mér. Kannski þess vegna sem ég reyni heldur að forðast að lesa erlendar bækur í íslenskri þýðingu sem oftar en ekki felst í besta falli í því að notuð eru að mestu íslensk orð í staðinn fyrir þau sem notuð voru á frummálinu. Þetta er til að mynda ástæðan til þess að ég hef ekki enn lesið allar Harry Potter bækurnar.
Og um daginn greip ég með mér tvær bækur fyrir eina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Önnur er þýdd og heitir Svo fögur bein. Ég er ekki langt kominn með hana og verð að viðurkenna að þar er margt lipurlega orðað á íslensku
-- en svo kemur klúður inn á milli sem sker mann eins og fleinn: Dæmi: á bls. 36 er þessi setning um teikningu eftir barnungan bróður sögumannsins: Á myndinni aðgreindi þykk blá lína loftið og jörðina.
Þykk lína? Orðin eru íslensk, mikil ósköp. En væri ekki íslenskara málfar að tala um breitt strik?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2011 | 23:03
Engin Þúfnavallareisn
Stærsti áfanginn í mínu lífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 17:49
Er um það að ræða að borga ekki neitt?
Ég brá mér úr landi í tvær vikur nú um mánaðamótin og ákvað að láta dægurmálin algerlega eiga sig þann tíma, leitaði engra frétta af landinu og kom ekki nálægt tölvu.
Heimkominn aftur fór ég aftur á móti á fullt við að lesa blöðin sem staflast höfðu upp, skima yfir fréttir og umræður í gegnum tölvu og sjónvarp, kynna mér hvað á dagana hefði drifið. Ekki að undra að helst var það Icesave og kosningarnar um samninginn sem upp úr stóðu.
Áður en ég fór var ég beggja blands um já eða nei. Er það sosum enn en er þó æ meir að hallast á aðra sveifina. Ekki kannski síst af því með hve miklu offorsi nei-mennin ganga fram. Með heitingum og gífuryrðum, já mér liggur við að segja rosta. Fullyrðingum og vígorðum sem hver étur eftir öðrum.
Hvernig er það, erum við að kjósa um hvort við eigum að borga eða ekki?
Er það eitthvað inni í myndinni?
Ekki síst þykir mér nokkuð standa upp úr að nei-menni vilja stjórnina burtu hvað sem það kostar og eru tilbúnir að taka á sig óútfylltan víxil í því skyni.
Er þá ekki skárra að skömminni til að hafa einhverja hérumbil- og sirka-tölu á víxilfjandanum?
Er um það að ræða að borga ekki neitt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2011 | 11:46
Þetta er afbragð hjá Rás 1!
Aldeilis er það afbragð hjá RUV að láta unglinga lesa passíusálmana á Rás 1 á föstunni. Ég ólst upp við að heyra passíusálmana lesna í útvarpi og man eftir því, líklega 9 ára, að ég hafði bókina uppi við, beið eftir lestrinum og fylgdist með á bókinni. Og þetta var fyrir daga rafmagns heima hjá mér svo það var um að velja olíuljós, kerti -- eða aladínlampa þegar best lét. Og gæta þess að rafgeymar útvarpsins gengju ekki út þegar verst gengdi.
Ekki man ég hver las passíusálmana þarna fyrir 64 árum -- gæti það hafa verið Jón Helgason prófessor? Allt um það var það lengi leyndur draumur minn að fá að lesa passíusálmana í útvarpið og nú set ég mig ekki úr færi að hlusta á krakkana lesa, flest gera þau þetta afskaplega vel, og þarna er að vissu marki draumur minn að rætast, það er ég sjálfur by proxy svo notað sé tölvumál, sem er að lesa passíusálmana í útvarpið.
Ég endurtek: Þetta er afbragð!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2011 | 11:41
Skrauthvörf og pjatt
Löngum hefur mér þótt hálfgerð skömm að þeim skrauthvörfum og pjatti að tala um eldri borgara svo ég tali nú ekki um málskrípið heldri borgara þegar einfaldlega er átt við gamalt fólk. Aldraða eru þau ítrustu skrauthvörf sem ég get sætt mig við.
Þess vegna finnst mér dágóð sagan sem ég heyrði um gamlingjann jafnaldra minn sem fór inn á ónafngreindan hamborgarastað og bað um hamborgara. Pöntunin var tekin niður og svo kom að því að borga og gamlinginn spurði: Eruð þið ekki með eldri borgara afslátt? Jú, auðvitað, var svarað af ítrustu kurteisi, og svo leit afgreiðslumaðurinn um öxl og hrópaði: Heyrðu, Gummi, þessi vill fá eldri borgara!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2011 | 14:29
Hvern fjandann . . .
Skelfing er ég feginn! Eins og ég var búinn að hlakka til. Fer strax út að sópa snjóinn af einkaþotunni.
--
Þar fyrir utan: Hvern fjandann kemur okkur þetta við?
Veislunni í Cannes ekki aflýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2011 | 20:35
. . .eða vansvefta?
Alltaf er nú gott að líta í einhverja góða bók eða heyra eitthvað gott áður en lagt er inn í draumalandið. Og best er eflaust að hafa með sér góðan bólfélaga í rúmið; efast um að nýjasta tækni sé jafnoki þess.
En við snöggan lestur þessarar merkilegu fréttar flýgur mér fyrst í hug, hvort Bandaríkjamenn séu í raun svefnvana (= ósofnir) eða bara vansvefta (hafi fengið of skamman nætursvefn)?
Eigi ég kollgátuna og þeir séu bara vansvefta er þetta enn eitt dæmið um málfátækt þeirra sem skrifa ofan í okkur fréttirnar nú til dags.
Legg til að þeir temji sér að lesa góðar bækur á góðri íslensku undir svefninn sjálfir.
Svefnvana vegna nýjustu tækni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2011 | 12:57
Orðað af ítrasta harðlífi
Karlmaður fannst látinn í gufuklefa World Class í Laugum í vikunni. Skv. upplýsingum frá lögreglu var um skyndidauða að ræða. Enginn grunur leikur á að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Svona hefst frétt í mbl.is sem uppi er þessa stundina.
Satt að segja finnst mér þetta orðað af ítrasta harðlífi. Skyndidauði er svona síðari tíma lapparísorð eins og samnemandi. Menn eru að reyna að bjarga sér af því þeir kunna ekki að tala. Eðlilegt hefði verið að segja hér: Lögreglan telur að hann hafi orðið bráðkvaddur.
Þá erum við líka laus við þetta um að ræða-stagl.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar