Færsluflokkur: Dægurmál

Ekki hlutfall af innflutningsverði?

Heyrði haft eftir forsætisráðherra að ef menn vildu lækka álögur ríkisins á eldsneyti á ökutæki yrðu þeir að benda á einhverjar tekjulindir fyrir ríkissjóð á móti, því í fjárlögum væri gert ráð fyrir þessum tekjum.

Ég hélt að tekjur ríkisins væru hlutfall af innflutningsverði en það er líklega ekki rétt. Sá málið gúgglað koma þessar upplýsingar fram og Viðskiptablaðið borið fyrir:

„Hlutur ríkisins í verði 95 oktana blýlauss bensíns samanstendur af kolefnisgjaldi sem er 3,80 krónur, almennu vörugjaldi sem er 23,66 krónur, sértæku vörugjaldi sem er 38,55 krónur, flutningsjöfnunarsjóðsgjaldi sem er 41 eyrir og virðisaukaskatti sem er 25,5%. Í

verði dísilolíu skiptist hlutur ríkisins í kolefnisgjald, 4,35 krónur, olíugjald, 54,88 krónur, flutningsjöfnunarsjóðsgjald, 91 eyrir, og virðisaukaskatt, 25,5%. Virðisaukaskattur leggst ofan á eldsneytisverð þegar allir aðrir þættir, þ.e. heimsmarkaðsverð, álagning, flutningskostnaður og gjöld í ríkissjóð, hafa verið lagðir á.“

Minni á að auk þessa kolefnisgjalds af seldu eldsneyti (til hvaða verkefna/framkvæmda rennur það?) borga bíleigendur bifreiðagjöld sem miðuð eru við útblástur bílsins. Er það þá ekki orðið kolefnisgjald líka? Til hvaða verkefnis/framkvæmda rennur það?

Rennur kannski einhver hluti af þessu í einhvern óskilgreindan leikararskap eins og stjórnlagaþing/ráð eða nefnda um þetta og hitt sem auðvelt væri að leysa á venjulegum vinnutíma innan viðkomandi ráðuneyta? Og því betur sem færri kæmu þar að verki.

Augljóst er að með minni eldsneytissölu og fastri auratölu á hvern eldsneytislítra er hætta á að hún verði ekki ríkinu sú tekjulind sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Því spurning hvort ekki væri vinsælla að slaka á álögunum og auka líkurnar á sölu sem næði upp í fjárlagatöluna. En þannig má kannski ekki hugsa.

 Ég heyrði einhvers staðar eða sá og að ég held var Steingrímur fjármálaráðherra borinn fyrir því að ef fólk væri að stynja undan eldsneytisverði ætti það bara að kaupa sér farartæki sem væru a)sparneytnari eða b) notuðu ódýrara eldsneyti, sosum metan.

Gott og vel. Hvað á að gera við druslurnar sem við látum duga okkur núna? Fæst okkar hafa annað sem gjaldmiðil til að kaupa sér farartæki fyrir og ugglaust dugar það ekki. Altént ekki lífeyrisþegum sem félagslega velferðarstjórnin er búin að skera niður lífeyrinn hjá svo við liggur að jafnvel bíllausum dugi ekki til framfæris. Vel má segja að við sem erum ekki lengur á vinnumarkaði getum bara versogú setið heima á okkar rassi og ekki verið á einhverju anskotans ani út um allar trissur. -- En -- nú fyrst höfum við tíma til þess að hreyfa okkur. Hefur ekki stundum verið talað um aða við eigum að njóta elliáranna? -- Mig minnir að þess háttar hafi heyrst, jafnvel úr munnum þeirra sem skipa þessa blessaða félagslegu velferðarstjórn.

 


Svo skítur blaðið á sig inn á milli

Gaman að sjá hve gamansamur Gylfi Arnbjörnsson getur verið. Fram til þessa hefur ekki þótt persónuníð að segja einhvern aka Landkrúser, það hafa margir viljað meina að sé toppurinn. Blessaður Patrólinn hefur ekki verið hálfdrættingur í því efni. Næstum eins ómerkilegur og Pajeró í þessum samjöfnuði.

Hitt er annað mál að mér þótti þessi frétt DV ómerkileg. Ekki síst af því þar er látið liggja að því að það sé hneisa að forseti ASÍ skuli hafa mannsæmandi laun við að berjast fyrir launakjörum umbjóðenda sinna. Hneisan að manni skilst fólgin í því að hann skuli ekki lepja úr sömu sultarausunni og þeir. Ég held þeir megi þakka fyrir að hann skuli búa við þau kjör að þurfa ekki að snapa uppi einhverja aukavinnu meðan hann reynir að halda einhverju gutli í ausunni umbjóðendanna.

-- Ég hef nú í nokkrar vikur verið áskrifandi að DV. Sem gamall blaðamaður verð ég að segja að þar er margt vel gert, en svo skítur blaðið á sig inn á milli með svona lásí fréttum eins og þessari um Gylfa greyið. eða einhvern tíma á dögunum um að keyptur hefði verið lúxuséppi handa stéttarbróður hans (eða næstum því) til afnota. Og lúxusjeppinn? Jú, það var víst Chevrolet Captiva!

Afsakið meðan ég hlæ …


mbl.is Íhugar að stefna DV fyrir persónuníð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru frímerki einhvers virði?

Með þessa rólegheita muggu fyrir utan gluggann langar mig að leita ráða í netheimum. Svo er mál með vexti að frómur maður sem ég þekki hafði fyrir sið upp úr miðri öldinni sem leið að kaupa svokölluð „fyrsta dags umslög“ sem voru umslög með nýjum frímerkjum póststimpluðum daginn sem þau voru gefin út.

Ætli svona umslög séu einhvers virði núna? Hvernig ætti helst að innleysa þann hagnað? Gerist það innan lands eða utan.

Sama spurning á raunverulega við um nokkur pokafylli af afklipptum frímerkjum af umslögum með jólakortum og öðrum tilfallandi pósti.

Nú eru allnokkur ár síðan ég hef heyrt minnst á frímerki sem verðmæti og þætti gott ef einhver og þá jafnvel fleiri en einn gætu leitt mig í allan sannleika um verðmæti þessara gömlu pappírssnepla, ef nokkurt er.

Set svo hér í lokin með Sæmundarhætti mynd af muggunni í dag tekinni út um stofugluggann minn. Með ofurlitlum aðdrætti að vísu, á myndavél sem sögð er með 5x optical zoom.

p2260013.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Er hægt að kalla allan andskotann músík?

Með leyfi að spyrja (svo íslenskaður sé danskur kurteisisfrasi): Er hægt að kalla allan andskotann músík?

Maður heyrir „unga“ tónlistarmenn (suma reyndar orðna miðaldra eða rúmlega það, en telja sig alltaf jafn unga) flytja eigin lög og jafnvel texta án þess að það votti fyrir melódíu. Út yfir tekur þó þegar þeir skipta einum tóni niður í sextándu parta eða allt niður í 64. parta til að koma sem flestum atkvæðum texta fyrir í taktinum.

Sagan segir að íslenska landhelgisgæslan hafi unnið Þorskastríðið m.a. með því að spila Megas í tíma og ótíma á samskiptabylgju bresku togaranna og herskipa þeirra. Bretum varð ekki verra gert í þann tíð.

En má ég þá heldur biðja um Megas þó eigi þyki mér fögur raust hans heldur en obbann af þessari tónlist „ungra tónlistarmanna“ sem viðrað er yfir okkur nú um stundir.


Hver?

Er þessi Christer Ahl einhver sem allir eiga að þekkja? Hverrar þjóðar hann er, til dæmis, og hvort hann er einhver sem á að taka mark á?
mbl.is Ísland missti baráttuandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fischersund og Vesturlandsvegur

Einhvern tíma var til saga á þá lund að lögreglumaður hefði flutt vettvang afbrots af Fischersundi niður í Aðalstræti af því hann kunni ekki að stafa Fischersund. Þetta var áður en Bobby F. varð óskabarn Íslands.

Líklega er einhvers konar stafsetningarstífla enn við lýði innan raða löggunnar, sbr. síðasta blogg mitt um frétt af slysi sem sagt var hafa átt sér stað á Víkurvegi. Vissulega er Vesturlandsvegur obbolítið lengra orð en ekki svo flókið að meðalgreindur lögreglumaður ætti ekki að ráða við það. 

En ég hef ekki enn séð leiðréttingu á þeirri frétt. Kannski þykir ekki lengur tíðindum sæta þó þrír slasist í umferðarslysi, því miður. En mér þótti fréttin sú kannski fyrst og fremst að þarna hefði líklega ekki orðið slys ef vegrið væri hafi milli akstursstefna á vegum eins og Vesturlandsveginum, í staðinn fyrir íhvolfa geil sem virkar eins og stökksliskja ef ökumaður missir stjórn á bíl sínum og lendir ofan í geilinni. Þá eru mestar líkur á að bíllinn þeytist í veg fyrir bíla sem koma grunlausir úr hinni áttinni.

Víkurvegur er ekki lagður með þessum hætti. Og hann er ekki heldur þar sem slysið varð.


Þarna hefði vegrið gert gæfumuninn

Mig grunar að þetta sé ekki alveg nákvæm frétt. Í fyrsta lagi: Ég held að þetta hafi verið um kl. 17.30. Í öðru lagi: Ekki á Víkurvegi, heldur við enda Keldnaholts skammt ofan við þar sem Víkurvegur kemur á Vesturlandsveg. Í þriðja lagi, ég sá ekki betur en jeppinn (Nissan Terrano II) lenti með hægra framhorn á vinstra framhorni fólksbílsins (var það ekki Peugeot 407?) svo báðir bílarins snerust og lentu út af Vesturlandsvegi að norðanverðu með afturendann á undan. Ástæðan fyrir þessu? Jeppinn var á leið í norðurátt en byrjaði að svingla í grenjandi hálku og þeyttist ofan í gryfjuna milli akstursstefna og upp á veginn hinum meginn í veg fyrir umferðina til suðurs og lenti þar á fólksbílnum. -- Þetta hefði ekki gerst ef vegrið væri á milli akstursstefna á Vesturlandsveginum.

Hvers vegna mig grunar að þetta hafi verið svona? Vegna þess að ég horfði á svona slys gerast á þeim tíma sem ég tilgreindi hér að ofan og tilkynnti það þegar í 112. Gat því miður ekki meira gert. Sorrí.


mbl.is Þrír á slysadeild eftir slys á Víkurvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringsnúningur í málum Ísbjargar

Ég hef snúist svo marga hringi í þessum málum Ísbjargar (Icesave) að mér kæmi ekki á óvart að ég liti út eins og tappatogari um miðjuna ef ég færi úr bolnum. Og veit ekki enn í dag hvort betra er að semja eða semja ekki, hvað sem líður greiðslu á skuldum óreiðumanna.

En – ég tek ofan fyrir flokksformanni í stjórnarandstöðu sem hefur kjark til að taka undir með stjórnarflokkum og vera sammála þeim. Burtséð frá réttmæti málefnisins yfirleitt. Hérlendis hefur tíðkast að ég held undantekningalaust að stjórnarsinnar telja sér skylt að vera andstæð því sem stjórnarandstæðingar hafa til mála að leggja, án tillits til innihalds, og á sama hátt hafa þeir sem eru í stjórnarandstöðu hverju sinni talið sér skylt að andmæla hugmyndum stjórnar, hverjar sem þær eru.

Þetta hefur oft komið sér djöfullega.

Kannski kemur það sér djöfullega að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa kjark til að samsinna tillögum og hugmyndum stjórnarinnar hvað snertir Ísbjargarsamninginn, en það ber vott um pólitískan kjark sem ég hélt ekki að BB hefði.

Og það virði ég við hann, hvað sem öðru líður.


Bílferð fyrir tíma bílferða

Ævisögur eru merkilegt fyrirbæri og oft gaman að lesa, oftast heldur maður jafnvel að það sé fróðlegt. En á því sviði fær maður stöku sinnum kjaftshögg sem kemur manni til að efast um sannleiks- og fræðigildið.

Ágætur kunningi minn fjölfróður hringdi í mig um daginn og benti mér á tiltekinn kafla í ævisögubók sem kom út 1947. Sú bók heitir Minningar Guðmundar á Stóra-Hofi og er eftir Guðmund og Eyjólf Guðmundsson frá Hvoli í Mýrdal. Sá fyrri var kunnur bændahöfðingi, félagsmálamaður og templari á sinni tíð, sá síðari bóndi, fræðimaður og rithöfundur, þekktust bóka hans kannski bókin Pabbi og mamma. 

Í kaflanum sem mér var sérstaklega bent á segir Guðmundur frá ferð sem hann hafði farið í febrúar 1912, frá Stóra-Hofi á Rangarvöllum þar sem hann bjó þá upp að Hvanneyri til að sitja þar bændanámskeið. Þetta er á bls. 95 í téðri bók. Þar segir frá því, í þriðju persónu eins og Eyjólfur hafi skráð þennan kafla eftir honum, að Guðmundur hafi farið ríðandi út að Ægissíðu og komist þaðan í bíl til Reykjavíkur. Í sömu andrá segir að á sama tíma hafi margir aðrir verið á suðurleið en bílakostur hafi verið takmarkaður „og urðu margir að fara á hestum út að Selfossi við Ölfusá.“

En Guðmundur var sem sagt heppinn og komst í bíl frá Ægissíðu. Þaðan fóru hann og samferðamenn hansmeð skipi til Borgarness. „Hálka var og sleipt að ganga en enginn bíll fáanlegur. Urðu menn því að fara gangandi frá Borgarnesi…“

Undur mega heita að Guðmundur skyldi fá bílfar frá Ægissíðu, því í febrúar 1912 var aðeins einn bíll til í landinu. Hann stóð ógangfær norður í Eyjafirði. Engan skal samt undra að enginn bíll væri fáanlegur í Borgarnesi í febrúar 1912 því fyrsti bíllinn kom ekki þangð fyrr en 1918. -- Fyrsti bíllinn kom til Íslands 1904 eins og kunnugt er og hafði hér viðdvöl við lítinn orðstír til 1908 þegar ræksnið af honum var selt utan aftur. Annar bíll í landinu var svonefndur Grundarbíll sem heimilisfesti átti að Grund í Eyjafirði frá hingað komu sinni 1907 og fór í örfá skipti þaðan til Akureyrar áður en honum var lagt á kirkjuhlaðinu  uns hann var loks seldur aftur úr landi í árslok 1912. Þriðji bíllinn til Íslands var Bookless bíllinn svokallaði sem skoskir bræðir í Hafnarfirði fengu hingað 1913. Litlum sögum hefur farið af honum en telja má víst að hann hafi einkum verið notaður til ferða milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Fyrsti bíllinn sem gerði ford_nr1_a_sl.jpgsig gildandi hérlendis kom ekki til landsins fyrr en 20. júní 1913. Það var Ford T sem Sveinn Oddsson og fleiri komu með hingað og ein fyrsta ferð hans var, reyndar, austur að Ægissíðu. En það er fullseint til að Guðmundur á Stóra-Hofi hafi fengið far með honum suður í febrúar 1912. -- Þessi sami T-Ford varð 6 árum síðar fyrsti bíllinn í Borgarnesi.

Hér fylgir mynd af T-Ford Sveins Oddssonar, sem kom til landsins 20. júní 1913. Sami bíll varð síðar fyrsti bíll í Borgarnesi.

Hafandi lesið þessar síður í Minningum Guðmundar á Stóra-Hofi kom mér nokkuð á óvart að sjá að á bls. 96 segir að sama dag og „námskeiðsmenn héldu frá Hvanneyri til Reyjavíkur, lögðu nokkrir piltar upp undan Eyjafjöllum í góðu veðri áleiðis til Reykjavíkur í atvinnuleit“ en fengu á sig ofsaveður og tveir þeirra urðu úti skammt frá Varmadal á Rangárvöllum. -- Þessi tímasetning um dauðdaga þessara tveggja manna, bræðranna Sveinbjarnar og Brynjólfs Guðmundssynir Sveinbjarnar prests í Holti er rétt og staðfestanleg og því furðulegri verða áður komnar yfirlýsingar um bílferð Guðmundar frá Ægissíðu til Reykjavíkur í febrúar 1912 og spaugileg yfirlýsingin um bílleysið í Borgarnesi.

Ofanskráð sýnir að rétt er að taka upplýsingum æviminninga með vissum fyrirvara og gleypa ekki allt hrátt eins og það er borið á borð. Það ættu ævisöguritarar líka að hafa hugfast.

(Ég bið góðfúsa lesendur velvirðingar á því ef feitletraður myndatextinn lendir einhver staðar út úr kú miðað við myndina. Ég kann ekki að setja myndtexta á réttan stað í bloggi.)


Ekki að öllu leyti félegur hópur

Merkilegt hve þjóðin er fundvís á málefni sem skyggja á öll önnur. Nú er það álit Hæstaréttar að kosning til stjórnlagaþings sé ógild og liggja til þess tilgreindar ástæður, lítilvægar flestar að mínum dómi nema helst þetta með rekjanlegu kjörseðlana. En ég set 144 punkta spurningarmerki við hvort sá upptaldi tittlingaskítur um annmarka á kosningunum eigi að vera nóg til að ógilda niðurstöðu þeirra.

En það tjáir ekki að deila við dómarana jafnvel þótt þetta sé ekki dómur heldur álit. Byggt á lögum um alþingiskosningar skilst mér, þótt þetta séu alls ekki alþingiskosningar heldur mun viðurhlutaminni samkoma, ráðgefandi „þing“ sem á svo að leggja tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir alþingi sem velur og hafnar, breytir og bætir, þangað til út verður komin sú uppsuða sem fjórflokkurinn eða meirihluti á hans vegum sættir sig við.

Í morgun heyrði ég í mínum gamla söngbróður Birgi Guðmundssyni á Akureyri í útvarpi allra landsmanna þar sem hann taldi óráð að hinir ógilt kjörnu stjórnlagaþingmenn yrðu hreinlega skipaðir stjórlagaþingnefnd og látnir ljúka því hlutverki sem þeir voru þjóðkjörnir til -- af því að þá væri þeir ekki lýðræðislega kjörnir heldur pólitískt skipaðir. Þetta þykir mér bitamunur en ekki fjár, pólitíkusarnir væru þá að skipa hina lýðræðislega kjörnu til að gera það sem þeir voru lýðræðislega kjörnir til.

Ekki svo að skilja að mér þyki þetta að öllu leyti félegur hópur. Margir eru þó góðir í hópnum og hafa maklega í hann valist, en þar má líka sjá of mörg andlit lýðskrumara sem aðeins hafa náð kjöri fyrir það hve duglegir þeir hafa verið gegnum tíðina að gjamma það sem fer vel í eyrum þeirra sem eru lítið fyrir að hugsa djúpt og sjá í gegnum gasprið. En þetta var það sem þjóðin

-- eða sá hluti hennar sem nennti að leggja sig eftir að skrifa nokkrar fjögurra stafa tölur á blað --

valdi og þjóð fær alltaf þá valdsmenn sem hún á skilið.

Eftir stendur að þegar stjórnlagaþing (hvernig sem það á endanum verið valið eða skipað) leggur sína tillögu fyrir alþingi verða það hinir lýðræðislega kosnu fulltrúar okkar í löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem véla, velja og hafna. Endanleg stjórnlagabreyting mun því hvernig sem allt veltist fara fram í því sem einn ógilt kjörinn stjórnlagaþingmaður kýs, hvar sem hann kemst í fjölmiðla, að kalla drungaleg, reykfyllt bakherbergi fjórflokksins. Hvaðan sem sá reykur á að koma.

Um flest virðist mér sem breyting stjórnarskrár munu felast í að gera hana skorinorðari og skýrmæltari. Ég bauð mig ekki fram til stjórnlagaþings og hefði heldur ekki náð kjöri. En ég býð mig hérmeð fram til þjónustu ef í lokin vantar mann til að gera óskýran texta skýran og augljósan -- í því hef ég ansi langa reynslu. Líka því að gera texta svo hæfilega óskýran að menn geti teygt hann og togað í því skæklaskaki sem er óumdeilanleg þjóðaríþrótt okkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband