Færsluflokkur: Dægurmál

Oexar við ána. . .

Sumir bókstafir eru ekki til í ensku sem þó eru notaðir í öðrum tungumálum. Svosem norðurlandamálunum. Þetta á t.d. við um bókstafinn Ö. Enskumælandi/skrifandi leysa þennan tvíhljóða upp í samstöfuna oe. Þess vegna verður Svíinn Cecilia Malmström afskræmd á ensku upp í Malmstroem. Samt óþarfi fyrir okkur Íslendinga að éta upp þessa ensku samstöfu þó fréttir af norðurlandafólki séu þýddar út ensku. Við skrifum td. ekki Oexar við ána. . .
mbl.is Hert eftirlit ekki réttlætanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oj bara

Og mér sem hefur heyrst að það sé ljótt að drepa hvítabjörn -- næstum eins ljótt eins og drepa hval!
mbl.is Hvítabjörn skotinn í sumarhúsabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Landeyjahöfn að renna út í sandinn?

Sé minnst á Landeyjahöfn í fréttamiðlum -- sem oft er gert -- er lenska að gera grín að henni (Sandeyjahöfn, Perluhöfn, etc.) eða skammast út í hana. Ég get ekki verið minni maður, sbr. fyrirsögn á þessu bloggi.

Ég man aldrei eftir að hafa séð neitt skrifað um starfsemi þessarar hafnar annað en eitthvað í kringum Vestmannaeyjaferjuna Herjólf.

Spurning? Er engin önnur umferð þar? Koma engin önnur skip þangað? Þó ekki væri nema einhverjir smákoppar? Er engin starfsemi í Landeyjahöfn önnur en tengist Herjólfi?

Ég man ekki betur en þessi höfn hafi verið hönnuð og gerð með grunnsigldara skip í huga. 

Það átti að smíða nýja Vestmannaeyjaferju sem hentaði þessari höfn.

Mig minnir að það hafi verið Lúðvík Gissurarson sem stakk upp á því einhvers staðar að einfaldasta ráðið til að halda höfninni hreinni af sandi væri að leggja í hana kvísl úr Markarfljóti sem með eðlilegu rennsli sínu ryddi sandinum úr höfninni og fram úr hafnarkjaftinum.

Ég hef hvergi séð neina umræðu um þessa hugmynd, sem mér í fáfræði minni finnst snjöll. Hvorki menntaða umræðu né öðru vísi.

Er hún alls ekki umræðu verð?

Eða er heppilegast að halda landanum í sem mestri fáfræði um þessa höfn, eðli hennar, tilgang og umferð?


Hér vantar skarð í. . .

Mmm -- hér vantar skarð í, en skarðið er til, sagði uppboðshaldari forðum; var að bjóða upp skál sem brotið var úr barminum á en brotið var til og upplagt að líma það í aftur.

En það er nú svona með þessa frétt -- það „vantar skarð“ í hana og væri gaman að vita hvort „skarðið er til“. Sem séhvernig var hægt að ráða það af þessum hauskúpufundi hvernig andlát eiganda hennar bar að höndum og hver sökudólgurinn var.

Svona er þetta ekki nema illa hálfsögð saga.


mbl.is 130 ára morðgáta leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerð upp eða endurgerð?

Hvað þýðir að eitthvað sé „enduruppgert“? Þýðir það að búið hafi verið að gera það upp áður en hafi nú verið gert öðru sinni? Eða ætlaði sá sem fréttina reit að skrifa „endurgerð“ eða bara „uppgerð“, -- gerð upp?
mbl.is Líf færist í húsin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hrossasjampó

Á dögunum keypti ég hársápu (oftast kallaða sjampó) þrátt fyrir að vera fremur þunnhærður og snögghærður. Dóttir mín segir samt (eða sagði) að ég sé bara talsvert loðinn í skallanum.

Ég hrifsaði dollu af þessu efni niður úr búðarhillu og fór ekki að skoða hana fyrr en ég kom heim. Þá sá ég að á hálsi hennar stendur að efnið í henni sé „Fyrir menn“!

shampoo_1094449.jpgMikið varð ég glaður, að ég skyldi ekki hafa álpast til að kaupa mér hrossasjampó.

Ef framleiðandinn/seljandinn hefði fengið íslenskumælandi mann (kven-mann eða karl-mann) sér til aðstoðar hefði líklega staðið þarna: „Handa körlum“.

Við nánari lestur kom í ljós að þarna stendur líka: „Fyrir kláða í hársverði“. Ef íslenskumælandi maður hefði verið fenginn líka til að þýða þessa línu hefði sennilega staðið „Gegn kláða í hársverði“.

Ekki veit ég hver innflytjandi og seljandi þessarar ágætu vöru er á Íslandi. En hann ber ekki mikla virðingu fyrir tungumálinu. Gæti svo sem vel verið að hann sé heldur ekki Íslendingur og þá er skömm hans kannski ekki alveg eins mikil.

Mér finnst hneisa að innflytjendur/seljendur vöru, sem á annað borð leggja sig eftir því að íslenska það sem á henni stendur, að hluta eða fullu, skuli ekki skammast til að gera það sómasamlega.

En þar fyrir utan er þetta skolli gott efni. Hárið (svo langt sem það nær) verður skemmtilega mjúkt og þjált af notkun þess.

 


Hvað á karlinn að gera?

Skilaboð á gemsanum mínum í morgun um að gemsanúmerið mitt hefði unnið álitlega fjárhæð í enskum pundum í The Nokia Loyalty Bounty. Mér er bent á að hringja í tiltekið símanúmer með landsnúmerinu 44 (norður-Írlandi?) eða senda meil á tiltekið netfang @w.cn. -- Kannast einhver við svona lotterí? Hvaða meil er með landsmerkinguna cn? Ég er smeykur við svona. Hvað á karlinn að gera? Góð ráð velþegin.

Trúi reyndar ekki að maður verði ríkur bara si svona af því einhverjir gaurar í útlöndum hafi rammað á símanúmerið mitt.


Flugmenn vilja lögbann

Hlýtur að vera óþægilegt fyrir þá sem eiga í stríði þegar vopnin snúast í höndum þeirra. Þá fer þetta að vera spurning um hvað er árásarvopn og hvað er varnarvopn. (Sem fer eftir því hvorum megin við vopnið þú stendur.)

Flugmenn kenna Íslandslofti (Icelandair) um viðsnúning í samningaviðræðum þegar viðruð var sú hugmynd að setja lögbann á skæruverkföll þeirra sem þeir kalla yfirvinnubann.

Nú lítur út fyrir að það sé einmitt það sem flugmenn vilja, fá lögbann á skæruverkföllin og vera þannig skornir niður úr snörunni sem þeir hafa sjálfir hert að hálsi sér.

Liggur í augum uppi að launin rýrna talsvert við að missa yfirvinnuna. 

En stoltsins vegna geta þeir ekki sjálfir bakkað með þessa ákvörðun.

-- Þar fyrir utan: Vænt þætti mér um að þeir sem ekki þora að koma fram undir nafni láti vera að gera athugasemdir hjá mér (sbr. síðasta blogg). --


Hvar býr frekjan?

Það er náttúrlega ekkert frekjulegt að spilla fyrir vinnuveitendum sínum í einn stað og þjóðinni í heild í annan stað með því að skemma fyrir fluginu á háannatíma þess, mesta ferðamannatímanum í þjóðlífinu. Nei, það er það auðvitað ekki -- séð með eiginhagsmunaaugum FÍA.

Kjarasamningar hafa verið lausir síðan í janúar. Hvers vegna drifu menn sig ekki þá í slaginn strax? Hvað átti það að þýða að halda áfram að fljúga á lúsarlaunum langt fram á sumar? Gæti það haft eitthvað með það að gera að verkföll og skæruverkföll hafi ekki haft alveg eins mikil skemmdaráhrif þá eins og þau hafa á miðju sumri?

Hvar býr frekjan í þessu máli?

Það hefur löngum þótt varasamt fyrir þá sem í glerhúsi búa að kasta steinum. 


mbl.is „Einstaklega frekjulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundað, iðkað eða gert? Eða haft?

Ófagurt er atarna og spurning hvort strákskrattinn er ekki bara öfugur fyrir utan að vera níðingur. En þarna er enn eitt dæmið um ranga notkun sagnarinnar að stunda. Sá sem gerir eitthvað örsjaldan, kannski bara einu sinni, stundar það ekki. Það er ekki fyrr en eitthvað er síendurtekið og gert að staðaldri sem það er stundað. Þangað til er það í mesta lagi iðkað. Eða bara gert. Sjáið bara hvað það er strax miklu þekkilegra orðalag að segja stúlkan hafi vaknað við að durturinn var að reyna að hafa endaþarmsmök við hana.

Sá sem gerir dodo bara einu sinni stundar það ekki. Þó einstaklingur hafi einhvern tíma gamnað sér við hitt kynið er ekkert sem fullyrðir að hann stundi það. Munið að einstaklingurinn getur allt eins verið kona, hann er samt hann.


mbl.is Reyndi að nauðga sofandi kærustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 306376

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband