Færsluflokkur: Dægurmál
20.8.2011 | 14:00
Astraeus syndabukkurinn
Ég skil nú ekki í fjölmiðli að gleypa við þeirri staðhæfingu að eftir sé að greiða leigu fyrir flugvél sem komin er frá A til B til að taka þar farþega fyrir farmiðamiðlun og flytja þá til C, og það verði til þess að flugvél sé látin standa um ótiltekinn tíma á B. Jafnvel þó greiðsla hefði ekki verið komin alla leið til viðtakanda hefði enginn flugrekstraraðili sent flugvél með áhöfn af stað í svona verk án þess að treysta því að samningar þar um stæðust.
Ég trúi heldur ekki að nauðsynlegt hafi verið að reka fólk úr vélinni meðan bunað var á hana eldsneyti. Né heldur að leyfa fólki að sitja í vélinni á meðan gegn því að losa af sér sætisbeltin. Svo oft hef ég þurft að sitja í flugvél á flughlaði meðan fyllt var á hana. Nú síðast fyrir fáeinum misserum þegar leiguflugvél -- ætli hún hafi verið frá Tékklandi? eða Spáni? -- var látin millilenda einhvers staðar norðarlega á Spáni til að dæla á hana nógu miklu eldsneyti til þess að hún kæmist alla leið til Kanarí. Af því eldsneytið var ódýrara á Spáni en á Íslandi, þaðan sem ferðin hófst. Eða að flugrekstraraðilinn var í reikningsviðskiptum á Spáni en ekki á Íslandi. Aldrei verið skipað að losa af mér beltið á meðan.
Í þessu tilviki þykir mér sem Astraeus sé syndabukkurinn fremur en IE. Þeirra var vélin sem var gránduð í Alicante og þeirra var ábygðin að koma heim þeim farþegum sem IE (eða Plúsferðir?) hafði selt farseðla fyrir þeirra hönd.
Hefðu ekki Plúsferðir átt að koma þessum viðskiptavinum sínum til hjálpar, þegar ljóst var að þeir væru strandaðir?
Búið að borga fyrir flugvélina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.8.2011 | 14:14
På grund av
Gaman að þessum pjakki gengur þetta svona þokkalega, gerir skramba og skolla og fugla og erni og er ágætlega ánægður með sig.
En fyrir þá sem ekki þekkja þessa íþrótt, ekki einu sinni á innanbæjarvísu hvað þá landsvísu og allrasíst alheimsvísu -- hvern fjandann þýðir þetta PGA? Í dönsku er þetta skammstöfun fyrir på grund av, en það hefur alveg gleymst að segja mér hvað það stendur fyrir þarna.
Sláttuvilla lagfærð kl. 14.46
„Ætla að gera enn betur“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 11:24
Aðgangur ókeypis
Fimmtudagur, 11 Ágúst 2011 | |
Léttir tónleikar verða í Lágafellskirkju þriðjudaginn 16. ágúst kl. 20:00. Fram koma Kirkjukór Lágafellssóknar og Bakkens Kór frá Danmörku. Skemmtileg stemming, ókeypis aðgangur og allir velkomnir.
Var á æfingu með þessu fjöruga fólki í gærkvöld. Lofa því að þar er sko engin loðmulla heldur bara grenjandi fjör! |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2011 | 12:32
Örlítið ættingjamót afstaðið
Það var fjörugt hérna hjá okkur í síðustu viku, ekki síst um síðustu helgi. Öll börnin okkar samtímis á landinu og öll barnabörnin nema eitt; lambadrottningin okkar hún Eik situr austur í Köben þar sem hún vökvar homma á nóttinni (vinnur á gay-bar) meðan hún bíður þess að skólinn hennar hefjist. Svo átti eitt af uppáhöldunum mínum fjögurra ára afmæli og það var enn aukið tilefni til komsammen fyrir allan hópinn.
En dýrðin stendur sjaldnast lengi og nú er megnið af fólkið farið burt, austur í Noreg og Danmörku. Aðeins hún María mín (sem ég kalla reyndar Gullu ennþá) eftir í seilingu við pabba og mömmu með litlu stelpuna sína hana Þöll, sem reyndar er bara hreint ekkert svo lítil lengur (hún er lengst til hægri á hópmyndinni).
Og ég ætla að reyna að sýna hér hluta af þessum hópi mínum:
Fjögurra ára afmælisbarnið, Esja Sigurdís.
abörnin.
Svona hópur hlýjar manni um hjartað!
Svo er bara að vona að myndatextarnir lendi nokkur veginn á réttum stað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2011 | 16:49
Öskraðu eins og selur
Það munar ekki um það! Mennirnir sluppu heilir á höldnu, stendur í fréttinni. Vonandi vel höldnu.
Með leyfi að spyrja: hefur þetta einhverja merkingu? Átti þetta kannski að vera heilir og haldnir? Eða þeir sluppu heilu og höldnu?
Er þetta myndasögukynslóðin sem nú er að brillera? Og skilur ekki mælt mál? -- Ég heyrði líka mann tala um það í útvarpi um daginn að eitthvað væri ekki nógu og gott. Ætli það hafi einhverja merkingu? Mér finnst þetta ekki nógu gott.
Ég fékk líka boð í netpósti um daginn: Keyptu Strumpabók og farðu frítt í bíó. Og ég sem lærði fyrir löngu að boðháttur sagnar væri nafnhátturinn mínus a. Svo kemur persónufornafnið á eftir, eða ígildi þess, svo sem -tu fyrir þú. Svo þarna hlýtur einhver að vera að nota sögnina að keypa. Sem þýðir selur sé að öskra.
Öskraðu eins og selur og farðu frítt í bíó.
Lagfært vegna sláttuvillu kl. 22.19.
Árásarmaðurinn látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2011 | 11:16
Miðasölukompaníið IE
Einkennilegt að kalla Iceland Express (Iceland Compress væri réttara nafn miðað við fótarými milli sæta) flugfélag. Það er það alls ekki. Það er eins konar miðasölukompaní -- veit ekki hvort það hefur einu sinni ferðaskrifstofuréttindi. Það er Astraeus Airlines sem flýgur fyrir þetta skrýtna fyrirtæki og væri gaman að fá lærða skýringu á því hvað IE raunverulega er og hver ábyrgð þess er gagnvart þeim sem kaupir aðgang að þessu leiguflugi Astraeus gegnum það.
Sjálfur hef ég svo sem ekkert nema gott um samskiptin við þennan samhnýting að segja, allt frá fyrstu samskiptum þegar ég komst heim til Íslands með vél frá AA sem hljóp undir bagga með Emerald Air vansællar minningar sem var einhver vanhugsaður flumbrugangur í ferðamálum 1900 níutíu og eitthvað.
Eitt um orðalag í þessari frétt: Af hverju étur hver eftir öðrum nú til dags að segja líkt og þegar meiningin er greinilega eins og? Gæti verið að enska sögnin like sé eitthvað að þvælast fyrir menntuðum nútíma Íslendingum?
Segir ekki satt um atvikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2011 | 20:57
Holt eða vogur?
Getur mbl.is ekki ákveðið sig, hvort Viðarrimi er í Grafarvogi eða Grafarholti? Eða heldur þessi miðill að vogur og holt sé eitt og hið sama?
Viðbót tæmum sólarhring síðar: Búið að leiðrétta þessa smáfrétt. En svona vitleysa átti ekki að sjást í fyrsta lagi.
Íkveikja í Grafarvogi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 4.8.2011 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2011 | 15:48
Sín í hvoru landinu -- eða sitt hvoru landinu?
Mikið var að loks á að fjalla um þroskaðar konur á þroskaðan hátt, meira hvað fólk getur þroskast með árum og reynslu.
Samt hefði ég frekar orðað heimkynni ritstjóranna þannig að þær byggju sín í hvoru landinu, en ekki í sitt hvoru landinu. Eða í sínu landinu hvor.
Mér finnst vanta einhvern þroska í meðferð tungumálsins. Kannski kemur það næst. mal (fyrir mál).is
Spegill fyrir íslenskar konur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2011 | 10:56
Köttur með eitt eyra
Ætli ég hafi ekki verið svosem 4-5 ára þegar stærðar fress sem átti heima á Höfuðbólinu lenti í slag við mink við Höfuðbólslækinn.
Þegar slagsmálin uppgötvuðust var minkurinn í andarslitrunum en kisi var svo hart leikinn að hann lagðist fyrir þar sem hann var kominn. Honum var lyft varlega og borinn heim í hlöðu sem þá stóð tóm yfir sumarið. Hann var meira og minna rifinn og blóðugur og í minningunni amk. var af honum annað eyrað.
Þarna var honum búið þægilegt bæli og borinn til hans matur og drykkur í allmarga daga á eftir þangað til hann fór að dragast um af eigin rammleik á ný. Og ég hygg að hann hafi komist til fullrar heilsu og gróið sára sinna.
En nýtt eyra fékk hann aldrei. Svolítið sérstakur upp frá þessu með aðeins eitt eyra.
Kisi Magnússon veiddi mink | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2011 | 18:16
Handahófskatastrófa?
Ég viðurkenni ótilneyddur að ég var einn þeirra sem sló því föstu með sjálfum mér að hér væru múslimir að verki. Að vísu áður en fréttin um ódæðið í Útey barst mér. Því sjálf sprengingin í Oslo bar svipmót allt þeirra ódæðisverka sem múslimir fremja vítt um veröld, handahófskatastrófu hleypt af stað án þess að með nokkru móti sé hægt að sjá fyrir um alvarleika afdrifanna.
Í krafti þeirrar þumalfingursreglu öfga-múslima að ekkert gerist nema Allah vilji það. Og hann velji þá sem hann kýs sem verkfæri til að koma vilja sínum fram; aum mannskepnan verður bara að sæta því að vera verkfæri hans.
Og hún sæl í þeirri trú að grimmdarverkin séu vilji hans.
Ég vona svo sannarlega að meirihluti þeirra sem játa íslamska trú séu í hjarta sínu mótfallnir þeim ódæðisverkum sem framin eru undir þessari skikkju.
En mér þykir verulega skorta á að þeir gangi fram og fordæmi voðaverkin sem framin eru í nafni trúar þeirra.
Við skulum líka muna að hryðjuverk, múslima eða annarra, hafa ekkert með trúarbrögðin sem slík að gera. Þau eru bara yfirvarp geðbilaðra illmenna.
Einmitt þess vegna er það svo grátleg mótsögn ef rétt er eftir Breivik haft að hann sé að einhverju leyti að reka hnýflana í íslam -- og beitir svo sjálfur samskonar fantabrögðum og þeir sem þar hafa sig mest í frammi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 15
- Frá upphafi: 306375
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar