Færsluflokkur: Dægurmál
11.11.2011 | 11:37
Að muna rétt – og muna rangt
Þegar ég var að vinna að Sögu bílsins á Íslandi talaði ég við margt merkisfólk sem fúslega rakti mér minningar sínar, fróðlegar og athyglisverðar. Stundum kom því miður í ljós að þær stóðust ekki. En þetta fólk var ekki að ljúga. Þessar minningar voru því raunverulegar þó þær stæðust ekki samanburð við aðrar heimildir, sambærilegar minningar fleira fólks, ritað mál og/eða ljósmyndir. Þær höfðu bara einhverra hluta vegna tekið sér bólfestu í minni fólksins og orðið því persónulegur sannleikur. Hafi ég ekki vitað það fyrir varð mér ljóst við vinnslu bókarinnar að minni fólks eitt út af fyrir sig er almennt séð ekki til að treysta, eins og það er dásamleg viðbót við það sem staðfesta má eftir öðrum leiðum.
Ágætur kunningi minn fjölfróður hringdi í mig á dögunum og benti mér á tiltekinn kafla í ævisögubók sem kom út 1947. Sú bók heitir Minningar Guðmundar á Stóra-Hofi og er eftir Guðmund Þorbjörnsson bónda þar og Eyjólf Guðmundsson frá Hvoli í Mýrdal. Sá fyrri var kunnur bændahöfðingi, félagsmálamaður og templari á sinni tíð, sá síðari bóndi, fræðimaður og rithöfundur, þekktust bóka hans kannski bókin Pabbi og mamma.
Í kaflanum sem mér var sérstaklega bent á segir Guðmundur frá ferð sem hann hafði farið í febrúar 1912, frá Stóra-Hofi á Rangarvöllum þar sem hann bjó þá, upp að Hvanneyri til að sitja þar bændanámskeið. Þetta er á bls. 95 í téðri bók. Þar segir frá því, í þriðju persónu eins og Eyjólfur hafi skráð þennan kafla, að Guðmundur hafi farið ríðandi út að Ægissíðu og komist þaðan í bíl til Reykjavíkur. Í sömu andrá segir að á sama tíma hafi margir aðrir verið á suðurleið en bílakostur hafi verið takmarkaður og urðu margir að fara á hestum út að Selfossi við Ölfusá."
En Guðmundur var sem sagt heppinn og komst í bíl frá Ægissíðu. Þaðan fóru hann og samferðamenn hans með skipi til Borgarness. Hálka var og sleipt að ganga en enginn bíll fáanlegur. Urðu menn því að fara gangandi frá Borgarnesi..."
Stórmerki mega heita ef Guðmundur hefur þarna fengið bílfar frá Ægissíðu, því í febrúar 1912 var bílakostur svo sannarlega takmarkaður í landinu, aðeins einn bíll til og hann stóð ógangfær norður í Eyjafirði. Og engan skal undra að skart væri um bíla í Borgarnesi í febrúar 1912 því fyrsti bíllinn kom ekki þangað fyrr en 1918.
-- Þetta er aðeins eitt sláandi dæmi um falskar minningar sem orðið hafa á vegi mínum gegnum tíðina. Öll eigum við minningar frá löngu liðnum dögum um löngu liðna atburði. Sumar þeirra getum við staðreynt með samanburði við samferðafólk þess tíma - sé það enn tiltækt - eða með samanburði við ljósmyndir sem tengjast þessum atburðum. Öðrum minningum verðum við að láta okkur nægja að trúa með sjálfum okkur og kannski skemmta öðrum með, en þær geta aldrei orðið áreiðanleg sagnfræði.
Málfarsvilla löguð kl. 17.40.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2011 | 12:19
Kaffibragðið er týnt
Í gær bloggaði ég um ost. Í dag langar mig að blogga um kaffi. Þó að ostur og kaffi fari ekki endilega saman.
Kannski hef ég nöldrað yfir því áður en mig langar að gera það enn: ég er búinn að vera að prófa hverja kaffitegundina á fætur annarri, sumar fjandanum dýrari mas., kílóverðið á annað þúsund krónur. Samt er ekki kaffibragð. Ekki einu sinni kaffiilmur úr nýopnuðum poka. Öðru vísi mér áður brá meðan Kaaber og Bragi sátu einir að markaðnum -- það var svokölluð fákeppni. Þá vissi maður að það var kaffibragð að Rio og Colombia. Nú eru mörg fyrirtæki að brenna og mala kaffi og láta það heita allskonar fínum nöfnum. Kaffibragðið er samt týnt. Áðan var ég að opna nýkeyptan pakka frá einni af þessum nýlegri kaffibrennslum og súrlyktin gaus á móti mér. Hellti samt upp á. Þetta var svosem ekki vont, en það var ekki kaffibragð að því. Endaði með að fá mér Nescafé Gold -- það minnir þó stundum á kaffi.
Þetta eru leiðinda vonbrgiði. Samt er maður alltaf að sulla í sig kaffi af gömlum vana. Af því að te er ekkert skárra nema síður sé. Og leiðinda stell í kringum það. Stundum fæ ég mér bara heitt vatn og ofurlitla mjólkurgusu út í það.
Þá veit ég amk. fyrirfram hvers ég á von í munni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.11.2011 | 11:57
Of nýr og of linur 11% ostur – og ófáanlegur í Krónunni
Þegar ég var barn í föðurhúsum og mjólkin var send til Reykjavíkur í Mjólkurstöðina var bændum stundum gert að taka greiðslu að einhverjum litlum hluta með úttekt á eigin framleiðsluvörum, sem þá var gjarnan stungið í brúsana þegar þeir höfðu verið tæmdir og þvegnir í Mjólkurstöðinni. Ég man eftir fínasta smjöri, kílóklumpum innpökkuðum í -- já, smjörpappír, auðvitað -- skyri sem líka var innpakkað í einhvers konar pappír sem stundum hafði þó tilhneigingu til að grotna undan vökvanum í skyrinu. Og svo man ég eftir ostinum, heilum og hálfum hleifum.
Þessi ostur hét 30% ostur. Heima hjá mér vakti hann ekki mikinn fögnuð nema hjá pabba -- og mér. Þess vegna fékk hann stundum frið til að verða dálítið gamall, harðna og þorna. Þannig þótti mér hann allra bestur og þetta voru mikils til frjáls gæði þannig að ég mátti að kalla ganga í hann eins og mig lysti.
Þessi 30% ostur var magrasta ostkyn sem á boðstólum var. Síðan hefur mér þótt ostur því betri sem hann er færri %. Nú eru %-in reiknuð eitthvað öðruvísi, en ætli 11% nú séu ekki eitthvað í kyn við það sem 30% voru í mínu ungdæmi (sem þykir einmuna kallalegt orðalag). Og enn þykir mér 11% ostur osta bestur.
Því miður er hann bara iðulega settur á markað allt of nýr. Linur og leiðinlegur, varla skær með venjulegum ostaskera -- osthefli. Hann rifnar í staðinn fyrir að skerast. Það væri hægt að kreista bitann óskorinn í sundur milli þumals og vísifingurs. Það þýðir einfaldlega að hann er of nýr. Með réttu ætti hann að fá að standa og þorna vel áður en hann er skorinn niður í neytendabita og pakkað inn.
Og það sem verra er. Hann fæst ekki í Krónunni, þar sem ég geri mest af mínum matarkaupum nú um stundir. Verslunarstjórinn hér í minni búð segir mér að það þýði einfaldlega að Kaupás -- móðurfyrirtæki og innkaupastofnun Krónunnar -- fái hann ekki á samkeppnishæfu verði.
Ja, svei, liggur mér við að segja.
Svo ég verð að fara í Bónus, sem mér þykir (hér á mínu svæði amk.) mun leiðinlegri verslun. En hlýt þó að eiga erindi þangað annað slagið. Til að kaupa ost. Og Nescafé Gull, sem heldur fæst ekki í Krónunni, af sömu ástæðu er mér sagt, af því birgirinn vill ekki láta Kaupás fá þá vöru á samkeppnishæfu verði.
Skítt með það. Ég kaupi þá bara allt það í Bónusi þann daginn sem ég hefði ella keypt í Krónunni. Þeir hjá Krónunni verða þá bara að hafa það. Og er víst slétt sama.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.11.2011 | 14:12
Sölnuð lauf
Margt hefur breyst hér á blog.is síðan ég byrjaði að pistla hér fyrir nokkrum árum. Man satt að segja ekki hvenær, nákvæmlega. Ég hef alltaf verið spar á bloggvini og ekki viljað hafa fleiri en ég ræð við að skoða reglulega. Sumir hafa hætt hljótt og hægt en hanga samt inni á vinalista mínum af gömlum vana eins og sölnuð lauf.
Svo fékk ég í gær vinarbeiðni. Frá bloggara sem ég veit engin deili á. En mér fannst ég alveg hafa efni á að bæta við einum vini og kannski þá fleygja út einhverjum sem hefur þornað upp, svo ég samþykkti þessa vinarbeiðni.
Þetta reyndist þá lokað blogg. Þarf að biðja um aðgangsorð. Gott og vel, sá sem segir A þarf líka að gera sagt B svo ég bað um aðgangsorð. Og viti menn, fékk svar nánast um hæl -- með eyðu þar sem aðgangsorðið á að vera.
Og þannig fór um þann vinskapinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2011 | 16:03
Fjandsamleg afskipti?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2011 | 16:03
Vilhjálmur hengir bakara fyrir smið!
Lengi vel hélt ég að verkalýðsforkólfar hlytu og yrðu að vera skynugir og eiga auðvelt með að vinsa kjarnann frá hisminu. Svo ég ég í dag grein á pressunni punktur is að Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforkólfur á Akranesi fer mikinn um ranglæti eftirlauna algjörlega með réttu en kennir lífeyrissjóðakerfinu um að mínu viti að mestu eða öllu með röngu.
Ranglætið felst hjá TR eða þeim sem leggja þeim reglurnar, sem sé Ríkinu og Alþingi, sem leggur svo á og mælir svo um að greiðslur úr lífeyrissjóði til eigenda sinna skuli koma að fullu til frádráttar frá því sem áður hér Almannatryggingar en heitir nú Tryggingastofnun ríkisins. Þó við höfum alla okkar starfsævi greitt líka skilvíslega til almannatrygginganna, ekkert síður en Lífeyrissjóðanna.
Lífeyrissjóðirnir voru í upphafi hugsaðir sem viðbót við lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingum.
Alls ekki í staðinn fyrir þær.
Birgir fabúlerar eftir því sem ég best fæ séð um að þetta sé lífeyrissjóðunum að kenna. Ég tel svo ekki vera heldur ríkisvaldinu. Mismunuruinn er því ekki 11.006 krónur sem hann fengi minna sem ölmusumaður sem þæði öll sín eftirlaun frá ríkinu, heldur er hann í raun 167.165 krónum minni á mánuði sem hann ætti að fá frá ríkinu í ofanálag við það sem hann fær úr lífeyrissjóðnum.
Ef ríkið hefði ekki sífellt verið að kroppa í það sem ellilífeyrisþegum í rauninni ber og lagt var upp með þegar almannatryggingum var á komið annars vegar en lífeyrissjóðunum hins vegar.
Vilhjálmur og aðrir eiga því að beina sjónum og spjótum að ránum ríkisins, ekki lífeyrissjóðanna. Þó þar megi ugglaust eitthvað bæta líka.
Eins og ríkið hefur komið þessum málum núna eru ellilaun ekki laun eða lífeyrir, heldur ölmusa til þeirra sem engan útveg eiga af sjálfum sér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2011 | 11:37
Sama hvort börnin eru eitt eða fimmtán
Hugh Grant faðir í fyrsta skipti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2011 | 15:56
Ég mun seint fljúga með Vá er.
Skolli er mér sama hvort ég flýg með Iceland Express eða Icelandair, svo lengi sem mér er skilað heilu og höldnu þangað sem ég ætla. Og mikils til á réttum tíma. Síðast þegar löng töf varð á í því efni var það með flugfélagi sem kallað var Iberworld. Flugkosturinn þá var líka Airbus og einhverra hluta vegna hef ég alltaf ímugust á þeirri tegund flygilda. Þar áður var það Icelandair sem bilaði illilega á tímasetningunni, ég held eina fimm, sex tíma -- eða hét það kannski Flugleiðir þá? Ég held það bara. Þar áður var það líka Flugleiðir, nema það hafi kannski heitað þá Flugfélag Íslands? Ég er ekki viss. En þá skakkaði líka sólarhring eða svo sem. Metið á þó Pan Am sem einu sinni var til -- en af þeim ósköpum er saga sem er að minnsta kosti efni í heilt blogg út af fyrir sig.
En ég vona og bið að þeir Matthías og Mogensen endurskoði nafnið á nýju farmiðasölunni sinni, sem þeir hafa nú tilkynnt að eigi að heita Wow air. World of Warcraft? Eða hvað? Hafa þeir áttað sig á íslenskum framburði? -- Ég mun seint fljúga með Vá-er.
Matthías gaf fullnægjandi skýringar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2011 | 12:11
Klaufaleg og ófagleg framsetning af hálfu fréttastofunnar
Satt að segja var ég ekki par ánægður með fréttastofu RÚV í gærkvöld þar sem sagt var frá afsögn Bankasýslu ríkisins. Sagt var að hún hefði sagt af sér vegna ráðningar Páls Magnússonar sem framkvæmdastjóra. Hið rétta virtist mér vera að hún hefði sagt af sér vegna viðbragða við ráðningu Páls Magnússonar. Svo var hann nefndur til sögu með nafni og sú ein glefsa tekin úr afrekaskrá hans að hann hefði einu sinni verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur sem þá var ráðherra.
Þetta þótti mér klaufaleg og ófagleg framsetning af hálfu fréttastofunnar.
Satt að segja ennfremur þykir mér mestur partur umræðunnar um ráðningu þessa manns sem framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins vera hin verstu nábrókarfræði. Honum er fundið til foráttu að vera eða hafa verið framsóknarmaður. Sem sumum þykir álíka ófyrirgefanleg afglöp eins og sumum öðrum þykir að vera Krati=Samfylkingarmaður. Svo á hann ekki að hafa nægilega feit og fín próf til að geta staðið sig í þessu starfi sem hann er ráðinn til, þó hann hafi komið manna best út úr persónuleikaprófi og hæfniprófi þar að lútandi sem þar til bær ráðningarstofa -- ópólitísk að ég best veit -- tók hann til.
Ekki skal ég vanmeta eða gera lítið úr bókarlærdómi og þykir vissulega eðlilegt að bókvitið verði í askana látið. En ekki síður persónuleiki og mannlegir eiginleikar mannsins sjálfs. Nú þekki ég ekki Pál þennan en þykir hann sviphreinn og drengilegur að sjá og pabba hans var ég vel kunnugur um skeið og gef honum ágætiseinkunn hvað snertir drenglyndi og almennt mannvit.
Ég þekki fólk sem komist hefur í sínar stöður út á bókvitið eitt og feitt prófskírteini, en er vegna skorts á almennri umgengnishæfni og sveigjanleika hugans illa fært um að gegna starfi sínu og stöðu og það sem verra er, neitar að horfast í augu við það eða taka skynsamlegur rökum.
Slæmt þykir mér líka þegar rasshandarmenn í pólitík láta gamm sinn geysa og geipa mikinn um fólk sem hefur það eitt sér til sakar unnið að hafa þekkt -- að ég nú segi ekki unnið með -- pólitíkusum rétthendinnar eða öðrum þeim sem rasshandarmönnum eru vanþóknanlegir og hafa kosið að gera að blórabögglum gagnvart því sem þeir í hentisemispólitík sinni kjósa að þvo hendur sínar af sjálfir, með misjafnlega réttu eða röngu.
Enginn er svo slæmur að hann eigi ekki leiðrétting orða sinna og gjörða ef þess kynni að vera þörf. Mér býður í grun að ef Páll Magnússon hefði haft fláræði til að segja sig hástöfum frá framsóknarmennskunni og ganga í annan hvorn rasshandarflokkinn í tæka tíð fyrir ráðninguna hefði enginn stigið í ræðustól alþingis eða aðra lýðskrumspontu og hrópað hneyksli yfir ráðningu hans.
Bara af því hún var ópólitísk og tekin út frá mannlegum eiginleikum og verðleikum.
Sennilega hefur þessi lævíslega leið aldrei hvarflað að Páli. Hann kaus að ganga hreint til verks og koma framan að málunum. Það sýnist einkis metið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2011 | 11:58
Hmm -- hve margar litlutær?
Hvers vegna notar skrifari þessara mikilvægu upplýsinga eignarfall fleirtölu með greini þar sem allar orðabeygingar í kring benda til þolfalls eintölu með greini? Er það vegna þess að skólar landsins eru hættir að kenna nemendum sínum fallbeygingar -- svo og orðflokkargreinar og annað sem málfræði tilheyrir? Orðið tá beygist í eintölu án greinis tá -- um tá -- frá tá -- til táar. Með greini táin -- um tána -- frá tánni -- til táarinnar. Í fleirtölu án greinis tær -- um tær -- frá tám -- til táa. Með greini tærnar -- um tærnar -- frá tánum -- til tánna.
Fyrirsögn fréttarinnar, og sá hluti greinarinnar sem hún vísar til hefði því annað hvort átt að vera Ekki giftast manni sem getur hreyft á sér litlu tána -- eða Ekki giftast manni sem getur hreyft á sér litlu tærnar.
Því miður kenndi ég aðeins einum bekk íslensku, meðan ég var að kenna, og aðeins einn vetur. Það var 7. bekkur grunnskóla, þá í raun fyrsti bekkur eftir barnaskóla. Sumir krakkarnir fussuðu og sveiuðu þegar ég byrjaði á að láta þau greina í orðflokka og síðan beygingarmyndir í heilum málsgreinum. En fljótlega var hætt að sveia og undir vorið virtist mér þetta þykja hin ágætasta hugarleikfimi.
--- Alltaf ánægjulegt að sjá þegar fólk tekur við sér. Nú kl. 16.48 hefur þessi ranga beyging, sem ég gerði hér að umtalsefni, verið leiðrétt. Táin orðin ein.
Ekki giftast manni sem getur hreyft á sér litlu tána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Sigurður Hreiðar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 306374
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar