Færsluflokkur: Dægurmál

Rétt frétt eða hálfsögð saga?

Er þetta rétt frétt eða hálfsögð saga? Mig langar að spyrja: fá þessir 6000 sem hér eru nefndir fullan grunnlífeyri -- núna aðeins rúmar 32 þús. kr. pr. mán ef ég veit rétt -- eða fá þeir eitthvert brotabrot af honum?

Svona ca. 5000 kr. pr. mán -- sem mér finnst ekki að fá lágmarkstryggingu frá Tryggingastofnun. Því ég skil lágmarkstryggingu sem grunnlífeyri.

Í annan stað stendur þarna: „Fyrir kosningarnar 2007 gagnrýndu eldri borgarar mjög mikið tengingar bóta almannatrygginga við tekjur maka. Þessar tengingar voru afnumdar árið 2008“.

Er þetta rétt? Hvers vegna er „fjármagnstekjum“ (orð sem notað er um píslarvexti af bankainnstæðum, sem ná ekki einu sinni verðbólgu) hjóna skipt til helminga á milli þeirra og sú tala sem þá kemur út látinn skerða „lágmarkstryggingu“ (er það ekki grunnlífeyrir?) -- að ég held krónu á móti krónu? Og það í skattaumhverfi sem státar af sérsköttun hjóna!

Að mínu viti jafnast hálfsögð saga á við lygi, eða amk. sé verið að slá ryki í augu lesenda.


mbl.is Tekjur lífeyrisþega hafa lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Easy Jet flutt sig?

Forstjóri Æslander segir Easy Jet gera út frá Luton flugvelli við London. Í þeim tilvikum sem ég hef skipt við Easy Jet hingað til hefur flug þeirra farið um Gatwick. Sem er akkúrat hinum megin við London. Ég hef ekki trú á að EJ hafi flutt sig um set, enda er Gatwick ágætis umferðarmiðstöð.
mbl.is Allir græða á flugframboði Easy Jet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskudýrkun og aldursfælni

Sé í dv.is að Valgeir Guðjónsson stuðmaður er sextugur um þessar mundir og ber sig upp undan því að fá hvergi vinnu.
Ég hélt þetta hefði skánað. Þegar ég var fimmtugur langaði mig að breyta til og komast upp úr því fari sem mér fannst ég vera fastur í.
Kom alls staðar að lokuðum dyrum, þó mér fyndist sjálfum ég hafa allt til að bera til að leysa þau störf vel af hendi sem ég bar mig eftir.
Ráðningarskrifstofur voru þá mjög í tísku. Þeir sem voru í leit að starfsmönnum leituðu til þeirra, létu þær auglýsa fyrir sig og moða úr umsóknum. Höfðu ekki fyrir því að skoða sjálfir hvað þeim stóð til boða.
Hjá þessum ráðningarskrifstofum fékk ég, ýmist efnislega eða hreint út, þau svör að ég væri gamall og úreltur. Rummungskerling (á aldur við mig) hjá einni þeirra ráðlagði mér að eyða ekki einu sinni tíma í að fylla út eyðublöðin.
Þar sem ég sótti um beint, án milliliða ráðningarstofa, kom margt til. Jú, algengt að ég væri gamall og úreltur. Þar að auki: Af vitlausu kyni. Eftirminnilegasta svarið var að ég væri „overqualified". Komst reyndar að því síðar að deildarstjórinn sem vísaði mér svo lempilega á dyr hafði þóst viss um að ég myndi ryðja henni úr stóli á fáum mánuðum yrði mér hleypt að. Ég hefði getað reynt að fara fram hjá henni og fara í þann sem var næstur fyrir ofan hana. En ég vissi að sá hafði brugðið fyrir mig fæti í annarri umsókn svo ég lét kyrrt liggja.
Satt að segja hélt ég að þessi æskudýrkunar- og aldursfælnistefna hefði eitthvað dofnað. En sé að svo muni ekki vera. Líklega er þetta eitthvað sem fólki er kennt í æðri menntastofnunum, bæði innlendum og erlendum.

Skipt um eitt orð í fyrirsögn og texta kl. 14.21


Sá vægir. . .

1201120013.jpg Var hann að leika? Mér er sagt að hann geti verið býsna góður leikari. En það skal nokkuð vera að geta komið jafn bjálfalega fyrir og þessi blessuð borgarstjóranefna höfuðborgar allra landsmanna gerði í Kastljósi RÚV í gærkvöld. - Hann komst annars þó nokkuð nærri því, talsmaður MAST sem sat í sama stól í síðustu viku að reyna að réttlæta þögn þeirrar stofnunar um áburðarmálið.
Kannski  er hægara um að tala en í að komast. En það er heilmikið til í því að lengi býr að fyrstu gerð. Ef götur Reykjavíkur hefðu verið hreinsaðar almennilega strax í upphafi hefði eftirleikurinn verið auðveldari, þó svo að snjór hafi haldið áfram að koma býsna  jafnt og þétt af himnum ofan, eins og nefndur borgarstjóri benti nokkrum sinnum á, sjálfum sér og sínu liði til afbötunar. Það minnti mig á vertinn í Fornahvammi forðum, þegar þar snjóaði  svo að gestir urðu að renna sér ofan um göng niður á dyrapallinn sem þó var fyrir dyrum sem opnuðust inn á aðra hæð. Einhver hafði orð á því við hann að hann yrði nú að gera hreint fyrir sínum dyrum og moka frá þeim. Þá tautaði vertinn ofan í bringu sér:  Ég vil að sá taki þetta sem lét þetta þarna.
Auðvitað endaði þetta með að sá tók þetta sem hafði látið það þarna. Það fer oftast svo að sá vægir sem vitið hefur meira. Og á endanum fer það svo að sá sem snjóa lét í Reykjavík leysir Gnarrinn niður úr þessari snöru, og jafnvel fleiri.
1201120009.jpg

það var rétt hjá Gnarrinum að ekki er alls staðar í grannsveitunum betur mokað en í Reykjavík. Ég læt fylgja hér eina eða tvær myndir sem ég tók hér úti fyrir mínum mosfellsku dyrum nú rétt áðan. Önnur er af götunni og sýnir hvernig stungið hefur verið einu sinni í gegnum skafl hér neðan við lóðina hjá mér. Ég býð ekki í það eftir næsta hvell því alltaf þrengist um þegar svona mjótt er skorið. Hin er nú bara af heimreiðinni hjá sjálfum mér og þar má sjá að ég hef nú bara tileinkað mér sömu viðhorf til snævar eins og vertinn í Fornahvammi forðum.


Stunda hvað?

Maður stundar ekkert sem maður bara gerir einu sinni eða svo, í besta falli mjög strjált. Ég stunda ekki stjörnugláp þó ég horfi upp í himininn endrum og eins. Í sama máta stundar fólk ekki kynlíf þó það geri einstaka sinnum dodo. Í besta falli að það iðki það. Eða eigi mök, hafi samfarir. Ef ég stunda það geri ég það kvölds, morgna og miðjan dag, eða minnsta kosti fimm sinnum í viku.
mbl.is Réðst nakinn á lestarfarþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað fær gamla fólkið líka leiðréttingu

Mikið eru þetta (fjárhagslega) ánægjuleg tíðindi fyrir okkur gamla fólkið. Varla verðum við skilin út undan heldur hljótum við líka að fá leiðréttingu í sama stíl: fá til baka þá skerðingu sem búið er að beita á ellilífeyrinn okkar á þessum sama tíma.

Nú getur gamla fólkið haldið jólin -- eða hvað?


mbl.is Eiga inni um hálfa milljón hver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósá?

Hvar ætli þessi Kjósárhreppur sé? Og Kjósáin? Ætli það sé góð veiðiá?
mbl.is Efla nágrannavörslu í Kjós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hljótum að heimta

Á dögunum sendi ég eftirfarandi pistil í Moggann hvar hann birtist nokkrum dögum seinna. Nú er hæfilega langt um liðið til þess að ég tel mig ekki vera að svíkjast að birtingarmiðlinum þó ég birti þetta líka hér. Ég kallaði þetta opið bréf til banka og ríkisstjórnar en enginn þeirra stofnana hefur enn virt mig svars. Ég á svo sem heldur ekki von á því.

Margir í mínum sporum höfðu samband við mig og létu velþóknum sína í ljós. Það þótti mér vænt um. Enginn sagði að ég væri fífl. Það þótti mér líka vænt um. En ef einhver hefði nú tekið undir við mig í opinberum miðli og tekið opinberlega undir það sem ég er hér að segja hefði mér þótt ennþá vænna um það.

En hér kemur pistill:

Einhvers  staðar rak ég augun í eitthvað um hávaxtastefnu íslenskra banka. Kom það frekar spánskt fyrir sjónir. Ég á ofurlítinn varasjóð sem ætlaður var til þess að ég gæti keypt mér brækur til skiptanna þegar kæmi fram á elliárin, sem nú er orðið. Hæstu vextir sem mér er kunnugt um að mér standi til boða nú um veturnætur 2011 er 3,25%. Af þeim hávöxtum tekur ríkið þar að auki 20% í fjármagnstekjuskatt. Verðbólgan er, ef ég hef ekki misst af nýrri mælingu, 5,6%. Forlátið mér þó ég sjái ekki í hendi mér hverjar fjármagnstekjur mínar eru.

Hverjir eru það sem eiga eitthvað á innlánsreikningum bankanna – bankanna sem geta ekki einu sinni hunskast til að halda í við verðbólguna þannig að þeir sjóðir sem þeim er trúað fyrir og væntanlega eru það sem bankarnir hafa til þeirra útlána sem þeir hafa milljarða rekstrarhagnað af? Ég veit það ekki, en þykist vita að einhver hluti þeirra séu eftirlaunaþegar sem með ráðdeild og útsjónarsemi hafa komið sér upp varasjóði eins og ég nefndi hér að framan. Með því að halda til haga því litla sem eftir stóð þegar búið var að greiða alla skatta og skyldur eins og vera bar og því sem þurfti til framdráttar lífsins hverju sinni. Sem bankar og ríkisstjórn landsins eru nú að éta niður með neikvæðum vöxtum og ósanngjörnum fjármagns„tekju“skatti ofan á þessa neikvæðu vexti.  Hvernig í  ósköpunum er hægt að halda því fram að neikvæðir vextir séu fjármagnstekjur?

Og svo eru þessir vesældarvextir ofan í kaupið látnir rýra grunnlífeyri okkar frá TR alla leið niður í ekki neitt.

Á sama tíma ríða aðrar kjaraskerðingar yfir okkur gamlingjana. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár á lífeyrir okkar aðeins að hækka um 3,5% meðan gert er ráð fyrir 5,1% verðbólgu. Hér er ég til dæmis að vitna í grein Björgvins Guðmundssonar viðskiptafræðings í Morgunblaðinu 19. október síðast liðinn. Lægstu laun í þjóðfélaginu  hækkuðu 1. júní síðast liðinn um 10,3% en lægstu bætur aðeins um 6,5%. Björgvin bendir ennfremur á að um áramótin 2008-2009 hafi þrír fjórðuhlutar lífeyrisþega aðeins fengið hálfa verðlagsuppbót, 9,6% þegar verðbólgan var tæp 20%. „Árin 2009 og 2010 hækkaði kaup láglaunafólks um 16% en á því tímabili fengu aldraðir og öryrkjar enga hækkun,“ segir Björgvin ennfremur.

Er það velferðarstjórn sem stendur svona að velferð aldraðra?

Eru brækur ódýrari fyrir okkur gamla fólkið en þá sem yngri eru? Eða þurfum við síður á þeim að halda?  Kostar súpuketið okkur minna? Eða brauðið? Eða rafmagnið?

Og skattar hækka jafnt og þétt. Hvað er það annað en skattahækkun þegar Bifreiðagjald hækkar um 55,1%? Eða þegar álagning á vörugjalda af bensíni og olíugjald hækkar um 5,1%? Svo ég nefni nú bara þær hækkanir sem ég rek augun í akkúrat núna.

Við gamla fólkið hljótum að gera kröfur. Við hljótum að heimta að bankarnir tryggi okkur að lágmarki þá vexti á ellisjóði okkar að þeir jafni verðbólguna hverju sinni. Við hljótum að heimta að 25-30 milljóna heildareign hvers eins okkar í þessum ellisjóðum verði undanþegin fjármagnstekjuskatti. Við hljótum að heimta að neikvæðir vextir séu ekki vaxta„tekjur“.  Við hljótum að heimta að við fáum sömu lágmarks kjarabætur á okkar laun og annað fólk í landinu fær á sín laun. Því eftirlaun eru laun en ekki ölmusa.


Hvaða gagn?

Ég hef spurt áður og engin vitræn svör fengið svo ég spyr enn: Hvaða gagn er að því að taka upp annan gjaldmiðil við óbreytt hagkerfi?

Frábið mér slagorðasvör og órökstuddar fullyrðingar. Ef þið hafið ekki haldbær rök vinsamlega fáið þá útrás fyrir krónufjandskapinn annars staðar.


mbl.is Eigum að halda í krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 306374

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband