Færsluflokkur: Dægurmál

Ágætlega stinnar og fallega rasskinnar.

Upp úr miðri öldinni sem leið vissi ég til að háttsettur maður í samfélaginu, pólitískt virkur og stjórnarmaður í mjög stóru fyrirtæki, um skeið (síðar) sendifulltrúi Íslands á erlendri grund, maður sem flestir báru með réttu fulla virðingu fyrir á venjulegum dögum, gerði eitthvað líkt þessu á hóteli úti á landi. Blindfullur að sjálfsögðu, eins og þessi dómari hefur ugglaust verið líka. En þær íslensku hnussuðu bara yfir manninum og létu limadingl hans sem vind um eyru þjóta. Eftir einni var haft að hún hefði nú að óreyndu haldið að hann hefði einhverju merkilegra að flagga en hann sýndi þarna, en lét þess getið í leiðinni að hann væri með ágætlega stinnar og fallegar rasskinnar.

Svona afgreiddu menn (og munið að konur eru líka menn) svokallaða kynferðislega áreitni fyrir um hálfri öld!


mbl.is Rekinn af HM fyrir kynferðislega áreitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glefsað og gelt en IP tala ekki vís

Það má heita athyglisvert að tveir helstu reyfarar sem nú eru í gangi tengjast Alþingi. Í fyrsta lagi mál nímenninganna svokölluðu, sem einhverrra hluta vegna voru svo ólánsamir að vera ákærðir að því er ætla má blásaklausir, ef marka má ákafar varnarraddir þeirra, þeir voru í fullum rétti að því er virðist að ryðjast inn á þingpalla í trássi við bann þar um og með hulin andlit, amk. sumir, að hætti múslíma og annarra spellvirkja. Mjög spennandi að fylgjast með því fjölmiðlum hver beit hvern, hvernig og hve fast. Sumir segjast meira að segja ekki hafa bitið heldur glefsað. Ætli þeir hafi ekki gelt um leið?

Í öðru lagi dularfull tölva sem fannst í fyrra og ekki er látið vita um fyrr en nú, sem tengd var til að ná gögnum úr tölvum þings og þingmanna, hakka þær, eins og kallað er. Ætli Lisbet Salander hafi nokkuð verið hér eða hennar hjálparlið? Og svo láta menn sér detta í hug að þeir sem átti að hafa herbergið til afnota, þar sem tölvan fannst veglaus, einmana og yfirgefin, hafi skilið hana eftir si svona á glámbekk! Er þjóðin orðin svo náttúrufirrt að vita ekki að refurinn bítur aldrei nálægt greninu. -- Engin auðkenni eru á tölvunni né í, ekki einu sinni IP tala að því er virðist. Helstu tæknifrík allra þeirra reyfara sem ég hef lesið upp á síðkastið ættu ekki að vera í vandræðum með að lesa nauðsynlegustu auðkenni tölvunnar með innrauðu ljósi eða öðrum merkilegum tækniaðferðum, þó þau kunni að hafa verið röspuð af svo ekki séu sýnileg berum augum.

Leggst nú lítið fyrir kappana í tæknideild löggunnar hér, ef þeir ráða ekki fram úr svona lítilræði!


Situs á Hostes og Custos en Portus á Totus og Ago og Totus á Hring

Þvílíkur massi af lesmáli berst inn um bréfarifuna frá fimmtudagskvöldi til laugardagsmorguns að það þarf einbeittan vilja og gott næði til að pæla nokkurn veginn í gegnum það allt. Hvað þá ráða krossgáturnar sem þó er alltaf freisting.

Sem betur fer er þetta allt heldur létt í maga og ekki mikið til að leggja á minnið heldur. Þó var ein klausa í blöðunum núna þessa blaða-langhelgi sem fór að krauma í hausnum á mér og það svo að ég gat ekki á mér setið að leita hana uppi. Og fann hana -- í föstudagsútgáfu Fréttablaðsins, bls. 18. Svo látandi:

„Það er ekki einfalt mál að reisa og reka tónlistarhús, eins og sést af skipuriti hinnar risavöxnu Hörpu í höfninni í Reykjavík. Harpa er rekin af Austurhöfn TR ehf., sem er að 46 prósentum í eigu Reykjavíkurborgar og 54 prósentum í eigu ríkisins. Austurhöfn TR ehf. á Portus og Situs. Portus er móðurfélag Hörpu en Situs er félag um lóðaréttindi. Situs á Hostes og Custos. Hostes er félag utan um hótel en Custos heldur utan um bílastæðahús. Portus á Totus og Ago. Totus á Hring. Hringur rekur greiðslumiðlun.“

Ég er nú barasta aldeilis koks. Harpa er rekin af Austurhöfn TR ehf (TR þýðir varla Tryggingastofnun ríkisin?) sem á Portus en Portus er móðurfélag Hörpu! Svo koma Situs og Custos og Hostes og Totus og Ago og loks Hringur. Ætli hann sé utan um þetta allt?

Það er eins gott að öllum þessum usum, esum og osum komi bærilega saman svo ekki fari allt í hár og eitt loki ekki á annað. Eða kannski eru þetta allt þumlar á sama vettlingi -- eða bara fingur á sömu hendi? -- Er ekkert eftirlit með svona skollaleik?

Ég veit ekki um aðra, en svona skollaleikur þýðir í mínum huga að þessi blessuð Harpa verði aldrei nema skelin -- og þá hörpuskel -- þó kannski takist í fyrstu að halda í henni fáeina tónleika og kannski einhver apaspil milli þess sem menn tylla sér inn í hefðarsali Múlakaffis í húsinu að fá sér molasopa. Nema í millitíðinni takist að ná utan um alla þessa usa og osa og gera einn belgvettling úr öllu saman.


Að fljúga með Iceland Compress

Í dag eru sléttir tveir mánuðir síðan ég bloggaði síðast. Þar kemur ýmislegt til. Þar ber hæst að ég brá mér til útlanda á tímabilinu og nú, eftir að ég hætti að eiga frí sérstaklega eins og annað fólk af því að ég á yfirleitt frí alla daga nema frá því sem ég vel mér sjálfur að dútla, finnst mér mest frí í því fólgið að skilja tölvuna eftir heima og varast netkaffi og annan aðgang að tölvum þar sem ég er að fríast.

Svo ég segi lítillega nánar frá þessu skruppum við hjón til Tenerife sem á máli meintra frumbyggja staðarins gvansanna hét Hvítafjall og dró þá nafn af hæsta fjalli Spánar El Teide sem þessi eyja skartar og er oftast með hvíta húfu. Að vanda var gott að koma þarna suðrettir og þó ekki væri sól upp á hvern dag og jafnvel þrumuveður með tilheyrandi úrhelli einn sólarhring gerði það bara ekki nokkurn skapaðan hlut til; þarna er hlýtt jafnan (5° dagshitamunur til jafnaðar á heitasta og kaldasta tíma ársins) og loftið afskaplega tært og gott að anda að sér, gönguleiðir greiðar og fríðar í allar áttir og fleira við að vera við fólk eins og okkur sem kann ekki að liggja í sólbaði nema sosum eins og klukkutíma í einu söku sinnum.

Verst hvað flugið tekur langan tíma. Fimm klst og tíu mínútur vorum við suður eftir og þó andskoti þröngt sé milli sæta í vélum Astraeus flugfélagsins sem flýgur fyrir Iceland Express (er þetta ekki einhver misskilningur, annars, miðað við sætaþrengslin ætti ferðaskrifstofan að heita Iceland Compress) var svo fátt á suðrettirleið að við gátum látið fara vel um okkur og jafnvel blundað. Til baka var farið með Easy Jet til Gatwick sunnan við London og þaðan með Iceland Compress heim; allt í góðu með það en hefði mátt láta okkur (11 manns samtals) vita að IC flýgur frá Terminal 2 meðan EJ notar annan terminal og ca. 4 kílómetra gangur á milli. Á leiðinni tékkar maður sig inn í UK og verður svo að tékka sig þaðan út aftur þegar Terminal 2 er fundinn. En svona tvískipt heimferð tekur eitthvað um 12 tíma alls.

En hvers vegna er ég að segja ykkur þetta allt núna? Jú, vegna þess að í gær hófust sýningar á einhverju leiðinlegasta sjónvarpsefni sem RÚV hefur í boði yfir árið, svokallaðri söngvakeppni. Nógu leiðinleg eru lögin og lítil tilþrif í kringum þau þó ekki komi til afskaplega innantómt og uppkreist fjas um lagasmiðina inn á milli laganna. Mikið skelfing vorkenni ég þessu fallega og sjálfsagt vel gefna fólki sem þarf að standa frammi fyrir alþjóð og bulla með bros á vör!

Það varð til þess að ég fór að fletta sjónvarpsrásunum og þó ég hafi aðgang að þeim allnokkrum var sosum hvurgi neitt skárra. Og þá var komið að því að setja Bond-mynd í tækið: Die Another Day -- og hamagangurinn þar brást ekki. Þessa mynd sáum við í sjónvarpi á Tenerife með spænsku tali sem kom að litlu haldi, þau 10 (eða kannski 20?) orð sem ég kann í spænsku dugðu hvergi nærri til svo ég lét eftir mér að kaupa diskinn þegar ég rakst á hann í Elko á dögunum.

Það var þetta sem átti að vera mórallinn í bloggi mínu í dag: Eigið til vara góðan mynddisk að bregða í tækið meðan þessi ósköp sem heita Söngvakeppni sjónvarpsins gengur yfir þetta árið! 


Heiðreikja?

Um þetta hef ég svo sem bloggað áður, um hættuna þegar hitastigið er rétt við núllið og loftraki verulegu, þá er alltaf hætta á svörtum, ósýnilegum ís sem er hálli en andskotinn!

En -- hvað er heiðreikja?


mbl.is Hætta á glerhálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til hins upprunalega og raunverulega

Ég fæ ekki betur séð en þetta sé orðaleikur. Lánið var 322 milljónir og lánveitandi lét þá upphæð af hendi, lántakandi tók við þeirri upphæð. Meira fé var ekki í spilinu og hefur aldrei farið handa á milli. Þarna er einfaldlega verið að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru en ekki einhverjar tölur sem fyrir sjónhverfingar voru á pappírunum um tíma.

Þarna er ekkert afskrifað. Þarna er bara viðurkennt það sem var af hendi reitt og við tekið.

Tímabundnar sjónhverfingar inn á milli skipta ekki máli.

Svona á auðvitað að meðhöndla þessi lán, hverfa þau aftur til hins upprunalega og raunverulega.


mbl.is Helmingur láns Hesthóla afskrifað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áreiðanleg vísindi?

Ef þetta er rétt, gildir þá ekki hið sama um önnur samtöl sem bílstjóri kann að eiga meðan hann er við akstur? Við farþega sinn?

Ætli niðurstaða þessarar rannsóknar sé ekki álíka vísindaleg/áreiðanleg eins og mannfræðinganna sem eru búnir að „sanna“ að Neanderthalsmenn hafi verið lauslátir -- af því að baugfingur þeirra hafi verið lengri en vísifingurnir!

Leiðrétt vegna sláttuvillu kl. 13.27


mbl.is Ekið án bílbelta og talað í síma undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr fullum poka af lýgi

Til er saga af því að þekktur stjórnmálamaður jós úr fullum poka af lýgi yfir landslýð í viðtali við þekktan fréttamann. Samdægurs varð lýgin uppvís og fréttamaðurinn, reyndar kvenkyns ef ég man rétt þó það skipti engu máli, rak hljóðnemann upp í stjórnmálamanninn og spurði hvort þetta hefði allt verið tóm lýgi og skáldskapur, sem hann sagði í gær. Og stjórnmálamaðurinn svaraði: Ja, það mun víst hafa verið misrétt…

Slæmt fyrir Ögmund að hafa ekki getað komið því á Björn Bjarnason að hafa samið við Danina!


mbl.is Ögmundur baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er fjandinn laus

Sé í fréttum að Ólína Þorvarðardóttir hefur lent í óvæntum bílaballett uppi í Borgarfirði, sagt á móts við Munaðarnes. Gæti það kannski hafa verið ofan við Kolásinn, á flóanum fyrir neðan Litla Skarð? -- Skiptir í sjálfu sér ekki máli, en meðan ég var Norðdælingur var sá flói skæður með svokallaðan „svartan ís“, ósýnilegt glærusvell sem myndast mjög snögglega þegar kæling niður í frostmark gerist hratt.

Sé í bloggi við þessa frétt að maður sem tíðum ferðast um Borgarfjörð telur að þarna hefði skipt sköpum að hafa nagladekk undir bílnum. Nú kemur ekki fram hvers lags dekkjum bíll Ólinu er á og vera má að það hefði einhverju breytt. Þó tel ég, að fenginni reynslu, að nagladekk séu ekki hvað síst falskt öryggi. Í það eina skipti sem ég hef lent í álíka bílaballett og Ólína lýsir í fréttinni var ég á nagladekkjum. Á sjálfskiptum jeppa með afturhjóladrifi en tengjanlegu framhjóladrifi -- sem ekki var tengt í mínu tilviki. Það lán var yfir mér að stöðvast uppi á veginum en fara ekki út af eða velta bílnum eða rekast á aðra umferð. Kannski vegna þess að ég var nýbúinn að vera á námskeiði um viðbrögð við hálku?

Þegar ég hafði tengt framhjóladrifið og losað um hnútinn í maganum hélt ég áfram ferð minni en nú með þá vitund að ekki var stætt á veginum og hagaði akstrinum samkvæmt því. Það er nefnilega það sem skiptir mestu máli.

Það sem af er þessari öld hef ég ekki notað nagladekk. Utan fyrri hluta vetrar 2003-4 að ég keypti notaðan bíl á notuðum nagladekkjum -- svokölluðum. Þau voru orðin býsna slitin og þeir naglar sem eftir voru í þeim voru flestir orðnir að örlitlum hnúðum sem grilla mátti í ofan í slitfletinum. Það var til mikilla bóta þegar ég fleygði þeim en setti bílinn í staðinn á góð ónegld vetrardekk. Raunar er svo gott jafnvægi í þessum bíl sem enn stendur hér í hlaði að hann er alveg einstakur á hálku.

Það er alveg sama hvort maður er á negldu eða ónegldu, maður verður alltaf að vera meðvitaður um færðina og bílinn sem maður er á. Og -- að það er sama hvernig hjólabúnaðurinn er, líka hvort bíllinn er með drif á báðum ásum eða bara öðrum -- það er nauðsynlegt að forðast að þurfa að snögghemla eða hreyfa stýrið snögglega. Þetta hvort tveggja ræður frekar milli happs og óhapps heldur en hvort einhverjir naglar -- venjulega misslitnir -- hafa einhvern tíma verið greyptir í dekkið.

Einna hættulegast í glerhálku eins og svörtum ís (fyrir utan að vera á sumardekkjum eða svokölluðum heilsársdekkjum sem kannski eru orðin veturgömul eða meira) tel ég að vera á sjálfskiptum bíl aðeins með drif á afturhjólum. Ef eitthvert högg (hnykkur) er í skiptingunni þegar bíllinn skiptir sér niður eru miklar líkur á að hann fari að svingla með afturendann. Og þá er fjandinn laus.


Fréttir af heilsu Jóns Gnarrs

Ég er nú bara varla með hýrri há í dag, sé hvergi neinar fréttir af heilsu Jóns Gnarrs í dag. Sem var stórmál amk. í netfréttum í gær. Er ég kannski einn um að hafa áhyggjur af Jóni Gnarri yfirleitt?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband