Við hljótum að heimta

Á dögunum sendi ég eftirfarandi pistil í Moggann hvar hann birtist nokkrum dögum seinna. Nú er hæfilega langt um liðið til þess að ég tel mig ekki vera að svíkjast að birtingarmiðlinum þó ég birti þetta líka hér. Ég kallaði þetta opið bréf til banka og ríkisstjórnar en enginn þeirra stofnana hefur enn virt mig svars. Ég á svo sem heldur ekki von á því.

Margir í mínum sporum höfðu samband við mig og létu velþóknum sína í ljós. Það þótti mér vænt um. Enginn sagði að ég væri fífl. Það þótti mér líka vænt um. En ef einhver hefði nú tekið undir við mig í opinberum miðli og tekið opinberlega undir það sem ég er hér að segja hefði mér þótt ennþá vænna um það.

En hér kemur pistill:

Einhvers  staðar rak ég augun í eitthvað um hávaxtastefnu íslenskra banka. Kom það frekar spánskt fyrir sjónir. Ég á ofurlítinn varasjóð sem ætlaður var til þess að ég gæti keypt mér brækur til skiptanna þegar kæmi fram á elliárin, sem nú er orðið. Hæstu vextir sem mér er kunnugt um að mér standi til boða nú um veturnætur 2011 er 3,25%. Af þeim hávöxtum tekur ríkið þar að auki 20% í fjármagnstekjuskatt. Verðbólgan er, ef ég hef ekki misst af nýrri mælingu, 5,6%. Forlátið mér þó ég sjái ekki í hendi mér hverjar fjármagnstekjur mínar eru.

Hverjir eru það sem eiga eitthvað á innlánsreikningum bankanna – bankanna sem geta ekki einu sinni hunskast til að halda í við verðbólguna þannig að þeir sjóðir sem þeim er trúað fyrir og væntanlega eru það sem bankarnir hafa til þeirra útlána sem þeir hafa milljarða rekstrarhagnað af? Ég veit það ekki, en þykist vita að einhver hluti þeirra séu eftirlaunaþegar sem með ráðdeild og útsjónarsemi hafa komið sér upp varasjóði eins og ég nefndi hér að framan. Með því að halda til haga því litla sem eftir stóð þegar búið var að greiða alla skatta og skyldur eins og vera bar og því sem þurfti til framdráttar lífsins hverju sinni. Sem bankar og ríkisstjórn landsins eru nú að éta niður með neikvæðum vöxtum og ósanngjörnum fjármagns„tekju“skatti ofan á þessa neikvæðu vexti.  Hvernig í  ósköpunum er hægt að halda því fram að neikvæðir vextir séu fjármagnstekjur?

Og svo eru þessir vesældarvextir ofan í kaupið látnir rýra grunnlífeyri okkar frá TR alla leið niður í ekki neitt.

Á sama tíma ríða aðrar kjaraskerðingar yfir okkur gamlingjana. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár á lífeyrir okkar aðeins að hækka um 3,5% meðan gert er ráð fyrir 5,1% verðbólgu. Hér er ég til dæmis að vitna í grein Björgvins Guðmundssonar viðskiptafræðings í Morgunblaðinu 19. október síðast liðinn. Lægstu laun í þjóðfélaginu  hækkuðu 1. júní síðast liðinn um 10,3% en lægstu bætur aðeins um 6,5%. Björgvin bendir ennfremur á að um áramótin 2008-2009 hafi þrír fjórðuhlutar lífeyrisþega aðeins fengið hálfa verðlagsuppbót, 9,6% þegar verðbólgan var tæp 20%. „Árin 2009 og 2010 hækkaði kaup láglaunafólks um 16% en á því tímabili fengu aldraðir og öryrkjar enga hækkun,“ segir Björgvin ennfremur.

Er það velferðarstjórn sem stendur svona að velferð aldraðra?

Eru brækur ódýrari fyrir okkur gamla fólkið en þá sem yngri eru? Eða þurfum við síður á þeim að halda?  Kostar súpuketið okkur minna? Eða brauðið? Eða rafmagnið?

Og skattar hækka jafnt og þétt. Hvað er það annað en skattahækkun þegar Bifreiðagjald hækkar um 55,1%? Eða þegar álagning á vörugjalda af bensíni og olíugjald hækkar um 5,1%? Svo ég nefni nú bara þær hækkanir sem ég rek augun í akkúrat núna.

Við gamla fólkið hljótum að gera kröfur. Við hljótum að heimta að bankarnir tryggi okkur að lágmarki þá vexti á ellisjóði okkar að þeir jafni verðbólguna hverju sinni. Við hljótum að heimta að 25-30 milljóna heildareign hvers eins okkar í þessum ellisjóðum verði undanþegin fjármagnstekjuskatti. Við hljótum að heimta að neikvæðir vextir séu ekki vaxta„tekjur“.  Við hljótum að heimta að við fáum sömu lágmarks kjarabætur á okkar laun og annað fólk í landinu fær á sín laun. Því eftirlaun eru laun en ekki ölmusa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Sigurður! Já Þetta er staðreind allt sem þú segir í þinni grein,Ég sá ekki orðið ástæðu til að láta þessar fáu krónur sem eftir urðu eftir bankahrunið af  sparnaði mínum liggja í Bankanum og fá ekkert fyrir þær. Og svo var skerðing á bótum króna á móti krónu ef þú hefur yfir100.000 kr í vexti á ári fyrir skatt. skrítið að fá tekjuskatt af engum tekjum, eða eru það tekjur þegar peningurinn rírnar að verðgildi. Björgvin hefur verið að reyna að halda þessu á lofti, og svo þú núna og ég hef minnst á þetta hér eitthvað enginn undirtekt hefur verið við þessum skrifum, ef minnst er á aldraða og öryrkja þá eru engar undirtektir neinsstaðar, kannski ekki nema von, við getum ekkert varið okkur með verkföllum eða neinu slíku. En við getum tekið út peninga þeir sem þá eiga og við getum hætt að kjósa þessa óvelferðarstjórn sem nú ræður, og við getum stofnað hreyfingu velferðarvakt Aldraðra og Öryrkja,(svipað og hreyfingin) og fengið umboðsmann Aldraðra og Öryrkja á Alþingi. Nei mér dattþetta svona í hug. Samfylkingin og Vinstri grænir hafa sínt að þeir voru Úlfar undir sauðagæru, sem hata aldraða og öryrkja.Engin hefur komið svona illa fram við okkur eins og þeyr!!! PS. Hafðu þakkir fyrir þín skrif.

Eyjólfur G Svavarsson, 15.11.2011 kl. 09:43

2 identicon

Reyndar var ég aldrei með það mikinn afgang af lágum launum að geta lagt fyrir og þarf því blessunarlega ekki að hafa áhyggjur af fjármagnstekjuskatti af innstæðum. En, bíðum nú við! Nú vilja sjálfstæðismenn og vinstri grænir innheimta fjármagnstekjuskatt af lífeyrissjóðunum. Jafnvel eigi að taka strax tekjuskattinn af því sem í þá er greitt. Jæja. Hvað þýðir það fyrir okkur ellismellina? Jú, skattbyrði okkar hækkar. Við fáum nefnilega þeim mun minna úr lífeyrissjóðunum! Með því að taka skattinn strax, þá vaxtast þeir peningar ekki í sjóðunum og greiðslustaða þeirra rýrnar sem því nemur. Fjármagnstekjuskatturinn er alveg hreinn viðbótarskattur. Verði farið að taka tekjuskattinn, rúm 40%,  strax, þá er útilokað að lífeyrisþegar með lágar lífeyrisgreiðslur geti nýtt persónuafsláttinn á móti skatti. Eins og venjulega, láta fólkið sem hefur úr litlu að spila hafa enn minna úr að spila svo þeir ríkari verði enn ríkari. Út á það gengur öll pólitík á Íslandi.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 15.11.2011 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 305907

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband