Tveir bangsar hvítir og sá þriðji svartur

Saga barst af því fyrr í sumar að mann nokkurn nyrðra hefði dreymt þrjá ísbirni sem hann réði fyrir komum þriggja bangsa til landsins. Því miður kann ég ekki draum hans allan né er viss um að ég hafi nokkurn tíma heyrt hann allan og veit því ekki hvort hann fékk vísbendingu í draumnum um afdrif bangsanna.

Varla var maður þessi vaknaður af draumi sínum þegar tveir bangsar hvítir fundust á Norðurlandi og fengu vasklegar en ekki að sama skapi gestrisnar móttökur. Þrátt fyrir mikla leit og margar vitranir hefur sá þriðji ekki enn komið í ljós. . .

. . .nema að segja megi að þriðji bangsinn hafi verið svartur og fundist í Reykjavík þar sem höfð voru snör handtök með hann og hann sendur suður til Ítalíu af því hann hafði ekki frekar en þeir tveir hvítu pappíra sína í lagi. Hann var ekki skotinn á staðnum þannig séð en kannski sendur aftur þangað sem líklegt væri að fyrir honum færi sem böngsunum hinum tveimur.

Ég veit ekki um aðra en mér er þannig farið að ég vildi gjarnan að bangsinn sá hinn svarti ætti endurkomu auðið til landsins með sæmilegum (les=sæmandi) móttökum og þætti mér þá að nokkru bætt bjarnavígin nyrðra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þetta er án efa rétt ráðning!

P.s. Takk fyrir að tryllast ekki yfir gríninu á blogginu mínu!

Guðríður Haraldsdóttir, 7.7.2008 kl. 12:45

2 identicon

... nema að með hinum þriðja (svarta) birni í draumi hins draumspaka manns hafi ekki falist spádómur komu þriðja ísbjarnarins, heldur um framvindu íslenska hagkerfisins ("Bear market"):

A bear market is described as being accompanied by widespread pessimism. Investors anticipating further losses are motivated to sell, with negative sentiment feeding on itself in a vicious circle. The most famous bear market in history was after the Wall Street Crash of 1929 and lasted from 1930 to 1932, marking the start of the Great Depression

Vésteinn (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 12:55

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

...og bangsinn sem sleppur og ræður þessu öllu, hefur vald til að ná honum til baka. Heitir það ekki ráðuneyti dómsmála, sem sá bangsi er settur yfir?

Haraldur Bjarnason, 7.7.2008 kl. 22:55

4 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Mér finnast vangaveltur Vésteinsins eiginlega athyglisverðstar af þeim innleggjum og skeljum sem settar hafa verið í þennann dótakassa.

En jafnhliða því að langa til að taka undir inntak færslunnar, þá er eitthvað hérna sem biður mig að doka aðeins við. Kannski er þetta mál ekki alveg jafn svart/hvítt og við blasir í augnablikinu. Þetta er bara tilfinning. En þá er þetta afskaplega þrjósk tilfinning.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 8.7.2008 kl. 02:56

5 identicon

Einu sinni var ég að flækjast vestur í Klettafjöllum og sá þar út um bílglugga hvar uppi í hlíð einni luntaðist skepna sem mér var sagt að væri grizzly bear. Þetta var í góðu sjónmáli og þegar brugðið var upp sjónauka sást enn betur að þetta var ekki mjög aðlaðandi bangsi og ekki bætti úr skák að hann var með skítaklepra í feldinum sérstaklega að aftanverðu.  Þegar ég fylgist með þessu brottvísunarmáli sem er núna hvað mest í gangi kemur mér þessi grizzly björn aftur og aftur í hug því mér finnst hanga skítakleprar við þá sem þessu gætu stjórnað til betri vegar ef þeir bara vildu. Hvernig stóð á því að það tók ekki átakanlega langann tíma að losa  gamlan skáksérvirting úr tugthúsi í Japan á sínum tíma  og skenkja honum eitt stykki ríkisborgararétt.(Hvíli karlanginn í friði.) Ekki reyna að segja mér að stjórnvöld hafi þar hvergi komið nærri.  Og þó það sé annað mál þá finnst mér líka einkennileg þversögn í því að á sama tíma og verið er að reka  hælisleitanda  úr landi, þá ætlum við, af því að við  erum svo góð í okkur og gestrisin, að taka á móti hópi af flóttafólki  frá öðru útlandi, vonandi verðum við skárri við það og sýnum því ekki afrurendann á grizzly. Kv. G.Hr.

G.Hr. (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 08:54

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Engin ástæða til að tryllast, Gurrý -- bara gaman að þú skulir muna eftir mér!

Athyglisvert, Vésteinn, og ekki verri tilraun til draumaráðningar en gerist.

Ég hlífist við að tala um bangsann í dómsmálaráðuneytinu, Haraldur, því ég þekki hann dálítið persónulega og veit að hann er í raun gull af manni -- þó hann leyfi því ekki alltaf að skína svo sem ég og fleiri kynnum vilja.

Helga Guðrún, ég skil alveg hik þitt í þessu efni. Hef sjálfur iðulega þvílíkt hik í sambandi við mál sem jaðra við múgæsingu -- td. svokölluð „náttúruverndarmál" sem mér virðist oft ganga þvert á heilbrigða skynsemi og beinast að því að nýta ekki auðlindir landsins.

G.Hr, ágæt áminning þín og tilvísan til gamla skáksnillingsins (blessuð sé minning hans) sem meira að segja var orðaður við afreksmannagrafreitinn á Þingvöllum (sem hefur hlotið svipuð örlög og svonefndir heimagrafreitir, sem einhvern tíma gætu orðið efni í ágætlega önugan pistil). Þrátt fyrir staðhæfingar ráðamanna um jafnræðisreglu sýnist manni í máli Pauls sem það sé hreint ekki sama jón og séra jón.

Sigurður Hreiðar, 8.7.2008 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 305960

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband