Hvað á torgið að heita – og hvenær?

3. sept. 2007 skrifaði ég blogg um hringtorgin á Vesturlandsvegi á þessa leið:

„Ég vil gefa öllum hringtorgunum nöfn og setja skilti við þau. Á Vesturlandsvegi í réttri röð frá Reykjavík - og minnumst þess að torg nr. 1 þar af er í Reykjavík:

1. Lambhagatorg -- skammt frá bænum (býlinu) forna Lambhaga, þar sem vegurinn liggur upp á Lambhagafell og síðan inn Lambhagafell með Úlfarsfell á vinstri hönd.

2. Hamrahlíðartorg (stendur undir Hamrahlíð sem er vesturhlíð Úlfarsfells. Skógarreitur Skógræktarfélags Mosfellssveitar er þar á hægri hönd; eyðibýlið Hamrahlíð stóð niðri í mýrinni nær ánni.

3. Skarhólatorg. Stendur að vísu á Sauðholtsmýrinni miðri, allfjarri Skar-hólum (sem hétu Skarðhólar þegar ég var lítill) en svonefnd Skarhólabraut er þekkt gata og liggur til austurs frá þessu torgi þó hún hafi aldrei verið fullgerð og sé ekki mikill sómi sýndur.

4. Langatangatorg. Sama rökfræðin og með Skarhólatorg. Langatangi er dulítil tota sem krækist út í Leirvoginn innarlega að austan og er forn uppskipunarstaður; raunar voru viðir Lágafellskirkju það síðasta sem ég hef hermt að þar hafi verið skipað upp, líklega árið 1887. En gatan Langatangi endar við þetta torg.

5. Reykjatorg? Set spurningarmerki við þetta heiti af því ég finn ekkert nafn sem er eins sjálfgefið og mér finnst nöfnin á hin. En Reykjavegur liggur til austurs frá þessu torgi og nafnið gæti verið vísbending um að þarna liggur vegur upp í Reykjahverfi. Allar góðar tillögur um þetta torg vel þegnar. En nafnið verður að vera þjált í munni.

6. Kvosartorg. Kannski ætti að vera spurningarmerki líka við þetta heiti. Fleiri koma til greina: Brúartorg (með skírskotun til Brúarlands, söguríkasta húss Mosfellsbæjar), Álafosstorg (með skírskotun til þess er Álafossverksmiðjan var og hét, Varmártorg vegna nándar við sprænuna þá. En ég mæli með Kvosartorgi.

7. Ásatorg. Engin spurning með heiti þessa nýja torgs sem tengir Þingvallaveg við Vesturlandsveg við rætur Ásanna.

-- Þetta voru sem sagt hringtorgin á Vesturlandsvegi, frá Reykjavík suður að Reykjavík norður (Kjalarnesi). Fyrirheit er um að flest þeirra, kannski öll ég man það ekki, verði síðar meir að mislægum gatnamótum. Óskandi að skipulag bæjanna gleymi ekki að taka frá það pláss sem með þarf svo þetta verði ekki ömurlegar og kaoskenndar ljósaflækjur eins og sums staðar hefur gerst í Reykjavík.

Út af fyrir sig eru hringtorg ekki slæmur kostur til að greiða fyrir umferð. Því miður hafa vega-verkfræðingar nú ákveðið að þau séu ekki síður aðferð til að draga niður umferðarhraða. Það gera þeir með því að búa til undarlegar slaufur þannig að fyrst þarf að beygja til vinstri inn að torgunum áður en hægt er að beygja til hægri inn í þau. Meginárangur þessarar röngu hugsunar er að ergja menn í umferðinni og auka eldsneytisnotkun og þar með mengun. Hamrahlíðartorg er eitt grátlegasta skólabókardæmið um illgjarnar torgtengingar af þessu tagi.

Hitt er annað mál að furðu margir bilstjórar kunna ekki að aka um hringtorg og gera sér td. ekki grein fyrir að þar sem þau eru tveggja akreina gilda sömu lögmál um akreinar þar sem annars staðar, nema hvað innri akreinin á alltaf réttinn út úr torginu - en þá líka á sömu akrein áfram!"

Tillögu minni um að gefa hringtorgunum heiti var í sjálfu sér ágætlega tekið, amk. manna á meðal, en ekkert markvert gerðist annað en að Reykjavík rauk til að gefa sínum hringtorgum nafn og merkja þau. En svo fæ ég þær upplýsingar í athugasemdum á bloggi eins frambjóðandans til lista á komandi bæjarstjórnarkosningar í Mosfellsbæ að „hringtorgin hafa öll fengið nöfn enn hafa þau ekki verið merkt en vonandi verður það gert fljótlega.  En torgin heita, á Vesturlandsvegi norður úr, Hamratorg, Skarhólatorg, Lágafellstorg, Kóngstorg, Álafosstorg og Þingvallatorg".

Frambjóðandinn getur þess að hringtorg á svokölluðu Vestursvæði hafi einnig fengið nöfn: „Klappartorg, Höfðatorg og Hlíðatorg" og torgið í miðbænum hjá Ásláki og N-einum hafi fengið nafnið Kjarnatorg.

Út af fyrir sig þykir mér þetta góðar fréttir en gremst líka að fram hjá mér sé gengið við endanlega nafngift, því ég tel mig vita að hugmyndin sé frá mér komin. Ég get sætt mig við öll þessi nöfn sem ákveðin hafa verið nema mér finnst afleitt að hlíðinni skuli hafa verið sleppt úr Hamrahlíðartorgi, því bæði stendur það við Hamrahlíðina sjálfa og skammt þar frá sem kotið Hamrahlíð stóð. Mér finnst líka full langt til seilst með Ásatorg að gefa því nafnið Þingvallatorg því bæði er þar enn alllangt til Þingvalla og Þingvellir sjálfir í annarri sveit, en torgið stendur við sjálfa Ásana.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Óttalega er það asnalegt að hafa þig ekki með í ráðum, orðhagari mann þekki ég varla. En gott að þessi torg eru að fá nöfn og vonandi hafa sveitungar þínir og Vegagerðin vit á að leita til þín með formlegum hætti næst. Það er hægt að gera margt vitlausara. Ég var samt alltaf skotnust í því sem þú kallaðir fyrstu hringtorgin á þínu svæði, sem voru heldur snautlega lítil ef ég man rétt: Spælegg! Margt breyst til betri vegar síðan þá. 

Við (hálf-útskúfuðu) Álftnesingarnir höfum verið að smíða nöfn á götur og torg og þegar búin að eignast eitt torg, sem mér finnst hafa fengið ágætis nafn: Fógetatorg, þó ekki eigi ég heiðurinn af þeirri nafngipt. Kom þó nálægt nokkrum götunöfnum ásamt fleirum, þegar auglýst var hér innansveitar eftir hugmyndum, það fannst mér gott fyrirkomulag. Og svo er ég auðvitað stolt að hafa ,,bjargað" nafninu Blátúni frá gleymsku, eftir að Blátún við Kaplaskjólsveg hvarf undir blokkabyggð.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.2.2010 kl. 00:49

2 Smámynd: gudni.is

Mikið líst mér vel á það meistari SHH ef úr verður að hringtorgin fái loksins nöfn og merkingar. Mér finnst samt leitt að heyra að gengið hafi verið fram hjá þér hvað þessa ákvarðanatöku varðar. Ég heyrði þessa hugmynd um að skýra hringtorgin fyrst hjá þér, það hefur örugglega verið þarna í sept 2007 eins og þú vísar til.

Mér finnast í sumum tilfellum þínar tillögur betri en í öðrum hinar. Hérna koma mínar skoðanir á þessu:

1. Lambhagatorg er mjög fínt.  Krepputorg væri hinsvegar vel viðeigandi á þessu torgi sem tengir hina nýja verslunarmiðstöð sem flestir tala um sem Krepputorg í daglegu tali  

2. (torg nr. 1 í Mosó) Finnst Hamratorg betra en Hamrahlíðartorg. Það er a.m.k. aðeins þjálla í tali, en er samt svolítið sammála þér SHH með að torgið stendur jú undir Hamrahlíðinni í Úlfarsfellinu. En það stendur jú líka við hamrana í Úlfarsfelli.

3. Skarhólatorg er flott.

4. Ég mundi fremur kjósa Lágafellstorg frekar en Langatangatorg (Kirkjutorg væri líka ágætt)

5. Kóngstorg og Reykjatorg er hvort tveggja ágætt. Er samt einhvern veginn í smá vafa með hvort tveggja en hef ekki betri hugmyndir (hugsanlega eitthvað á borð við Miðbæjartorg eða Mosfellstorg?)

6. Álafosstorg fengi mitt atkvæði þó bæði Kvosartorg og Brúartorg sé flott.

7. Þingvallatorg finnst mér vera mjög viðeigandi nafn á torginu sem tengir Þingvallaveginn við Vesturlandsveg. Ég mundi fremur kjósa það frekar en Ásatorg þó það nafns sé flott og þjálla. Ég skil vel afstöðu þína með að full langt sé seilst því langt sé til Þingvalla, en ég held að þetta sé mjög gott kennileiti gagnvart ruglingi að þetta tengir jú Þingvallaveginn og er leiðin til Þingvalla?

8. Nú svo er komið eitt torg í viðbót í röðina frá því í sept 2007, torgið við Leirvogstungu og Tungumela. Það gæti til dæmis heitað

Nú og innanbæjartorgin, Klappartorg, Höfðatorg, Hlíðartorg og Kjarnatorg finnast mér allt vera mjög viðeigandi og góðar nafngiftir.

Ég held að hver svo sem nöfnin verða sem enda á torgunum þá muni flestir eða margir vita það að þú Sigurður Hreiðar átt heiðurinn af því að út í þetta var farið. Þú varst örugglega sá fyrsti í Mosó sem opnaðir þessa umræðu.

Kveðja að sinni,
Guðni

gudni.is, 6.2.2010 kl. 16:05

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka fyrir heimsóknina, ykkur báðum, Anna og Guðni.

Guðni: Rökin fyrir Hamrahlíðartorgi eru ekki bara Hamrahlíðin í Úlfarsfellinu, heldur gamla eyðikotið Hamrahlíð, sem hringtorgið stendur svo að segja fast við. Það á sína sögu í þessu sveitarfélagi, það sérð þú m.a. ef þú lest Dagrenning, afmælissögu Aftureldingar, sem út kom nú fyrir jólin. Þar kemur m.a. fram að í Hamrahlíð (kotinu) átti Afturelding um hríð félagsheimili og ef ég man rétt reyndi félagið fyrst fyrir sér þar með skógrækt.

Um hin torgin er ég sammála þér nema Ásatorgið. Það er ekki nóg að það sé á leiðinni til Þingvalla til að klína Þingvallanafni á það. Það er líka á leiðinni til Akureyrar. Eða Ísafjarðar. Egilsstaða þess vegna! Við eigum að líta okkur nær.

Ég held að það taki því ekki að nefna Tungumelatorgið. Það er að verða úr sögunni með mislægur gatnamótum.

Um innanbæjartorgin er ég að mestu sammála. Hefði þó frekar viljað Blikastaðatorg en Klappartorg.

Og svo vantar eitt nýjasta torgið í upptalninguna. Á það að heita Krikatorg? Eða Jónsteigstorg?

Sigurður Hreiðar, 8.2.2010 kl. 11:27

4 Smámynd: gudni.is

Já það er alveg rétt hjá þér með Tungumelatorgið að það tekur því varla að skýra það.

Mér finnst Krikatorg vera fínt nafn á nýjasta torgið okkar. Held að það væri upplagt.  

En mikið finnst mér bara almennt gott að þetta sé á leiðinni að verða að veruleika. Gott framtak þar sem þú átt örugglega hugmyndalega heiðurinn af.

Mosókveðja,
Guðni

gudni.is, 8.2.2010 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband