Af viðskiptum mínum við yfirvöldin

Aðfararnótt þessa dags fyrir 46 árum vaknaði ég síðla nætur við að konan mín ýtti við mér og sagði að nú þyrfti ég að skutla henni upp á Fæðingarheimili. Kom mér svo sem ekki á óvart því ég vissi eins og hún að við því var að búast. Ég hafði lítilsháttar kynnst Huldu Jensdóttur sem þá var forstöðumaður Fæðingarheimilisins við Eiríksgötu og talfært það við hana hvort ég mætti ekki vera viðstaddur þegar að fæðingu kæmi, því ég vissi að hún var því frekar hlynnt þó ekki væri það venjan í þá daga. Hún tók því í sjálfu sér vel en sagði að það yrði að fara eftir aðstæðum, ekki væru allar ljósmæður því hlynntar og hver ein hefði úrskurðarvald fyrir sig í því efni.

Nema hvað nú settumst við hjón út í okkar Opel og brunuðum upp á Eiríksgötu. Konan hafði tekið saman í skjóðu það sem hún taldi sér nauðsynlegt að hafa með og ég hélt riddaralegur á föggum hennar á leiðinni upp í lyftunni. Ekki man ég hvort ljósan tók beint á móti okkur en þegar að henni kom, Auðbjörg held ég hún hafi heitað, tók hún skjóðuna af mér með ákveðnum handtökum og sagði fastmælt: Nú skuluð þið kveðjast!

0910110034.jpgDómi hennar var ekki haggað. Ekki man ég hvort ég sletti kossi á konu mína eða hvort mér þótti hún hafa nóg á sinni könnu þessa stundina, en fúll var ég á leiðinni aftur vestur á Hringbraut þar sem við bjuggum í örsmárri kjallaraíbúð þegar þetta var. En ég, verðandi faðirinn, var verkefnislaus og gagnslaus hvort sem var svo ég hallaði mér bara á koddann aftur.

Hrökk upp með andfælum, klukkan var tuttugu mínútur yfir níu, ég átti að vera kominn í vinnu klukkan 9! Í leppana í einum grænum og út í bíl með vatnskjaftinn, brunaði af stað.

Við Tjarnarendann renndi lögreglumaður á mótorhjóli fram úr mér og gaf mér stöðvunarmerki. Sem ég auðvitað hlýddi. Hann stöðvaði líka hjól sitt, gaf sér góðan tíma til að láta það standa örugglega. Dró af sér hanska sem mér finnst héðan frá séð að hafi náð amk. upp á olnboga og kom þeim vandlega fyrir á mótorhjólinu, rölti svo þangað sem ég beið og hafði skrúfað niður rúðuna í bílnum.

Hann bauð mér góðan dag og virti mig gaumgæfilega fyrir sér. Svo spurði hann: Ert þú orðinn of seinn í vinnuna, vinur? Ég játti því. Hvar vinnur þú? spurði hann og ég leysti úr þeirri brennandi spurningu. Hann virti mig svolítið betur fyrir sér og sagði svo: Já. Einmitt. Heyrðu, við förum helst ekki mikið yfir 30 hér. En, fylg þú mér.  Svo gekk hann að hjólinu, dró á sig hanskana og gætti vandlega að því að allir fingur hefðu farið í rétta þumla og nægilega djúpt í greipina, sparkaði svo hjólinu í gang og lagði af stað, með handhreyfingu til mín um að fylgja.

Fylg þú mér. Þessi orð hafði ég heyrt áður og jafnvel lesið í góðri bók. Þaðan vissi ég að ekki var til góðs annað en gegna kallinu svo ég elti, hlýðinn sem hundur. Ekki vissi ég hvert, hélt helst að hann ætlaði með mig á stöðina þar sem ég yrði tekinn í karphúsið.


En hann ók, löturhægt reyndar að mínum dómi, þangað sem ég hafði sagt honum að ég ynni. Þar benti hann mér að leggja bílnum, ók sjálfur hring á bílastæðinu og í bakaleiðinni bar hann hönd að húfuskyggni í kveðjuskyni og brunaði burtu.

Ég hélt inn á minn vinnustað og man ekki eftir neinum eftirmálum frekar, hvorki frá yfirmanni mínum á vinnustað né lögreglunni.Dagurinn leið hægt og það var ekki fyrr en um vinnulok klukkan fimm að ég fékk boð um að mér væri fæddur sonur á Fæðingarheimilinu og allt í stakasta lagi. Og kurteislega bent á að það væri heimsóknartími klukkan 19.30 til 20.

Ég hafði planlagt að dvelja í dag hjá þessum syni mínum, konu hans og þremur börnum þeirra, sem nú búa í öðru landi. En eins og sjá má af framansögðu fer ekki allt eins og maður sjálfur vill og ég verð að doka aðeins við með þá heimsókn, bíða eftir þeim heimsóknartíma sem mér verður til þess skammtaður af þar til bærum yfirvöldum.

En enn í dag fer ég helst ekki mikið yfir 30 á Hringbrautinni við Tjarnarendann.

Og ég er enn fúll út í ljósmóðurina.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég ók konu minni á Fæðingarheimilið við Eiríksgötu laust eftir miðnætti síðla í september fyrir þremur áratugum og ári betur var öldin önnur. Ég var hjá henni og hjálpaði til og þegar fæðingin var lukkulega afstaðin var komið með ávaxtasafa og kökur handa okkur. Litla stúlkan sem þá leit dagsins ljós er einmitt þessa dagana komin sjö mánuði á leið. Og tíminn líður, eins og einn góður Mosfellingur sagði ...

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 15:18

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Innilegar hamingjuóskir með soninn. Það er ljóst af skrifum þínum að hann hefur dafnað vel á árum sínum. 3 barna faðir með meiru.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 29.11.2009 kl. 19:41

3 identicon

Kær kveðja til þín vinur og hjartans þakkir fyrir skemmtilega og myndræna sögu.

Erna Valdís (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Hreiðar

Höfundur

Sigurður Hreiðar
Sigurður Hreiðar

Mosfellingur í húð og hár. Hefur á efri árum tileinkað sér nokkra skoðun á þjóðmálum sem er nýlunda í lífi hans.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...malverk_snh
  • ...1201120009
  • ...1201120013
  • ford nr1 a sl.tiff
  • ...1108070097

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 306294

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband